Print Page Options Listen to Reading
Previous Prev Day Next DayNext

The Daily Audio Bible

This reading plan is provided by Brian Hardin from Daily Audio Bible.
Duration: 731 days

Today's audio is from the CSB. Switch to the CSB to read along with the audio.

Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Daníel 5

Belsasar konungur hélt veislu mikla þúsund stórmennum sínum og drakk vín í augsýn þeirra þúsund.

En er menn tóku að gjörast vínhreifir, bauð Belsasar að sækja þau gullker og silfurker, sem Nebúkadnesar faðir hans hafði haft á burt úr musterinu í Jerúsalem, til þess að konungurinn, stórmenni hans, konur hans og hjákonur mættu drekka af þeim.

Þá voru fram borin gullker þau, sem tekin höfðu verið úr musterinu, húsi Guðs í Jerúsalem, og konungurinn, stórmenni hans, konur hans og hjákonur drukku af þeim.

Þeir drukku vín og vegsömuðu guði sína úr gulli, silfri, eiri, járni, tré og steini.

Á sömu stundu komu fram fingur af mannshendi og rituðu á kalkið á veggnum í konungshöllinni, gegnt ljósastikunni, og konungurinn sá fingur handarinnar, sem ritaði.

Þá gjörðist konungur litverpur, og hugsanir hans skelfdu hann, og var sem mjaðmarliðir hans gengju sundur, og kné hans skulfu.

Konungur kallaði hástöfum, að sækja skyldi særingamennina, Kaldeana og stjörnuspekingana. Konungur tók til máls og sagði við vitringana í Babýlon: "Hver sem les þetta letur og segir mér þýðing þess, skal klæddur verða purpura og bera gullfesti á hálsi sér og vera þriðji yfirhöfðingi í ríkinu!"

Þá komu allir vitringar konungs þangað, en þeir gátu ekki lesið letrið og sagt konungi þýðing þess.

Þá varð Belsasar konungur mjög felmtsfullur og gjörðist litverpur, en fát mikið kom á stórmenni hans.

10 Út af orðræðu konungs og stórmenna hans gekk drottning inn í veislusalinn. Drottning tók til máls og sagði: "Konungurinn lifi eilíflega! Lát eigi hugsanir þínar skelfa þig og gjörst eigi svo litverpur.

11 Sá maður er í ríki þínu, er andi hinna heilögu guða býr í, og á dögum föður þíns fannst með honum skýrleikur, þekking og speki, lík speki guðanna, og Nebúkadnesar konungur, faðir þinn, gjörði hann að yfirhöfðingja spásagnamannanna, særingamannanna, Kaldeanna og stjörnuspekinganna. Þetta gjörði faðir þinn, konungur,

12 af því að með Daníel, er konungurinn kallaði Beltsasar, fannst frábær andi og kunnátta og þekking til að þýða drauma, ráða gátur og greiða úr vandamálum. Lát nú kalla Daníel, og mun hann segja, hvað þetta merkir."

13 Þá var Daníel leiddur inn fyrir konung. Konungur tók til máls og sagði við Daníel: "Ert þú Daníel, einn af þeim herleiddu Gyðingum, sem konungurinn, faðir minn, flutti burt frá Júda?

14 Ég hefi um þig heyrt, að andi guðanna búi í þér og að skýrleikur, þekking og frábær speki finnist með þér.

15 Nú hefi ég látið leiða inn fyrir mig vitringana og særingamennina til þess að lesa þetta letur og segja mér þýðing þess, en þeir geta ekki sagt, hvað þessi orð þýða.

16 En ég hefi heyrt um þig, að þú kunnir þýðingar að finna og úr vandamálum að greiða. Ef þú nú getur lesið þetta letur og sagt mér þýðing þess, þá skalt þú klæddur verða purpura, bera gullfesti á hálsi þér og vera þriðji yfirhöfðingi í ríkinu."

17 Þá tók Daníel til máls og sagði við konung: "Haltu sjálfur gáfum þínum og gef einhverjum öðrum gjafir þínar, en letrið mun ég lesa fyrir konunginn og segja honum þýðing þess.

18 Þú konungur! Guð hinn hæsti veitti Nebúkadnesar föður þínum ríki, vald, vegsemd og tign.

19 Og sökum þess veldis, sem hann hafði veitt honum, hræddust hann allir lýðir, þjóðir og tungur, og stóð þeim ótti af honum. Hann tók af lífi hvern sem hann vildi og hann lét lífi halda hvern sem hann vildi, hann hóf hvern er hann vildi og hann lægði hvern er hann vildi.

20 En er hjarta hans metnaðist og hugur hans gjörðist ofdrambsfullur, þá var honum hrundið úr konungshásætinu og tignin tekin frá honum.

21 Hann var rekinn úr mannafélagi og hjarta hans varð líkt dýrshjarta. Hann átti byggð meðal skógarasna, og honum var gefið gras að eta eins og uxum, og líkami hans vöknaði af dögg himins, þar til er hann kannaðist við, að Guð hinn hæsti ræður yfir konungdómi mannanna og veitir hann hverjum sem hann vill.

22 Og þú, Belsasar, sonur hans, hefir ekki lítillætt hjarta þitt, þótt þú vissir allt þetta,

23 heldur hefir þú sett þig upp á móti Drottni himnanna og látið færa þér kerin úr húsi hans, og þú og stórmenni þín, konur þínar og hjákonur hafið drukkið vín af þeim. Og þú hefir vegsamað guði úr silfri, gulli, eiri, járni, tré og steini, sem ekki sjá, ekki heyra og ekkert vita, en þann Guð, sem hefir lífsanda þinn í hendi sér og ráð hefir á öllum högum þínum, hann hefir þú ekki tignað.

24 Samstundis voru fingur handarinnar frá honum sendir og þetta letur ritað.

25 En letrið, sem ritað er, er þetta: mene, mene, tekel ufarsin.

26 Þessi er þýðing orðanna: mene, Guð hefir talið ríkisár þín og leitt þau til enda;

27 tekel, þú ert veginn á skálum og léttvægur fundinn;

28 peres, ríki þitt er deilt og gefið Medum og Persum."

29 Því næst bauð Belsasar að klæða Daníel purpura og láta gullfesti um háls honum og gjöra heyrinkunnugt, að hann skyldi vera þriðji yfirhöfðingi í ríkinu.

30 Á hinni sömu nótt var Belsasar Kaldeakonungur drepinn.

Síðara almenna bréf Péturs 2

En falsspámenn komu einnig upp meðal lýðsins. Eins munu falskennendur líka verða á meðal yðar, er smeygja munu inn háskalegum villukenningum og jafnvel afneita herra sínum, sem keypti þá, og leiða yfir sig sjálfa bráða glötun.

Margir munu fylgja ólifnaði þeirra, og sakir þeirra mun vegi sannleikans verða hallmælt.

Af ágirnd munu þeir með uppspunnum orðum hafa yður að féþúfu. En dómurinn yfir þeim er löngu felldur og fyrnist ekki og glötun þeirra blundar ekki.

Ekki þyrmdi Guð englunum, er þeir syndguðu. Hann steypti þeim niður í undirdjúpin og setti þá í myrkrahella, þar sem þeir eru geymdir til dómsins.

Ekki þyrmdi hann hinum forna heimi, en varðveitti Nóa, prédikara réttlætisins, við áttunda mann, er hann lét vatnsflóð koma yfir heim hinna óguðlegu.

Hann brenndi borgirnar Sódómu og Gómorru til ösku og dæmdi þær til eyðingar og setti þær til viðvörunar þeim, er síðar lifðu óguðlega.

En hann frelsaði Lot, hinn réttláta mann, er mæddist af svívirðilegum lifnaði hinna guðlausu.

Sá réttláti maður bjó á meðal þeirra og mæddist í sinni réttlátu sálu dag frá degi af þeim ólöglegu verkum, er hann sá og heyrði.

Þannig veit Drottinn, hvernig hann á að hrífa hina guðhræddu úr freistingu, en refsa hinum ranglátu og geyma þá til dómsdags,

10 einkum þá, sem í breytni sinni stjórnast af saurlífisfýsn og fyrirlíta drottinvald. Þessir fífldjörfu sjálfbirgingar skirrast ekki við að lastmæla tignum.

11 Jafnvel englarnir, sem eru þeim meiri að mætti og valdi, fara ekki með guðlast, þegar þeir ákæra þá hjá Drottni.

12 Þessir menn eru eins og skynlausar skepnur, sem eru fæddar til að veiðast og tortímast. Þeir lastmæla því, sem þeir þekkja ekki, og munu þess vegna í spillingu sinni undir lok líða

13 og bera þannig úr býtum laun ranglætis. Þeir hafa yndi af að svalla um miðjan dag. Þeir eru skömm og smán, þegar þeir neyta máltíða með yður og svalla.

14 Augu þeirra eru full hórdóms, og þeim verður ekki frá syndinni haldið. Þeir fleka óstyrkar sálir, hjarta þeirra hefur tamið sér ágirnd. Það er bölvun yfir þeim.

15 Þeir hafa farið af rétta veginum og lent í villu. Þeir fara sömu leið og Bíleam, sonur Bósors, sem elskaði ranglætislaun.

16 En hann fékk ádrepu fyrir glæp sinn. Mállaus eykurinn talaði mannamál og aftraði fásinnu spámannsins.

17 Vatnslausir brunnar eru þessir menn, þoka hrakin af hvassviðri, þeirra bíður dýpsta myrkur.

18 Þeir láta klingja drembileg hégómaorð og tæla með holdlegum girndum og svívirðilegum lifnaði þá, sem fyrir skömmu hafa sloppið frá þeim, sem ganga í villu.

19 Þeir heita þeim frelsi, þótt þeir séu sjálfir þrælar spillingarinnar, því að sérhver verður þræll þess, sem hann hefur beðið ósigur fyrir.

20 Ef þeir, sem fyrir þekkingu á Drottni vorum og frelsara Jesú Kristi voru sloppnir frá saurgun heimsins, flækja sig í honum að nýju og bíða ósigur, þá er hið síðara orðið þeim verra en hið fyrra.

21 Því að betra hefði þeim verið að hafa ekki þekkt veg réttlætisins en að hafa þekkt hann og snúa síðan aftur frá hinu heilaga boðorði, sem þeim hafði verið gefið.

22 Fram á þeim hefur komið þetta sannmæli: "Hundur snýr aftur til spýju sinnar," og: "Þvegið svín veltir sér í sama saur."

Sálmarnir 119:113-128

113 Ég hata þá, er haltra til beggja hliða, en lögmál þitt elska ég.

114 Þú ert skjól mitt og skjöldur, ég vona á orð þitt.

115 Burt frá mér, þér illgjörðamenn, að ég megi halda boð Guðs míns.

116 Styð mig samkvæmt fyrirheiti þínu, að ég megi lifa, og lát mig eigi til skammar verða í von minni.

117 Styð þú mig, að ég megi frelsast og ætíð líta til laga þinna.

118 Þú hafnar öllum þeim, er villast frá lögum þínum, því að svik þeirra eru til einskis.

119 Sem sora metur þú alla óguðlega á jörðu, þess vegna elska ég reglur þínar.

120 Hold mitt nötrar af hræðslu fyrir þér, og dóma þína óttast ég.

121 Ég hefi iðkað rétt og réttlæti, sel mig eigi í hendur kúgurum mínum.

122 Gakk í ábyrgð fyrir þjón þinn, honum til heilla, lát eigi ofstopamennina kúga mig.

123 Augu mín tærast af þrá eftir hjálpræði þínu og eftir þínu réttláta fyrirheiti.

124 Far með þjón þinn eftir miskunn þinni og kenn mér lög þín.

125 Ég er þjónn þinn, veit mér skyn, að ég megi þekkja reglur þínar.

126 Tími er kominn fyrir Drottin að taka í taumana, þeir hafa rofið lögmál þitt.

127 Þess vegna elska ég boð þín framar en gull og skíragull.

128 Þess vegna held ég beina leið eftir öllum fyrirmælum þínum, ég hata sérhvern lygaveg.

Orðskviðirnir 28:19-20

19 Sá sem yrkir land sitt, mettast af brauði, en sá sem sækist eftir hégómlegum hlutum, mettast af fátækt.

20 Áreiðanlegur maður blessast ríkulega, en sá sem fljótt vill verða ríkur, sleppur ekki við refsingu.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society