Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Fyrsta bók Móse 6

Er mönnunum tók að fjölga á jörðinni og þeim fæddust dætur,

sáu synir Guðs, að dætur mannanna voru fríðar, og tóku sér konur meðal þeirra, allar sem þeim geðjuðust.

Þá sagði Drottinn: "Andi minn skal ekki ævinlega búa í manninum, með því að hann einnig er hold. Veri dagar hans nú hundrað og tuttugu ár."

Á þeim tímum voru risarnir á jörðinni, og einnig síðar, er synir Guðs höfðu samfarir við dætur mannanna og þær fæddu þeim sonu. Það eru kapparnir, sem í fyrndinni voru víðfrægir.

Er Drottinn sá, að illska mannsins var mikil á jörðinni og að allar hugrenningar hjarta hans voru ekki annað en illska alla daga,

þá iðraðist Drottinn þess, að hann hafði skapað mennina á jörðinni, og honum sárnaði það í hjarta sínu.

Og Drottinn sagði: "Ég vil afmá af jörðinni mennina, sem ég skapaði, bæði mennina, fénaðinn, skriðkvikindin og fugla loftsins, því að mig iðrar, að ég hefi skapað þau."

En Nói fann náð í augum Drottins.

Þetta er saga Nóa: Nói var maður réttlátur og vandaður á sinni öld. Nói gekk með Guði.

10 Og Nói gat þrjá sonu: Sem, Kam og Jafet.

11 Jörðin var spillt í augsýn Guðs, og jörðin fylltist glæpaverkum.

12 Og Guð leit á jörðina, og sjá, hún var spillt orðin, því að allt hold hafði spillt vegum sínum á jörðinni.

13 Þá mælti Guð við Nóa: "Endir alls holds er kominn fyrir minni augsýn, því að jörðin er full af glæpaverkum þeirra. Sjá, ég vil afmá þá af jörðinni.

14 Gjör þú þér örk af góferviði. Smáhýsi skalt þú gjöra í örkinni og bræða hana biki utan og innan.

15 Og gjör hana svo: Lengd arkarinnar sé þrjú hundruð álnir, breidd hennar fimmtíu álnir og hæð hennar þrjátíu álnir.

16 Glugga skalt þú gjöra á örkinni og búa hann til á henni ofanverðri, allt að alin á hæð, og dyr arkarinnar skalt þú setja á hlið hennar og búa til þrjú loft í henni: neðst, í miðju og efst.

17 Því sjá, ég læt vatnsflóð koma yfir jörðina til að tortíma öllu holdi undir himninum, sem lífsandi er í. Allt, sem á jörðinni er, skal deyja.

18 En við þig mun ég gjöra sáttmála minn, og þú skalt ganga í örkina, þú og synir þínir, og kona þín og sonakonur þínar með þér.

19 Af öllum lifandi skepnum, af öllu holdi, skalt þú láta inn í örkina tvennt af hverju, svo að það haldi lífi með þér. Karldýr og kvendýr skulu þau vera:

20 Af fuglunum eftir þeirra tegund, af fénaðinum eftir hans tegund og af öllum skriðkvikindum jarðarinnar eftir þeirra tegund. Tvennt af öllu skal til þín inn ganga, til þess að það haldi lífi.

21 En tak þú þér af allri fæðu, sem etin er, og safna að þér, að það sé þér og þeim til viðurværis."

22 Og Nói gjörði svo. Allt gjörði hann eins og Guð bauð honum.

Matteusarguðspjall 6

Varist að iðka réttlæti yðar fyrir mönnum, þeim til sýnis, annars eigið þér engin laun hjá föður yðar á himnum.

Þegar þú gefur ölmusu, skaltu ekki láta þeyta lúður fyrir þér, eins og hræsnarar gjöra í samkunduhúsum og á strætum til þess að hljóta lof af mönnum. Sannlega segi ég yður, þeir hafa tekið út laun sín.

En þegar þú gefur ölmusu, viti vinstri hönd þín ekki, hvað sú hægri gjörir,

svo að ölmusa þín sé í leynum, og faðir þinn, sem sér í leynum, mun umbuna þér.

Og þegar þér biðjist fyrir, þá verið ekki eins og hræsnararnir. Þeir vilja helst standa og biðjast fyrir í samkundum og á gatnamótum, til þess að menn sjái þá. Sannlega segi ég yður, þeir hafa tekið út laun sín.

En nær þú biðst fyrir, skaltu ganga inn í herbergi þitt, loka dyrunum og biðja föður þinn, sem er í leynum. Faðir þinn, sem sér í leynum, mun umbuna þér.

Þegar þér biðjist fyrir, skuluð þér ekki fara með fánýta mælgi að hætti heiðingja. Þeir hyggja, að þeir verði bænheyrðir fyrir mælgi sína.

Líkist þeim ekki. Faðir yðar veit, hvers þér þurfið, áður en þér biðjið hann.

En þannig skuluð þér biðja: Faðir vor, þú sem ert á himnum. Helgist þitt nafn,

10 til komi þitt ríki, verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.

11 Gef oss í dag vort daglegt brauð.

12 Fyrirgef oss vorar skuldir, svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum.

13 Og eigi leið þú oss í freistni, heldur frelsa oss frá illu. [Því að þitt er ríkið, mátturinn og dýrðin að eilífu, amen.]

14 Ef þér fyrirgefið mönnum misgjörðir þeirra, þá mun og faðir yðar himneskur fyrirgefa yður.

15 En ef þér fyrirgefið ekki öðrum, mun faðir yðar ekki heldur fyrirgefa misgjörðir yðar.

16 Þegar þér fastið, þá verið ekki daprir í bragði, eins og hræsnarar. Þeir afmynda andlit sín, svo að engum dyljist, að þeir fasta. Sannlega segi ég yður, þeir hafa tekið út laun sín.

17 En nær þú fastar, þá smyr höfuð þitt og þvo andlit þitt,

18 svo að menn verði ekki varir við, að þú fastar, heldur faðir þinn, sem er í leynum. Og faðir þinn, sem sér í leynum, mun umbuna þér.

19 Safnið yður ekki fjársjóðum á jörðu, þar sem mölur og ryð eyðir og þjófar brjótast inn og stela.

20 Safnið yður heldur fjársjóðum á himni, þar sem hvorki eyðir mölur né ryð og þjófar brjótast ekki inn og stela.

21 Því hvar sem fjársjóður þinn er, þar mun og hjarta þitt vera.

22 Augað er lampi líkamans. Sé auga þitt heilt, mun allur líkami þinn bjartur.

23 En sé auga þitt spillt, verður allur líkami þinn dimmur. Ef nú ljósið í þér er myrkur, hvílíkt verður þá myrkrið.

24 Enginn getur þjónað tveimur herrum. Annaðhvort hatar hann annan og elskar hinn eða þýðist annan og afrækir hinn. Þér getið ekki þjónað Guði og mammón.

25 Því segi ég yður: Verið ekki áhyggjufullir um líf yðar, hvað þér eigið að eta eða drekka, né heldur um líkama yðar, hverju þér eigið að klæðast. Er lífið ekki meira en fæðan og líkaminn meira en klæðin?

26 Lítið til fugla himinsins. Hvorki sá þeir né uppskera né safna í hlöður og faðir yðar himneskur fæðir þá. Eruð þér ekki miklu fremri þeim?

27 Og hver yðar getur með áhyggjum aukið einni spönn við aldur sinn?

28 Og hví eruð þér áhyggjufullir um klæði? Hyggið að liljum vallarins, hversu þær vaxa. Hvorki vinna þær né spinna.

29 En ég segi yður: Jafnvel Salómon í allri sinni dýrð var ekki svo búinn sem ein þeirra.

30 Fyrst Guð skrýðir svo gras vallarins, sem í dag stendur, en á morgun verður í ofn kastað, skyldi hann þá ekki miklu fremur klæða yður, þér trúlitlir!

31 Segið því ekki áhyggjufullir: ,Hvað eigum vér að eta? Hvað eigum vér að drekka? Hverju eigum vér að klæðast?`

32 Allt þetta stunda heiðingjarnir, og yðar himneski faðir veit, að þér þarfnist alls þessa.

33 En leitið fyrst ríkis hans og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki.

34 Hafið því ekki áhyggjur af morgundeginum. Morgundagurinn mun hafa sínar áhyggjur. Hverjum degi nægir sín þjáning.

Esrabók 6

Þá gaf Daríus konungur út þá skipun, að leita skyldi í skjalasafnshúsinu, þar sem og fjársjóðirnir voru lagðir fyrir til geymslu í Babýlon,

og bókrolla fannst í Ahmeta, borginni, sem er í skattlandinu Medíu. Og í henni var ritað á þessa leið: "Merkisatburður.

Á fyrsta ári Kýrusar konungs gaf Kýrus konungur út svolátandi skipun: Hús Guðs í Jerúsalem skal endurreist verða, til þess að menn megi þar færa fórnir, og grundvöllur þess skal lagður. Það skal vera sextíu álnir á hæð og sextíu álnir á breidd.

Lög af stórum steinum skulu vera þrjú og eitt lag af tré, og kostnaðurinn skal greiddur úr konungshöllinni.

Einnig skal gull- og silfuráhöldunum úr húsi Guðs, þeim er Nebúkadnesar hafði á burt úr musterinu í Jerúsalem og flutti til Babýlon, verða skilað aftur, svo að hvert þeirra komist aftur í musterið í Jerúsalem á sinn stað, og þú skalt leggja þau í hús Guðs."

"Fyrir því skuluð þér _ Tatnaí, landstjóri héraðsins hinumegin Fljóts, Star Bósnaí og samborgarar þeirra, Afarsekear, í héraðinu hinumegin Fljóts _ halda yður þar frá.

Látið byggingu þessa Guðs húss í friði. Landstjóra Gyðinga og öldungum þeirra er heimilt að endurreisa þetta Guðs hús á sínum fyrra stað.

Og ég hefi gefið út skipun um, hvað þér skuluð láta þessum öldungum Gyðinga í té til byggingar þessa Guðs húss. Skal mönnum þessum greiddur kostnaðurinn skilvíslega af tekjum konungs, þeim er hann hefir af sköttum úr héraðinu hinumegin Fljóts, og það tafarlaust.

Og það sem með þarf, bæði ung naut, hrúta og lömb til brennifórna handa Guði himnanna, hveiti, salt, vín og olíu, það skal láta þeim í té, eftir fyrirsögn prestanna í Jerúsalem, á degi hverjum, og það prettalaust,

10 til þess að þeir megi færa Guði himnanna fórnir þægilegs ilms og biðja fyrir lífi konungsins og sona hans.

11 Og ég hefi gefið út þá skipun, að ef nokkur maður breytir á móti úrskurði þessum, þá skuli taka bjálka úr húsi hans og hann hengdur upp og negldur á hann, en hús hans skal fyrir þá sök gjöra að mykjuhaug.

12 En sá Guð, sem lætur nafn sitt búa þar, kollsteypi öllum þeim konungum og þjóðum, sem rétta út hönd sína til þess að breyta út af þessu eða til þess að brjóta niður þetta hús Guðs í Jerúsalem. Ég, Daríus, hefi gefið út þessa skipun. Skal hún kostgæfilega framkvæmd."

13 Þá fóru þeir Tatnaí, landstjóri héraðsins hinumegin Fljóts, Star Bósnaí og samborgarar þeirra nákvæmlega eftir fyrirmælum þeim, er Daríus konungur hafði sent.

14 Og öldungar Gyðinga byggðu, og miðaði þeim vel áfram fyrir spámannsstarf þeirra Haggaí spámanns og Sakaría Íddóssonar. Og þannig luku þeir byggingunni samkvæmt skipun Ísraels Guðs og samkvæmt skipun Kýrusar og Daríusar og Artahsasta Persakonungs.

15 Og hús þetta var fullgjört á þriðja degi adarmánaðar, það er á sjötta ríkisári Daríusar konungs.

16 Og Ísraelsmenn _ prestarnir og levítarnir og aðrir þeir, er komnir voru heim úr herleiðingunni _ héldu vígsluhátíð þessa Guðs húss með fögnuði.

17 Og þeir fórnuðu við vígslu þessa Guðs húss hundrað nautum, tvö hundruð hrútum og fjögur hundruð lömbum og í syndafórn fyrir allan Ísrael tólf geithöfrum eftir tölu Ísraels ættkvísla.

18 Og þeir skipuðu presta eftir flokkum þeirra og levíta eftir deildum þeirra, til þess að gegna þjónustu Guðs í Jerúsalem, samkvæmt fyrirmælum Mósebókar.

19 Og þeir, sem heim voru komnir úr herleiðingunni, héldu páska hinn fjórtánda dag hins fyrsta mánaðar.

20 Því að prestarnir og levítarnir höfðu hreinsað sig allir sem einn maður, allir voru hreinir. Og þeir slátruðu páskalambinu fyrir alla þá, er heim voru komnir úr herleiðingunni, og fyrir bræður þeirra, prestana, og fyrir sjálfa sig.

21 Síðan neyttu Ísraelsmenn þess, þeir er aftur voru heim komnir úr herleiðingunni, og allir þeir, er skilið höfðu sig frá saurugleik hinna heiðnu þjóða landsins og gengið í flokk með þeim, til þess að leita Drottins, Ísraels Guðs.

22 Og þannig héldu þeir hátíð hinna ósýrðu brauða í sjö daga með fögnuði, því að Drottinn hafði glatt þá og snúið hjarta Assýríukonungs til þeirra, svo að hann styrkti hendur þeirra við byggingu musteris Guðs, Ísraels Guðs.

Postulasagan 6

Á þessum dögum, er lærisveinum fjölgaði, fóru grískumælandi menn að kvarta út af því, að hebreskir settu ekkjur þeirra hjá við daglega úthlutun.

Hinir tólf kölluðu þá lærisveinahópinn saman og sögðu: "Ekki hæfir, að vér hverfum frá boðun Guðs orðs til að þjóna fyrir borðum.

Finnið því, bræður, sjö vel kynnta menn úr yðar hópi, sem fullir eru anda og visku. Munum vér setja þá yfir þetta starf.

En vér munum helga oss bæninni og þjónustu orðsins."

Öll samkoman gerði góðan róm að máli þeirra, og kusu þeir Stefán, mann fullan af trú og heilögum anda, Filippus, Prókorus, Níkanor, Tímon, Parmenas og Nikolás frá Antíokkíu, sem tekið hafði gyðingatrú.

Þeir leiddu þá fram fyrir postulana, sem báðust fyrir og lögðu hendur yfir þá.

Orð Guðs breiddist út, og tala lærisveinanna í Jerúsalem fór stórum vaxandi, einnig snerist mikill fjöldi presta til hlýðni við trúna.

Stefán var fullur af náð og krafti og gjörði undur og tákn mikil meðal fólksins.

Þá komu til nokkrir menn úr svonefndri Leysingjasamkundu. Þeir voru frá Kýrene og Alexandríu, en aðrir frá Kilikíu og Asíu, og tóku að þrátta við Stefán.

10 En þeir gátu ekki staðið gegn visku þeirri og anda, sem hann talaði af.

11 Þá fengu þeir menn nokkra til að segja: "Vér höfum heyrt hann tala lastmæli gegn Móse og Guði."

12 Þeir æstu upp fólkið, öldungana og fræðimennina, og þeir veittust að honum, gripu hann og færðu hann fyrir ráðið.

13 Þá leiddu þeir fram ljúgvotta, er sögðu: "Þessi maður er alltaf að tala gegn þessum heilaga stað og lögmálinu.

14 Vér höfum heyrt hann segja, að þessi Jesús frá Nasaret muni brjóta niður musterið og breyta þeim siðum, sem Móse hefur sett oss."

15 Allir sem í ráðinu sátu, störðu á hann og sáu, að ásjóna hans var sem engils ásjóna.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society