Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Fyrsta bók Móse 4

Maðurinn kenndi konu sinnar Evu, og hún varð þunguð og fæddi Kain og mælti: "Sveinbarn hefi ég eignast með hjálp Drottins."

Og hún fæddi annað sinn, bróður hans, Abel. Abel varð hjarðmaður, en Kain jarðyrkjumaður.

Og er fram liðu stundir, færði Kain Drottni fórn af ávexti jarðarinnar.

En Abel færði einnig fórn af frumburðum hjarðar sinnar og af feiti þeirra.

Og Drottinn leit með velþóknun til Abels og fórnar hans, en til Kains og fórnar hans leit hann ekki með velþóknun. Þá reiddist Kain ákaflega og varð niðurlútur.

Þá mælti Drottinn til Kains: "Hví reiðist þú, og hví ert þú niðurlútur?

Er því ekki þannig farið: Ef þú gjörir rétt, þá getur þú verið upplitsdjarfur, en ef þú gjörir ekki rétt, þá liggur syndin við dyrnar og hefir hug á þér, en þú átt að drottna yfir henni?"

Þá sagði Kain við Abel bróður sinn: "Göngum út á akurinn!" Og er þeir voru á akrinum, réðst Kain á Abel bróður sinn og drap hann.

Þá sagði Drottinn við Kain: "Hvar er Abel bróðir þinn?" En hann mælti: "Það veit ég ekki. Á ég að gæta bróður míns?"

10 Og Drottinn sagði: "Hvað hefir þú gjört? Heyr, blóð bróður þíns hrópar til mín af jörðinni!

11 Og skalt þú nú vera bölvaður og burt rekinn af akurlendinu, sem opnaði munn sinn til að taka á móti blóði bróður þíns af þinni hendi.

12 Þegar þú yrkir akurlendið, skal það eigi framar gefa þér gróður sinn. Landflótta og flakkandi skalt þú vera á jörðinni."

13 Og Kain sagði við Drottin: "Sekt mín er meiri en svo, að ég fái borið hana!

14 Sjá, nú rekur þú mig burt af akurlendinu, og ég verð að felast fyrir augliti þínu og vera landflótta og flakkandi á jörðinni, og hver, sem hittir mig, mun drepa mig."

15 Þá sagði Drottinn við hann: "Fyrir því skal hver, sem drepur Kain, sæta sjöfaldri hegningu." Og Drottinn setti Kain merki þess, að enginn, sem hitti hann, skyldi drepa hann.

16 Þá gekk Kain burt frá augliti Drottins og settist að í landinu Nód fyrir austan Eden.

17 Kain kenndi konu sinnar, og hún varð þunguð og fæddi Henok. En hann var að byggja borg og nefndi borgina eftir nafni sonar síns Henok.

18 Og Henoki fæddist Írad, og Írad gat Mehújael, og Mehújael gat Metúsael, og Metúsael gat Lamek.

19 Lamek tók sér tvær konur. Hét önnur Ada, en hin Silla.

20 Og Ada ól Jabal. Hann varð ættfaðir þeirra, sem í tjöldum búa og fénað eiga.

21 En bróðir hans hét Júbal. Hann varð ættfaðir allra þeirra, sem leika á gígjur og hjarðpípur.

22 Og Silla ól einnig son, Túbal-Kain, sem smíðaði úr kopar og járni alls konar tól. Og systir Túbal-Kains var Naama.

23 Lamek sagði við konur sínar: Ada og Silla, heyrið orð mín, konur Lameks, gefið gaum ræðu minni! Mann drep ég fyrir hvert mitt sár og ungmenni fyrir hverja þá skeinu, sem ég fæ.

24 Verði Kains hefnt sjö sinnum, þá skal Lameks hefnt verða sjö og sjötíu sinnum!

25 Og Adam kenndi enn að nýju konu sinnar, og hún ól son og kallaði hann Set. "Því að nú hefir Guð," kvað hún, "gefið mér annað afkvæmi í stað Abels, þar eð Kain drap hann."

26 En Set fæddist og sonur, og nefndi hann nafn hans Enos. Þá hófu menn að ákalla nafn Drottins.

Matteusarguðspjall 4

Þá leiddi andinn Jesú út í óbyggðina, að hans yrði freistað af djöflinum.

Þar fastaði hann fjörutíu daga og fjörutíu nætur og var þá orðinn hungraður.

Þá kom freistarinn og sagði við hann: "Ef þú ert sonur Guðs, þá bjóð þú, að steinar þessir verði að brauðum."

Jesús svaraði: "Ritað er: ,Eigi lifir maðurinn á einu saman brauði, heldur á hverju því orði, sem fram gengur af Guðs munni."`

Þá tekur djöfullinn hann með sér í borgina helgu, setur hann á brún musterisins

og segir við hann: "Ef þú ert sonur Guðs, þá kasta þér ofan, því að ritað er: Hann mun fela þig englum sínum, og þeir munu bera þig á höndum sér, að þú steytir ekki fót þinn við steini."

Jesús svaraði honum: "Aftur er ritað: ,Ekki skalt þú freista Drottins, Guðs þíns."`

Enn tekur djöfullinn hann með sér upp á ofurhátt fjall, sýnir honum öll ríki heims og dýrð þeirra

og segir: "Allt þetta mun ég gefa þér, ef þú fellur fram og tilbiður mig."

10 En Jesús sagði við hann: "Vík brott, Satan! Ritað er: ,Drottin, Guð þinn, skalt þú tilbiðja og þjóna honum einum."`

11 Þá fór djöfullinn frá Jesú. Og englar komu og þjónuðu honum.

12 Þegar hann heyrði, að Jóhannes hefði verið tekinn höndum, hélt hann til Galíleu.

13 Hann fór frá Nasaret og settist að í Kapernaum við vatnið í byggðum Sebúlons og Naftalí.

14 Þannig rættist það, sem sagt er fyrir munn Jesaja spámanns:

15 Sebúlonsland og Naftalíland við vatnið, landið handan Jórdanar, Galílea heiðingjanna.

16 Sú þjóð, sem í myrkri sat, sá mikið ljós. Þeim er sátu í skuggalandi dauðans, er ljós upp runnið.

17 Upp frá þessu tekur Jesús að prédika og segja: "Gjörið iðrun, himnaríki er í nánd."

18 Hann gekk með Galíleuvatni og sá tvo bræður, Símon, sem kallaður var Pétur, og Andrés, bróður hans, vera að kasta neti í vatnið, en þeir voru fiskimenn.

19 Hann sagði við þá: "Komið og fylgið mér, og mun ég láta yður menn veiða."

20 Og þegar í stað yfirgáfu þeir netin og fylgdu honum.

21 Hann gekk áfram þaðan og sá tvo aðra bræður, Jakob Sebedeusson og Jóhannes, bróður hans. Þeir voru í bátnum með Sebedeusi, föður sínum, að búa net sín. Jesús kallaði þá,

22 og þeir yfirgáfu jafnskjótt bátinn og föður sinn og fylgdu honum.

23 Hann fór nú um alla Galíleu, kenndi í samkundum þeirra, prédikaði fagnaðarerindið um ríkið og læknaði hvers kyns sjúkdóm og veikindi meðal lýðsins.

24 Orðstír hans barst um allt Sýrland, og menn færðu til hans alla, sem þjáðust af ýmsum sjúkdómum og kvölum, voru haldnir illum öndum, tunglsjúka menn og lama. Og hann læknaði þá.

25 Mikill mannfjöldi fylgdi honum úr Galíleu, Dekapólis, Jerúsalem, Júdeu og landinu handan Jórdanar.

Esrabók 4

En er mótstöðumenn Júda og Benjamíns heyrðu, að þeir, er heim voru komnir úr herleiðingunni, væru að reisa Drottni, Ísraels Guði, musteri,

þá gengu þeir fyrir Serúbabel og ætthöfðingjana og sögðu við þá: "Vér viljum byggja með yður, því að vér leitum yðar Guðs, eins og þér, og honum höfum vér fórnir fært síðan daga Asarhaddons Assýríukonungs, þess er flutti oss hingað."

En Serúbabel og Jósúa og aðrir ætthöfðingjar Ísraels sögðu við þá: "Vér höfum ekkert saman við yður að sælda um bygginguna á húsi Guðs vors, heldur ætlum vér að reisa það einir saman Drottni, Ísraels Guði, eins og Kýrus konungur, konungur í Persíu, hefir boðið oss."

Þá gjörðu landsbúar Júdalýð huglausan og hræddu þá frá að byggja,

og þeir keyptu menn til að leggja ráð í móti þeim til þess að ónýta fyrirætlun þeirra, alla ævi Kýrusar Persakonungs og þar til er Daríus Persakonungur tók ríki.

Á ríkisárum Ahasverusar, í byrjun ríkisstjórnar hans, rituðu þeir ákæru gegn íbúunum í Júda og Jerúsalem.

En á dögum Artahsasta rituðu þeir Bislam, Mítredat, Tabeel og aðrir samborgarar hans til Artahsasta, konungs í Persíu. En bréfið var ritað á arameísku og útlagt.

Rehúm umboðsmaður og Simsaí ritari skrifuðu Artahsasta konungi bréf um Jerúsalembúa á þessa leið:

"Rehúm umboðsmaður og Simsaí ritari og aðrir samborgarar þeirra, Dínear, Afarsatkear, Tarpelear, Afarsear, Arkevear, Babýloníumenn, Súsankear, Dehear, Elamítar

10 og þær aðrar þjóðir, er hinn mikli og víðfrægi Asnappar flutti burt og setti niður í borginni Samaríu og í öðrum héruðum hinumegin Fljóts," og svo framvegis.

11 Þetta er afrit af bréfinu, sem þeir sendu Artahsasta konungi: "Þjónar þínir, mennirnir í héraðinu hinumegin við Fljótið, og svo framvegis.

12 Það sé konunginum vitanlegt, að Gyðingar þeir, er fóru upp eftir frá þér til vor, eru komnir til Jerúsalem. Eru þeir að reisa að nýju þessa óeirðargjörnu og vondu borg, fullgjöra múrana og gjöra við grundvöllinn.

13 Nú sé það konunginum vitanlegt, að ef borg þessi verður endurreist og múrar hennar fullgjörðir, þá munu þeir hvorki borga skatt, toll né vegagjald, og það mun að lokum verða konunginum tekjumissir.

14 Nú með því að vér etum salt hallarinnar og oss sæmir ekki að horfa upp á skaða konungs, þá sendum vér og látum konunginn vita þetta,

15 til þess að leitað verði í ríkisannálum forfeðra þinna. Þá munt þú finna í ríkisannálunum og komast að raun um, að borg þessi er óeirðargjörn borg og skaðvæn konungum og skattlöndum og að menn hafa gjört uppreisn í henni frá alda öðli. Fyrir því hefir og borg þessi verið lögð í eyði.

16 Vér látum konunginn vita, að ef borg þessi verður reist að nýju og múrar hennar fullgjörðir, þá er úti um landeign þína hinumegin Fljóts."

17 Konungur sendi úrskurð til Rehúms umboðsmanns og Simsaí ritara og til annarra samborgara þeirra, sem bjuggu í Samaríu og öðrum héruðum hinumegin Fljóts: "Heill og friður! og svo framvegis.

18 Bréfið, sem þér senduð til vor, hefir verið lesið greinilega fyrir mér.

19 Og er ég hafði svo fyrirskipað, leituðu menn og fundu, að þessi borg hefir frá alda öðli sýnt konungum mótþróa og að óeirðir og uppreist hafa verið gjörðar í henni.

20 Og voldugir konungar hafa drottnað yfir Jerúsalem og ráðið fyrir öllum héruðum hinumegin Fljóts, og skattur og tollur og vegagjald hefir verið greitt þeim.

21 Skipið því svo fyrir, að menn þessir hætti, svo að borg þessi verði eigi endurreist, uns ég læt skipun út ganga.

22 Og gætið yðar, að þér sýnið ekkert tómlæti í þessu, svo að eigi hljótist af mikið tjón fyrir konungana."

23 Jafnskjótt sem afritið af bréfi Artahsasta konungs hafði verið lesið fyrir þeim Rehúm og Simsaí ritara og samborgurum þeirra, fóru þeir með skyndi til Jerúsalem til Gyðinga og neyddu þá með ofríki og ofbeldi til að hætta.

24 Þá var hætt við bygginguna á musteri Guðs í Jerúsalem, og lá hún niðri þar til á öðru ríkisári Daríusar Persakonungs.

Postulasagan 4

Meðan þeir voru að tala til fólksins, komu að þeim prestarnir, varðforingi helgidómsins og saddúkearnir.

Þeir voru æfir af því að postularnir voru að kenna fólkinu og boða upprisu dauðra í Jesú.

Lögðu þeir hendur á þá og settu þá í varðhald til næsta morguns, því að kvöld var komið.

En margir þeirra, er heyrt höfðu orðið, tóku trú, og tala karlmanna varð um fimm þúsundir.

Næsta morgun komu höfðingjarnir, öldungarnir og fræðimennirnir saman í Jerúsalem.

Þar voru Annas, æðsti prestur, Kaífas, Jóhannes, Alexander og allir, sem voru af æðsta prests ættum.

Þeir létu leiða postulana fram og spurðu þá: "Með hvaða krafti eða í hvers nafni gjörðuð þið þetta?"

Þá sagði Pétur við þá, fylltur heilögum anda: "Þér höfðingjar lýðsins og öldungar,

með því að við eigum í dag að svara til saka vegna góðverks við sjúkan mann og gera grein fyrir því, hvernig hann sé heill orðinn,

10 þá sé yður öllum kunnugt og öllum Ísraelslýð, að í nafni Jesú Krists frá Nasaret, þess er þér krossfestuð, en Guð uppvakti frá dauðum, í hans nafni stendur þessi maður heilbrigður fyrir augum yðar.

11 Jesús er steinninn, sem þér, húsasmiðirnir, virtuð einskis, hann er orðinn hyrningarsteinn.

12 Ekki er hjálpræðið í neinum öðrum. Og ekkert annað nafn er mönnum gefið um víða veröld, sem getur frelsað oss."

13 Þegar þeir sáu djörfung Péturs og Jóhannesar og skildu, að þeir voru ólærðir leikmenn, undruðust þeir. Þeir könnuðust og við, að þeir höfðu verið með Jesú.

14 Og er þeir sáu manninn, sem læknaður hafði verið, standa hjá þeim, máttu þeir ekki í móti mæla.

15 Þeir skipuðu þeim að ganga út frá ráðinu, tóku saman ráð sín og sögðu:

16 "Hvað eigum vér að gjöra við þessa menn? Því að augljóst er öllum Jerúsalembúum, að ótvírætt tákn er orðið af þeirra völdum. Vér getum ekki neitað því.

17 Þetta má ekki berast frekar út meðal lýðsins. Vér skulum því hóta þeim hörðu, að þeir tali aldrei framar í þessu nafni við nokkurn mann."

18 Síðan kölluðu þeir þá fyrir sig og skipuðu þeim að hætta með öllu að tala eða kenna í Jesú nafni.

19 Pétur og Jóhannes svöruðu: "Dæmið sjálfir, hvort það sé rétt í augum Guðs að hlýðnast yður fremur en honum.

20 Vér getum ekki annað en talað það, sem vér höfum séð og heyrt."

21 En þeir ógnuðu þeim enn frekar og slepptu þeim síðan, þar sem þeir sáu enga leið vegna fólksins að hegna þeim, því allir lofuðu Guð fyrir þennan atburð.

22 En maðurinn, sem læknast hafði með þessu tákni, var yfir fertugt.

23 Er þeim hafði verið sleppt, fóru þeir til félaga sinna og greindu þeim frá öllu því, sem æðstu prestarnir og öldungarnir höfðu við þá talað.

24 Þegar þeir heyrðu það, hófu þeir einum huga raust sína til Guðs og sögðu: "Herra, þú sem gjörðir himin, jörð og haf og allt, sem í þeim er,

25 þú, sem lést heilagan anda mæla af munni Davíðs, föður vors, þjóns þíns: Hví geisuðu heiðingjarnir, og hví hugðu lýðirnir á hégómleg ráð?

26 Konungar jarðarinnar risu upp, og höfðingjarnir söfnuðust saman gegn Drottni og gegn hans Smurða.

27 Því að sannarlega söfnuðust saman í borg þessari gegn hinum heilaga þjóni þínum, Jesú, er þú smurðir, þeir Heródes og Pontíus Pílatus ásamt heiðingjunum og lýðum Ísraels

28 til að gjöra allt það, er hönd þín og ráð hafði fyrirhugað, að verða skyldi.

29 Og nú, Drottinn, lít á hótanir þeirra og veit þjónum þínum fulla djörfung að tala orð þitt.

30 Rétt þú út hönd þína til að lækna og lát tákn og undur verða fyrir nafn þíns heilaga þjóns, Jesú."

31 Þegar þeir höfðu beðist fyrir, hrærðist staðurinn, þar sem þeir voru saman komnir, og þeir fylltust allir heilögum anda og töluðu orð Guðs af djörfung.

32 En í þeim fjölda, sem trú hafði tekið, var eitt hjarta og ein sál, og enginn þeirra taldi neitt vera sitt, er hann átti, heldur höfðu þeir allt sameiginlegt.

33 Postularnir báru vitni um upprisu Drottins Jesú með miklum krafti, og mikil náð var yfir þeim öllum.

34 Eigi var heldur neinn þurfandi meðal þeirra, því að allir landeigendur og húseigendur seldu eign sína, komu með andvirðið

35 og lögðu fyrir fætur postulanna. Og sérhverjum var úthlutað eftir því sem hann hafði þörf til.

36 Jósef levíti, frá Kýpur, sem postularnir kölluðu Barnabas, það þýðir huggunar sonur,

37 átti sáðland og seldi, kom með verðið og lagði fyrir fætur postulanna.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society