Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Fyrsta bók Móse 2

Þannig algjörðist himinn og jörð og öll þeirra prýði.

Guð lauk á hinum sjöunda degi verki sínu, er hann hafði gjört, og hvíldist hinn sjöunda dag af öllu verki sínu, er hann hafði gjört.

Og Guð blessaði hinn sjöunda dag og helgaði hann, því að á honum hvíldist Guð af verki sínu, sem hann hafði skapað og gjört.

Þetta er sagan um uppruna himins og jarðar, er þau voru sköpuð.

Þegar Drottinn Guð gjörði jörðina og himininn, var enn alls enginn runnur merkurinnar til á jörðinni, og engar jurtir spruttu enn á mörkinni, því að Drottinn Guð hafði ekki enn látið rigna á jörðina og engir menn voru til þess að yrkja hana,

en þoku lagði upp af jörðinni, og vökvaði hún allt yfirborð jarðarinnar.

Þá myndaði Drottinn Guð manninn af leiri jarðar og blés lífsanda í nasir hans, og þannig varð maðurinn lifandi sál.

Drottinn Guð plantaði aldingarð í Eden langt austur frá og setti þar manninn, sem hann hafði myndað.

Og Drottinn Guð lét upp vaxa af jörðinni alls konar tré, sem voru girnileg á að líta og góð að eta af, og lífsins tré í miðjum aldingarðinum og skilningstréð góðs og ills.

10 Fljót rann frá Eden til að vökva aldingarðinn, og þaðan kvíslaðist það og varð að fjórum stórám.

11 Hin fyrsta heitir Píson; hún fellur um allt landið Havíla, þar sem gullið fæst.

12 Og gull lands þess er gott. Þar fæst bedolakharpeis og sjóamsteinar.

13 Önnur stóráin heitir Gíhon. Hún fellur um allt Kúsland.

14 Þriðja stóráin heitir Kíddekel. Hún fellur fyrir vestan Assýríu. Fjórða stóráin er Efrat.

15 Þá tók Drottinn Guð manninn og setti hann í aldingarðinn Eden til að yrkja hann og gæta hans.

16 Og Drottinn Guð bauð manninum og sagði: "Af öllum trjám í aldingarðinum máttu eta eftir vild,

17 en af skilningstrénu góðs og ills mátt þú ekki eta, því að jafnskjótt og þú etur af því, skalt þú vissulega deyja."

18 Drottinn Guð sagði: "Eigi er það gott, að maðurinn sé einsamall. Ég vil gjöra honum meðhjálp við hans hæfi."

19 Þá myndaði Drottinn Guð af jörðinni öll dýr merkurinnar og alla fugla loftsins og lét þau koma fyrir manninn til þess að sjá, hvað hann nefndi þau. Og hvert það heiti, sem maðurinn gæfi hinum lifandi skepnum, skyldi vera nafn þeirra.

20 Og maðurinn gaf nafn öllum fénaðinum og fuglum loftsins og öllum dýrum merkurinnar. En meðhjálp fyrir mann fann hann enga við sitt hæfi.

21 Þá lét Drottinn Guð fastan svefn falla á manninn. Og er hann var sofnaður, tók hann eitt af rifjum hans og fyllti aftur með holdi.

22 Og Drottinn Guð myndaði konu af rifinu, er hann hafði tekið úr manninum, og leiddi hana til mannsins.

23 Þá sagði maðurinn: "Þetta er loks bein af mínum beinum og hold af mínu holdi. Hún skal karlynja kallast, af því að hún er af karlmanni tekin."

24 Þess vegna yfirgefur maður föður sinn og móður sína og býr við eiginkonu sína, svo að þau verði eitt hold.

25 Og þau voru bæði nakin, maðurinn og kona hans, og blygðuðust sín ekki.

Matteusarguðspjall 2

Þegar Jesús var fæddur í Betlehem í Júdeu á dögum Heródesar konungs, komu vitringar frá Austurlöndum til Jerúsalem

og sögðu: "Hvar er hinn nýfæddi konungur Gyðinga? Vér sáum stjörnu hans renna upp og erum komnir að veita honum lotningu."

Þegar Heródes heyrði þetta, varð hann skelkaður og öll Jerúsalem með honum.

Og hann stefndi saman öllum æðstu prestum og fræðimönnum lýðsins og spurði þá: "Hvar á Kristur að fæðast?"

Þeir svöruðu honum: "Í Betlehem í Júdeu. En þannig er ritað hjá spámanninum:

Þú Betlehem, í landi Júda, ekki ertu síst meðal hefðarborga Júda. Því að höfðingi mun frá þér koma, sem verður hirðir lýðs míns, Ísraels."

Þá kallaði Heródes vitringana til sín á laun og grófst eftir því hjá þeim, nær stjarnan hefði birst.

Hann sendi þá síðan til Betlehem og sagði: "Farið og spyrjist vandlega fyrir um barnið, og er þér finnið það látið mig vita, til þess að ég geti einnig komið og veitt því lotningu."

Þeir hlýddu á konung og fóru. Og stjarnan, sem þeir sáu austur þar, fór fyrir þeim, uns hana bar þar yfir, sem barnið var.

10 Þegar þeir sáu stjörnuna, glöddust þeir harla mjög,

11 þeir gengu inn í húsið og sáu barnið og Maríu, móður þess, féllu fram og veittu því lotningu. Síðan luku þeir upp fjárhirslum sínum og færðu því gjafir, gull, reykelsi og myrru.

12 En þar sem þeir fengu bendingu í draumi að snúa ekki aftur til Heródesar, fóru þeir aðra leið heim í land sitt.

13 Þegar þeir voru farnir, þá vitrast engill Drottins Jósef í draumi og segir: "Rís upp, tak barnið og móður þess og flý til Egyptalands. Þar skaltu vera, uns ég segi þér, því að Heródes mun leita barnsins til að fyrirfara því."

14 Hann vaknaði, tók barnið og móður þess um nóttina og fór til Egyptalands.

15 Þar dvaldist hann þangað til Heródes var allur. Það sem Drottinn sagði fyrir munn spámannsins, skyldi rætast: "Frá Egyptalandi kallaði ég son minn."

16 Þá sá Heródes, að vitringarnir höfðu gabbað hann, og varð afar reiður, sendi menn og lét myrða öll sveinbörn í Betlehem og nágrenni hennar, tvævetur og yngri, en það svaraði þeim tíma, er hann hafði komist að hjá vitringunum.

17 Nú rættist það, sem sagt var fyrir munn Jeremía spámanns:

18 Rödd heyrðist í Rama, grátur og kveinstafir miklir, Rakel grætur börnin sín og vill ekki huggast láta, því að þau eru ekki framar lífs.

19 Þegar Heródes var dáinn, þá vitrast engill Drottins Jósef í draumi í Egyptalandi

20 og segir: "Rís upp, tak barnið og móður þess og far til Ísraelslands. Nú eru þeir dánir, sem sátu um líf barnsins."

21 Hann tók sig upp og fór til Ísraelslands með barnið og móður þess.

22 En þá er hann heyrði, að Arkelás réð ríkjum í Júdeu í stað Heródesar föður síns, óttaðist hann að fara þangað, og hélt til Galíleubyggða eftir bendingu í draumi.

23 Þar settist hann að í borg, sem heitir Nasaret, en það átti að rætast, sem sagt var fyrir munn spámannanna: "Nasarei skal hann kallast."

Esrabók 2

Þessir eru þeir úr skattlandinu, er heim fóru úr herleiðingarútlegðinni, þeir er Nebúkadnesar konungur í Babýlon hafði herleitt til Babýlon og nú sneru aftur til Jerúsalem og Júda, hver til sinnar borgar,

þeir sem komu með Serúbabel, Jósúa, Nehemía, Seraja, Reelja, Mordekai, Bilsan, Mispar, Bigvaí, Rehúm og Baana. Talan á mönnum Ísraelslýðs var:

Niðjar Parós: 2.172.

Niðjar Sefatja: 372.

Niðjar Ara: 775.

Niðjar Pahat Móabs, sem sé niðjar Jesúa og Jóabs: 2.812.

Niðjar Elams: 1.254.

Niðjar Sattú: 945.

Niðjar Sakkaí: 760.

10 Niðjar Baní: 642.

11 Niðjar Bebaí: 623.

12 Niðjar Asgads: 1.222.

13 Niðjar Adóníkams: 666.

14 Niðjar Bigvaí: 2.056.

15 Niðjar Adíns: 454.

16 Niðjar Aters, frá Hiskía: 98.

17 Niðjar Besaí: 323.

18 Niðjar Jóra: 112.

19 Niðjar Hasúms: 223.

20 Niðjar Gibbars: 95.

21 Ættaðir frá Betlehem: 123.

22 Menn frá Netófa: 56.

23 Menn frá Anatót: 128.

24 Ættaðir frá Asmavet: 42.

25 Ættaðir frá Kirjat Jearím, Kefíra og Beerót: 743.

26 Ættaðir frá Rama og Geba: 621.

27 Menn frá Mikmas: 122.

28 Menn frá Betel og Aí: 223.

29 Ættaðir frá Nebó: 52.

30 Niðjar Magbis: 156.

31 Niðjar Elams hins annars: 1.254.

32 Niðjar Haríms: 320.

33 Ættaðir frá Lód, Hadíd og Ónó: 725.

34 Ættaðir frá Jeríkó: 345.

35 Ættaðir frá Senaa: 3.630.

36 Prestarnir: Niðjar Jedaja, af ætt Jesúa: 973.

37 Niðjar Immers: 1.052.

38 Niðjar Pashúrs: 1.247.

39 Niðjar Haríms: 1.017.

40 Levítarnir: Niðjar Jesúa og Kadmíels, af niðjum Hódavja: 74.

41 Söngvararnir: niðjar Asafs: 128.

42 Niðjar hliðvarðanna: niðjar Sallúms, niðjar Aters, niðjar Talmóns, niðjar Akúbs, niðjar Hatíta, niðjar Sóbaí _ alls 139.

43 Musterisþjónarnir: niðjar Síha, niðjar Hasúfa, niðjar Tabbaóts,

44 niðjar Kerós, niðjar Síaha, niðjar Padóns,

45 niðjar Lebana, niðjar Hagaba, niðjar Akúbs,

46 niðjar Hagabs, niðjar Salmaí, niðjar Hanans,

47 niðjar Giddels, niðjar Gahars, niðjar Reaja,

48 niðjar Resíns, niðjar Nekóda, niðjar Gassams,

49 niðjar Ússa, niðjar Pasea, niðjar Besaí,

50 niðjar Asna, niðjar Meúníta, niðjar Nefísíta,

51 niðjar Bakbúks, niðjar Hakúfa, niðjar Harhúrs,

52 niðjar Baselúts, niðjar Mehída, niðjar Harsa,

53 niðjar Barkós, niðjar Sísera, niðjar Tema,

54 niðjar Nesía, niðjar Hatífa.

55 Niðjar þræla Salómons: niðjar Sótaí, niðjar Sóferets, niðjar Perúda,

56 niðjar Jaala, niðjar Darkóns, niðjar Giddels,

57 niðjar Sefatja, niðjar Hattils, niðjar Pókeret Hassebaíms, niðjar Ami.

58 Allir musterisþjónarnir og niðjar þræla Salómons voru 392.

59 Og þessir eru þeir, sem fóru heim frá Tel Mela, Tel Harsa, Kerúb, Addan, Immer, en kunnu eigi að greina ætt sína og uppruna, hvort þeir væru komnir af Ísrael:

60 Niðjar Delaja, niðjar Tobía, niðjar Nekóda: 652.

61 Og af niðjum prestanna: Niðjar Habaja, niðjar Hakkós, niðjar Barsillaí, er gengið hafði að eiga eina af dætrum Barsillaí Gíleaðíta og nefndur hafði verið nafni þeirra.

62 Þessir leituðu að ættartölum sínum, en þær fundust ekki. Var þeim því hrundið frá prestdómi.

63 Og landstjórinn sagði þeim, að þeir mættu ekki eta af hinu háheilaga, þar til er kæmi fram prestur, er kynni að fara með úrím og túmmím.

64 Allur söfnuðurinn var til samans 42.360,

65 auk þræla þeirra og ambátta, er voru 7.337. Þeir höfðu 200 söngvara og söngkonur.

66 Hestar þeirra voru 736, múlar 245,

67 úlfaldar 435, asnar 6.720.

68 Og sumir ætthöfðingjanna gáfu, er þeir komu til musteris Drottins í Jerúsalem, sjálfviljagjafir til musteris Guðs, til þess að það yrði reist á sínum stað.

69 Gáfu þeir hver eftir efnum sínum í byggingarsjóðinn: í gulli 6.100 daríka og í silfri 5.000 mínur, og 100 prestserki.

70 Þannig settust prestarnir og levítarnir og nokkrir af lýðnum og söngvararnir og hliðverðirnir og musterisþjónarnir að í borgum sínum. Og allur Ísrael tók sér bólfestu í borgum sínum.

Postulasagan 2

Þá er upp var runninn hvítasunnudagur, voru þeir allir saman komnir.

Varð þá skyndilega gnýr af himni eins og aðdynjanda sterkviðris og fyllti allt húsið, þar sem þeir voru.

Þeim birtust tungur, eins og af eldi væru, er kvísluðust og settust á hvern og einn þeirra.

Þeir fylltust allir heilögum anda og tóku að tala öðrum tungum, eins og andinn gaf þeim að mæla.

Í Jerúsalem dvöldust Gyðingar, guðræknir menn, frá öllum löndum undir himninum.

Er þetta hljóð heyrðist, dreif að fjölda manns. Þeim brá mjög við, því að hver og einn heyrði þá mæla á sína tungu.

Þeir voru frá sér af undrun og sögðu: "Eru þetta ekki allt Galíleumenn, sem hér eru að tala?

Hvernig má það vera, að vér, hver og einn, heyrum þá tala vort eigið móðurmál?

Vér erum Partar, Medar og Elamítar, vér erum frá Mesópótamíu, Júdeu, Kappadókíu, Pontus og Asíu,

10 frá Frýgíu og Pamfýlíu, Egyptalandi og Líbýubyggðum við Kýrene, og vér, sem hingað erum fluttir frá Róm.

11 Hér eru bæði Gyðingar og þeir sem tekið hafa trú Gyðinga, Kríteyingar og Arabar. Vér heyrum þá tala á vorum tungum um stórmerki Guðs."

12 Þeir voru allir furðu lostnir og ráðalausir og sögðu hver við annan: "Hvað getur þetta verið?"

13 En aðrir höfðu að spotti og sögðu: "Þeir eru drukknir af sætu víni."

14 Þá steig Pétur fram og þeir ellefu, og hann hóf upp rödd sína og mælti til þeirra: "Gyðingar og allir þér Jerúsalembúar! Þetta skuluð þér vita. Ljáið eyru orðum mínum.

15 Eigi eru þessir menn drukknir, eins og þér ætlið, enda aðeins komin dagmál.

16 Hér er að rætast það, sem spámaðurinn Jóel segir:

17 Það mun verða á efstu dögum, segir Guð, að ég mun úthella anda mínum yfir alla menn. Synir yðar og dætur munu spá, ungmenni yðar munu sjá sýnir og gamalmenni yðar mun drauma dreyma.

18 Jafnvel yfir þræla mína og ambáttir mínar mun ég á þeim dögum úthella anda mínum, og þau munu spá.

19 Og ég mun láta undur verða á himnum uppi og tákn á jörðu niðri, blóð og eld og reykjarmökk.

20 Sólin mun snúast í myrkur og tunglið í blóð, áður dagur Drottins kemur, hinn mikli og dýrlegi.

21 En hver sá, sem ákallar nafn Drottins, mun frelsast.

22 Ísraelsmenn, heyrið þessi orð: Jesús frá Nasaret var maður, sem Guð sannaði yður með kraftaverkum, undrum og táknum, er Guð lét hann gjöra meðal yðar, eins og þér sjálfir vitið.

23 Hann var framseldur að fyrirhuguðu ráði Guðs og fyrirvitund, og þér létuð heiðna menn negla hann á kross og tókuð hann af lífi.

24 En Guð leysti hann úr nauðum dauðans og reisti hann upp, enda gat það aldrei orðið, að dauðinn fengi haldið honum,

25 því að Davíð segir um hann: Ávallt hafði ég Drottin fyrir augum mér, því að hann er mér til hægri hliðar, til þess að ég bifist ekki.

26 Fyrir því gladdist hjarta mitt, og tunga mín fagnaði. Meira að segja mun líkami minn hvílast í von.

27 Því að ekki munt þú skilja sálu mína eftir í helju og eigi láta þinn heilaga verða rotnun að bráð.

28 Kunna gjörðir þú mér lífsins vegu. Þú munt mig fögnuði fylla fyrir þínu augliti.

29 Bræður, óhikað get ég við yður talað um ættföðurinn Davíð. Hann dó og var grafinn, og leiði hans er til hér allt til þessa dags.

30 En hann var spámaður og vissi, að Guð hafði með eiði heitið honum að setja í hásæti hans einhvern niðja hans.

31 Því sá hann fyrir upprisu Krists og sagði: Ekki varð hann eftir skilinn í helju, og ekki varð líkami hans rotnun að bráð.

32 Þennan Jesú reisti Guð upp, og erum vér allir vottar þess.

33 Nú er hann upp hafinn til Guðs hægri handar og hefur af föðurnum tekið við heilögum anda, sem fyrirheitið var, og úthellt honum, eins og þér sjáið og heyrið.

34 Ekki steig Davíð upp til himna, en hann segir: Drottinn sagði við minn drottin: Set þig mér til hægri handar,

35 þangað til ég gjöri óvini þína að fótskör þinni.

36 Með öruggri vissu viti þá öll Ísraels ætt, að þennan Jesú, sem þér krossfestuð, hefur Guð gjört bæði að Drottni og Kristi."

37 Er þeir heyrðu þetta, var sem stungið væri í hjörtu þeirra, og þeir sögðu við Pétur og hina postulana: "Hvað eigum vér að gjöra, bræður?"

38 Pétur sagði við þá: "Gjörið iðrun og látið skírast hver og einn í nafni Jesú Krists til fyrirgefningar synda yðar; þá munuð þér öðlast að gjöf heilagan anda.

39 Því að yður er ætlað fyrirheitið, börnum yðar og öllum þeim, sem í fjarlægð eru, öllum þeim, sem Drottinn Guð vor kallar til sín."

40 Og með öðrum fleiri orðum vitnaði hann, áminnti þá og sagði: "Látið frelsast frá þessari rangsnúnu kynslóð."

41 En þeir, sem veittu orði hans viðtöku, voru skírðir, og þann dag bættust við um þrjú þúsund sálir.

42 Þeir ræktu trúlega uppfræðslu postulanna og samfélagið, brotning brauðsins og bænirnar.

43 Ótta setti að hverjum manni, en mörg undur og tákn gjörðust fyrir hendur postulanna.

44 Allir þeir sem trúðu héldu hópinn og höfðu allt sameiginlegt.

45 Þeir seldu eignir sínar og fjármuni og skiptu meðal allra eftir því sem hver hafði þörf á.

46 Daglega komu þeir saman með einum huga í helgidóminum, þeir brutu brauð í heimahúsum, neyttu fæðu saman í fögnuði og einlægni hjartans.

47 Þeir lofuðu Guð og höfðu vinsældir af öllum. En Drottinn bætti daglega við í hópinn þeim, er frelsast létu.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society