M’Cheyne Bible Reading Plan
15 Eftir þessa atburði kom orð Drottins til Abrams í sýn: "Óttast þú ekki, Abram, ég er þinn skjöldur, laun þín munu mjög mikil verða."
2 Og Abram mælti: "Drottinn Guð, hvað ætlar þú að gefa mér? Ég fer héðan barnlaus, og Elíeser frá Damaskus verður erfingi húss míns."
3 Og Abram mælti: "Sjá, mér hefir þú ekkert afkvæmi gefið, og húskarl minn mun erfa mig."
4 Og sjá, orð Drottins kom til hans: "Ekki skal hann erfa þig, heldur sá, sem af þér mun getinn verða, hann mun erfa þig."
5 Og hann leiddi hann út og mælti: "Lít þú upp til himins og tel þú stjörnurnar, ef þú getur talið þær." Og hann sagði við hann: "Svo margir skulu niðjar þínir verða."
6 Og Abram trúði Drottni, og hann reiknaði honum það til réttlætis.
7 Þá sagði hann við hann: "Ég er Drottinn, sem leiddi þig út frá Úr í Kaldeu til þess að gefa þér þetta land til eignar."
8 Og Abram mælti: "Drottinn Guð, hvað skal ég hafa til marks um, að ég muni eignast það?"
9 Og hann mælti við hann: "Fær mér þrevetra kvígu, þrevetra geit, þrevetran hrút, turtildúfu og unga dúfu."
10 Og hann færði honum öll þessi dýr og hlutaði þau sundur í miðju og lagði hvern hlutinn gegnt öðrum. En fuglana hlutaði hann ekki sundur.
11 Og hræfuglar flugu að ætinu, en Abram fældi þá burt.
12 Er sól var að renna, leið þungur svefnhöfgi á Abram, og sjá: felmti og miklu myrkri sló yfir hann.
13 Þá sagði hann við Abram: "Vit það fyrir víst, að niðjar þínir munu lifa sem útlendingar í landi, sem þeir eiga ekki, og þeir munu þjóna þeim, og þeir þjá þá í fjögur hundruð ár.
14 En þá þjóð, sem þeir munu þjóna, mun ég dæma, og síðar munu þeir þaðan fara með mikinn fjárhlut.
15 En þú skalt fara í friði til feðra þinna, þú skalt verða jarðaður í góðri elli.
16 Hinn fjórði ættliður þeirra mun koma hingað aftur, því að enn hafa Amorítar eigi fyllt mæli synda sinna."
17 En er sól var runnin og myrkt var orðið, kom reykur sem úr ofni og eldslogi, er leið fram á milli þessara fórnarstykkja.
18 Á þeim degi gjörði Drottinn sáttmála við Abram og mælti: "Þínu afkvæmi gef ég þetta land, frá Egyptalandsánni til árinnar miklu, árinnar Efrat:
19 land Keníta, Kenissíta, Kadmóníta,
20 Hetíta, Peresíta, Refaíta,
21 Amoríta, Kanaaníta, Gírgasíta og Jebúsíta."
14 Um þessar mundir spyr Heródes fjórðungsstjóri tíðindin af Jesú.
2 Og hann segir við sveina sína: "Þetta er Jóhannes skírari, hann er risinn frá dauðum, þess vegna eru kraftarnir að verki í honum."
3 En Heródes hafði látið taka Jóhannes höndum, fjötra hann og varpa í fangelsi vegna Heródíasar, konu Filippusar bróður síns,
4 því Jóhannes hafði sagt við hann: "Þú mátt ekki eiga hana."
5 Heródes vildi deyða hann, en óttaðist lýðinn, þar eð menn töldu hann vera spámann.
6 En á afmælisdegi Heródesar dansaði dóttir Heródíasar dans frammi fyrir gestunum og hreif Heródes svo,
7 að hann sór þess eið að veita henni hvað sem hún bæði um.
8 Að undirlagi móður sinnar segir hún: "Gef mér hér á fati höfuð Jóhannesar skírara."
9 Konungur varð hryggur við, en vegna eiðsins og gesta sinna bauð hann að veita henni þetta.
10 Hann sendi í fangelsið og lét hálshöggva Jóhannes þar.
11 Höfuð hans var borið inn á fati og fengið stúlkunni, en hún færði móður sinni.
12 Lærisveinar hans komu, tóku líkið og greftruðu, fóru síðan og sögðu Jesú.
13 Þegar Jesús heyrði þetta, fór hann þaðan á báti á óbyggðan stað og vildi vera einn. En fólkið frétti það og fór gangandi á eftir honum úr borgunum.
14 Þegar Jesús steig á land, sá hann þar mikinn mannfjölda, og hann kenndi í brjósti um þá og læknaði þá af þeim, er sjúkir voru.
15 Um kvöldið komu lærisveinarnir að máli við hann og sögðu: "Hér er engin mannabyggð og dagur liðinn. Lát nú fólkið fara, að þeir geti náð til þorpanna og keypt sér vistir."
16 Jesús svaraði þeim: "Ekki þurfa þeir að fara, gefið þeim sjálfir að eta."
17 Þeir svara honum: "Vér höfum hér ekki nema fimm brauð og tvo fiska."
18 Hann segir: "Færið mér það hingað."
19 Og hann bauð fólkinu að setjast í grasið. Þá tók hann brauðin fimm og fiskana tvo, leit upp til himins, þakkaði Guði, braut brauðin og gaf lærisveinunum, en þeir fólkinu.
20 Og þeir neyttu allir og urðu mettir. Og þeir tóku saman brauðbitana, er af gengu, tólf körfur fullar.
21 En þeir, sem neytt höfðu, voru um fimm þúsund karlmenn, auk kvenna og barna.
22 Tafarlaust knúði hann lærisveina sína að fara í bátinn og halda á undan sér yfir um, meðan hann sendi fólkið brott.
23 Og er hann hafði látið fólkið fara, gekk hann til fjalls að biðjast fyrir í einrúmi. Þegar kvöld var komið, var hann þar einn.
24 En báturinn var þegar kominn langt frá landi og lá undir áföllum, því að vindur var á móti.
25 En er langt var liðið nætur kom hann til þeirra, gangandi á vatninu.
26 Þegar lærisveinarnir sáu hann ganga á vatninu, varð þeim bilt við. Þeir sögðu: "Þetta er vofa," og æptu af hræðslu.
27 En Jesús mælti jafnskjótt til þeirra: "Verið hughraustir, það er ég, verið óhræddir."
28 Pétur svaraði honum: "Ef það ert þú, herra, þá bjóð mér að koma til þín á vatninu."
29 Jesús svaraði: "Kom þú!" Og Pétur sté úr bátnum og gekk á vatninu til hans.
30 En sem hann sá rokið, varð hann hræddur og tók að sökkva. Þá kallaði hann: "Herra, bjarga þú mér!"
31 Jesús rétti þegar út höndina, tók í hann og sagði: "Þú trúlitli, hví efaðist þú?"
32 Þeir stigu í bátinn, og þá lægði vindinn.
33 En þeir sem í bátnum voru, tilbáðu hann og sögðu: "Sannarlega ert þú sonur Guðs."
34 Þegar þeir höfðu náð yfir um, komu þeir að landi við Genesaret.
35 Fólkið á þeim stað þekkti hann og sendi boð um allt nágrennið, og menn færðu til hans alla þá, er sjúkir voru.
36 Þeir báðu hann að mega rétt snerta fald klæða hans, og allir, sem snertu hann, urðu alheilir.
4 Þá er Sanballat heyrði, að vér værum að endurreisa múrinn, varð hann reiður og gramdist honum það mjög. Og hann gjörði gys að Gyðingum
2 og talaði í áheyrn bræðra sinna og herliðs Samaríu og mælti: "Hvað hafa Gyðingarnir fyrir stafni, þeir vesalingar? Skyldu þeir hætta við það aftur? Munu þeir fórna? Ætli þeir ljúki við það í dag? Munu þeir gjöra steinana í rústahaugunum lifandi, þar sem þeir þó eru brunnir?"
3 Og Tobía Ammóníti stóð hjá honum og mælti: "Hvað sem þeir nú eru að byggja _ ef refur stigi á það, þá mundi steinveggur þeirra hrynja undan honum!"
4 Heyr, Guð vor, hversu vér erum smánaðir! Lát háð þeirra koma þeim sjálfum í koll og framsel þá til ráns hernumda í öðru landi.
5 Hyl eigi misgjörð þeirra, og synd þeirra afmáist aldrei fyrir augliti þínu, því að þeir hafa egnt þig til reiði í augsýn þeirra, sem eru að byggja.
6 En vér héldum áfram að byggja múrinn og allur múrinn varð fullgjör upp að miðju, og hafði lýðurinn áhuga á verkinu.
7 En er Sanballat og Tobía og Arabar og Ammónítar og Asdódmenn heyrðu, að farið væri að gjöra við múra Jerúsalem, að skörðin væru tekin að fyllast, urðu þeir mjög reiðir.
8 Og þeir tóku sig allir saman um að koma og herja á Jerúsalem og gjöra þar spell.
9 En vér gjörðum bæn vora til Guðs vors og settum vörð gegn þeim bæði dag og nótt af ótta fyrir þeim.
10 En Gyðingar sögðu: "Burðarmennirnir gefast upp og rústirnar eru miklar og þá getum vér ekki byggt múrinn."
11 En mótstöðumenn vorir hugsuðu: "Þeir skulu ekkert vita og einskis varir verða, fyrr en vér ráðumst á þá og brytjum þá niður og gjörum enda á verkinu."
12 En er Gyðingar þeir, sem bjuggu í grennd við þá, komu og sögðu við oss sjálfsagt tíu sinnum, úr öllum áttum: "Þér verðið að koma til vor!"
13 þá lét ég staðar nema á lægstu stöðunum bak við múrinn, á sólbrunnu stöðunum, þar lét ég lýðinn nema staðar eftir ættum, með sverðum sínum, lensum og bogum.
14 Og ég litaðist um, reis upp og sagði við tignarmennina og yfirmennina og hitt fólkið: "Eigi skuluð þér óttast þá. En minnist Drottins, hins mikla og ógurlega, og berjist fyrir bræður yðar, sonu yðar, dætur yðar, konur yðar og hús yðar."
15 En er óvinir vorir heyrðu, að vér værum orðnir þess vísir og að Guð hefði ónýtt ráðagjörð þeirra, þá gátum vér allir snúið aftur að múrnum, hver til sinnar vinnu.
16 En frá þeim degi vann aðeins helmingur sveina minna að verkinu. Hinn helmingur þeirra hélt á lensunum, skjöldunum, bogunum og pönsurunum, en foringjarnir stóðu bak við alla Júdamenn, þá er voru að byggja upp múrinn.
17 En burðarmennirnir voru búnir til bardaga. Með annarri hendinni unnu þeir að verkinu, en með hinni héldu þeir á skotspjótinu.
18 Og þeir sem hlóðu voru allir gyrtir sverði um lendar sér og hlóðu þannig, en lúðursveinninn stóð hjá mér.
19 Og ég sagði við tignarmennina og yfirmennina og aðra af lýðnum: "Verkið er stórt og umfangsmikið, og vér erum tvístraðir á múrnum, langt í burtu hver frá öðrum.
20 Þar sem þér heyrið lúðurhljóminn, þangað skuluð þér safnast til vor. Guð vor mun berjast fyrir oss."
21 Þannig unnum vér að verkinu, en helmingur þeirra hélt á lensunum, frá því er morgunroðinn færðist upp á himininn og þar til er stjörnurnar komu fram.
22 Þá sagði ég og við lýðinn: "Allir skulu vera í Jerúsalem á næturnar, ásamt sveinum sínum, til þess að þeir séu vörður fyrir oss á nóttunni, en vinni að verkinu á daginn."
23 En ég og bræður mínir og sveinar mínir og varðmennirnir, er fylgdu mér, vér fórum aldrei af klæðum, og sérhver hafði skotspjót sitt við hægri hlið sér.
14 Í Íkóníum gengu þeir á sama hátt inn í samkundu Gyðinga og töluðu þannig, að mikill fjöldi Gyðinga og Grikkja tók trú.
2 En vantrúa Gyðingar vöktu æsing með heiðingjum og illan hug gegn bræðrunum.
3 Dvöldust þeir þar alllangan tíma og töluðu djarflega í trausti til Drottins, sem staðfesti orð náðar sinnar með því að láta tákn og undur gerast fyrir hendur þeirra.
4 Skiptust nú borgarbúar í tvo flokka, og voru sumir með Gyðingum, aðrir með postulunum.
5 Heiðingjar og Gyðingar gjörðu ásamt yfirvöldum sínum samblástur um að misþyrma þeim og grýta þá.
6 Þeir komust að þessu og flýðu til borganna Lýstru og Derbe í Lýkaóníu og héraðsins umhverfis.
7 Þar héldu þeir áfram að flytja fagnaðarerindið.
8 Í Lýstru var maður nokkur máttvana í fótum, lami frá móðurlífi, og hafði aldrei getað gengið.
9 Maður þessi heyrði á mál Páls, en Páll horfði á hann og sá, að hann hafði trú til þess að verða heill,
10 og sagði hárri raustu: "Rís upp og stattu í fæturna!" Hann spratt upp og tók að ganga.
11 Múgurinn sá, hvað Páll hafði gjört, og tók að hrópa á lýkaónsku: "Guðirnir eru í manna líki stignir niður til vor."
12 Kölluðu þeir Barnabas Seif, en Pál Hermes, því að hann hafði orð fyrir þeim.
13 En prestur í hofi Seifs utan borgar kom með naut og kransa að borgarhliðunum og vildi færa fórnir ásamt fólkinu.
14 Þegar postularnir, Barnabas og Páll, heyrðu þetta, rifu þeir klæði sín, stukku inn í mannþröngina og hrópuðu:
15 "Menn, hví gjörið þér þetta? Menn erum vér sem þér, yðar líkar, og flytjum yður þau fagnaðarboð, að þér skuluð hverfa frá þessum fánýtu goðum til lifanda Guðs, sem skapaði himin, jörð og haf og allt, sem í þeim er.
16 Hann hefur um liðnar aldir leyft, að sérhver þjóð gengi sína vegu.
17 En þó hefur hann vitnað um sjálfan sig með velgjörðum sínum. Hann hefur gefið yður regn af himni og uppskerutíðir. Hann hefur veitt yður fæðu og fyllt hjörtu yðar gleði."
18 Með þessum orðum fengu þeir með naumindum fólkið ofan af því að færa þeim fórnir.
19 Þá komu Gyðingar frá Antíokkíu og Íkóníum. Töldu þeir fólkið á sitt mál, og menn grýttu Pál, drógu hann út úr borginni og hugðu hann dáinn.
20 En lærisveinarnir slógu hring um hann, og reis hann þá upp og gekk inn í borgina. Daginn eftir fór hann þaðan með Barnabasi til Derbe.
21 Þegar þeir höfðu boðað fagnaðarerindið í þeirri borg og gjört marga að lærisveinum, sneru þeir aftur til Lýstru, Íkóníum og Antíokkíu,
22 styrktu lærisveinana og hvöttu þá til að vera staðfastir í trúnni. Þeir sögðu: "Vér verðum að ganga inn í Guðs ríki gegnum margar þrengingar."
23 Þeir völdu þeim öldunga í hverjum söfnuði, fólu þá síðan með föstum og bænahaldi Drottni, sem þeir höfðu fest trú á.
24 Þá fóru þeir um Pisidíu og komu til Pamfýlíu.
25 Þeir fluttu orðið í Perge, fóru til Attalíu
26 og sigldu þaðan til Antíokkíu, en þar höfðu þeir verið faldir náð Guðs til þess verks, sem þeir höfðu nú fullnað.
27 Þegar þeir voru þangað komnir, stefndu þeir saman söfnuðinum og greindu frá, hversu mikið Guð hafði látið þá gjöra og að hann hefði upp lokið dyrum trúarinnar fyrir heiðingjum.
28 Dvöldust þeir nú alllengi hjá lærisveinunum.
by Icelandic Bible Society