Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Fyrsta bók Móse 12

12 Drottinn sagði við Abram: "Far þú burt úr landi þínu og frá ættfólki þínu og úr húsi föður þíns, til landsins, sem ég mun vísa þér á.

Ég mun gjöra þig að mikilli þjóð og blessa þig og gjöra nafn þitt mikið, og blessun skalt þú vera.

Ég mun blessa þá, sem þig blessa, en bölva þeim, sem þér formælir, og af þér skulu allar ættkvíslir jarðarinnar blessun hljóta."

Þá lagði Abram af stað, eins og Drottinn hafði sagt honum, og Lot fór með honum. En Abram var sjötíu og fimm ára að aldri, er hann fór úr Harran.

Abram tók Saraí konu sína og Lot bróðurson sinn og alla fjárhluti, sem þeir höfðu eignast, og þær sálir, er þeir höfðu fengið í Harran. Og þeir lögðu af stað og héldu til Kanaanlands. Þeir komu til Kanaanlands.

Og Abram fór um landið, allt þangað er Síkem heitir, allt til Mórelundar. En þá voru Kanaanítar í landinu.

Þá birtist Drottinn Abram og sagði við hann: "Niðjum þínum vil ég gefa þetta land." Og hann reisti þar altari Drottni, sem hafði birst honum.

Þaðan hélt hann til fjallanna fyrir austan Betel og setti þar tjöld sín, svo að Betel var í vestur, en Aí í austur. Og hann reisti þar Drottni altari og ákallaði nafn Drottins.

Og Abram færði sig smátt og smátt til Suðurlandsins.

10 En hallæri varð í landinu. Þá fór Abram til Egyptalands til að dveljast þar um hríð, því að hallærið var mikið í landinu.

11 Og er hann var kominn langt á leið til Egyptalands, sagði hann við Saraí konu sína: "Sjá, ég veit að þú ert kona fríð sýnum.

12 Það mun því fara svo, að þegar Egyptar sjá þig, þá munu þeir segja: ,Þetta er kona hans,` og drepa mig, en þig munu þeir láta lífi halda.

13 Segðu fyrir hvern mun, að þú sért systir mín, svo að mér megi líða vel fyrir þínar sakir og ég megi lífi halda þín vegna."

14 Er Abram kom til Egyptalands, sáu Egyptar, að konan var mjög fríð.

15 Og höfðingjar Faraós sáu hana og létu mikið af henni við Faraó, og konan var tekin í hús Faraós.

16 Og hann gjörði vel við Abram hennar vegna, og hann eignaðist sauði, naut og asna, þræla og ambáttir, ösnur og úlfalda.

17 En Drottinn þjáði Faraó og hús hans með miklum plágum vegna Saraí, konu Abrams.

18 Þá kallaði Faraó Abram til sín og mælti: "Hví hefir þú gjört mér þetta? Hví sagðir þú mér ekki, að hún væri kona þín?

19 Hví sagðir þú: ,Hún er systir mín,` svo að ég tók hana mér fyrir konu? En þarna er nú konan þín, tak þú hana og far burt."

20 Og Faraó skipaði svo fyrir um Abram, að menn sínir skyldu fylgja honum á braut og konu hans með öllu, sem hann átti.

Matteusarguðspjall 11

11 Þá er Jesús hafði mælt svo fyrir við lærisveina sína tólf, hélt hann þaðan að kenna og prédika í borgum þeirra.

Jóhannes heyrði í fangelsinu um verk Krists. Þá sendi hann honum orð með lærisveinum sínum og spurði:

"Ert þú sá, sem koma skal, eða eigum vér að vænta annars?"

Jesús svaraði þeim: "Farið og kunngjörið Jóhannesi það, sem þér heyrið og sjáið:

Blindir fá sýn og haltir ganga, líkþráir hreinsast og daufir heyra, dauðir rísa upp, og fátækum er flutt fagnaðarerindi.

Og sæll er sá, sem hneykslast ekki á mér."

Þegar þeir voru farnir, tók Jesús að tala til mannfjöldans um Jóhannes: "Hvað fóruð þér að sjá í óbyggðum? Reyr af vindi skekinn?

Hvað fóruð þér að sjá? Prúðbúinn mann? Nei, prúðbúna menn er að finna í sölum konunga.

Til hvers fóruð þér? Að sjá spámann? Já, segi ég yður, og það meira en spámann.

10 Hann er sá, sem um er ritað: Sjá, ég sendi sendiboða minn á undan þér, er greiða mun veg þinn fyrir þér.

11 Sannlega segi ég yður: Enginn er sá af konu fæddur, sem meiri sé en Jóhannes skírari. En hinn minnsti í himnaríki er honum meiri.

12 Frá dögum Jóhannesar skírara og til þessa er ríki himnanna ofríki beitt, og ofríkismenn vilja hremma það.

13 Spámennirnir allir og lögmálið, allt fram að Jóhannesi, sögðu fyrir um þetta.

14 Og ef þér viljið við því taka, þá er hann Elía sá, sem koma skyldi.

15 Hver sem eyru hefur, hann heyri.

16 Við hvað á ég að líkja þessari kynslóð? Lík er hún börnum, sem á torgum sitja og kallast á:

17 ,Vér lékum fyrir yður á flautu og ekki vilduð þér dansa. Vér sungum yður sorgarljóð, og ekki vilduð þér syrgja.`

18 Jóhannes kom, át hvorki né drakk, og menn segja: ,Hann hefur illan anda.`

19 Mannssonurinn kom, át og drakk, og menn segja: ,Hann er mathákur og vínsvelgur, vinur tollheimtumanna og bersyndugra!` En spekin sannast af verkum sínum."

20 Þá tók hann að ávíta borgirnar, þar sem hann hafði gjört flest kraftaverk sín, fyrir að hafa ekki gjört iðrun.

21 "Vei þér, Korasín! Vei þér, Betsaída! Ef gjörst hefðu í Týrus og Sídon kraftaverkin, sem gjörðust í ykkur, hefðu þær löngu iðrast í sekk og ösku.

22 En ég segi ykkur: Týrus og Sídon mun bærilegra á dómsdegi en ykkur.

23 Og þú Kapernaum. Verður þú hafin til himins? Nei, til heljar mun þér steypt verða. Ef gjörst hefðu í Sódómu kraftaverkin, sem gjörðust í þér, þá stæði hún enn í dag.

24 En ég segi yður: Landi Sódómu mun bærilegra á dómsdegi en þér."

25 Á þeim tíma tók Jesús svo til orða: "Ég vegsama þig, faðir, herra himins og jarðar, að þú hefur hulið þetta spekingum og hyggindamönnum, en opinberað það smælingjum.

26 Já, faðir, svo var þér þóknanlegt.

27 Allt er mér falið af föður mínum, og enginn þekkir soninn nema faðirinn, né þekkir nokkur föðurinn nema sonurinn og sá er sonurinn vill opinbera hann.

28 Komið til mín, allir þér sem erfiði hafið og þungar byrðar, og ég mun veita yður hvíld.

29 Takið á yður mitt ok og lærið af mér, því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur, og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar.

30 Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt."

Nehemíabók 1

Frásögn Nehemía Hakalíasonar. Í kislevmánuði tuttugasta árið, þá er ég var í borginni Súsa,

kom Hananí, einn af bræðrum mínum, ásamt nokkrum mönnum frá Júda. Spurði ég þá um Gyðinga, þá er undan komust, þá er eftir voru af hinum herleiddu, og um Jerúsalem.

Og þeir svöruðu mér: "Leifarnar _ þeir er eftir eru af hinum herleiddu þar í skattlandinu, eru mjög illa staddir og í fyrirlitningu, með því að múrar Jerúsalem eru niður brotnir og borgarhliðin í eldi brennd."

Þegar ég heyrði þessi tíðindi, þá settist ég niður og grét og harmaði dögum saman, og ég fastaði og var á bæn til Guðs himnanna.

Og ég sagði: "Æ, Drottinn, Guð himnanna, þú mikli og ógurlegi Guð, sem heldur sáttmálann og miskunnsemina við þá, sem elska hann og varðveita boðorð hans.

Lát eyra þitt vera gaumgæfið og augu þín opin, til þess að þú heyrir bæn þjóns þíns, þá er ég nú bið frammi fyrir þér bæði daga og nætur sakir Ísraelsmanna, þjóna þinna, með því að ég játa syndir Ísraelsmanna, er þeir hafa drýgt móti þér. Ég og ættfólk mitt höfum og syndgað.

Vér höfum breytt illa gagnvart þér og ekki varðveitt boðorðin, lögin og ákvæðin, er þú lagðir fyrir Móse, þjón þinn.

Minnstu orðsins, er þú bauðst Móse, þjóni þínum, segjandi: ,Ef þér bregðið trúnaði, mun ég tvístra yður meðal þjóðanna.

En þegar þér hverfið aftur til mín og varðveitið boðorð mín og breytið eftir þeim _ þótt yðar brottreknu væru yst við skaut himinsins, þá mun ég saman safna þeim þaðan og leiða þá til þess staðar, er ég hefi valið til þess að láta nafn mitt búa þar.`

10 Því að þínir þjónar eru þeir og þinn lýður, er þú frelsaðir með miklum mætti þínum og með sterkri hendi þinni.

11 Æ, herra, lát eyra þitt vera gaumgæfið að bæn þjóns þíns og bæn þjóna þinna, er fúslega óttast nafn þitt. Farsæl þjón þinn í dag og lát hann finna meðaumkun hjá manni þessum." Ég var þá byrlari hjá konungi.

Postulasagan 11

11 En postularnir og bræðurnir í Júdeu heyrðu, að heiðingjarnir hefðu einnig tekið við orði Guðs.

Þegar Pétur kom upp til Jerúsalem, deildu umskurnarmennirnir á hann og sögðu:

"Þú hefur farið inn til óumskorinna manna og etið með þeim."

En Pétur sagði þeim þá alla söguna frá rótum og mælti:

"Ég var að biðjast fyrir í borginni Joppe og sá, frá mér numinn, sýn, hlut nokkurn koma niður, eins og stór dúkur væri látinn síga á fjórum skautum frá himni, og hann kom til mín.

Ég starði á hann og hugði að og sá þá ferfætt dýr jarðar, villidýr, skriðdýr og fugla himins,

og ég heyrði rödd segja við mig: ,Slátra nú, Pétur, og et!`

En ég sagði: ,Nei, Drottinn, engan veginn, því að aldrei hefur neitt vanheilagt né óhreint komið mér í munn.`

Í annað sinn sagði rödd af himni: ,Eigi skalt þú kalla það vanheilagt, sem Guð hefur lýst hreint!`

10 Þetta gjörðist þrem sinnum, og aftur var allt dregið upp til himins.

11 Samstundis stóðu þrír menn við húsið, sem ég var í, sendir til mín frá Sesareu.

12 Og andinn sagði mér að fara með þeim hiklaust. Þessir sex bræður urðu mér einnig samferða, og vér gengum inn í hús mannsins.

13 Hann sagði oss, hvernig hann hefði séð engil standa í húsi sínu, er sagði: ,Send þú til Joppe og lát sækja Símon, er kallast Pétur.

14 Hann mun orð til þín mæla, og fyrir þau munt þú hólpinn verða og allt heimili þitt.`

15 En þegar ég var farinn að tala, kom heilagur andi yfir þá, eins og yfir oss í upphafi.

16 Ég minntist þá orða Drottins, er hann sagði: ,Jóhannes skírði með vatni, en þér skuluð skírðir verða með heilögum anda.`

17 Fyrst Guð gaf þeim nú sömu gjöf og oss, er vér tókum trú á Drottin Jesú Krist, hvernig var ég þá þess umkominn að standa gegn Guði?"

18 Þegar þeir heyrðu þetta, stilltust þeir, og þeir vegsömuðu Guð og sögðu: "Guð hefur þá einnig gefið heiðingjunum afturhvarf til lífs."

19 Þeir, sem dreifst höfðu vegna ofsóknarinnar, sem varð út af Stefáni, fóru allt til Fönikíu, Kýpur og Antíokkíu. En Gyðingum einum fluttu þeir orðið.

20 Nokkrir þeirra voru frá Kýpur og Kýrene, og er þeir komu til Antíokkíu, tóku þeir einnig að tala til Grikkja og boða þeim fagnaðarerindið um Drottin Jesú.

21 Og hönd Drottins var með þeim, og mikill fjöldi tók trú og sneri sér til Drottins.

22 Og fregnin um þá barst til eyrna safnaðarins í Jerúsalem, og þeir sendu Barnabas til Antíokkíu.

23 Þegar hann kom og sá verk Guðs náðar, gladdist hann, og hann áminnti alla um að halda sér fast við Drottin af öllu hjarta.

24 Því hann var góður maður, fullur af heilögum anda og trú. Og mikill fjöldi manna gafst Drottni.

25 Þá fór hann til Tarsus að leita Sál uppi.

26 Þegar hann hafði fundið hann, fór hann með hann til Antíokkíu. Þeir voru síðan saman heilt ár í söfnuðinum og kenndu fjölda fólks. Í Antíokkíu voru lærisveinarnir fyrst kallaðir kristnir.

27 Á þessum dögum komu spámenn frá Jerúsalem til Antíokkíu.

28 Einn þeirra, Agabus að nafni, steig fram, og af gift andans sagði hann fyrir, að mikil hungursneyð mundi koma yfir alla heimsbyggðina. Kom það fram á dögum Kládíusar.

29 En lærisveinarnir samþykktu þá, að hver þeirra skyldi eftir efnum senda nokkuð til hjálpar bræðrunum, sem bjuggu í Júdeu.

30 Þetta gjörðu þeir og sendu það til öldunganna með þeim Barnabasi og Sál.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society