Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Fyrsta bók Móse 3

Höggormurinn var slægari en öll önnur dýr merkurinnar, sem Drottinn Guð hafði gjört. Og hann mælti við konuna: "Er það satt, að Guð hafi sagt: ,Þið megið ekki eta af neinu tré í aldingarðinum`?"

Þá sagði konan við höggorminn: "Af ávöxtum trjánna í aldingarðinum megum við eta,

en af ávexti trésins, sem stendur í miðjum aldingarðinum, ,af honum,` sagði Guð, ,megið þið ekki eta og ekki snerta hann, ella munuð þið deyja."`

Þá sagði höggormurinn við konuna: "Vissulega munuð þið ekki deyja!

En Guð veit, að jafnskjótt sem þið etið af honum, munu augu ykkar upp ljúkast, og þið munuð verða eins og Guð og vita skyn góðs og ills."

En er konan sá, að tréð var gott að eta af, fagurt á að líta og girnilegt til fróðleiks, þá tók hún af ávexti þess og át, og hún gaf einnig manni sínum, sem með henni var, og hann át.

Þá lukust upp augu þeirra beggja, og þau urðu þess vör, að þau voru nakin, og þau festu saman fíkjuviðarblöð og gjörðu sér mittisskýlur.

En er þau heyrðu til Drottins Guðs, sem var á gangi í aldingarðinum í kveldsvalanum, þá reyndi maðurinn og kona hans að fela sig fyrir Drottni Guði millum trjánna í aldingarðinum.

Drottinn Guð kallaði á manninn og sagði við hann: "Hvar ertu?"

10 Hann svaraði: "Ég heyrði til þín í aldingarðinum og varð hræddur, af því að ég er nakinn, og ég faldi mig."

11 En hann mælti: "Hver hefir sagt þér, að þú værir nakinn? Hefir þú etið af trénu, sem ég bannaði þér að eta af?"

12 Þá svaraði maðurinn: "Konan, sem þú gafst mér til sambúðar, hún gaf mér af trénu, og ég át."

13 Þá sagði Drottinn Guð við konuna: "Hvað hefir þú gjört?" Og konan svaraði: "Höggormurinn tældi mig, svo að ég át."

14 Þá sagði Drottinn Guð við höggorminn: "Af því að þú gjörðir þetta, skalt þú vera bölvaður meðal alls fénaðarins og allra dýra merkurinnar. Á kviði þínum skalt þú skríða og mold eta alla þína lífdaga.

15 Og fjandskap vil ég setja milli þín og konunnar, milli þíns sæðis og hennar sæðis. Það skal merja höfuð þitt, og þú skalt merja hæl þess."

16 En við konuna sagði hann: "Mikla mun ég gjöra þjáningu þína, er þú verður barnshafandi. Með þraut skalt þú börn fæða, og þó hafa löngun til manns þíns, en hann skal drottna yfir þér."

17 Og við manninn sagði hann: "Af því að þú hlýddir röddu konu þinnar og ást af því tré, sem ég bannaði þér, er ég sagði: ,Þú mátt ekki eta af því,` þá sé jörðin bölvuð þín vegna. Með erfiði skalt þú þig af henni næra alla þína lífdaga.

18 Þyrna og þistla skal hún bera þér, og þú skalt eta jurtir merkurinnar.

19 Í sveita andlitis þíns skalt þú neyta brauðs þíns, þangað til þú hverfur aftur til jarðarinnar, því að af henni ert þú tekinn. Því að mold ert þú og til moldar skalt þú aftur hverfa!"

20 Og maðurinn nefndi konu sína Evu, því að hún varð móðir allra, sem lifa.

21 Og Drottinn Guð gjörði manninum og konu hans skinnkyrtla og lét þau klæðast þeim.

22 Drottinn Guð sagði: "Sjá, maðurinn er orðinn sem einn af oss, þar sem hann veit skyn góðs og ills. Aðeins að hann rétti nú ekki út hönd sína og taki einnig af lífsins tré og eti, og lifi eilíflega!"

23 Þá lét Drottinn Guð hann í burt fara úr aldingarðinum Eden til að yrkja jörðina, sem hann var tekinn af.

24 Og hann rak manninn burt og setti kerúbana fyrir austan Edengarð og loga hins sveipanda sverðs til að geyma vegarins að lífsins tré.

Matteusarguðspjall 3

Á þeim dögum kemur Jóhannes skírari fram og prédikar í óbyggðum Júdeu.

Hann sagði: "Gjörið iðrun, himnaríki er í nánd."

Jóhannes er sá sem svo er um mælt hjá Jesaja spámanni: Rödd hrópanda í eyðimörk: Greiðið veg Drottins, gjörið beinar brautir hans.

Jóhannes bar klæði úr úlfaldahári og leðurbelti um lendar sér og hafði til matar engisprettur og villihunang.

Menn streymdu til hans frá Jerúsalem, allri Júdeu og Jórdanbyggð,

létu skírast af honum í ánni Jórdan og játuðu syndir sínar.

Þegar hann sá, að margir farísear og saddúkear komu til skírnar, sagði hann við þá: "Þér nöðru kyn, hver kenndi yður að flýja komandi reiði?

Berið þá ávöxt samboðinn iðruninni!

Látið yður ekki til hugar koma, að þér getið sagt með sjálfum yður: ,Vér eigum Abraham að föður.` Ég segi yður, að Guð getur vakið Abraham börn af steinum þessum.

10 Öxin er þegar lögð að rótum trjánna, og hvert það tré, sem ber ekki góðan ávöxt, verður upp höggvið og í eld kastað.

11 Ég skíri yður með vatni til iðrunar, en sá sem kemur eftir mig, er mér máttugri, og er ég ekki verður að bera skó hans. Hann mun skíra yður með heilögum anda og eldi.

12 Hann er með varpskófluna í hendi sér og mun gjörhreinsa láfa sinn og safna hveiti sínu í hlöðu, en hismið mun hann brenna í óslökkvanda eldi."

13 Þá kemur Jesús frá Galíleu að Jórdan til Jóhannesar að taka skírn hjá honum.

14 Jóhannes vildi varna honum þess og sagði: "Mér er þörf að skírast af þér, og þú kemur til mín!"

15 Jesús svaraði honum: "Lát það nú eftir. Þannig ber okkur að fullnægja öllu réttlæti." Og hann lét það eftir honum.

16 En þegar Jesús hafði verið skírður, sté hann jafnskjótt upp úr vatninu. Og þá opnuðust himnarnir, og hann sá anda Guðs stíga niður eins og dúfu og koma yfir sig.

17 Og rödd kom af himnum: "Þessi er minn elskaði sonur, sem ég hef velþóknun á."

Esrabók 3

En er sjöundi mánuðurinn kom, og Ísraelsmenn voru í borgunum, safnaðist lýðurinn saman eins og einn maður í Jerúsalem.

Þá tóku þeir sig til, Jósúa Jósadaksson og bræður hans, prestarnir, og Serúbabel Sealtíelsson og bræður hans, og reistu altari Ísraels Guðs, til þess að á því yrðu færðar brennifórnir eftir því, sem fyrir er mælt í lögmáli guðsmannsins Móse.

Og þeir reistu altarið þar, er það áður hafði staðið, því að þeim stóð ótti af landsbúum, og færðu Drottni brennifórnir á því, morgunbrennifórnir og kveldbrennifórnir.

Og þeir héldu laufskálahátíðina, eftir því sem fyrir er mælt, og báru fram brennifórnir á degi hverjum með réttri tölu, að réttum sið, það er við átti á hverjum degi,

og því næst hinar stöðugu brennifórnir, og fórnir tunglkomuhátíðanna og allra hinna helgu löghátíða Drottins, svo og fórnir allra þeirra, er færðu Drottni sjálfviljafórn.

Frá fyrsta degi hins sjöunda mánaðar byrjuðu þeir að færa Drottni brennifórnir, og hafði þá eigi enn verið lagður grundvöllur að musteri Drottins.

Og þeir gáfu steinsmiðunum og trésmiðunum silfur og Sídoningum og Týrusmönnum mat og drykk og olífuolíu til að flytja sedrusvið frá Líbanon sjóleiðis til Jafó samkvæmt leyfi Kýrusar Persakonungs þeim til handa.

Á öðru ári eftir heimkomu þeirra til húss Guðs í Jerúsalem, í öðrum mánuðinum, byrjuðu þeir Serúbabel Sealtíelsson og Jósúa Jósadaksson og aðrir bræður þeirra, prestarnir og levítarnir og allir þeir, er komnir voru úr útlegðinni til Jerúsalem, að setja levíta, tvítuga og þaðan af eldri, til að hafa eftirlit með byggingu húss Drottins.

Og þannig gengu þeir Jósúa, synir hans og bræður hans, Kadmíel og synir hans, synir Hódavja, synir Henadads, svo og synir þeirra og bræður þeirra, levítarnir, sem einn maður að því verki að hafa eftirlit með þeim, er unnu að byggingu Guðs húss.

10 Og er smiðirnir lögðu grundvöllinn að musteri Drottins, námu prestarnir þar staðar í embættisskrúða með lúðra og levítarnir, niðjar Asafs, með skálabumbur, til þess að vegsama Drottin eftir tilskipun Davíðs Ísraelskonungs.

11 Og þeir hófu að lofa og vegsama Drottin fyrir það, að hann er góður og að miskunn hans við Ísrael er eilíf. Og allur lýðurinn laust upp miklu fagnaðarópi og lofaði Drottin fyrir það, að grundvöllur var lagður að húsi Drottins.

12 En margir af prestunum og levítunum og ætthöfðingjunum _ öldungar þeir, er séð höfðu hið fyrra musterið _ grétu hástöfum, þegar grundvöllur þessa húss var lagður að þeim ásjáandi, en margir æptu líka fagnaðar- og gleðióp.

13 Og lýðurinn gat ekki greint fagnaðarópin frá gráthljóðunum í fólkinu, því að lýðurinn laust upp miklu fagnaðarópi, og heyrðist ómurinn langar leiðir.

Postulasagan 3

Pétur og Jóhannes gengu upp í helgidóminn til síðdegisbæna.

Þá var þangað borinn maður, lami frá móðurlífi, er dag hvern var settur við þær dyr helgidómsins, sem nefndar eru Fögrudyr, til að beiðast ölmusu hjá þeim, er inn gengu í helgidóminn.

Er hann sá þá Pétur og Jóhannes á leið inn í helgidóminn, baðst hann ölmusu.

Þeir horfðu fast á hann, og Pétur sagði: "Lít þú á okkur."

Hann starði á þá í von um að fá eitthvað hjá þeim.

Pétur sagði: "Silfur og gull á ég ekki, en það sem ég hef, það gef ég þér: Í nafni Jesú Krists frá Nasaret, statt upp og gakk!"

Og hann tók í hægri hönd honum og reisti hann upp. Jafnskjótt urðu fætur hans og ökklar styrkir,

hann spratt upp, stóð í fætur og tók að ganga. Hann fór inn með þeim í helgidóminn, gekk um og stökk og lofaði Guð.

Allt fólkið sá hann ganga um og lofa Guð.

10 Þeir þekktu, að hann var sá er hafði setið fyrir Fögrudyrum helgidómsins til að beiðast ölmusu. Urðu þeir furðu lostnir og frá sér numdir af því, sem fram við hann hafði komið.

11 Hann hélt sér að Pétri og Jóhannesi, og þá flykktist allt fólkið furðu lostið til þeirra í súlnagöngin, sem kennd eru við Salómon.

12 Þegar Pétur sá það, ávarpaði hann fólkið: "Ísraelsmenn, hví furðar yður á þessu eða hví starið þér á okkur, eins og við hefðum af eigin mætti eða guðrækni komið því til leiðar, að þessi maður gengur?

13 Guð Abrahams, Ísaks og Jakobs, Guð feðra vorra hefur dýrlegan gjört þjón sinn, Jesú, sem þér framselduð og afneituðuð frammi fyrir Pílatusi, er hann hafði ályktað að láta hann lausan.

14 Þér afneituðuð hinum heilaga og réttláta, en beiddust að manndrápari yrði gefinn yður.

15 Þér líflétuð höfðingja lífsins, en Guð uppvakti hann frá dauðum, og að því erum vér vottar.

16 Trúin á nafn Jesú gjörði þennan mann, sem þér sjáið og þekkið, styrkan. Nafnið hans og trúin, sem hann gefur, veitti honum þennan albata fyrir augum yðar allra.

17 Nú veit ég, bræður, að þér gjörðuð það af vanþekkingu, sem og höfðingjar yðar.

18 En Guð lét þannig rætast það, sem hann hafði boðað fyrirfram fyrir munn allra spámannanna, að Kristur hans skyldi líða.

19 Gjörið því iðrun og snúið yður, að syndir yðar verði afmáðar.

20 Þá munu koma endurlífgunartímar frá augliti Drottins, og hann mun senda Krist, sem yður er fyrirhugaður, sem er Jesús.

21 Hann á að vera í himninum allt til þess tíma, þegar Guð endurreisir alla hluti, eins og hann hefur sagt fyrir munn sinna heilögu spámanna frá alda öðli.

22 Móse sagði: ,Spámann mun Drottinn, Guð yðar, uppvekja yður af bræðrum yðar eins og mig. Á hann skuluð þér hlýða í öllu, er hann talar til yðar.

23 Og sérhver sá, sem hlýðir ekki á þennan spámann, skal upprættur verða úr lýðnum.`

24 Allir spámennirnir, Samúel og þeir sem á eftir komu, allir þeir sem talað hafa, boðuðu og þessa daga.

25 Þér eruð börn spámannanna og eigið hlut í sáttmálanum, sem Guð gjörði við feður yðar, er hann sagði við Abraham: ,Af þínu afkvæmi skulu allar ættkvíslir jarðarinnar blessun hljóta.`

26 Guð hefur reist upp þjón sinn og sent hann yður fyrst til að blessa yður og snúa hverjum yðar frá vondri breytni sinni."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society