Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Fyrsta bók Móse 13

13 Og Abram fór frá Egyptalandi með konu sína og allt, sem hann átti, og Lot fór með honum, til Suðurlandsins.

Abram var stórauðugur að kvikfé, silfri og gulli.

Og hann flutti sig smátt og smátt sunnan að allt til Betel, til þess staðar, er tjald hans hafði áður verið, milli Betel og Aí,

til þess staðar, þar sem hann áður hafði reist altarið. Og Abram ákallaði þar nafn Drottins.

Lot, sem fór með Abram, átti og sauði, naut og tjöld.

Og landið bar þá ekki, svo að þeir gætu saman verið, því að eign þeirra var mikil, og þeir gátu ekki saman verið.

Og sundurþykkja reis milli fjárhirða Abrams og fjárhirða Lots. _ En Kanaanítar og Peresítar bjuggu þá í landinu.

Þá mælti Abram við Lot: "Engin misklíð sé milli mín og þín og milli minna og þinna fjárhirða, því að við erum frændur.

Liggur ekki allt landið opið fyrir þér? Skil þig heldur við mig. Viljir þú fara til vinstri handar, þá fer ég til hægri; og viljir þú fara til hægri handar, þá fer ég til vinstri."

10 Þá hóf Lot upp augu sín og sá, að allt Jórdansléttlendið, allt til Sóar, var vatnsríkt land, eins og aldingarður Drottins, eins og Egyptaland. (Þetta var áður en Drottinn eyddi Sódómu og Gómorru.)

11 Og Lot kaus sér allt Jórdansléttlendið, og Lot flutti sig austur á við, og þannig skildu þeir.

12 Abram bjó í Kanaanlandi, en Lot bjó í borgunum á sléttlendinu og færði tjöld sín allt til Sódómu.

13 En mennirnir í Sódómu voru vondir og stórsyndarar fyrir Drottni.

14 Drottinn sagði við Abram, eftir að Lot hafði skilið við hann: "Hef þú upp augu þín, og litast um frá þeim stað, sem þú ert á, til norðurs, suðurs, austurs og vesturs.

15 Því að allt landið, sem þú sér, mun ég gefa þér og niðjum þínum ævinlega.

16 Og ég mun gjöra niðja þína sem duft jarðar, svo að geti nokkur talið duft jarðarinnar, þá skulu einnig niðjar þínir verða taldir.

17 Tak þig nú upp og far þú um landið þvert og endilangt, því að þér mun ég gefa það."

18 Og Abram færði sig með tjöld sín og kom og settist að í Mamrelundi, sem er í Hebron, og reisti Drottni þar altari.

Matteusarguðspjall 12

12 Um þessar mundir fór Jesús um sáðlönd á hvíldardegi. Lærisveinar hans kenndu hungurs og tóku að tína kornöx og eta.

Þegar farísear sáu það, sögðu þeir við hann: "Lít á, lærisveinar þínir gjöra það, sem ekki er leyft að gjöra á hvíldardegi."

Hann svaraði þeim: "Hafið þér eigi lesið, hvað Davíð gjörði, þegar hann hungraði og menn hans?

Hann fór inn í Guðs hús, og þeir átu skoðunarbrauðin, sem hvorki hann né menn hans og engir nema prestarnir máttu eta.

Eða hafið þér ekki lesið í lögmálinu, að prestar vanhelga hvíldardaginn í musterinu á hvíldardögum, og eru þó án saka?

En ég segi yður: Hér er meira en musterið.

Ef þér hefðuð skilið, hvað felst í orðunum: ,Miskunnsemi vil ég, ekki fórnir,` munduð þér ekki hafa sakfellt saklausa menn.

Því að Mannssonurinn er herra hvíldardagsins."

Hann fór þaðan og kom í samkundu þeirra.

10 Þar var maður með visna hönd. Og þeir spurðu Jesú: "Er leyfilegt að lækna á hvíldardegi?" Þeir hugðust kæra hann.

11 Hann svarar þeim: "Nú á einhver yðar eina sauðkind, og hún fellur í gryfju á hvíldardegi. Mundi hann ekki taka hana og draga upp úr?

12 Hve miklu er þó maðurinn sauðkindinni fremri! Það er því leyfilegt að gjöra góðverk á hvíldardegi."

13 Síðan segir hann við manninn: "Réttu fram hönd þína." Hann rétti fram höndina, og hún varð heil sem hin.

14 Þá gengu farísearnir út og tóku saman ráð sín gegn honum, hvernig þeir gætu náð lífi hans.

15 Þegar Jesús varð þess vís, fór hann þaðan. Margir fylgdu honum, og alla læknaði hann.

16 En hann lagði ríkt á við þá, að þeir gjörðu hann eigi kunnan.

17 Þannig rættist það, sem sagt er fyrir munn Jesaja spámanns:

18 Sjá þjón minn, sem ég hef útvalið, minn elskaða, sem sál mín hefur þóknun á. Ég mun láta anda minn koma yfir hann, og hann mun boða þjóðunum rétt.

19 Eigi mun hann þrátta né hrópa, og eigi mun raust hans heyrast á strætum.

20 Brákaðan reyr brýtur hann ekki, og rjúkandi hörkveik mun hann ekki slökkva, uns hann hefur leitt réttinn til sigurs.

21 Á nafn hans munu þjóðirnar vona.

22 Þá var færður til hans maður haldinn illum anda, blindur og mállaus. Hann læknaði hann, svo að hinn dumbi gat talað og séð.

23 Allt fólkið varð furðu lostið og sagði: "Hann er þó ekki sonur Davíðs?"

24 Þegar farísear heyrðu það, sögðu þeir: "Þessi rekur ekki út illa anda nema með fulltingi Beelsebúls, höfðingja illra anda."

25 En Jesús vissi hugsanir þeirra og sagði við þá: "Hvert það ríki, sem er sjálfu sér sundurþykkt, leggst í auðn, og hver sú borg eða heimili, sem er sjálfu sér sundurþykkt, fær ekki staðist.

26 Ef Satan rekur Satan út, er hann sjálfum sér sundurþykkur. Hvernig fær ríki hans þá staðist?

27 Og ef ég rek illu andana út með fulltingi Beelsebúls, með hverju reka þá yðar menn þá út? Því skulu þeir vera dómarar yðar.

28 En ef ég rek illu andana út með Guðs anda, þá er Guðs ríki þegar yfir yður komið.

29 Eða hvernig fær nokkur brotist inn í hús hins sterka og rænt föngum hans, nema hann bindi áður hinn sterka, þá getur hann rænt hús hans.

30 Hver sem er ekki með mér, er á móti mér, og hver sem safnar ekki saman með mér, hann sundurdreifir.

31 Þess vegna segi ég yður: Hver synd og guðlöstun verður mönnum fyrirgefin, en guðlast gegn andanum verður ekki fyrirgefið.

32 Hverjum sem mælir gegn Mannssyninum, verður það fyrirgefið, en þeim sem mælir gegn heilögum anda, verður ekki fyrirgefið, hvorki í þessum heimi né í hinum komanda.

33 Annaðhvort er tréð gott og ávöxturinn góður eða tréð vont og ávöxturinn vondur. Því af ávextinum þekkist tréð.

34 Þér nöðru kyn, hvernig getið þér, sem eruð vondir, talað gott? Af gnægð hjartans mælir munnurinn.

35 Góður maður ber gott fram úr góðum sjóði, en vondur maður ber vont fram úr vondum sjóði.

36 En ég segi yður: Hvert ónytjuorð, sem menn mæla, munu þeir verða að svara fyrir á dómsdegi.

37 Því af orðum þínum muntu sýknaður, og af orðum þínum muntu sakfelldur verða."

38 Þá sögðu nokkrir fræðimenn og farísear við hann: "Meistari, vér viljum sjá þig gjöra tákn."

39 Hann svaraði þeim: "Vond og ótrú kynslóð heimtar tákn, en eigi verður henni annað tákn gefið en tákn Jónasar spámanns.

40 Jónas var í kviði stórhvelisins þrjá daga og þrjár nætur, og eins mun Mannssonurinn vera þrjá daga og þrjár nætur í skauti jarðar.

41 Nínívemenn munu koma fram í dóminum ásamt kynslóð þessari og sakfella hana, því að þeir gjörðu iðrun við prédikun Jónasar, og hér er meira en Jónas.

42 Drottning Suðurlanda mun rísa upp í dóminum ásamt þessari kynslóð og sakfella hana, því að hún kom frá endimörkum jarðar að heyra speki Salómons, og hér er meira en Salómon.

43 Þegar óhreinn andi fer út af manni, reikar hann um eyðihrjóstur og leitar hælis, en finnur ekki.

44 Þá segir hann: ,Ég vil hverfa aftur í hús mitt, þaðan sem ég fór.` Og er hann kemur og finnur það tómt, sópað og prýtt,

45 fer hann og tekur með sér sjö aðra anda sér verri, og þeir fara inn og setjast þar að, og verður svo hlutur þess manns verri eftir en áður. Eins mun fara fyrir þessari vondu kynslóð."

46 Meðan hann var enn að tala við fólkið kom móðir hans og bræður. Þau stóðu úti og vildu tala við hann.

47 Einhver sagði við hann: "Móðir þín og bræður standa hér úti og vilja tala við þig."

48 Jesús svaraði þeim, er við hann mælti: "Hver er móðir mín, og hverjir eru bræður mínir?"

49 Og hann rétti út höndina yfir lærisveina sína og sagði: "Hér er móðir mín og bræður mínir.

50 Hver sem gjörir vilja föður míns, sem er á himnum, sá er bróðir minn, systir og móðir."

Nehemíabók 2

Í nísanmánuði á tuttugasta ríkisári Artahsasta konungs, þá er vín stóð fyrir framan konung, tók ég vínið og rétti að honum, án þess að láta á því bera við hann, hve illa lá á mér.

En konungur sagði við mig: "Hví ert þú svo dapur í bragði, þar sem þú ert þó ekki sjúkur? Það hlýtur að liggja illa á þér." Þá varð ég ákaflega hræddur.

Og ég sagði við konung: "Konungurinn lifi eilíflega! Hví skyldi ég ekki vera dapur í bragði, þar sem borgin, er geymir grafir forfeðra minna, er í eyði lögð og hlið hennar í eldi brennd?"

Þá sagði konungur við mig: "Hvers beiðist þú þá?" Þá gjörði ég bæn mína til Guðs himnanna;

síðan mælti ég til konungs: "Ef konungi þóknast svo og ef þú telur þjón þinn til þess færan, þá send mig til Júda, til borgar þeirrar, er geymir grafir forfeðra minna, til þess að ég endurreisi hana."

Konungur mælti til mín _ en drottning sat við hlið honum: "Hversu lengi mun ferð þín standa yfir, og hvenær kemur þú aftur?" Og konungi þóknaðist að senda mig, og ég tiltók ákveðinn tíma við hann.

Og ég sagði við konung: "Ef konunginum þóknast svo, þá lát fá mér bréf til landstjóranna í héraðinu hinumegin Fljóts, til þess að þeir leyfi mér að fara um lönd sín, þar til er ég kem til Júda,

og bréf til Asafs, skógarvarðar konungsins, til þess að hann láti mig fá við til þess að gjöra af bjálka í hlið kastalans, er heyrir til musterisins, og til borgarmúranna og til hússins, er ég mun fara í." Og konungur veitti mér það, með því að hönd Guðs míns hvíldi náðarsamlega yfir mér.

Og er ég kom til landstjóranna í héraðinu hinumegin Fljóts, þá fékk ég þeim bréf konungs. Konungur sendi og með mér höfuðsmenn og riddara.

10 En er Sanballat Hóroníti og Tobía þjónn, Ammónítinn, spurðu það, gramdist þeim það mikillega, að kominn skyldi vera maður til að annast hagsmuni Ísraelsmanna.

11 Og ég kom til Jerúsalem, og er ég hafði verið þar þrjá daga,

12 fór ég á fætur um nótt og fáeinir menn með mér, án þess að hafa sagt nokkrum manni frá því, er Guð minn blés mér í brjóst að gjöra fyrir Jerúsalem, og án þess að nokkur skepna væri með mér, nema skepnan, sem ég reið.

13 Og ég fór út um Dalshliðið um nóttina og í áttina til Drekalindar og Mykjuhliðs, og ég skoðaði múra Jerúsalem, hversu þeir voru rifnir niður og hlið hennar í eldi brennd.

14 Síðan hélt ég áfram til Lindarhliðs og Konungstjarnar. Þá var skepnunni ekki lengur fært að komast áfram undir mér.

15 Gekk ég þá upp í dalinn um nóttina og skoðaði múrinn. Síðan kom ég aftur inn um Dalshliðið og sneri heim.

16 En yfirmennirnir vissu ekki, hvert ég hafði farið né hvað ég ætlaði að gjöra, með því að ég hafði enn ekki neitt sagt Gyðingum né prestunum né tignarmönnunum né yfirmönnunum né öðrum þeim, er að verkinu unnu.

17 Og ég sagði nú við þá: "Þér sjáið, hversu illa vér erum staddir, þar sem Jerúsalem er í eyði lögð og hlið hennar í eldi brennd. Komið, vér skulum endurreisa múra Jerúsalem, svo að vér verðum ekki lengur hafðir að spotti."

18 Og ég sagði þeim, hversu náðarsamlega hönd Guðs míns hefði hvílt yfir mér, svo og orð konungs, þau er hann talaði til mín. Þá sögðu þeir: "Vér viljum fara til og byggja!" Og þeir styrktu hendur sínar til hins góða verksins.

19 En er Sanballat Hóroníti og Tobía þjónn, Ammónítinn, og Gesem Arabi spurðu þetta, gjörðu þeir gys að oss, sýndu oss fyrirlitningu og sögðu: "Hvað er þetta, sem þér hafið fyrir stafni? Ætlið þér að gjöra uppreisn móti konunginum?"

20 En ég svaraði þeim og sagði við þá: "Guð himnanna, hann mun láta oss takast þetta, en vér þjónar hans munum fara til og byggja. En þér eigið enga hlutdeild né rétt né minning í Jerúsalem."

Postulasagan 12

12 Um þessar mundir lét Heródes konungur leggja hendur á nokkra úr söfnuðinum og misþyrma þeim.

Hann lét höggva Jakob bróður Jóhannesar með sverði.

Og er hann sá, að Gyðingum líkaði vel, lét hann einnig taka Pétur. Þá voru dagar ósýrðu brauðanna.

Þegar hann hafði handtekið hann, lét hann setja hann í fangelsi og fól fjórum fjögurra hermanna varðflokkum að gæta hans. Ætlaði hann eftir páska að leiða hann fram fyrir lýðinn.

Sat nú Pétur í fangelsinu, en söfnuðurinn bað heitt til Guðs fyrir honum.

Nóttina áður en Heródes ætlaði að leiða hann fram svaf Pétur milli tveggja hermanna, bundinn tveim fjötrum, og varðmenn fyrir dyrum úti gættu fangelsisins.

Allt í einu stóð engill Drottins hjá honum og ljós skein í klefanum. Laust hann á síðu Pétri, vakti hann og mælti: "Rís upp skjótt!" Og fjötrarnir féllu af höndum hans.

Þá sagði engillinn við hann: "Gyrð þig og bind á þig skóna!" Hann gjörði svo. Síðan segir engillinn: "Far þú í yfirhöfn þína og fylg mér!"

Hann gekk út og fylgdi honum. En ekki vissi hann, að það var raunverulegt, sem gjörst hafði við komu engilsins, hann hélt sig sjá sýn.

10 Þeir gengu nú fram hjá innri og ytri verðinum og komu að járnhliðinu, sem farið er um til borgarinnar. Laukst það upp af sjálfu sér fyrir þeim. Þeir fóru út um það og gengu eitt stræti, en þá hvarf engillinn allt í einu frá honum.

11 Þegar Pétur kom til sjálfs sín, sagði hann: "Nú veit ég sannlega, að Drottinn hefur sent engil sinn og bjargað mér úr hendi Heródesar og frá allri ætlan Gyðingalýðs."

12 Og er hann hafði áttað sig, gekk hann að húsi Maríu, móður Jóhannesar, er kallast Markús. Þar höfðu margir safnast saman og voru á bæn.

13 Hann knúði hurð fordyrisins, og stúlka að nafni Róde gekk til dyra.

14 Þegar hún þekkti málróm Péturs, gáði hún eigi fyrir fögnuði að ljúka upp fordyrinu, heldur hljóp inn og sagði, að Pétur stæði fyrir dyrum úti.

15 Þeir sögðu við hana: "Þú ert frávita." En hún stóð fast á því, að svo væri sem hún sagði. "Það er þá engill hans," sögðu þeir.

16 En Pétur hélt áfram að berja, og þegar þeir luku upp, sáu þeir hann og urðu furðu lostnir.

17 Hann benti þeim með hendinni að vera hljóðir, skýrði þeim frá, hvernig Drottinn hafði leitt hann út úr fangelsinu, og bað þá segja Jakobi og bræðrunum frá þessu. Síðan gekk hann út og fór í annan stað.

18 Þegar dagur rann, kom ekki lítið fát á hermennina út af því, hvað af Pétri væri orðið.

19 Heródes lét leita hans, en fann hann ekki. Hann lét þá yfirheyra varðmennina og bauð síðan að taka þá af lífi. Síðan fór hann úr Júdeu niður til Sesareu og sat þar um kyrrt.

20 Heródes hafði verið harla gramur Týrverjum og Sídóningum. Komu þeir saman á fund hans, fengu Blastus, stallara konungs, til fylgis við sig og báðust friðar, en land þeirra var háð landi konungs um vistaföng.

21 Á tilsettum degi klæddist Heródes konungsskrúða, settist í hásæti og flutti þeim ræðu.

22 En lýðurinn kallaði: "Guðs rödd er þetta, en eigi manns."

23 Jafnskjótt laust engill Drottins hann, sökum þess að hann gaf ekki Guði dýrðina. Hann varð ormétinn og dó.

24 En orð Guðs efldist og breiddist út.

25 Barnabas og Sál sneru aftur frá Jerúsalem að loknu erindi sínu og tóku með sér Jóhannes, öðru nafni Markús.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society