M’Cheyne Bible Reading Plan
18 Drottinn birtist Abraham í Mamrelundi, er hann sat í tjalddyrum sínum í miðdegishitanum.
2 Og hann hóf upp augu sín og litaðist um, og sjá, þrír menn stóðu gagnvart honum. Og er hann sá þá, skundaði hann til móts við þá úr tjalddyrum sínum og laut þeim til jarðar
3 og mælti: "Herra minn, hafi ég fundið náð í augum þínum, þá gakk eigi fram hjá þjóni þínum.
4 Leyfið, að sótt sé lítið eitt af vatni, að þér megið þvo fætur yðar, og hvílið yður undir trénu.
5 Og ég ætla að sækja brauðbita, að þér megið styrkja hjörtu yðar, _ síðan getið þér haldið áfram ferðinni, _ úr því að þér fóruð hér um hjá þjóni yðar." Og þeir svöruðu: "Gjörðu eins og þú hefir sagt."
6 Þá flýtti Abraham sér inn í tjaldið til Söru og mælti: "Sæktu nú sem skjótast þrjá mæla hveitimjöls, hnoðaðu það og bakaðu kökur."
7 Og Abraham skundaði til nautanna og tók kálf, ungan og vænan, og fékk sveini sínum, og hann flýtti sér að matbúa hann.
8 Og hann tók áfir og mjólk og kálfinn, sem hann hafði matbúið, og setti fyrir þá, en sjálfur stóð hann frammi fyrir þeim undir trénu, meðan þeir mötuðust.
9 Þá sögðu þeir við hann: "Hvar er Sara kona þín?" Hann svaraði: "Þarna inni í tjaldinu."
10 Og Drottinn sagði: "Vissulega mun ég aftur koma til þín að ári liðnu í sama mund, og mun þá Sara kona þín hafa eignast son." En Sara heyrði þetta í dyrum tjaldsins, sem var að baki hans.
11 En Abraham og Sara voru gömul og hnigin á efra aldur, svo að kvenlegir eðlishættir voru horfnir frá Söru.
12 Og Sara hló með sjálfri sér og mælti: "Eftir að ég er gömul orðin, skyldi ég þá á munúð hyggja, þar sem bóndi minn er einnig gamall?"
13 Þá sagði Drottinn við Abraham: "Hví hlær Sara og segir: ,Mun það satt, að ég skuli barn fæða svo gömul?`
14 Er Drottni nokkuð ómáttugt? Á sinni tíð að vori mun ég aftur koma til þín, og Sara hefir þá eignast son."
15 Og Sara neitaði því og sagði: "Eigi hló ég," því að hún var hrædd. En hann sagði: "Jú, víst hlóst þú."
16 Því næst tóku mennirnir sig upp þaðan og horfðu niður til Sódómu, en Abraham gekk með þeim til að fylgja þeim á veg.
17 Þá sagði Drottinn: "Skyldi ég dylja Abraham þess, sem ég ætla að gjöra,
18 þar sem Abraham mun verða að mikilli og voldugri þjóð, og allar þjóðir jarðarinnar munu af honum blessun hljóta?
19 Því að ég hefi útvalið hann, til þess að hann bjóði börnum sínum og húsi sínu eftir sig, að þau varðveiti vegu Drottins með því að iðka rétt og réttlæti, til þess að Drottinn láti koma fram við Abraham það, sem hann hefir honum heitið."
20 Og Drottinn mælti: "Hrópið yfir Sódómu og Gómorru er vissulega mikið, og synd þeirra er vissulega mjög þung.
21 Ég ætla því að stíga niður þangað til þess að sjá, hvort þeir hafa fullkomlega aðhafst það, sem hrópað er um. En sé eigi svo, þá vil ég vita það."
22 Og mennirnir sneru í brott þaðan og héldu til Sódómu, en Abraham stóð enn þá frammi fyrir Drottni.
23 Og Abraham gekk fyrir hann og mælti: "Hvort munt þú afmá hina réttlátu með hinum óguðlegu?
24 Vera má, að fimmtíu réttlátir séu í borginni. Hvort munt þú afmá þá og ekki þyrma staðnum vegna þeirra fimmtíu réttlátu, sem þar eru?
25 Fjarri sé það þér að gjöra slíkt, að deyða hina réttlátu með hinum óguðlegu, svo að eitt gangi yfir réttláta og óguðlega. Fjarri sé það þér! Mun dómari alls jarðríkis ekki gjöra rétt?"
26 Og Drottinn mælti: "Finni ég í Sódómu fimmtíu réttláta innan borgar, þá þyrmi ég öllum staðnum þeirra vegna."
27 Abraham svaraði og sagði: "Æ, ég hefi dirfst að tala við Drottin, þótt ég sé duft eitt og aska.
28 Vera má, að fimm skorti á fimmtíu réttláta. Munt þú eyða alla borgina vegna þessara fimm?" Þá mælti hann: "Eigi mun ég eyða hana, finni ég þar fjörutíu og fimm."
29 Og Abraham hélt áfram að tala við hann og mælti: "Vera má, að þar finnist ekki nema fjörutíu." En hann svaraði: "Vegna þeirra fjörutíu mun ég láta það ógjört."
30 Og hann sagði: "Ég bið þig, Drottinn, að þú reiðist ekki, þó að ég tali. Vera má að þar finnist ekki nema þrjátíu." Og hann svaraði: "Ég mun ekki gjöra það, finni ég þar þrjátíu."
31 Og hann sagði: "Æ, ég hefi dirfst að tala við Drottin! Vera má, að þar finnist ekki nema tuttugu." Og hann mælti: "Ég mun ekki eyða hana vegna þeirra tuttugu."
32 Og hann mælti: "Ég bið þig, Drottinn, að þú reiðist ekki, þó að ég tali enn aðeins í þetta sinn. Vera má að þar finnist aðeins tíu." Og hann sagði: "Ég mun ekki eyða hana vegna þeirra tíu."
33 Og Drottinn fór í brott, er hann hafði lokið tali sínu við Abraham, en Abraham hvarf aftur heimleiðis.
17 Eftir sex daga tekur Jesús með sér þá Pétur, Jakob og Jóhannes, bróður hans og fer með þá upp á hátt fjall, að þeir væru einir saman.
2 Þar ummyndaðist hann fyrir augum þeirra, ásjóna hans skein sem sól, og klæði hans urðu björt eins og ljós.
3 Og Móse og Elía birtust þeim, og voru þeir á tali við hann.
4 Pétur tók til máls og sagði við Jesú: "Herra, gott er, að vér erum hér. Ef þú vilt, skal ég gjöra hér þrjár tjaldbúðir, þér eina, Móse eina og Elía eina."
5 Meðan hann var enn að tala, skyggði yfir þá bjart ský, og rödd úr skýinu sagði: "Þessi er minn elskaði sonur, sem ég hef velþóknun á. Hlýðið á hann!"
6 Þegar lærisveinarnir heyrðu þetta, féllu þeir fram á ásjónur sínar og hræddust mjög.
7 Jesús gekk til þeirra, snart þá og mælti: "Rísið upp, og óttist ekki."
8 En er þeir hófu upp augu sín, sáu þeir engan nema Jesú einan.
9 Á leiðinni ofan fjallið bauð Jesús þeim og mælti: "Segið engum frá sýninni, fyrr en Mannssonurinn er risinn upp frá dauðum."
10 Lærisveinarnir spurðu hann: "Hví segja fræðimennirnir, að Elía eigi fyrst að koma?"
11 Hann svaraði: "Víst kemur Elía og færir allt í lag.
12 En ég segi yður: Elía er þegar kominn, og menn þekktu hann ekki, heldur gjörðu honum allt sem þeir vildu. Eins mun og Mannssonurinn píslir þola af hendi þeirra."
13 Þá skildu lærisveinarnir, að hann hafði talað við þá um Jóhannes skírara.
14 Þegar þeir komu til fólksins, gekk til hans maður, féll á kné fyrir honum
15 og sagði: "Herra, miskunna þú syni mínum. Hann er tunglsjúkur og illa haldinn. Oft fellur hann á eld og oft í vatn.
16 Ég fór með hann til lærisveina þinna, en þeir gátu ekki læknað hann."
17 Jesús svaraði: "Ó, þú vantrúa og rangsnúna kynslóð, hversu lengi á ég að vera hjá yður? Hversu lengi á ég að umbera yður? Færið hann hingað til mín."
18 Og Jesús hastaði á hann og illi andinn fór úr honum. Og sveinninn varð heill frá þeirri stundu.
19 Þá komu lærisveinarnir til Jesú og spurðu hann einslega: "Hvers vegna gátum vér ekki rekið hann út?"
20 Hann svaraði þeim: "Vegna þess að yður skortir trú. Sannlega segi ég yður: Ef þér hafið trú eins og mustarðskorn, getið þér sagt við fjall þetta: Flyt þig héðan og þangað, og það mun flytja sig. Ekkert verður yður um megn. [
21 En þetta kyn verður eigi út rekið nema með bæn og föstu.]"
22 Þegar þeir voru saman í Galíleu, sagði Jesús við þá: "Mannssonurinn verður framseldur í manna hendur,
23 og þeir munu lífláta hann, en á þriðja degi mun hann upp rísa." Þeir urðu mjög hryggir.
24 Þá er þeir komu til Kapernaum, gengu menn þeir, sem heimta inn musterisgjaldið, til Péturs og spurðu: "Geldur meistari yðar eigi musterisgjaldið?"
25 Hann kvað svo vera. En er hann kom inn, tók Jesús fyrr til máls og mælti: "Hvað líst þér, Símon? Af hverjum heimta konungar jarðarinnar toll eða skatt? Af börnum sínum eða vandalausum?"
26 "Af vandalausum," sagði Pétur. Jesús mælti: "Þá eru börnin frjáls.
27 En til þess vér hneykslum þá ekki, skaltu fara niður að vatni og renna öngli, taktu síðan fyrsta fiskinn, sem þú dregur, opna munn hans og muntu finna pening. Tak hann og greið þeim fyrir mig og þig."
7 Þegar nú múrinn var byggður, setti ég hurðirnar í, og hliðvörðunum og söngvurunum og levítunum var falið eftirlitið.
2 Og ég skipaði Hananí bróður minn og Hananja, yfirmann vígisins, yfir Jerúsalem, því að hann var svo áreiðanlegur maður og guðhræddur, að fáir voru hans líkar.
3 Og ég sagði við þá: "Ekki skal ljúka upp hliðum Jerúsalem fyrr en sól er komin hátt á loft, og áður en verðirnir fara burt, skal hurðunum lokað og slár settar fyrir. Og það skal setja verði af Jerúsalembúum, hvern á sína varðstöð, og það hvern gegnt húsi sínu."
4 Borgin var víðáttumikil og stór, en fátt fólk í henni og engin nýbyggð hús.
5 Þá blés Guð minn mér því í brjóst að safna saman tignarmönnunum, yfirmönnunum og lýðnum, til þess að láta taka manntal eftir ættum. Og ég fann ættarskrá þeirra, er fyrst höfðu farið heim, og þar fann ég ritað:
6 Þessir eru þeir úr skattlandinu, er heim fóru úr herleiðingarútlegðinni, þeir er Nebúkadnesar Babelkonungur hafði herleitt og nú sneru aftur til Jerúsalem og Júda, hver til sinnar borgar,
7 þeir sem komu með Serúbabel, Jósúa, Nehemía, Asarja, Raamja, Nahamaní, Mordekai, Bilsan, Misperet, Bigvaí, Nehúm og Baana. Talan á mönnum Ísraelslýðs var:
8 Niðjar Parós: 2.172.
9 Niðjar Sefatja: 372.
10 Niðjar Ara: 652.
11 Niðjar Pahat Móabs, sem sé niðjar Jesúa og Jóabs: 2.818.
12 Niðjar Elams: 1.254.
13 Niðjar Sattú: 845.
14 Niðjar Sakkaí: 760.
15 Niðjar Binnúí: 648.
16 Niðjar Bebaí: 628.
17 Niðjar Asgads: 2.322.
18 Niðjar Adóníkams: 667.
19 Niðjar Bigvaí: 2.067.
20 Niðjar Adíns: 655.
21 Niðjar Aters, frá Hiskía: 98.
22 Niðjar Hasúms: 328.
23 Niðjar Besaí: 324.
24 Niðjar Harífs: 112.
25 Ættaðir frá Gíbeon: 95.
26 Ættaðir frá Betlehem og Netófa: 188.
27 Menn frá Anatót: 128.
28 Menn frá Bet Asmavet: 42.
29 Menn frá Kirjat Jearím, Kefíra og Beerót: 743.
30 Menn frá Rama og Geba: 621.
31 Menn frá Mikmas: 122.
32 Menn frá Betel og Aí: 123.
33 Menn frá Nebó: 52.
34 Niðjar Elams hins annars: 1.254.
35 Niðjar Haríms: 320.
36 Ættaðir frá Jeríkó: 345.
37 Ættaðir frá Lód, Hadíd og Ónó: 721.
38 Ættaðir frá Senaa: 3.930.
39 Prestarnir: Niðjar Jedaja, af ætt Jesúa: 973.
40 Niðjar Immers: 1.052.
41 Niðjar Pashúrs: 1.247.
42 Niðjar Haríms: 1.017.
43 Levítarnir: Niðjar Jesúa og Kadmíels, af niðjum Hódeja: 74.
44 Söngvararnir: Niðjar Asafs: 148.
45 Hliðverðirnir: Niðjar Sallúms, niðjar Aters, niðjar Talmóns, niðjar Akúbs, niðjar Hatíta, niðjar Sóbaí: 138.
46 Musterisþjónarnir: Niðjar Síha, niðjar Hasúfa, niðjar Tabbaóts,
47 niðjar Kerós, niðjar Sía, niðjar Padóns,
48 niðjar Lebana, niðjar Hagaba, niðjar Salmaí,
49 niðjar Hanans, niðjar Giddels, niðjar Gahars,
50 niðjar Reaja, niðjar Resíns, niðjar Nekóda,
51 niðjar Gassams, niðjar Ússa, niðjar Pasea,
52 niðjar Besaí, niðjar Meúníta, niðjar Nefísíta,
53 niðjar Bakbúks, niðjar Hakúfa, niðjar Harhúrs,
54 niðjar Baselíts, niðjar Mehída, niðjar Harsa,
55 niðjar Barkós, niðjar Sísera, niðjar Tema,
56 niðjar Nesía, niðjar Hatífa.
57 Niðjar þræla Salómons: Niðjar Sótaí, niðjar Sóferets, niðjar Perída,
58 niðjar Jaala, niðjar Darkóns, niðjar Giddels,
59 niðjar Sefatja, niðjar Hattils, niðjar Pókeret Hassebaíms, niðjar Amóns.
60 Allir musterisþjónarnir og niðjar þræla Salómons voru 392.
61 Og þessir eru þeir, sem fóru heim frá Tel Mela, Tel Harsa, Kerúb, Addón og Immer, en kunnu eigi að greina ætt sína og uppruna, hvort þeir væru komnir af Ísrael:
62 niðjar Delaja, niðjar Tobía, niðjar Nekóda: 642.
63 Og af prestunum: niðjar Hobaja, niðjar Hakkós, niðjar Barsillaí, er gengið hafði að eiga eina af dætrum Barsillaí Gíleaðíta og nefndur hafði verið nafni þeirra.
64 Þessir leituðu að ættartölum sínum, en þær fundust ekki. Var þeim því hrundið frá prestdómi.
65 Og landstjórinn sagði þeim, að þeir mættu ekki eta af hinu háheilaga, þar til er kæmi fram prestur, er kynni að fara með úrím og túmmím.
66 Allur söfnuðurinn var til samans 42.360,
67 auk þræla þeirra og ambátta, er voru 7.337. Þeir höfðu 245 söngvara og söngkonur.
68 Hestar þeirra voru 736, múlar 245,
69 úlfaldar 435, asnar 6.720.
70 Og nokkur hluti ætthöfðingjanna gaf til byggingarinnar. Landstjórinn gaf í sjóðinn: í gulli 1.000 daríka, 50 fórnarskálar og 530 prestserki.
71 Og sumir ætthöfðingjanna gáfu í byggingarsjóðinn: í gulli 20.000 daríka og í silfri 2.200 mínur.
72 Og það, sem hitt fólkið gaf, var: í gulli 20.000 daríkar og í silfri 2.000 mínur og 67 prestserkir.
73 Þannig tóku prestarnir og levítarnir og hliðverðirnir og söngvararnir og nokkrir af lýðnum og musterisþjónarnir og allur Ísrael sér bólfestu í borgum sínum. En er sjöundi mánuðurinn kom, voru Ísraelsmenn í borgum sínum.
17 Þeir fóru nú um Amfípólis og Apollóníu og komu til Þessaloníku. Þar áttu Gyðingar samkundu.
2 Eftir venju sinni gekk Páll inn til þeirra, og þrjá hvíldardaga ræddi hann við þá og lagði út af ritningunum,
3 lauk þeim upp fyrir þeim og setti þeim fyrir sjónir, að Kristur átti að líða og rísa upp frá dauðum. Hann sagði: "Jesús, sem ég boða yður, hann er Kristur."
4 Nokkrir þeirra létu sannfærast og gengu til fylgis við Pál og Sílas, auk þess mikill fjöldi guðrækinna Grikkja og mikilsháttar konur eigi allfáar.
5 En Gyðingar fylltust afbrýði og fengu með sér götuskríl, æstu til uppþota og hleyptu borginni í uppnám. Þustu þeir að húsi Jasonar og vildu færa þá fyrir lýðinn.
6 En þegar þeir fundu þá ekki, drógu þeir Jason og nokkra bræður fyrir borgarstjórana og hrópuðu: "Mennirnir, sem komið hafa allri heimsbyggðinni í uppnám, þeir eru nú komnir hingað,
7 og Jason hefur tekið á móti þeim. Allir þessir breyta gegn boðum keisarans, því þeir segja, að annar sé konungur og það sé Jesús."
8 Og þeir vöktu óhug með fólkinu og einnig borgarstjórunum með þessum orðum.
9 Slepptu þeir ekki þeim Jasoni fyrr en þeir höfðu látið þá setja tryggingu.
10 En bræðurnir sendu þá Pál og Sílas þegar um nóttina til Beroju. Þegar þeir komu þangað, gengu þeir inn í samkunduhús Gyðinga.
11 Þeir voru veglyndari þar en í Þessaloníku. Þeir tóku við orðinu með allri góðfýsi og rannsökuðu daglega ritningarnar, hvort þessu væri þannig farið.
12 Margir þeirra tóku trú og einnig Grikkir ekki allfáir, tignar konur og karlar.
13 En er Gyðingar í Þessaloníku fréttu, að Páll hefði einnig boðað orð Guðs í Beroju, komu þeir og hleyptu líka ólgu og æsingu í múginn þar.
14 Þá sendu bræðurnir jafnskjótt með Pál af stað til sjávar, en Sílas og Tímóteus urðu eftir.
15 Leiðsögumenn Páls fylgdu honum allt til Aþenu og sneru aftur með boð til Sílasar og Tímóteusar að koma hið bráðasta til hans.
16 Meðan Páll beið þeirra í Aþenu, var honum mikil skapraun að sjá, að borgin var full af skurðgoðum.
17 Hann ræddi þá í samkundunni við Gyðinga og guðrækna menn, og hvern dag á torginu við þá, sem urðu á vegi hans.
18 En nokkrir heimspekingar, Epíkúringar og Stóumenn, áttu og í orðakasti við hann. Sögðu sumir: "Hvað mun skraffinnur sá hafa að flytja?" Aðrir sögðu: "Hann virðist boða ókennda guði," _ því að hann flutti fagnaðarerindið um Jesú og upprisuna.
19 Og þeir tóku hann og fóru með hann á Aresarhæð og sögðu: "Getum vér fengið að vita, hver þessi nýja kenning er, sem þú ferð með?
20 Því að eitthvað nýstárlegt flytur þú oss til eyrna, og oss fýsir að vita, hvað þetta er."
21 En allir Aþeningar og aðkomumenn þar gáfu sér ekki tóm til annars fremur en að segja eða heyra einhver nýmæli.
22 Þá sté Páll fram á miðri Aresarhæð og tók til máls: "Aþeningar, þér komið mér svo fyrir sjónir, að þér séuð í öllum greinum miklir trúmenn,
23 því að ég gekk hér um og hugði að helgidómum yðar og fann þá meðal annars altari, sem á er ritað: ,Ókunnum guði`. Þetta, sem þér nú dýrkið og þekkið ekki, það boða ég yður.
24 Guð, sem skóp heiminn og allt, sem í honum er, hann, sem er herra himins og jarðar, býr ekki í musterum, sem með höndum eru gjörð.
25 Ekki verður honum heldur þjónað með höndum manna, eins og hann þyrfti nokkurs við, þar sem hann sjálfur gefur öllum líf og anda og alla hluti.
26 Hann skóp og af einum allar þjóðir manna og lét þær byggja allt yfirborð jarðar, er hann hafði ákveðið setta tíma og mörk bólstaða þeirra.
27 Hann vildi, að þær leituðu Guðs, ef verða mætti þær þreifuðu sig til hans og fyndu hann. En eigi er hann langt frá neinum af oss.
28 Í honum lifum, hrærumst og erum vér. Svo hafa og sum skáld yðar sagt: ,Því að vér erum líka hans ættar.`
29 Fyrst vér erum nú Guðs ættar, megum vér eigi ætla, að guðdómurinn sé líkur smíði af gulli, silfri eða steini, gjörðri með hagleik og hugviti manna.
30 Guð, sem hefur umborið tíðir vanviskunnar, boðar nú mönnunum, að þeir skuli allir hvarvetna taka sinnaskiptum,
31 því að hann hefur sett dag, er hann mun láta mann, sem hann hefur fyrirhugað, dæma heimsbyggðina með réttvísi. Þetta hefur hann sannað öllum mönnum með því að reisa hann frá dauðum."
32 Þegar þeir heyrðu nefnda upprisu dauðra, gjörðu sumir gys að, en aðrir sögðu: "Vér munum hlusta á þetta hjá þér öðru sinni."
33 Þannig skildi Páll við þá.
34 En nokkrir menn slógust í fylgd hans. Þeir tóku trú. Meðal þeirra var Díónýsíus, einn úr Areopagus-dóminum, og kona nokkur, Damaris að nafni, og aðrir fleiri.
by Icelandic Bible Society