Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Fyrsta bók Móse 14

14 Þegar Amrafel var konungur í Sínear, Aríok konungur í Ellasar, Kedorlaómer konungur í Elam og Tídeal konungur í Gojím, bar það til,

að þeir herjuðu á Bera, konung í Sódómu, á Birsa, konung í Gómorru, á Síneab, konung í Adma, á Semeber, konung í Sebóím, og konunginn í Bela (það er Sóar).

Allir þessir hittust á Siddímsvöllum. (Þar er nú Saltisjór.)

Í tólf ár höfðu þeir verið lýðskyldir Kedorlaómer, en á hinu þrettánda ári höfðu þeir gjört uppreisn.

Og á fjórtánda ári kom Kedorlaómer og þeir konungar, sem með honum voru, og sigruðu Refaítana í Astarot Karnaím, Súsítana í Ham, Emítana á Kírjataímsvöllum

og Hórítana á fjalli þeirra Seír allt til El-Paran, sem er við eyðimörkina.

Síðan sneru þeir við og komu til En-Mispat (það er Kades), og fóru herskildi yfir land Amalekíta og sömuleiðis Amoríta, sem bjuggu í Hasason Tamar.

Þá lögðu þeir af stað, konungurinn í Sódómu, konungurinn í Gómorru, konungurinn í Adma, konungurinn í Sebóím og konungurinn í Bela (það er Sóar), og þeir fylktu liði sínu móti þeim á Síddímsvöllum,

móti Kedorlaómer, konungi í Elam, Tídeal, konungi í Gojím, Amrafel, konungi í Sínear, og Aríok, konungi í Ellasar, fjórir konungar móti fimm.

10 En á Siddímsvöllum var hver jarðbiksgröfin við aðra. Og konungarnir í Sódómu og Gómorru lögðu á flótta og féllu ofan í þær, en þeir, sem af komust, flýðu til fjalla.

11 Þá tóku hinir alla fjárhluti, sem voru í Sódómu og Gómorru, og öll matvæli og fóru burt.

12 Þeir tóku og Lot, bróðurson Abrams, og fjárhluti hans og fóru burt, en hann átti heima í Sódómu.

13 Þá kom maður af flóttanum og sagði Hebreanum Abram tíðindin, en hann bjó þá í lundi Amorítans Mamre, bróður Eskols og Aners, og þeir voru bandamenn Abrams.

14 En er Abram frétti, að frændi hans var hertekinn, bjó hann í skyndi þrjú hundruð og átján reynda menn sína, fædda í húsi hans, og elti þá allt til Dan.

15 Skipti hann liði sínu í flokka og réðst á þá á náttarþeli, hann og menn hans, og sigraði þá og rak flóttann allt til Hóba, sem er fyrir norðan Damaskus.

16 Sneri hann því næst heimleiðis með alla fjárhlutina og bróðurson sinn Lot, og fjárhluti hans hafði hann einnig heim með sér, sömuleiðis konurnar og fólkið.

17 En er hann hafði unnið sigur á Kedorlaómer konungi og þeim konungum, sem með honum voru, og hélt heimleiðis, fór konungurinn í Sódómu til fundar við hann í Savedal. (Þar heitir nú Kóngsdalur.)

18 Og Melkísedek konungur í Salem kom með brauð og vín, en hann var prestur Hins Hæsta Guðs.

19 Og hann blessaði Abram og sagði: "Blessaður sé Abram af Hinum Hæsta Guði, skapara himins og jarðar!

20 Og lofaður sé Hinn Hæsti Guð, sem gaf óvini þína þér í hendur!" Og Abram gaf honum tíund af öllu.

21 Konungurinn í Sódómu sagði við Abram: "Gef mér mennina, en tak þú fjárhlutina."

22 Þá mælti Abram við konunginn í Sódómu: "Ég upplyfti höndum mínum til Drottins, Hins Hæsta Guðs, skapara himins og jarðar:

23 Ég tek hvorki þráð né skóþveng, né nokkuð af öllu sem þér tilheyrir, svo að þú skulir ekki segja: ,Ég hefi gjört Abram ríkan.`

24 Ekkert handa mér! Aðeins það, sem sveinarnir hafa neytt, og hlut þeirra manna, sem með mér fóru, Aners, Eskols og Mamre. Þeir mega taka sinn hlut."

Matteusarguðspjall 13

13 Sama dag gekk Jesús að heiman og settist við vatnið.

Svo mikill mannfjöldi safnaðist að honum, að hann varð að stíga í bát og sitja þar. En allt fólkið stóð á ströndinni.

Hann talaði margt til þeirra í dæmisögum. Hann sagði: "Sáðmaður gekk út að sá,

og þá er hann sáði, féll sumt hjá götunni, og fuglar komu og átu það upp.

Sumt féll í grýtta jörð, þar sem var lítill jarðvegur, og það rann skjótt upp, því það hafði ekki djúpa jörð.

Þegar sól hækkaði, visnaði það, og sökum þess að það hafði ekki rætur, skrælnaði það.

Sumt féll meðal þyrna, og þyrnarnir uxu og kæfðu það.

En sumt féll í góða jörð og bar ávöxt, sumt hundraðfaldan, sumt sextugfaldan og sumt þrítugfaldan.

Hver sem eyru hefur, hann heyri."

10 Þá komu lærisveinarnir til hans og spurðu: "Hvers vegna talar þú til þeirra í dæmisögum?"

11 Hann svaraði: "Yður er gefið að þekkja leynda dóma himnaríkis, hinum er það ekki gefið.

12 Því að þeim, sem hefur, mun gefið verða, og hann mun hafa gnægð, en frá þeim, sem eigi hefur, mun tekið verða jafnvel það, sem hann hefur.

13 Þess vegna tala ég til þeirra í dæmisögum, að sjáandi sjá þeir ekki og heyrandi heyra þeir ekki né skilja.

14 Á þeim rætist spádómur Jesaja: Með eyrum munuð þér heyra og alls ekki skilja, og sjáandi munuð þér horfa og ekkert sjá.

15 Því að hjarta lýðs þessa er sljótt orðið, og illa heyra þeir með eyrum sínum, og augunum hafa þeir lokað, svo að þeir sjái ekki með augunum né heyri með eyrunum og skilji með hjartanu og snúi sér, og ég lækni þá.

16 En sæl eru augu yðar, að þau sjá, og eyru yðar, að þau heyra.

17 Sannlega segi ég yður: Margir spámenn og réttlátir þráðu að sjá það, sem þér sjáið, en sáu það ekki, og heyra það, sem þér heyrið, en heyrðu það ekki.

18 Heyrið þá hvað dæmisagan um sáðmanninn merkir:

19 Þegar einhver heyrir orðið um ríkið og skilur ekki, þá kemur hinn vondi og rænir því, sem sáð var í hjarta hans. Það sem sáð var við götuna, merkir þetta.

20 Það sem sáð var í grýtta jörð, merkir þann, sem tekur orðinu með fögnuði, um leið og hann heyrir það,

21 en hefur enga rótfestu. Hann er hvikull, og er þrenging verður eða ofsókn vegna orðsins, bregst hann þegar.

22 Það er sáð var meðal þyrna, merkir þann, sem heyrir orðið, en áhyggjur heimsins og tál auðæfanna kefja orðið, svo það ber engan ávöxt.

23 En það er sáð var í góða jörð, merkir þann, sem heyrir orðið og skilur það. Hann er sá, sem ber ávöxt og gefur af sér hundraðfalt, sextugfalt eða þrítugfalt."

24 Aðra dæmisögu sagði hann þeim: "Líkt er um himnaríki og mann, er sáði góðu sæði í akur sinn.

25 En er menn voru í svefni, kom óvinur hans, sáði illgresi meðal hveitisins og fór síðan.

26 Þegar sæðið spratt upp og tók að bera ávöxt, kom illgresið og í ljós.

27 Þá komu þjónar húsbóndans til hans og sögðu við hann: ,Herra, sáðir þú ekki góðu sæði í akur þinn? Hvaðan kemur illgresið?`

28 Hann svaraði þeim: ,Þetta hefur einhver óvinur gjört.` Þjónarnir sögðu við hann: ,Viltu, að vér förum og tínum það?`

29 Hann sagði: ,Nei, með því að tína illgresið, gætuð þér slitið upp hveitið um leið.

30 Látið hvort tveggja vaxa saman fram að kornskurði. Þegar komin er kornskurðartíð, mun ég segja við kornskurðarmenn: Safnið fyrst illgresinu og bindið í bundin til að brenna því, en hirðið hveitið í hlöðu mína."`

31 Aðra dæmisögu sagði hann þeim: "Líkt er himnaríki mustarðskorni, sem maður tók og sáði í akur sinn.

32 Smæst er það allra sáðkorna, en nær það vex, er það öllum jurtum meira, það verður tré, og fuglar himins koma og hreiðra sig í greinum þess."

33 Aðra dæmisögu sagði hann þeim: "Líkt er himnaríki súrdeigi, er kona tók og fól í þrem mælum mjöls, uns það sýrðist allt."

34 Þetta allt talaði Jesús í dæmisögum til fólksins, og án dæmisagna talaði hann ekki til þeirra.

35 Það átti að rætast, sem sagt er fyrir munn spámannsins: Ég mun opna munn minn í dæmisögum, mæla fram það, sem hulið var frá grundvöllun heims.

36 Þá skildi hann við mannfjöldann og fór inn. Lærisveinar hans komu til hans og sögðu: "Skýrðu fyrir oss dæmisöguna um illgresið á akrinum."

37 Hann mælti: "Sá er sáir góða sæðinu, er Mannssonurinn,

38 akurinn er heimurinn, góða sæðið merkir börn ríkisins, en illgresið börn hins vonda.

39 Óvinurinn, sem sáði því, er djöfullinn. Kornskurðurinn er endir veraldar og kornskurðarmennirnir englar.

40 Eins og illgresinu er safnað og brennt í eldi, þannig verður við endi veraldar.

41 Mannssonurinn mun senda engla sína, og þeir munu safna úr ríki hans öllum, sem hneykslunum valda og ranglæti fremja,

42 og kasta þeim í eldsofninn. Þar verður grátur og gnístran tanna.

43 Þá munu réttlátir skína sem sól í ríki föður þeirra. Hver sem eyru hefur, hann heyri.

44 Líkt er himnaríki fjársjóði, sem fólginn var í jörðu og maður fann og leyndi. Í fögnuði sínum fór hann, seldi allar eigur sínar og keypti akur þann.

45 Enn er himnaríki líkt kaupmanni, sem leitaði að fögrum perlum.

46 Og er hann fann eina dýrmæta perlu, fór hann, seldi allt, sem hann átti, og keypti hana.

47 Enn er himnaríki líkt neti, sem lagt er í sjó og safnar alls kyns fiski.

48 Þegar það er fullt, draga menn það á land, setjast við og safna þeim góðu í ker, en kasta þeim óætu burt.

49 Svo mun verða, þegar veröld endar: Englarnir munu fara til, skilja vonda menn frá réttlátum

50 og kasta þeim í eldsofninn. Þar verður grátur og gnístran tanna.

51 Hafið þér skilið allt þetta?" "Já," svöruðu þeir.

52 Hann sagði við þá: "Þannig er sérhver fræðimaður, sem orðinn er lærisveinn himnaríkis, líkur húsföður, sem ber fram nýtt og gamalt úr forðabúri sínu."

53 Þegar Jesús hafði lokið þessum dæmisögum, hélt hann þaðan.

54 Hann kom í ættborg sína og tók að kenna þeim í samkundu þeirra. Þeir undruðust stórum og sögðu: "Hvaðan kemur honum þessi speki og kraftaverkin?

55 Er þetta ekki sonur smiðsins? Heitir ekki móðir hans María og bræður hans Jakob, Jósef, Símon og Júdas?

56 Og eru ekki systur hans allar hjá oss? Hvaðan kemur honum þá allt þetta?"

57 Og þeir hneyksluðust á honum. En Jesús sagði við þá: "Hvergi er spámaður minna metinn en í landi sínu og með heimamönnum."

58 Og hann gjörði þar ekki mörg kraftaverk sökum vantrúar þeirra.

Nehemíabók 3

Þá tóku þeir sig til, Eljasíb æðsti prestur og bræður hans, prestarnir, og reistu Sauðahliðið _ vígðu þeir það og settu hurðirnar í það _ og allt að Hammeaturni _ hann vígðu þeir _ allt að Hananelturni.

Næstir honum byggðu Jeríkómenn, og næstur þeim byggði Sakkúr Imríson.

Fiskhliðið byggðu Senaamenn. Þeir gjörðu þar dyraumbúnað og settu hurðirnar í það, lokurnar og slagbrandana.

Næstur þeim hlóð upp Meremót Úríason, Hakkóssonar. Næstur honum hlóð upp Mesúllam Berekíason, Mesesabeelssonar. Næstur honum hlóð upp Sadók Baanason.

Næstir honum hlóðu upp Tekóamenn, en göfugmenni þeirra beygðu ekki háls sinn undir þjónustu herra síns.

Við gamla hliðið gjörðu þeir Jójada Paseason og Mesúllam Besódíason. Þeir gjörðu þar dyraumbúnað og settu hurðirnar í það, lokurnar og slagbrandana.

Næstir þeim hlóðu upp Melatja Gíbeoníti og Jadón Merónótíti og meðal þeirra menn frá Gíbeon og Mispa, sem lutu hástól landstjórans í héraðinu hinumegin Fljóts.

Næstur þeim hlóð upp Ússíel Harhajason og með honum gullsmiðirnir. Næstur honum hlóð upp Hananja, einn af smyrslasölunum. Og þeir steinlögðu Jerúsalem allt að breiða múrnum.

Næstur honum hlóð upp Refaja Húrsson, höfðingi yfir hálfu héraðinu kringum Jerúsalem.

10 Næstur honum hlóð upp Jedaja Harúmafsson, og það gegnt húsi sínu. Næstur honum hlóð upp Hattús Hasabnejason.

11 Annan part hlóðu upp þeir Malkía Harímsson og Hasúb Pahat Móabsson, svo og baksturofnsturninn.

12 Næstur þeim hlóð upp Sallúm Hallóhesson, höfðingi yfir hinum helming héraðsins kringum Jerúsalem _ hann og dætur hans.

13 Við Dalshliðið gjörði Hanún og Sanóabúar _ þeir byggðu það og settu hurðirnar í það, lokurnar og slagbrandana _ og þúsund álnir af múrnum, allt að Mykjuhliðinu.

14 Við Mykjuhliðið gjörði Malkía Rekabsson, höfðingi yfir Bet Keremhéraði _ hann byggði það og setti hurðirnar í það, lokurnar og slagbrandana.

15 Við Lindarhliðið gjörði Sallún Kol Hóseson, höfðingi yfir Mispahéraði _ hann byggði það, gjörði þak á það, setti hurðirnar í það, lokurnar og slagbrandana _, enn fremur múrinn hjá vatnsveitutjörninni að Kóngsgarðinum og allt að tröppunum, er liggja niður frá Davíðsborg.

16 Næstur á eftir honum hlóð upp Nehemía Asbúksson, höfðingi yfir hálfu Bet Súrhéraði, þar til komið var gegnt gröfum Davíðs og að tilbúnu tjörninni og kappahúsinu.

17 Næstir á eftir honum hlóðu upp levítarnir, og var Rehúm Baníson fyrir þeim. Næstur þeim hlóð upp Hasabja, höfðingi yfir hálfu Kegíluhéraði, fyrir sitt hérað.

18 Næstir á eftir honum hlóðu upp bræður þeirra og fyrir þeim Bavvaí Henadadsson, höfðingi yfir hinum helming Kegíluhéraðs.

19 Næstur þeim hlóð upp Eser Jesúason, höfðingi yfir Mispa, annan part, gegnt þar sem gengið er upp í vopnabúrið á horninu.

20 Næstur á eftir honum, upp fjallið, hlóð upp Barúk Sabbaíson, annan part, frá horninu að dyrunum á húsi Eljasíbs æðsta prests.

21 Næstur á eftir honum hlóð upp Meremót Úríason, Hakkóssonar, annan part, frá dyrunum á húsi Eljasíbs að endanum á húsi Eljasíbs.

22 Næstir á eftir honum hlóðu upp prestarnir, menn þar úr grenndinni.

23 Næstir á eftir þeim hlóðu upp þeir Benjamín og Hassúb, gegnt húsi sínu. Næstur á eftir þeim hlóð upp Asarja Maasejason, Ananjasonar, hjá húsi sínu.

24 Næstur á eftir honum hlóð upp Binnúí Henadadsson, annan part, frá húsi Asarja að horninu, þar að sem múrinn beygir við.

25 Palal Úsaíson gegnt horninu og efri turninum, sem gengur út úr höll konungs og heyrir til varðgarðsins. Næstur á eftir honum Pedaja Parósson.

26 En musterisþjónarnir bjuggu í Ófel, austur á móts við Vatnshliðið og turninn, er þar gengur fram.

27 Næstir á eftir honum hlóðu upp Tekóamenn, annan part, gegnt stóra turninum, er þar gekk fram, allt að Ófelmúrnum.

28 Fyrir ofan Hrossahliðið hlóðu prestarnir upp hver gegnt húsi sínu.

29 Næstur á eftir þeim hlóð upp Sadók Immersson gegnt húsi sínu. Næstur á eftir honum hlóð upp Semaja Sekanjason, vörður Austurhliðsins.

30 Næstir á eftir honum hlóðu upp þeir Hananja Selemjason og Hanún, sjötti sonur Salafs, annan part. Næstur á eftir þeim hlóð upp Mesúllam Berekíason, gegnt klefa sínum.

31 Næstur á eftir honum hlóð upp Malkía, einn af gullsmiðunum, allt að húsi musterisþjónanna, og kaupmennirnir gegnt Mífkaðhliðinu og allt að hornsvölunum.

32 Og milli hornsvalanna og Sauðahliðsins hlóðu gullsmiðirnir og kaupmennirnir.

Postulasagan 13

13 Í söfnuðinum í Antíokkíu voru spámenn og kennarar. Þar voru þeir Barnabas, Símeon, nefndur Níger, Lúkíus frá Kýrene, Manaen, samfóstri Heródesar fjórðungsstjóra, og Sál.

Eitt sinn er þeir voru að þjóna Drottni og föstuðu sagði heilagur andi: "Skiljið frá mér til handa þá Barnabas og Sál til þess verks, sem ég hef kallað þá til."

Síðan föstuðu þeir og báðust fyrir, lögðu hendur yfir þá og létu þá fara.

Þeir fóru nú, sendir af heilögum anda, til Selevkíu og sigldu þaðan til Kýpur.

Þegar þeir voru komnir til Salamis, boðuðu þeir orð Guðs í samkunduhúsum Gyðinga. Höfðu þeir og Jóhannes til aðstoðar.

Þeir fóru um alla eyna, allt til Pafos. Þar fundu þeir töframann nokkurn og falsspámann, Gyðing, er hét Barjesús.

Hann var hjá landstjóranum Sergíusi Páli, hyggnum manni, sem hafði boðað þá Barnabas og Sál á fund sinn og fýsti að heyra Guðs orð.

Gegn þeim stóð Elýmas, töframaðurinn, en svo er nafn hans útlagt. Reyndi hann að gjöra landstjórann fráhverfan trúnni.

En Sál, sem og er nefndur Páll, hvessti á hann augun og sagði, fylltur heilögum anda:

10 "Þú djöfuls sonur, fullur allra véla og flærðar, óvinur alls réttlætis, ætlar þú aldrei að hætta að rangsnúa réttum vegum Drottins?

11 Nú er hönd Drottins reidd gegn þér, og þú munt verða blindur og ekki sjá sól um tíma." Jafnskjótt féll yfir hann þoka og myrkur, og hann reikaði um og leitaði einhvers til að leiða sig.

12 Þegar landstjórinn sá þennan atburð, varð hann gagntekinn af kenningu Drottins og tók trú.

13 Þeir Páll lögðu út frá Pafos og komu til Perge í Pamfýlíu, en Jóhannes skildi við þá og sneri aftur til Jerúsalem.

14 Sjálfir héldu þeir áfram frá Perge og komu til Antíokkíu í Pisidíu, gengu á hvíldardegi inn í samkunduhúsið og settust.

15 En eftir upplestur úr lögmálinu og spámönnunum sendu samkundustjórarnir til þeirra og sögðu: "Bræður, ef þér hafið einhver hvatningarorð til fólksins, takið þá til máls."

16 Þá stóð Páll upp, benti til hljóðs með hendinni og sagði: "Ísraelsmenn og aðrir þér, sem óttist Guð, hlýðið á.

17 Guð lýðs þessa, Ísraels, útvaldi feður vora og hóf upp lýðinn í útlegðinni í Egyptalandi. Með upplyftum armi leiddi hann þá út þaðan.

18 Og um fjörutíu ára skeið fóstraði hann þá í eyðimörkinni.

19 Hann stökkti burt sjö þjóðum úr Kanaanslandi og gaf þeim land þeirra til eignar.

20 Svo stóð um fjögur hundruð og fimmtíu ára skeið. Eftir þetta gaf hann þeim dómara allt til Samúels spámanns.

21 Síðan báðu þeir um konung, og Guð gaf þeim Sál Kísson, mann af Benjamíns ætt. Hann ríkti í fjörutíu ár.

22 Þegar Guð hafði sett hann af, hóf hann Davíð til konungs yfir þeim. Um hann vitnaði hann: ,Ég hef fundið Davíð, son Ísaí, mann eftir mínu hjarta, er gjöra mun allan vilja minn.`

23 Af kyni hans sendi Guð Ísrael frelsara, Jesú, samkvæmt fyrirheiti.

24 En áður en hann kom fram, boðaði Jóhannes öllum Ísraelslýð iðrunarskírn.

25 Þegar Jóhannes var að enda skeið sitt, sagði hann: ,Hvern hyggið þér mig vera? Ekki er ég hann. Annar kemur eftir mig, og er ég eigi verður þess að leysa skó af fótum honum.`

26 Bræður, niðjar Abrahams, og aðrir yðar á meðal, sem óttist Guð, oss er sent orð þessa hjálpræðis.

27 Þeir, sem í Jerúsalem búa, og höfðingjar þeirra þekktu hann eigi né skildu orð spámannanna, sem upp eru lesin hvern hvíldardag, en uppfylltu þau með því að dæma hann.

28 Þótt þeir fyndu enga dauðasök hjá honum, báðu þeir Pílatus að láta lífláta hann.

29 En er þeir höfðu fullnað allt, sem um hann var ritað, tóku þeir hann ofan af krossinum og lögðu í gröf.

30 En Guð vakti hann frá dauðum.

31 Marga daga birtist hann þeim, sem með honum fóru frá Galíleu upp til Jerúsalem, og eru þeir nú vottar hans hjá fólkinu.

32 Og vér flytjum yður þau gleðiboð,

33 að fyrirheitið, sem Guð gaf feðrum vorum, hefur hann efnt við oss börn þeirra með því að reisa Jesú upp. Svo er ritað í öðrum sálminum: Þú ert sonur minn, í dag hef ég fætt þig.

34 En um það, að hann reisti hann frá dauðum, svo að hann hverfur aldrei aftur í greipar dauðans, hefur hann talað þannig: Yður mun ég veita heilögu, óbrigðulu fyrirheitin, sem Davíð voru gefin.

35 Á öðrum stað segir: Eigi munt þú láta þinn heilaga verða rotnun að bráð.

36 Davíð þjónaði sinni kynslóð að Guðs ráði. Síðan sofnaði hann, safnaðist til feðra sinna og varð rotnun að bráð.

37 En sá, sem Guð uppvakti, varð ekki rotnun að bráð.

38 Það skuluð þér því vita, bræður, að yður er fyrir hann boðuð fyrirgefning syndanna

39 og að sérhver, er trúir, réttlætist í honum af öllu því, er lögmál Móse gat ekki réttlætt yður af.

40 Gætið nú þess, að eigi komi það yfir yður, sem sagt er hjá spámönnunum:

41 Sjáið, þér spottarar, undrist, og verðið að engu, því að verk vinn ég á dögum yðar, verk, sem þér alls ekki munduð trúa, þótt einhver segði yður frá því."

42 Þegar þeir gengu út, báðu menn um, að mál þetta yrði rætt við þá aftur næsta hvíldardag.

43 Og er samkomunni var slitið, fylgdu margir Gyðingar og guðræknir menn, sem tekið höfðu trú Gyðinga, þeim Páli og Barnabasi. En þeir töluðu við þá og brýndu fyrir þeim að halda sér fast við náð Guðs.

44 Næsta hvíldardag komu nálega allir bæjarmenn saman til að heyra orð Drottins.

45 En er Gyðingar litu mannfjöldann, fylltust þeir ofstæki og mæltu gegn orðum Páls með guðlasti.

46 Páll og Barnabas svöruðu þá einarðlega: "Svo hlaut að vera, að orð Guðs væri fyrst flutt yður. Þar sem þér nú vísið því á bug og metið sjálfa yður ekki verða eilífs lífs, þá snúum vér oss nú til heiðingjanna.

47 Því að svo hefur Drottinn boðið oss: Ég hef sett þig til að vera ljós heiðinna þjóða, að þú sért hjálpræði allt til endimarka jarðar."

48 En er heiðingjar heyrðu þetta, glöddust þeir og vegsömuðu orð Guðs, og allir þeir, sem ætlaðir voru til eilífs lífs, tóku trú.

49 Og orð Drottins breiddist út um allt héraðið.

50 En Gyðingar æstu upp guðræknar hefðarkonur og fyrirmenn borgarinnar og vöktu ofsókn gegn Páli og Barnabasi og ráku þá burt úr byggðum sínum.

51 En þeir hristu dustið af fótum sér móti þeim og fóru til Íkóníum.

52 En lærisveinarnir voru fylltir fögnuði og heilögum anda.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society