Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Fyrsta bók Móse 5

Þetta er ættarskrá Adams: Þegar Guð skapaði Adam, gjörði Guð hann sér líkan.

Hann skóp þau mann og konu og blessaði þau og nefndi þau menn, er þau voru sköpuð.

Adam lifði hundrað og þrjátíu ár. Þá gat hann son í líking sinni, eftir sinni mynd, og nefndi hann Set.

Og dagar Adams, eftir að hann gat Set, voru átta hundruð ár, og hann gat sonu og dætur.

Og allir dagar Adams, sem hann lifði, voru níu hundruð og þrjátíu ár. Þá dó hann.

Þegar Set var orðinn hundrað og fimm ára gamall gat hann Enos.

Eftir að Set gat Enos lifði hann átta hundruð og sjö ár og gat sonu og dætur.

Og allir dagar Sets voru níu hundruð og tólf ár, þá andaðist hann.

Enos var níutíu ára, er hann gat Kenan.

10 Og eftir að Enos gat Kenan lifði hann átta hundruð og fimmtán ár og gat sonu og dætur.

11 Og allir dagar Enoss voru níu hundruð og fimm ár, þá andaðist hann.

12 Þá er Kenan var sjötíu ára, gat hann Mahalalel.

13 Og Kenan lifði, eftir að hann gat Mahalalel, átta hundruð og fjörutíu ár og gat sonu og dætur.

14 Og allir dagar Kenans urðu níu hundruð og tíu ár, þá andaðist hann.

15 Er Mahalalel var sextíu og fimm ára, gat hann Jared.

16 Og Mahalalel lifði, eftir að hann gat Jared, átta hundruð og þrjátíu ár og gat sonu og dætur.

17 Og allir dagar Mahalalels voru átta hundruð níutíu og fimm ár, þá andaðist hann.

18 Er Jared var hundrað sextíu og tveggja ára, gat hann Enok.

19 Og Jared lifði, eftir að hann gat Enok, átta hundruð ár og gat sonu og dætur.

20 Og allir dagar Jareds voru níu hundruð sextíu og tvö ár, þá andaðist hann.

21 Er Enok var sextíu og fimm ára, gat hann Metúsala.

22 Og eftir að Enok gat Metúsala gekk hann með Guði þrjú hundruð ár og gat sonu og dætur.

23 Og allir dagar Enoks voru þrjú hundruð sextíu og fimm ár.

24 Og Enok gekk með Guði og hvarf, af því að Guð nam hann burt.

25 Er Metúsala var hundrað áttatíu og sjö ára, gat hann Lamek.

26 Og Metúsala lifði, eftir að hann gat Lamek, sjö hundruð áttatíu og tvö ár og gat sonu og dætur.

27 Og allir dagar Metúsala voru níu hundruð sextíu og níu ár, þá andaðist hann.

28 Er Lamek var hundrað áttatíu og tveggja ára, gat hann son.

29 Og hann nefndi hann Nóa og mælti: "Þessi mun hugga oss í erfiði voru og striti handa vorra, er jörðin, sem Drottinn bölvaði, bakar oss."

30 Og Lamek lifði, eftir að hann gat Nóa, fimm hundruð níutíu og fimm ár og gat sonu og dætur.

31 Og allir dagar Lameks voru sjö hundruð sjötíu og sjö ár, þá andaðist hann.

32 Og er Nói var fimm hundruð ára, gat hann Sem, Kam og Jafet.

Matteusarguðspjall 5

Þegar hann sá mannfjöldann, gekk hann upp á fjallið. Þar settist hann, og lærisveinar hans komu til hans.

Þá lauk hann upp munni sínum, kenndi þeim og sagði:

"Sælir eru fátækir í anda, því að þeirra er himnaríki.

Sælir eru sorgbitnir, því að þeir munu huggaðir verða.

Sælir eru hógværir, því að þeir munu jörðina erfa.

Sælir eru þeir, sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu, því að þeir munu saddir verða.

Sælir eru miskunnsamir, því að þeim mun miskunnað verða.

Sælir eru hjartahreinir, því að þeir munu Guð sjá.

Sælir eru friðflytjendur, því að þeir munu Guðs börn kallaðir verða.

10 Sælir eru þeir, sem ofsóttir eru fyrir réttlætis sakir, því að þeirra er himnaríki.

11 Sælir eruð þér, þá er menn smána yður, ofsækja og ljúga á yður öllu illu mín vegna.

12 Verið glaðir og fagnið, því að laun yðar eru mikil á himnum. Þannig ofsóttu þeir spámennina, sem voru á undan yður.

13 Þér eruð salt jarðar. Ef saltið dofnar, með hverju á að selta það? Það er þá til einskis nýtt, menn fleygja því og troða undir fótum.

14 Þér eruð ljós heimsins. Borg, sem á fjalli stendur, fær ekki dulist.

15 Ekki kveikja menn heldur ljós og setja undir mæliker, heldur á ljósastiku, og þá lýsir það öllum í húsinu.

16 Þannig lýsi ljós yðar meðal mannanna, að þeir sjái góð verk yðar og vegsami föður yðar, sem er á himnum.

17 Ætlið ekki, að ég sé kominn til að afnema lögmálið eða spámennina. Ég kom ekki til að afnema, heldur uppfylla.

18 Sannlega segi ég yður: Þar til himinn og jörð líða undir lok, mun ekki einn smástafur eða stafkrókur falla úr lögmálinu, uns allt er komið fram.

19 Hver sem því brýtur eitt af þessum minnstu boðum og kennir öðrum það, mun kallast minnstur í himnaríki, en sá, sem heldur þau og kennir, mun mikill kallast í himnaríki.

20 Ég segi yður: Ef réttlæti yðar ber ekki af réttlæti fræðimanna og farísea, komist þér aldrei í himnaríki.

21 Þér hafið heyrt, að sagt var við forfeðurna: ,Þú skalt ekki morð fremja. Sá sem morð fremur, skal svara til saka fyrir dómi.`

22 En ég segi yður: Hver sem reiðist bróður sínum, skal svara til saka fyrir dómi. Sá sem hrakyrðir bróður sinn skal svara til saka fyrir ráðinu og hver sem svívirðir hann, hefur unnið til eldsvítis.

23 Sértu því að færa fórn þína á altarið og minnist þess þar, að bróðir þinn hefur eitthvað á móti þér,

24 þá skaltu skilja gjöf þína eftir fyrir framan altarið, fara fyrst og sættast við bróður þinn, koma síðan og færa fórn þína.

25 Vertu skjótur til sátta við andstæðing þinn, meðan þú ert enn á vegi með honum, til þess að hann selji þig ekki dómaranum í hendur og dómarinn þjóninum og þér verði varpað í fangelsi.

26 Sannlega segi ég þér: Eigi munt þú komast út þaðan, fyrr en þú hefur borgað síðasta eyri.

27 Þér hafið heyrt, að sagt var: ,Þú skalt ekki drýgja hór.`

28 En ég segi yður: Hver sem horfir á konu í girndarhug, hefur þegar drýgt hór með henni í hjarta sínu.

29 Ef hægra auga þitt tælir þig til falls, þá ríf það úr og kasta frá þér. Betra er þér, að einn lima þinna glatist, en öllum líkama þínum verði kastað í helvíti.

30 Ef hægri hönd þín tælir þig til falls, þá sníð hana af og kasta frá þér. Betra er þér, að einn lima þinna glatist, en allur líkami þinn fari til helvítis.

31 Þá var og sagt: ,Sá sem skilur við konu sína, skal gefa henni skilnaðarbréf.`

32 En ég segi yður: Hver sem skilur við konu sína, nema fyrir hórsök, verður til þess, að hún drýgir hór. Og sá sem gengur að eiga fráskilda konu, drýgir hór.

33 Enn hafið þér heyrt, að sagt var við forfeðurna: ,Þú skalt ekki vinna rangan eið, en halda skaltu eiða þína við Drottin.`

34 En ég segi yður, að þér eigið alls ekki að sverja, hvorki við himininn, því hann er hásæti Guðs,

35 né við jörðina, því hún er skör fóta hans, né við Jerúsalem, því hún er borg hins mikla konungs.

36 Og eigi skaltu sverja við höfuð þitt, því að þú getur ekki gjört eitt hár hvítt eða svart.

37 En þegar þér talið, sé já yðar já og nei sé nei. Það sem umfram er, kemur frá hinum vonda.

38 Þér hafið heyrt, að sagt var: ,Auga fyrir auga og tönn fyrir tönn.`

39 En ég segi yður: Rísið ekki gegn þeim, sem gerir yður mein. Nei, slái einhver þig á hægri kinn, þá bjóð honum einnig hina.

40 Og vilji einhver þreyta lög við þig og hafa af þér kyrtil þinn, gef honum eftir yfirhöfnina líka.

41 Og neyði einhver þig með sér eina mílu, þá far með honum tvær.

42 Gef þeim, sem biður þig, og snú ekki baki við þeim, sem vill fá lán hjá þér.

43 Þér hafið heyrt, að sagt var: ,Þú skalt elska náunga þinn og hata óvin þinn.`

44 En ég segi yður: Elskið óvini yðar, og biðjið fyrir þeim, sem ofsækja yður,

45 svo að þér reynist börn föður yðar á himnum, er lætur sól sína renna upp yfir vonda sem góða og rigna yfir réttláta sem rangláta.

46 Þótt þér elskið þá, sem yður elska, hver laun eigið þér fyrir það? Gjöra ekki tollheimtumenn hið sama?

47 Og hvað er það, þótt þér heilsið bræðrum yðar einum. Gjöra heiðnir menn ekki hið sama?

48 Verið þér því fullkomnir, eins og faðir yðar himneskur er fullkominn.

Esrabók 5

Haggaí spámaður og Sakaría Íddósson, spámennirnir, spáðu hjá Gyðingum, þeim er voru í Júda og Jerúsalem, í nafni Ísraels Guðs, sem yfir þeim var.

Þá fóru þeir Serúbabel Sealtíelsson og Jósúa Jósadaksson til og hófu að byggja musteri Guðs í Jerúsalem, og spámenn Guðs voru með þeim og aðstoðuðu þá.

Um þær mundir komu til þeirra Tatnaí, landstjóri héraðsins hinumegin Fljóts, og Star Bósnaí og samborgarar þeirra og mæltu til þeirra á þessa leið: "Hver hefir leyft yður að reisa þetta hús og fullgjöra þessa múra?"

Síðan mæltu þeir til þeirra á þessa leið: "Hvað heita menn þeir, er reisa stórhýsi þetta?"

En auga Guðs þeirra vakti yfir öldungum Gyðinga, svo að menn gátu ekki stöðvað þá, þar til er málið kæmi til Daríusar og bréfleg skipun um þetta væri komin aftur.

Afrit af bréfinu, sem þeir Tatnaí, landstjóri héraðsins hinumegin Fljóts, og Star Bósnaí og samborgarar hans, Afarsekear, sem bjuggu í héraðinu hinumegin Fljóts, sendu Daríusi konungi, _

skýrslu sendu þeir honum og þannig var ritað í henni: "Hvers kyns heill Daríusi konungi!

Konunginum sé vitanlegt, að vér höfum farið til skattlandsins Júda, til musteris hins mikla Guðs. Er verið að byggja það úr stórum steinum, og eru bjálkar settir inn í veggina. Er unnið kostgæfilega að verki þessu, og miðar því vel áfram hjá þeim.

Því næst spurðum vér öldungana á þessa leið: ,Hver hefir leyft yður að reisa þetta hús og fullgjöra þessa múra?`

10 Líka spurðum vér þá að heiti til þess að láta þig vita, svo að vér gætum skrifað upp nöfn þeirra manna, er forustuna hafa.

11 Og þeir svöruðu oss á þessa leið: ,Vér erum þjónar Guðs himinsins og jarðarinnar og reisum að nýju musterið, sem byggt var fyrir ævalöngu, og reisti það og fullgjörði mikill konungur í Ísrael.

12 En af því að feður vorir höfðu egnt Guð himinsins til reiði, þá ofurseldi hann þá í hendur Nebúkadnesars Babelkonungs, Kaldeans. Hann lagði musteri þetta í eyði og flutti lýðinn til Babýloníu.

13 En á fyrsta ári Kýrusar, konungs í Babýlon, veitti Kýrus konungur leyfi til að endurreisa þetta musteri Guðs.

14 Og einnig gull- og silfuráhöldin úr húsi Guðs, þau er Nebúkadnesar hafði haft á burt úr musterinu í Jerúsalem og flutt til musterisins í Babýlon, þau tók Kýrus konungur úr musterinu í Babýlon, og voru þau fengin manni þeim, er hann hafði skipað landstjóra og Sesbasar hét.

15 Og hann sagði við hann: ,Tak áhöld þessi, far og legg þau í musterið í Jerúsalem. Hús Guðs skal aftur reist verða á sínum fyrra stað.`

16 Síðan kom Sesbasar þessi og lagði grundvöllinn að húsi Guðs í Jerúsalem, og síðan fram á þennan dag hafa menn verið að byggja það, og enn er því ekki lokið.

17 Og nú, ef konunginum þóknast svo, þá sé gjörð leit í fjárhirslu konungsins þar í Babýlon, hvort svo sé, að Kýrus hafi veitt leyfi til að reisa þetta musteri Guðs í Jerúsalem, og konungur láti oss vita vilja sinn í þessu máli."

Postulasagan 5

En maður nokkur, Ananías að nafni, seldi ásamt Saffíru, konu sinni, eign

og dró undan af verðinu með vitund konu sinnar, en kom með nokkuð af því og lagði fyrir fætur postulanna.

En Pétur mælti: "Ananías, hví fyllti Satan hjarta þitt, svo að þú laugst að heilögum anda og dróst undan af verði lands þíns?

Var landið ekki þitt, meðan þú áttir það, og var ekki andvirði þess á þínu valdi? Hvernig gastu þá látið þér hugkvæmast slíkt tiltæki? Ekki hefur þú logið að mönnum, heldur Guði."

Þegar Ananías heyrði þetta, féll hann niður og gaf upp öndina, og miklum ótta sló á alla þá, sem heyrðu.

En ungu mennirnir stóðu upp og bjuggu um hann, báru hann út og jörðuðu.

Að liðnum svo sem þrem stundum kom kona hans inn og vissi ekki, hvað við hafði borið.

Þá spurði Pétur hana: "Seg mér, selduð þið jörðina fyrir þetta verð?" En hún svaraði: "Já, fyrir þetta verð."

Pétur mælti þá við hana: "Hvernig gátuð þið orðið samþykk um að freista anda Drottins? Þú heyrir við dyrnar fótatak þeirra, sem greftruðu mann þinn. Þeir munu bera þig út."

10 Jafnskjótt féll hún niður við fætur hans og gaf upp öndina. Ungu mennirnir komu inn, fundu hana dauða, báru út og jörðuðu hjá manni hennar.

11 Og miklum ótta sló á allan söfnuðinn og alla, sem heyrðu þetta.

12 Fyrir hendur postulanna gjörðust mörg tákn og undur meðal lýðsins. Allur söfnuðurinn kom einum huga saman í Súlnagöngum Salómons.

13 Engir aðrir þorðu að samlagast þeim, en fólk virti þá mikils.

14 Og enn fleiri urðu þeir, sem trúðu á Drottin, fjöldi karla og kvenna.

15 Menn báru jafnvel sjúka út á strætin og lögðu þá á rekkjur og börur, ef verða mætti, er Pétur gengi hjá, að alltént skugginn af honum félli á einhvern þeirra.

16 Einnig kom fjöldi fólks frá borgunum umhverfis Jerúsalem og flutti með sér sjúka menn og þjáða af óhreinum öndum. Þeir læknuðust allir.

17 Þá hófst æðsti presturinn handa og allur sá flokkur, sem fylgdi honum, saddúkearnir. Fullir ofsa

18 létu þeir taka postulana höndum og varpa í fangelsið.

19 En engill Drottins opnaði um nóttina dyr fangelsisins, leiddi þá út og sagði:

20 "Farið og gangið fram í helgidóminum og talið til lýðsins öll þessi lífsins orð."

21 Þeir hlýddu og fóru í dögun í helgidóminn og kenndu. Nú kom æðsti presturinn og hans menn, kölluðu saman ráðið, alla öldunga Ísraels, og sendu þjóna til fangelsisins að sækja postulana.

22 Þeir komu í fangelsið og fundu þá ekki, sneru aftur og skýrðu svo frá:

23 "Fangelsið fundum vér að öllu tryggilega læst, og varðmennirnir stóðu fyrir dyrum, en er vér lukum upp, fundum vér engan inni."

24 Þegar varðforingi helgidómsins og æðstu prestarnir heyrðu þetta, urðu þeir ráðþrota og spurðu, hvar þetta ætlaði að lenda.

25 En þá kom maður og bar þeim þessa frétt: "Mennirnir, sem þér settuð í fangelsið, standa í helgidóminum og eru að kenna lýðnum."

26 Þá fór varðforinginn með þjónunum og sótti þá. Beittu þeir samt ekki ofbeldi, því þeir óttuðust, að fólkið grýtti þá.

27 Þegar þeir voru komnir með þá, leiddu þeir þá fram fyrir ráðið, og æðsti presturinn tók að yfirheyra þá og sagði:

28 "Stranglega bönnuðum vér yður að kenna í þessu nafni, og nú hafið þér fyllt Jerúsalem með kenningu yðar og viljið steypa yfir oss blóði þessa manns."

29 En Pétur og hinir postularnir svöruðu: "Framar ber að hlýða Guði en mönnum.

30 Guð feðra vorra hefur upp vakið Jesú, sem þér hengduð á tré og tókuð af lífi.

31 Hann hefur Guð hafið sér til hægri handar og gjört hann að foringja og frelsara til að veita Ísrael afturhvarf og fyrirgefningu synda sinna.

32 Vér erum vottar alls þessa, og heilagur andi, sem Guð hefur gefið þeim, er honum hlýða."

33 Þegar þeir heyrðu þetta, fylltust þeir bræði og hugðust deyða þá.

34 Reis þá upp í ráðinu farísei nokkur, Gamalíel að nafni, kennari í lögmálinu, virtur af öllum lýð. Hann bauð, að mennirnir væru látnir fara út stundarkorn.

35 Síðan sagði hann: "Ísraelsmenn, athugið vel, hvað þér gjörið við þessa menn.

36 Ekki alls fyrir löngu kom Þevdas fram og þóttist vera eitthvað. Hann aðhylltust um fjögur hundruð manns. En hann var drepinn, og allir þeir, sem fylgdu honum, tvístruðust og hurfu.

37 Eftir hann kom fram Júdas frá Galíleu á dögum skrásetningarinnar og sneri fólki til fylgis við sig. Hann fórst líka, og þeir dreifðust allir, sem fylgdu honum.

38 Og nú segi ég yður: Látið þessa menn eiga sig og sleppið þeim. Sé þetta ráð eða verk frá mönnum, verður það að engu,

39 en sé það frá Guði, þá megnið þér ekki að yfirbuga þá. Eigi má það verða, að þér berjist við sjálfan Guð."

40 Þeir féllust á mál hans, kölluðu á postulana, húðstrýktu þá, fyrirbuðu þeim að tala í Jesú nafni og létu þá síðan lausa.

41 Þeir fóru burt frá ráðinu, glaðir yfir því, að þeir höfðu verið virtir þess að þola háðung vegna nafns Jesú.

42 Létu þeir eigi af að kenna dag hvern í helgidóminum og í heimahúsum og boða fagnaðarerindið um, að Jesús sé Kristur.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society