M’Cheyne Bible Reading Plan
9 Þegar allir konungar þeir, sem bjuggu hinumegin Jórdanar, í fjalllendinu, á láglendinu og á öllu strandlendinu við hafið mikla gegnt Líbanon _ Hetítar, Amorítar, Kanaanítar, Peresítar, Hevítar og Jebúsítar _ spurðu þetta,
2 þá söfnuðust þeir saman, allir sem einn maður, til þess að berjast við Jósúa og Ísrael.
3 En íbúar í Gíbeon fréttu, hvernig Jósúa hafði farið með Jeríkó og Aí.
4 Beittu þeir nú líka slægð. Fóru þeir og fengu sér veganesti, tóku gamla sekki á asna sína, og gamla, rifna og samanbundna vínbelgi,
5 og gamla, bætta skó á fætur sér og fóru í gömul föt, og allt brauð, sem þeir höfðu í nesti, var hart og komið í mola.
6 Fóru þeir á fund Jósúa í herbúðirnar í Gilgal og sögðu við hann og Ísraelsmenn: "Vér erum komnir frá fjarlægu landi, gjörið nú sáttmála við oss!"
7 Þá svöruðu Ísraelsmenn Hevítunum: "Vera má, að þér búið meðal vor. Hvernig megum vér þá gjöra sáttmála við yður?"
8 Þá sögðu þeir við Jósúa: "Vér erum þjónar þínir." Jósúa sagði við þá: "Hverjir eruð þér og hvaðan komið þér?"
9 Þeir sögðu við hann: "Vér þjónar þínir erum komnir frá mjög fjarlægu landi fyrir sakir nafns Drottins Guðs þíns, því að vér höfum heyrt hans getið, svo og alls þess, er hann gjörði Egyptum,
10 sem og þess, hvernig hann fór með báða Amorítakonungana, sem bjuggu hinumegin Jórdanar, þá Síhon konung í Hesbon og Óg konung í Basan, sem bjó í Astarót.
11 Fyrir því sögðu öldungar vorir og allir íbúar lands vors við oss: ,Takið yður veganesti og farið til fundar við þá og segið við þá: Vér erum þjónar yðar, gjörið nú sáttmála við oss.`
12 Sjáið hér brauð vort. Vér tókum það nýbakað oss til nestis að heiman, þá er vér lögðum af stað á yðar fund, en sjá, nú er það orðið hart og komið í mola.
13 Og vínbelgir þessir voru nýir, þegar vér létum á þá, en sjá, nú eru þeir farnir að rifna, og þessi klæði vor og skór vorir eru slitnir orðnir á þessari afar löngu leið."
14 Þá tóku Ísraelsmenn nokkuð af nesti þeirra, en atkvæða Drottins leituðu þeir ekki.
15 Hét Jósúa þeim þá friði og gjörði þann sáttmála við þá, að hann skyldi láta þá lífi halda, og höfuðsmenn safnaðarins bundu það svardögum við þá.
16 Þremur dögum eftir að þeir höfðu gjört þennan sáttmála við þá, spurðist það, að þeir væru þar úr grenndinni og að þeir byggju mitt á meðal þeirra.
17 Ísraelsmenn lögðu þá upp og komu á þriðja degi til borga þeirra, en borgir þeirra voru Gíbeon, Kefíra, Beerót og Kirjat Jearím.
18 Og Ísraelsmenn drápu þá eigi, því að höfuðsmenn safnaðarins höfðu svarið þeim grið í nafni Drottins, Ísraels Guðs. Möglaði þá allur söfnuðurinn gegn höfuðsmönnunum.
19 Þá sögðu allir höfuðsmennirnir við gjörvallan söfnuðinn: "Vér höfum svarið þeim grið í nafni Drottins, Ísraels Guðs. Fyrir því megum vér nú eigi snerta þá.
20 Þetta munum vér við þá gjöra og láta þá lífi halda, svo að eigi komi yfir oss reiði vegna eiðsins, er vér sórum þeim."
21 Og höfuðsmennirnir sögðu: "Þeir skulu lífi halda!" Og þeir urðu viðarhöggsmenn og vatnsberar fyrir allan söfnuðinn, eins og höfuðsmennirnir höfðu sagt þeim.
22 Þá lét Jósúa kalla þá og mælti við þá á þessa leið: "Hví svikuð þér oss, er þér sögðuð: ,Vér eigum heima mjög langt í burtu frá yður,` þar sem þér þó búið mitt á meðal vor?
23 Fyrir því skuluð þér nú vera bölvaðir og jafnan vera þrælar upp frá þessu, bæði viðarhöggsmenn og vatnsberar fyrir hús Guðs míns."
24 Þá svöruðu þeir Jósúa og sögðu: "Oss þjónum þínum var frá því sagt, að Drottinn, Guð þinn, hefði heitið Móse, þjóni sínum, að gefa yður allt landið, en eyða öllum landsbúum fyrir yður. Fyrir því urðum vér hræddir um líf vort fyrir yður og tókum því þetta til bragðs.
25 En nú erum vér á þínu valdi. Far þú með oss svo sem þér þykir gott og rétt vera."
26 Og Jósúa fór svo með þá og frelsaði þá úr höndum Ísraelsmanna, svo að þeir dræpu þá ekki.
27 Og hann gjörði þá á þeim degi að viðarhöggsmönnum og vatnsberum fyrir söfnuðinn og fyrir altari Drottins á þeim stað, er hann mundi til velja, og er svo enn í dag.
140 Til söngstjórans. Davíðssálmur.
2 Frelsa mig, Drottinn, frá illmennum, vernda mig fyrir ofríkismönnum,
3 þeim er hyggja á illt í hjarta sínu og vekja ófrið á degi hverjum.
4 Þeir gjöra tungur sínar hvassar sem höggormar, nöðrueitur er undir vörum þeirra. [Sela]
5 Varðveit mig, Drottinn, fyrir hendi óguðlegra, vernda mig fyrir ofríkismönnum, er hyggja á að bregða fæti fyrir mig.
6 Ofstopamenn hafa lagt gildrur í leyni fyrir mig og þanið út snörur eins og net, hjá vegarbrúninni hafa þeir lagt möskva fyrir mig. [Sela]
7 Ég sagði við Drottin: Þú ert Guð minn, ljá eyra, Drottinn, grátbeiðni minni.
8 Drottinn Guð, mín máttuga hjálp, þú hlífir höfði mínu á orustudeginum.
9 Uppfyll eigi, Drottinn, óskir hins óguðlega, lát vélar hans eigi heppnast. [Sela]
10 Þeir skulu eigi hefja höfuðið umhverfis mig, ranglæti vara þeirra skal hylja sjálfa þá.
11 Lát rigna á þá eldsglóðum, hrind þeim í gryfjur, svo að þeir fái eigi upp staðið.
12 Illmáll maður skal eigi fá staðist í landinu, ofríkismanninn skal ógæfan elta með sífelldum höggum.
13 Ég veit, að Drottinn flytur mál hrjáðra, rekur réttar snauðra.
14 Vissulega skulu hinir réttlátu lofa nafn þitt, hinir hreinskilnu búa fyrir augliti þínu.
141 Davíðssálmur. Drottinn, ég ákalla þig, skunda þú til mín, ljá eyra raust minni, er ég ákalla þig.
2 Bæn mín sé fram borin sem reykelsisfórn fyrir auglit þitt, upplyfting handa minna sem kvöldfórn.
3 Set þú, Drottinn, vörð fyrir munn minn, gæslu fyrir dyr vara minna.
4 Lát eigi hjarta mitt hneigjast að neinu illu, að því að fremja óguðleg verk með illvirkjum, og lát mig eigi eta krásir þeirra.
5 Þótt réttlátur maður slái mig og trúaður hirti mig, mun ég ekki þiggja sæmd af illum mönnum. Bæn mín stendur gegn illsku þeirra.
6 Þegar höfðingjum þeirra verður hrundið niður af kletti, munu menn skilja, að orð mín voru sönn.
7 Eins og menn höggva við og kljúfa á jörðu, svo skal beinum þeirra tvístrað við gin Heljar.
8 Til þín, Drottinn, mæna augu mín, hjá þér leita ég hælis, sel þú eigi fram líf mitt.
9 Varðveit mig fyrir gildru þeirra, er sitja um mig, og fyrir snörum illvirkjanna.
10 Hinir óguðlegu falli í sitt eigið net, en ég sleppi heill á húfi.
3 Þegar maður rekur frá sér konu sína, og hún fer frá honum og giftist öðrum manni, getur hann þá horfið til hennar aftur? Mundi landið ekki vanhelgast af því? En þú hefir drýgt hór með mörgum friðlum og ættir þó að snúa aftur til mín! _ segir Drottinn.
2 Renn augum þínum upp á skóglausu hæðirnar og gæt að: Hvar hefir þú eigi hórast? Við vegina situr þú um friðla eins og Arabi í eyðimörkinni og vanhelgar landið með lauslæti þínu og vonsku þinni.
3 Og þótt skúrunum væri haldið aftur og ekkert vorregn kæmi, þá varst þú með hórusvip, þú vildir ekki skammast þín.
4 En nú kallar þú til mín: "Faðir minn! Þú ert unnusti æsku minnar!"
5 Þú hugsar: "Mun hann verða reiður eilíflega, alltaf erfa það?" Sjá, þannig talar þú, en fremur illt og getur fengið það af þér.
6 Drottinn sagði við mig á dögum Jósía konungs: Hefir þú séð, hvað hin fráhverfa Ísrael hefir aðhafst? Hún fór upp á hverja háa hæð og inn undir hvert grænt tré og hóraðist þar.
7 Ég hugsaði raunar: Eftir að hún hefir aðhafst allt þetta, mun hún snúa aftur til mín. En hún sneri ekki aftur. Það sá hin ótrúa systir hennar, Júda,
8 og þótt hún sæi, að einmitt vegna þess, að hin fráhverfa Ísrael hafði drýgt hór, hafði ég rekið hana burt og gefið henni skilnaðarskrá, þá óttaðist ekki hin ótrúa systir hennar, Júda, heldur fór og drýgði líka hór,
9 og með hinu léttúðarfulla lauslæti sínu vanhelgaði hún landið og drýgði hór með steini og trédrumbi.
10 En þrátt fyrir allt þetta hefir hin ótrúa systir hennar, Júda, eigi snúið sér til mín af öllu hjarta, heldur með hræsni _ segir Drottinn.
11 Drottinn sagði við mig: Hin fráhverfa Ísrael er saklaus í samanburði við hina ótrúu Júda.
12 Far þú og kalla þessi orð í norðurátt og seg: Hverf aftur, þú hin fráhverfa Ísrael _ segir Drottinn _, ég vil ekki lengur líta reiðulega til þín, því að ég er miskunnsamur _ segir Drottinn _, ég er ekki eilíflega reiður.
13 Kannastu aðeins við ávirðing þína, að þú hefir rofið trúnað við Drottin, Guð þinn, og hlaupið ýmsar leiðir til þess að gefa þig á vald útlendum guðum undir hverju grænu tré, en minni raust hafið þér ekki hlýtt _ segir Drottinn.
14 Hverfið aftur, þér fráhorfnu synir _ segir Drottinn _, því að ég er herra yðar. Og ég vil taka yður, einn úr hverri borg og tvo af hverjum kynstofni, og flytja yður til Síonar,
15 og ég vil gefa yður hirða eftir mínu hjarta, og þeir munu gæta yðar með greind og hyggindum.
16 Á þeim dögum, þegar yður fjölgar og þér verðið frjósamir í landinu _ segir Drottinn _, þá munu menn eigi framar segja: "Sáttmálsörk Drottins!" Hún mun engum í hug koma, og þeir munu ekki minnast hennar né sakna hennar, né heldur munu menn framar búa aðra til.
17 Þá munu menn kalla Jerúsalem "hásæti Drottins" og allar þjóðir munu safnast þangað vegna nafns Drottins og eigi framar fara eftir þrjósku síns vonda hjarta.
18 Á þeim dögum mun Júda hús ganga til Ísraels húss, og þeir munu halda saman úr landinu norður frá inn í landið, sem ég gaf feðrum yðar til eignar.
19 Ég hafði hugsað: Hversu hátt vil ég setja þig meðal barnanna og gefa þér unaðslegt land, hina dýrlegustu arfleifð meðal allra þjóða! Og enn fremur hugsaði ég: Þér skuluð nefna mig föður og eigi láta af að fylgja mér.
20 En eins og kona verður ótrú elskhuga sínum, eins urðuð þér ótrúir mér, Ísraels hús _ segir Drottinn.
21 Hljóð heyrist á skóglausu hæðunum: grátbiðjandi kvein Ísraelsmanna, af því að þeir hafa breytt illa og gleymt Drottni Guði sínum.
22 "Hverfið aftur, þér fráhorfnu synir, ég vil lækna fráhvarfssyndir yðar!" "Hér erum vér, vér komum til þín, því að þú ert Drottinn Guð vor."
23 Vissulega er hávaðinn á hæðunum svikull. Vissulega er hjálp Ísraels hjá Drottni, Guði vorum.
24 Falsguðinn hefir eytt afla feðra vorra allt frá æsku vorri, sauðum þeirra og nautum, sonum þeirra og dætrum.
25 Vér skulum leggjast niður í smán vorri, og skömm vor hylji oss, því að á móti Drottni Guði vorum höfum vér syndgað, bæði vér og feður vorir, frá æsku vorri og allt fram á þennan dag, og höfum eigi hlýtt raustu Drottins Guðs vors.
17 Eftir sex daga tekur Jesús með sér þá Pétur, Jakob og Jóhannes, bróður hans og fer með þá upp á hátt fjall, að þeir væru einir saman.
2 Þar ummyndaðist hann fyrir augum þeirra, ásjóna hans skein sem sól, og klæði hans urðu björt eins og ljós.
3 Og Móse og Elía birtust þeim, og voru þeir á tali við hann.
4 Pétur tók til máls og sagði við Jesú: "Herra, gott er, að vér erum hér. Ef þú vilt, skal ég gjöra hér þrjár tjaldbúðir, þér eina, Móse eina og Elía eina."
5 Meðan hann var enn að tala, skyggði yfir þá bjart ský, og rödd úr skýinu sagði: "Þessi er minn elskaði sonur, sem ég hef velþóknun á. Hlýðið á hann!"
6 Þegar lærisveinarnir heyrðu þetta, féllu þeir fram á ásjónur sínar og hræddust mjög.
7 Jesús gekk til þeirra, snart þá og mælti: "Rísið upp, og óttist ekki."
8 En er þeir hófu upp augu sín, sáu þeir engan nema Jesú einan.
9 Á leiðinni ofan fjallið bauð Jesús þeim og mælti: "Segið engum frá sýninni, fyrr en Mannssonurinn er risinn upp frá dauðum."
10 Lærisveinarnir spurðu hann: "Hví segja fræðimennirnir, að Elía eigi fyrst að koma?"
11 Hann svaraði: "Víst kemur Elía og færir allt í lag.
12 En ég segi yður: Elía er þegar kominn, og menn þekktu hann ekki, heldur gjörðu honum allt sem þeir vildu. Eins mun og Mannssonurinn píslir þola af hendi þeirra."
13 Þá skildu lærisveinarnir, að hann hafði talað við þá um Jóhannes skírara.
14 Þegar þeir komu til fólksins, gekk til hans maður, féll á kné fyrir honum
15 og sagði: "Herra, miskunna þú syni mínum. Hann er tunglsjúkur og illa haldinn. Oft fellur hann á eld og oft í vatn.
16 Ég fór með hann til lærisveina þinna, en þeir gátu ekki læknað hann."
17 Jesús svaraði: "Ó, þú vantrúa og rangsnúna kynslóð, hversu lengi á ég að vera hjá yður? Hversu lengi á ég að umbera yður? Færið hann hingað til mín."
18 Og Jesús hastaði á hann og illi andinn fór úr honum. Og sveinninn varð heill frá þeirri stundu.
19 Þá komu lærisveinarnir til Jesú og spurðu hann einslega: "Hvers vegna gátum vér ekki rekið hann út?"
20 Hann svaraði þeim: "Vegna þess að yður skortir trú. Sannlega segi ég yður: Ef þér hafið trú eins og mustarðskorn, getið þér sagt við fjall þetta: Flyt þig héðan og þangað, og það mun flytja sig. Ekkert verður yður um megn. [
21 En þetta kyn verður eigi út rekið nema með bæn og föstu.]"
22 Þegar þeir voru saman í Galíleu, sagði Jesús við þá: "Mannssonurinn verður framseldur í manna hendur,
23 og þeir munu lífláta hann, en á þriðja degi mun hann upp rísa." Þeir urðu mjög hryggir.
24 Þá er þeir komu til Kapernaum, gengu menn þeir, sem heimta inn musterisgjaldið, til Péturs og spurðu: "Geldur meistari yðar eigi musterisgjaldið?"
25 Hann kvað svo vera. En er hann kom inn, tók Jesús fyrr til máls og mælti: "Hvað líst þér, Símon? Af hverjum heimta konungar jarðarinnar toll eða skatt? Af börnum sínum eða vandalausum?"
26 "Af vandalausum," sagði Pétur. Jesús mælti: "Þá eru börnin frjáls.
27 En til þess vér hneykslum þá ekki, skaltu fara niður að vatni og renna öngli, taktu síðan fyrsta fiskinn, sem þú dregur, opna munn hans og muntu finna pening. Tak hann og greið þeim fyrir mig og þig."
by Icelandic Bible Society