Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Fyrsta bók Móse 9-10

Guð blessaði Nóa og sonu hans og sagði við þá: "Verið frjósamir, margfaldist og uppfyllið jörðina.

Ótti við yður og skelfing skal vera yfir öllum dýrum jarðarinnar, yfir öllum fuglum loftsins, yfir öllu, sem hrærist á jörðinni, og yfir öllum fiskum sjávarins. Á yðar vald er þetta gefið.

Allt sem hrærist og lifir, skal vera yður til fæðu, ég gef yður það allt, eins og grænu jurtirnar.

Aðeins hold, sem sálin, það er blóðið, er í, skuluð þér ekki eta.

En yðar eigin blóðs mun ég hins vegar krefjast. Af hverri skepnu mun ég þess krefjast, og af manninum, af bróður hans, mun ég krefjast lífs mannsins.

Hver sem úthellir mannsblóði, hans blóði skal af manni úthellt verða. Því að eftir Guðs mynd gjörði hann manninn.

En ávaxtist þér og margfaldist og vaxið stórum á jörðinni og margfaldist á henni."

Og Guð mælti þannig við Nóa og sonu hans, sem voru með honum:

"Sjá, ég gjöri minn sáttmála við yður og við niðja yðar eftir yður

10 og við allar lifandi skepnur, sem með yður eru, bæði við fuglana og fénaðinn og öll villidýrin, sem hjá yður eru, allt, sem út gekk úr örkinni, það er öll dýr jarðarinnar.

11 Minn sáttmála vil ég gjöra við yður: Aldrei framar skal allt hold tortímast af vatnsflóði, og aldrei framar mun flóð koma til að eyða jörðina."

12 Og Guð sagði: "Þetta er merki sáttmálans, sem ég gjöri milli mín og yðar og allra lifandi skepna, sem hjá yður eru, um allar ókomnar aldir:

13 Boga minn set ég í skýin, að hann sé merki sáttmálans milli mín og jarðarinnar.

14 Og þegar ég dreg ský saman yfir jörðinni og boginn sést í skýjunum,

15 þá mun ég minnast sáttmála míns, sem er milli mín og yðar og allra lifandi sálna í öllu holdi, og aldrei framar skal vatnið verða að flóði til að tortíma öllu holdi.

16 Og boginn skal standa í skýjunum, og ég mun horfa á hann til þess að minnast hins eilífa sáttmála milli Guðs og allra lifandi sálna í öllu holdi, sem er á jörðinni."

17 Og Guð sagði við Nóa: "Þetta er teikn sáttmálans, sem ég hefi gjört milli mín og alls holds, sem er á jörðinni."

18 Synir Nóa, sem gengu úr örkinni, voru þeir Sem, Kam og Jafet, en Kam var faðir Kanaans.

19 Þessir eru synir Nóa þrír, og frá þeim byggðist öll jörðin.

20 Nói gjörðist akuryrkjumaður og plantaði víngarð.

21 Og hann drakk af víninu og varð drukkinn og lá nakinn í tjaldi sínu.

22 Og Kam, faðir Kanaans, sá nekt föður síns og sagði báðum bræðrum sínum frá, sem úti voru.

23 Þá tóku þeir Sem og Jafet skikkjuna og lögðu á herðar sér og gengu aftur á bak og huldu nekt föður síns, en andlit þeirra sneru undan, svo að þeir sáu ekki nekt föður síns.

24 Er Nói vaknaði af vímunni, varð hann þess áskynja, hvað sonur hans hinn yngri hafði gjört honum.

25 Þá mælti hann: Bölvaður sé Kanaan, auvirðilegur þræll sé hann bræðra sinna.

26 Og hann sagði: Lofaður sé Drottinn, Sems Guð, en Kanaan sé þræll þeirra.

27 Guð gefi Jafet mikið landrými, og hann búi í tjaldbúðum Sems, en Kanaan sé þræll þeirra.

28 Nói lifði eftir flóðið þrjú hundruð og fimmtíu ár.

29 Og allir dagar Nóa voru níu hundruð og fimmtíu ár. Þá andaðist hann.

10 Þetta er ættartala Nóa sona, Sems, Kams og Jafets. Þeim fæddust synir eftir flóðið.

Synir Jafets: Gómer, Magog, Madaí, Javan, Túbal, Mesek og Tíras.

Og synir Gómers: Askenas, Rífat og Tógarma.

Og synir Javans: Elísa, Tarsis, Kittar og Ródanítar.

Út frá þeim kvísluðust þeir, sem byggja eylönd heiðingjanna. Þetta eru synir Jafets eftir löndum þeirra, hver eftir sinni tungu, eftir kynþáttum þeirra og samkvæmt þjóðerni þeirra.

Synir Kams: Kús, Mísraím, Pút og Kanaan.

Og synir Kúss: Seba, Havíla, Sabta, Raema og Sabteka. Og synir Raema: Séba og Dedan.

Kús gat Nimrod. Hann tók að gjörast voldugur á jörðinni.

Hann var mikill veiðimaður fyrir Drottni. Því er máltækið: "Mikill veiðimaður fyrir Drottni eins og Nimrod."

10 Og upphaf ríkis hans var Babel, Erek, Akkad og Kalne í Sínearlandi.

11 Frá þessu landi hélt hann til Assýríu og byggði Níníve, Rehóbót-Ír og Kala,

12 og Resen milli Níníve og Kala, það er borgin mikla.

13 Mísraím gat Lúdíta, Anamíta, Lekabíta, Naftúkíta,

14 Patrúsíta, Kaslúkíta (þaðan eru komnir Filistar) og Kaftóríta.

15 Kanaan gat Sídon, frumgetning sinn, og Het

16 og Jebúsíta, Amoríta, Gírgasíta,

17 Hevíta, Arkíta, Síníta,

18 Arvadíta, Semaríta og Hamatíta. Og síðan breiddust út kynkvíslir Kanaanítanna.

19 Landamerki Kanaanítanna eru frá Sídon um Gerar allt til Gasa, þá er stefnan til Sódómu og Gómorru og Adma og Sebóím, allt til Lasa.

20 Þetta eru synir Kams eftir kynþáttum þeirra, eftir tungum þeirra, samkvæmt löndum þeirra og þjóðerni.

21 En Sem, ættfaðir allra Ebers sona, eldri bróðir Jafets, eignaðist og sonu.

22 Synir Sems: Elam, Assúr, Arpaksad, Lúd og Aram.

23 Og synir Arams: Ús, Húl, Geter og Mas.

24 Arpaksad gat Sela, og Sela gat Eber.

25 Og Eber fæddust tveir synir. Hét annar Peleg, því að á hans dögum greindist fólkið á jörðinni, en bróðir hans hét Joktan.

26 Og Joktan gat Almódad, Salef, Hasarmavet, Jara,

27 Hadóram, Úsal, Dikla,

28 Óbal, Abímael, Seba,

29 Ófír, Havíla og Jóbab. Þessir allir eru synir Joktans.

30 Og bústaður þeirra var frá Mesa til Sefar, til austurfjallanna.

31 Þetta eru synir Sems, eftir ættkvíslum þeirra, eftir tungum þeirra, samkvæmt löndum þeirra, eftir þjóðerni þeirra.

32 Þetta eru ættkvíslir Nóa sona eftir ættartölum þeirra, samkvæmt þjóðerni þeirra, og frá þeim kvísluðust þjóðirnar út um jörðina eftir flóðið.

Matteusarguðspjall 9

Þá sté Jesús í bát og hélt yfir um og kom til borgar sinnar.

Þar færa menn honum lama mann, sem lá í rekkju. Þegar Jesús sá trú þeirra, sagði hann við lama manninn: "Vertu hughraustur, barnið mitt, syndir þínar eru fyrirgefnar."

Nokkrir fræðimenn sögðu þá með sjálfum sér: "Hann guðlastar!"

En Jesús þekkti hugsanir þeirra og sagði: "Hví hugsið þér illt í hjörtum yðar?

Hvort er auðveldara að segja: ,Syndir þínar eru fyrirgefnar` eða: ,Statt upp og gakk`?

En til þess að þér vitið, að Mannssonurinn hefur vald á jörðu að fyrirgefa syndir, þá segi ég þér" _ og nú talar hann við lama manninn: "Statt upp, tak rekkju þína, og far heim til þín!"

Og hann stóð upp og fór heim til sín.

En fólkið, sem horfði á þetta, varð ótta slegið og lofaði Guð, sem gefið hafði mönnum slíkt vald.

Þá er hann gekk þaðan, sá hann mann sitja hjá tollbúðinni, Matteus að nafni, og hann segir við hann: "Fylg þú mér!" Og hann stóð upp og fylgdi honum.

10 Nú bar svo við, er Jesús sat að borði í húsi hans, að margir tollheimtumenn og bersyndugir komu og settust þar með honum og lærisveinum hans.

11 Þegar farísear sáu það, sögðu þeir við lærisveina hans: "Hvers vegna etur meistari yðar með tollheimtumönnum og bersyndugum?"

12 Jesús heyrði þetta og sagði: "Ekki þurfa heilbrigðir læknis við, heldur þeir sem sjúkir eru.

13 Farið og nemið, hvað þetta merkir: ,Miskunnsemi vil ég, ekki fórnir.` Ég er ekki kominn til að kalla réttláta, heldur syndara."

14 Þá koma til hans lærisveinar Jóhannesar og segja: "Hví föstum vér og farísear, en þínir lærisveinar fasta ekki?"

15 Jesús svaraði þeim: "Hvort geta brúðkaupsgestir verið hryggir, meðan brúðguminn er hjá þeim? En koma munu þeir dagar, er brúðguminn verður frá þeim tekinn. Þá munu þeir fasta.

16 Enginn lætur bót af óþæfðum dúk á gamalt fat, því þá rífur bótin út frá sér og verður af verri rifa.

17 Ekki láta menn heldur nýtt vín á gamla belgi, því þá springa belgirnir, og vínið fer niður, en belgirnir ónýtast. Menn láta nýtt vín á nýja belgi, og varðveitist þá hvort tveggja."

18 Meðan hann var að segja þetta við þá, kom forstöðumaður einn, laut honum og sagði: "Dóttir mín var að skilja við, kom og legg hönd þína yfir hana, þá mun hún lifna."

19 Jesús stóð upp og fór með honum og lærisveinar hans.

20 Kona, sem hafði haft blóðlát í tólf ár, kom þá að baki honum og snart fald klæða hans.

21 Hún hugsaði með sér: "Ef ég fæ aðeins snert klæði hans, mun ég heil verða."

22 Jesús sneri sér við, og er hann sá hana, sagði hann: "Vertu hughraust, dóttir, trú þín hefur bjargað þér." Og konan varð heil frá þeirri stundu.

23 Þegar Jesús kom að húsi forstöðumannsins og sá pípuleikara og fólkið í uppnámi,

24 sagði hann: "Farið burt! Stúlkan er ekki dáin, hún sefur." En þeir hlógu að honum.

25 Þegar fólkið hafði verið látið fara, gekk hann inn og tók hönd hennar, og reis þá stúlkan upp.

26 Og þessi tíðindi bárust um allt það hérað.

27 Þá er Jesús hélt þaðan, fóru tveir blindir menn eftir honum og kölluðu: "Miskunna þú okkur, sonur Davíðs."

28 Þegar hann kom heim, gengu blindu mennirnir til hans. Jesús spyr þá: "Trúið þið, að ég geti gjört þetta?" Þeir sögðu: "Já, herra."

29 Þá snart hann augu þeirra og mælti: "Verði ykkur að trú ykkar."

30 Og augu þeirra lukust upp. Jesús lagði ríkt á við þá og sagði: "Gætið þess, að enginn fái að vita þetta."

31 En þeir fóru og víðfrægðu hann í öllu því héraði.

32 Þegar þeir voru að fara, var komið til hans með mállausan mann, haldinn illum anda.

33 Og er illi andinn var út rekinn, tók málleysinginn að mæla. Mannfjöldinn undraðist og sagði: "Aldrei hefur þvílíkt sést í Ísrael."

34 En farísearnir sögðu: "Með fulltingi höfðingja illra anda rekur hann út illu andana."

35 Jesús fór nú um allar borgir og þorp og kenndi í samkundum þeirra. Hann flutti fagnaðarerindið um ríkið og læknaði hvers kyns sjúkdóm og veikindi.

36 En er hann sá mannfjöldann, kenndi hann í brjósti um þá, því þeir voru hrjáðir og umkomulausir eins og sauðir, er engan hirði hafa.

37 Þá sagði hann við lærisveina sína: "Uppskeran er mikil, en verkamenn fáir.

38 Biðjið því herra uppskerunnar að senda verkamenn til uppskeru sinnar."

Esrabók 9

Þegar þessu var lokið, komu höfðingjarnir til mín og sögðu: "Ísraelslýður og prestarnir og levítarnir hafa ekki haldið sér frá hinum heiðnu íbúum landsins, sem skylt hefði verið vegna viðurstyggða þeirra, frá Kanaanítum, Hetítum, Peresítum, Jebúsítum, Ammónítum, Móabítum, Egyptum og Amórítum,

því að þeir hafa tekið sér og sonum sínum konur af dætrum þeirra, og þannig hefir hinn heilagi ættstofn haft mök við hina heiðnu íbúa landsins, og hafa höfðingjarnir og yfirmennirnir gengið á undan í þessu tryggðrofi."

Þegar ég heyrði þetta, reif ég kyrtil minn og yfirhöfn mína, reytti hár mitt og skegg og sat agndofa.

Þá söfnuðust til mín allir þeir, er óttuðust orð Ísraels Guðs, út af tryggðrofi hinna hernumdu, en ég sat agndofa allt til kveldfórnar.

En er að kveldfórninni var komið, stóð ég upp frá föstu minni og reif um leið enn að nýju kyrtil minn og yfirhöfn mína. Síðan féll ég á kné, fórnaði höndum til Drottins, Guðs míns,

og sagði: "Guð minn, ég fyrirverð mig og blygðast mín að hefja auglit mitt til þín, ó minn Guð! Því að misgjörðir vorar eru vaxnar oss yfir höfuð og sekt vor orðin svo mikil, að hún nær til himins.

Allt frá dögum feðra vorra fram á þennan dag höfum vér verið í mikilli sekt, og vegna misgjörða vorra höfum vér verið ofurseldir, konungar vorir og prestar vorir, í hendur konunga heiðinna landa, undir sverðin, til herleiðingar, til ráns og til háðungar, eins og enn í dag á sér stað.

En nú höfum vér um örskamma stund hlotið miskunn frá Drottni, Guði vorum, með því að hann lét oss eftir verða leifar, er af komust, og veitti oss bólfestu á sínum heilaga stað, til þess að Guð vor léti gleðina skína úr augum vorum og veitti oss ofurlítinn nýjan lífsþrótt í ánauð vorri.

Því að ánauðugir erum vér. Þó hefir Guð vor eigi yfirgefið oss í ánauð vorri, heldur hagað því svo, að vér fundum náð fyrir augliti Persakonunga, svo að þeir veittu oss nýjan lífsþrótt til að koma upp musteri Guðs vors og reisa það úr rústum og útvega oss umgirtan bústað í Júda og Jerúsalem.

10 Og hvað eigum vér nú að segja, Guð vor, eftir allt þetta? Því að vér höfum yfirgefið boðorð þín,

11 sem þú hefir fyrir oss lagt fyrir munn þjóna þinna, spámannanna, er þú sagðir: ,Landið, er þér haldið inn í til þess að taka það til eignar, er óhreint land vegna saurugleika hinna heiðnu landsbúa, vegna viðurstyggða þeirra, er þeir í saurgun sinni hafa fyllt það með landshornanna milli.

12 Fyrir því skuluð þér hvorki gefa dætur yðar sonum þeirra né taka dætur þeirra sonum yðar að konum, og um aldur og ævi skuluð þér ekki leitast við að efla farsæld þeirra og velgengni, til þess að þér eflist og fáið að njóta landsins gæða og megið láta börnum yðar það eftir í arf um aldur og ævi.`

13 Og eftir allt það, sem yfir oss er komið vegna vondra verka vorra og vorrar miklu sektar _ því að þú, Guð vor, hefir vægt oss og ekki hegnt oss, svo sem vér áttum skilið fyrir misgjörð vora, og veitt oss slíkar leifar _

14 ættum vér þá enn að nýju að brjóta boðorð þín og mægjast við þær þjóðir, sem aðhafast slíkar svívirðingar? Mundir þú eigi reiðast oss, þar til er vér værum gjöreyddir, svo að engar leifar væru eftir né nokkrir þeir, er undan hefðu komist?

15 Drottinn, Ísraels Guð, þú ert réttlátur! Vér erum eftir skildir sem leifar, er undan hafa komist, svo sem sjá má þann dag í dag. Sjá, vér stöndum frammi fyrir þér í sekt vorri, því að það er eigi unnt að standast fyrir þér vegna þessa."

Postulasagan 9

En Sál blés enn ógnum og manndrápum gegn lærisveinum Drottins. Gekk hann til æðsta prestsins

og beiddist bréfa af honum til samkundanna í Damaskus, að hann mætti flytja í böndum til Jerúsalem þá, er hann kynni að finna og væru þessa vegar, hvort heldur karla eða konur.

En þegar hann var á ferð sinni kominn í nánd við Damaskus, leiftraði skyndilega um hann ljós af himni.

Hann féll til jarðar og heyrði rödd segja við sig: "Sál, Sál, hví ofsækir þú mig?"

En hann sagði: "Hver ert þú, herra?" Þá var svarað: "Ég er Jesús, sem þú ofsækir.

En statt upp og gakk inn í borgina, og þér mun verða sagt, hvað þú átt að gjöra."

Förunautar hans stóðu orðlausir. Þeir heyrðu að vísu raustina, en sáu engan.

Sál reis á fætur, en þegar hann lauk upp augunum, sá hann ekkert. Þeir leiddu hann við hönd sér inn í Damaskus.

Þrjá daga var hann sjónlaus og át hvorki né drakk.

10 Í Damaskus var lærisveinn nokkur, sem hét Ananías. Við hann sagði Drottinn í sýn: "Ananías." Hann svaraði: "Hér er ég, Drottinn."

11 Drottinn sagði við hann: "Far þegar í stræti það, sem kallað er Hið beina, og í húsi Júdasar skaltu spyrja eftir manni frá Tarsus, er heitir Sál. Hann er að biðja.

12 Og hann hefur í sýn séð mann, Ananías að nafni, koma inn og leggja hendur yfir sig, til þess að hann fái aftur sjón."

13 Ananías svaraði: "Drottinn, heyrt hef ég marga segja frá manni þessum, hve mikið illt hann hefur gjört þínum heilögu í Jerúsalem.

14 Og hér fer hann með vald frá æðstu prestunum að færa í bönd alla þá, sem ákalla nafn þitt."

15 Drottinn sagði við hann: "Far þú, því að þennan mann hef ég valið mér að verkfæri til þess að bera nafn mitt fram fyrir heiðingja, konunga og börn Ísraels,

16 og ég mun sýna honum, hversu mikið hann verður að þola vegna nafns míns."

17 Þá fór Ananías af stað, gekk inn í húsið og lagði hendur yfir hann og mælti: "Sál, bróðir, Drottinn hefur sent mig, Jesús, sá er birtist þér á leið þinni hingað. Þú átt að fá aftur sjón þína og fyllast heilögum anda."

18 Jafnskjótt var sem hreistur félli af augum hans, hann fékk aftur sjónina og lét þegar skírast.

19 Síðan neytti hann matar og styrktist. Sál var nokkra daga hjá lærisveinunum í Damaskus

20 og tók þegar að prédika í samkunduhúsunum, að Jesús væri sonur Guðs.

21 Allir þeir, sem heyrðu það, undruðust stórum og sögðu: "Er þetta ekki maðurinn, sem í Jerúsalem hugðist eyða þeim, er ákölluðu þetta nafn? Kom hann ekki hingað til að fara með þá í böndum til æðstu prestanna?"

22 En Sál efldist æ meir og gjörði þá Gyðinga, sem bjuggu í Damaskus, rökþrota, er hann sannaði, að Jesús væri Kristur.

23 Að allmörgum dögum liðnum réðu Gyðingar með sér að taka hann af lífi.

24 En Sál fékk vitneskju um ráðagjörð þeirra. Þeir gættu borgarhliðanna nótt og dag til að ná lífi hans.

25 En lærisveinarnir tóku hann um nótt og komu honum út fyrir borgarmúrinn með því að láta hann síga ofan í körfu.

26 Þá er hann kom til Jerúsalem, reyndi hann að samlaga sig lærisveinunum, en þeir hræddust hann allir og trúðu ekki, að hann væri lærisveinn.

27 En Barnabas tók hann að sér, fór með hann til postulanna og skýrði þeim frá, hvernig hann hefði séð Drottin á veginum, hvað hann hefði sagt við hann og hversu einarðlega hann hefði talað í Jesú nafni í Damaskus.

28 Dvaldist hann nú með þeim í Jerúsalem, gekk þar út og inn og talaði einarðlega í nafni Drottins.

29 Hann talaði og háði kappræður við grískumælandi Gyðinga, en þeir leituðust við að ráða hann af dögum.

30 Þegar bræðurnir urðu þessa vísir, fóru þeir með hann til Sesareu og sendu hann áfram til Tarsus.

31 Nú hafði kirkjan frið um alla Júdeu, Galíleu og Samaríu. Hún byggðist upp og gekk fram í ótta Drottins og óx við styrkingu heilags anda.

32 Svo bar við, er Pétur var að ferðast um og vitja allra, að hann kom og til hinna heilögu, sem áttu heima í Lýddu.

33 Þar fann hann mann nokkurn, Eneas að nafni, er í átta ár hafði legið rúmfastur. Hann var lami.

34 Pétur sagði við hann: "Eneas, Jesús Kristur læknar þig, statt upp og bú um þig." Jafnskjótt stóð hann upp.

35 Allir þeir, sem áttu heima í Lýddu og Saron, sáu hann, og þeir sneru sér til Drottins.

36 Í Joppe var lærisveinn, kona að nafni Tabíþa, á grísku Dorkas. Hún var mjög góðgerðasöm og örlát við snauða.

37 En á þeim dögum tók hún sótt og andaðist. Var hún lauguð og lögð í loftstofu.

38 Nú er Lýdda í grennd við Joppe, og höfðu lærisveinarnir heyrt, að Pétur væri þar. Sendu þeir tvo menn til hans og báðu hann: "Kom án tafar til vor."

39 Pétur brá við og fór með þeim. Þegar þangað kom, fóru þeir með hann upp í loftstofuna, og allar ekkjurnar komu til hans grátandi og sýndu honum kyrtla og yfirhafnir, sem Dorkas hafði gjört, meðan hún var hjá þeim.

40 En Pétur lét alla fara út, féll á kné og baðst fyrir. Síðan sneri hann sér að líkinu og sagði: "Tabíþa, rís upp." En hún opnaði augun, sá Pétur og settist upp.

41 Og hann rétti henni höndina og reisti hana á fætur, kallaði síðan á hina heilögu og ekkjurnar og leiddi hana fram lifandi.

42 Þetta varð hljóðbært um alla Joppe, og margir tóku trú á Drottin.

43 Var Pétur um kyrrt í Joppe allmarga daga hjá Símoni nokkrum sútara.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society