Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Bible in 90 Days

An intensive Bible reading plan that walks through the entire Bible in 90 days.
Duration: 88 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 135 - Orðskviðirnir 6

135 Halelúja. Lofið nafn Drottins, lofið hann, þér þjónar Drottins,

er standið í húsi Drottins, í forgörðum húss Guðs vors.

Lofið Drottin, því að Drottinn er góður, leikið fyrir nafni hans, því að það er yndislegt.

Því að Drottinn hefir útvalið sér Jakob, gert Ísrael að eign sinni.

Já, ég veit, að Drottinn er mikill og að Drottinn vor er öllum guðum æðri.

Allt, sem Drottni þóknast, það gjörir hann, á himni og jörðu, í hafinu og öllum djúpunum.

Hann lætur skýin uppstíga frá endimörkum jarðar, gjörir eldingarnar til að búa rás regninu, hleypir vindinum út úr forðabúrum hans.

Hann laust frumburði Egyptalands, bæði menn og skepnur,

sendi tákn og undur yfir Egyptaland, gegn Faraó og öllum þjónum hans.

10 Hann laust margar þjóðir og deyddi volduga konunga:

11 Síhon, Amorítakonung, og Óg, konung í Basan, og öll konungsríki í Kanaan,

12 og gaf lönd þeirra að erfð, að erfð Ísrael, lýð sínum.

13 Drottinn, nafn þitt varir að eilífu, minning þín, Drottinn, frá kyni til kyns,

14 því að Drottinn réttir hlut þjóðar sinnar og aumkast yfir þjóna sína.

15 Skurðgoð þjóðanna eru silfur og gull, handaverk manna.

16 Þau hafa munn, en tala ekki, augu, en sjá ekki,

17 þau hafa eyru, en heyra ekki, og eigi er heldur neinn andardráttur í munni þeirra.

18 Eins og þau eru, verða smiðir þeirra, allir þeir, er á þau treysta.

19 Ísraels ætt, lofið Drottin, Arons ætt, lofið Drottin!

20 Leví ætt, lofið Drottin, þér sem óttist Drottin, lofið hann!

21 Lofaður sé Drottinn frá Síon, hann sem býr í Jerúsalem! Halelúja.

136 Þakkið Drottni, því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu.

Þakkið Guði guðanna, því að miskunn hans varir að eilífu,

þakkið Drottni drottnanna, því að miskunn hans varir að eilífu,

honum, sem einn gjörir mikil dásemdarverk, því að miskunn hans varir að eilífu,

honum, sem skapaði himininn með speki, því að miskunn hans varir að eilífu,

honum, sem breiddi jörðina út á vötnunum, því að miskunn hans varir að eilífu,

honum, sem skapaði stóru ljósin, því að miskunn hans varir að eilífu,

sólina til þess að ráða deginum, því að miskunn hans varir að eilífu,

tunglið og stjörnurnar til þess að ráða nóttunni, því að miskunn hans varir að eilífu,

10 honum, sem laust Egypta með deyðing frumburðanna, því að miskunn hans varir að eilífu,

11 og leiddi Ísrael burt frá þeim, því að miskunn hans varir að eilífu,

12 með sterkri hendi og útréttum armlegg, því að miskunn hans varir að eilífu,

13 honum, sem skipti Rauðahafinu sundur, því að miskunn hans varir að eilífu,

14 og lét Ísrael ganga gegnum það, því að miskunn hans varir að eilífu,

15 og keyrði Faraó og her hans út í Rauðahafið, því að miskunn hans varir að eilífu,

16 honum, sem leiddi lýð sinn gegnum eyðimörkina, því að miskunn hans varir að eilífu,

17 honum, sem laust mikla konunga, því að miskunn hans varir að eilífu,

18 og deyddi volduga konunga, því að miskunn hans varir að eilífu,

19 Síhon Amorítakonung, því að miskunn hans varir að eilífu,

20 og Óg konung í Basan, því að miskunn hans varir að eilífu,

21 og gaf land þeirra að erfð, því að miskunn hans varir að eilífu,

22 að erfð Ísrael þjóni sínum, því að miskunn hans varir að eilífu,

23 honum, sem minntist vor í læging vorri, því að miskunn hans varir að eilífu,

24 og frelsaði oss frá fjandmönnum vorum, því að miskunn hans varir að eilífu,

25 sem gefur fæðu öllu holdi, því að miskunn hans varir að eilífu.

26 Þakkið Guði himnanna, því að miskunn hans varir að eilífu.

137 Við Babýlons fljót, þar sátum vér og grétum, er vér minntumst Síonar.

Á pílviðina þar hengdum vér upp gígjur vorar.

Því að herleiðendur vorir heimtuðu söngljóð af oss og kúgarar vorir kæti: "Syngið oss Síonarkvæði!"

Hvernig ættum vér að syngja Drottins ljóð í öðru landi?

Ef ég gleymi þér, Jerúsalem, þá visni mín hægri hönd.

Tunga mín loði mér við góm, ef ég man eigi til þín, ef Jerúsalem er eigi allra besta yndið mitt.

Mun þú Edóms niðjum, Drottinn, óheilladag Jerúsalem, þegar þeir æptu: "Rífið, rífið allt niður til grunna!"

Babýlonsdóttir, þú sem tortímir! Heill þeim, er geldur þér fyrir það sem þú hefir gjört oss!

Heill þeim er þrífur ungbörn þín og slær þeim niður við stein.

138 Eftir Davíð. Ég vil lofa þig af öllu hjarta, lofsyngja þér frammi fyrir guðunum.

Ég vil falla fram fyrir þínu heilaga musteri og lofa nafn þitt sakir miskunnar þinnar og trúfesti, því að þú hefir gjört nafn þitt og orð þitt meira öllu öðru.

Þegar ég hrópaði, bænheyrðir þú mig, þú veittir mér hugmóð, er ég fann kraft hjá mér.

Allir konungar á jörðu skulu lofa þig, Drottinn, er þeir heyra orðin af munni þínum.

Þeir skulu syngja um vegu Drottins, því að mikil er dýrð Drottins.

Því að Drottinn er hár og sér þó hina lítilmótlegu og þekkir hinn drambláta í fjarska.

Þótt ég sé staddur í þrengingu, lætur þú mig lífi halda, þú réttir út hönd þína gegn reiði óvina minna, og hægri hönd þín hjálpar mér.

Drottinn mun koma öllu vel til vegar fyrir mig, Drottinn, miskunn þín varir að eilífu. Yfirgef eigi verk handa þinna.

139 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Drottinn, þú rannsakar og þekkir mig.

Hvort sem ég sit eða stend, þá veist þú það, þú skynjar hugrenningar mínar álengdar.

Hvort sem ég geng eða ligg, þá athugar þú það, og alla vegu mína gjörþekkir þú.

Því að eigi er það orð á tungu minni, að þú, Drottinn, þekkir það eigi til fulls.

Þú umlykur mig á bak og brjóst, og hönd þína hefir þú lagt á mig.

Þekking þín er undursamlegri en svo, að ég fái skilið, of háleit, ég er henni eigi vaxinn.

Hvert get ég farið frá anda þínum og hvert flúið frá augliti þínu?

Þótt ég stigi upp í himininn, þá ertu þar, þótt ég gjörði undirheima að hvílu minni, sjá, þú ert þar.

Þótt ég lyfti mér á vængi morgunroðans og settist við hið ysta haf,

10 einnig þar mundi hönd þín leiða mig og hægri hönd þín halda mér.

11 Og þótt ég segði: "Myrkrið hylji mig og ljósið í kringum mig verði nótt,"

12 þá myndi þó myrkrið eigi verða þér of myrkt og nóttin lýsa eins og dagur, myrkur og ljós eru jöfn fyrir þér.

13 Því að þú hefir myndað nýru mín, ofið mig í móðurlífi.

14 Ég lofa þig fyrir það, að ég er undursamlega skapaður, undursamleg eru verk þín, það veit ég næsta vel.

15 Beinin í mér voru þér eigi hulin, þegar ég var gjörður í leyni, myndaður í djúpum jarðar.

16 Augu þín sáu mig, er ég enn var ómyndað efni, ævidagar voru ákveðnir og allir skráðir í bók þína, áður en nokkur þeirra var til orðinn.

17 En hversu torskildar eru mér hugsanir þínar, ó Guð, hversu stórkostlegar eru þær allar samanlagðar.

18 Ef ég vildi telja þær, væru þær fleiri en sandkornin, ég mundi vakna og vera enn með hugann hjá þér.

19 Ó að þú, Guð, vildir fella níðingana. Morðingjar! Víkið frá mér.

20 Þeir þrjóskast gegn þér með svikum og leggja nafn þitt við hégóma.

21 Ætti ég eigi, Drottinn, að hata þá, er hata þig, og hafa viðbjóð á þeim, er rísa gegn þér?

22 Ég hata þá fullu hatri, þeir eru orðnir óvinir mínir.

23 Prófa mig, Guð, og þekktu hjarta mitt, rannsaka mig og þekktu hugsanir mínar,

24 og sjá þú, hvort ég geng á glötunarvegi, og leið mig hinn eilífa veg.

140 Til söngstjórans. Davíðssálmur.

Frelsa mig, Drottinn, frá illmennum, vernda mig fyrir ofríkismönnum,

þeim er hyggja á illt í hjarta sínu og vekja ófrið á degi hverjum.

Þeir gjöra tungur sínar hvassar sem höggormar, nöðrueitur er undir vörum þeirra. [Sela]

Varðveit mig, Drottinn, fyrir hendi óguðlegra, vernda mig fyrir ofríkismönnum, er hyggja á að bregða fæti fyrir mig.

Ofstopamenn hafa lagt gildrur í leyni fyrir mig og þanið út snörur eins og net, hjá vegarbrúninni hafa þeir lagt möskva fyrir mig. [Sela]

Ég sagði við Drottin: Þú ert Guð minn, ljá eyra, Drottinn, grátbeiðni minni.

Drottinn Guð, mín máttuga hjálp, þú hlífir höfði mínu á orustudeginum.

Uppfyll eigi, Drottinn, óskir hins óguðlega, lát vélar hans eigi heppnast. [Sela]

10 Þeir skulu eigi hefja höfuðið umhverfis mig, ranglæti vara þeirra skal hylja sjálfa þá.

11 Lát rigna á þá eldsglóðum, hrind þeim í gryfjur, svo að þeir fái eigi upp staðið.

12 Illmáll maður skal eigi fá staðist í landinu, ofríkismanninn skal ógæfan elta með sífelldum höggum.

13 Ég veit, að Drottinn flytur mál hrjáðra, rekur réttar snauðra.

14 Vissulega skulu hinir réttlátu lofa nafn þitt, hinir hreinskilnu búa fyrir augliti þínu.

141 Davíðssálmur. Drottinn, ég ákalla þig, skunda þú til mín, ljá eyra raust minni, er ég ákalla þig.

Bæn mín sé fram borin sem reykelsisfórn fyrir auglit þitt, upplyfting handa minna sem kvöldfórn.

Set þú, Drottinn, vörð fyrir munn minn, gæslu fyrir dyr vara minna.

Lát eigi hjarta mitt hneigjast að neinu illu, að því að fremja óguðleg verk með illvirkjum, og lát mig eigi eta krásir þeirra.

Þótt réttlátur maður slái mig og trúaður hirti mig, mun ég ekki þiggja sæmd af illum mönnum. Bæn mín stendur gegn illsku þeirra.

Þegar höfðingjum þeirra verður hrundið niður af kletti, munu menn skilja, að orð mín voru sönn.

Eins og menn höggva við og kljúfa á jörðu, svo skal beinum þeirra tvístrað við gin Heljar.

Til þín, Drottinn, mæna augu mín, hjá þér leita ég hælis, sel þú eigi fram líf mitt.

Varðveit mig fyrir gildru þeirra, er sitja um mig, og fyrir snörum illvirkjanna.

10 Hinir óguðlegu falli í sitt eigið net, en ég sleppi heill á húfi.

142 Maskíl eftir Davíð, er hann var í hellinum. Bæn.

Ég hrópa hátt til Drottins, hástöfum grátbæni ég Drottin.

Ég úthelli kveini mínu fyrir honum, tjái honum neyð mína.

Þegar andi minn örmagnast í mér, þekkir þú götu mína. Á leið þeirri er ég geng hafa þeir lagt snörur fyrir mig.

Ég lít til hægri handar og skyggnist um, en enginn kannast við mig. Mér er varnað sérhvers hælis, enginn spyr eftir mér.

Ég hrópa til þín, Drottinn, ég segi: Þú ert hæli mitt, hlutdeild mín á landi lifenda.

Veit athygli kveini mínu, því að ég er mjög þjakaður, bjarga mér frá ofsækjendum mínum, því að þeir eru mér yfirsterkari.

Leið mig út úr dýflissunni, að ég megi lofa nafn þitt, hinir réttlátu skipast í kringum mig, þegar þú gjörir vel til mín.

143 Davíðssálmur. Drottinn, heyr þú bæn mína, ljá eyra grátbeiðni minni í trúfesti þinni, bænheyr mig í réttlæti þínu.

Gakk eigi í dóm við þjón þinn, því að enginn er réttlátur fyrir augliti þínu.

Óvinurinn eltir sál mína, slær líf mitt til jarðar, lætur mig búa í myrkri eins og þá sem löngu eru dánir.

Andi minn örmagnast í mér, hjarta mitt er agndofa hið innra í mér.

Ég minnist fornra daga, íhuga allar gjörðir þínar, ígrunda verk handa þinna.

Ég breiði út hendurnar í móti þér, sál mín er sem örþrota land fyrir þér. [Sela]

Flýt þér að bænheyra mig, Drottinn, andi minn örmagnast, byrg eigi auglit þitt fyrir mér, svo að ég verði ekki líkur þeim, er gengnir eru til grafar.

Lát þú mig heyra miskunn þína að morgni dags, því að þér treysti ég. Gjör mér kunnan þann veg, er ég á að ganga, því að til þín hef ég sál mína.

Frelsa mig frá óvinum mínum, Drottinn, ég flý á náðir þínar.

10 Kenn mér að gjöra vilja þinn, því að þú ert minn Guð. Þinn góði andi leiði mig um slétta braut.

11 Veit mér að lifa, Drottinn, sakir nafns þíns, leið mig úr nauðum sakir réttlætis þíns.

12 Lát þú óvini mína hverfa sakir trúfesti þinnar, ryð þeim öllum úr vegi, er að mér þrengja, því að ég er þjónn þinn.

144 Eftir Davíð. Lofaður sé Drottinn, bjarg mitt, sem æfir hendur mínar til bardaga, fingur mína til orustu.

Miskunn mín og vígi, háborg mín og hjálpari, skjöldur minn og athvarf, hann leggur þjóðir undir mig.

Drottinn, hvað er maðurinn þess, að þú þekkir hann, mannsins barn, að þú gefir því gaum.

Maðurinn er sem vindblær, dagar hans sem hverfandi skuggi.

Drottinn, sveig þú himin þinn og stíg niður, snertu fjöllin, svo að úr þeim rjúki.

Lát eldinguna leiftra og tvístra óvinum, skjót örvum þínum og skelf þá.

Rétt út hönd þína frá hæðum, hríf mig burt og bjarga mér úr hinum miklu vötnum, af hendi útlendinganna.

Munnur þeirra mælir tál, og hægri hönd þeirra er lyginnar hönd.

Guð, ég vil syngja þér nýjan söng, ég vil leika fyrir þér á tístrengjaða hörpu.

10 Þú veitir konungunum sigur, hrífur Davíð þjón þinn undan hinu illa sverði.

11 Hríf mig burt og bjarga mér af hendi útlendinganna. Munnur þeirra mælir tál, og hægri hönd þeirra er lyginnar hönd.

12 Synir vorir eru sem þroskaðir teinungar í æsku sinni, dætur vorar sem hornsúlur, úthöggnar í hallarstíl.

13 Hlöður vorar eru fullar og veita afurðir af hverri tegund, fénaður vor getur af sér þúsundir, verður tíþúsundfaldur á haglendum vorum,

14 uxar vorir klyfjaðir, ekkert skarð og engir hernumdir og ekkert óp á torgum vorum.

15 Sæl er sú þjóð, sem svo er ástatt fyrir, sæl er sú þjóð, sem á Drottin að Guði.

145 Davíðs-lofsöngur. Ég vil vegsama þig, ó Guð minn, þú konungur, og prísa nafn þitt um aldur og ævi.

Á hverjum degi vil ég prísa þig og lofa nafn þitt um aldur og ævi.

Mikill er Drottinn og mjög vegsamlegur, mikilleikur hans er órannsakanlegur.

Ein kynslóðin vegsamar verk þín fyrir annarri og kunngjörir máttarverk þín.

Þær segja frá tign og dýrð vegsemdar þinnar: "Ég vil syngja um dásemdir þínar."

Og um mátt ógnarverka þinna tala þær: "Ég vil segja frá stórvirkjum þínum."

Þær minna á þína miklu gæsku og fagna yfir réttlæti þínu.

Náðugur og miskunnsamur er Drottinn, þolinmóður og mjög gæskuríkur.

Drottinn er öllum góður, og miskunn hans er yfir öllu, sem hann skapar.

10 Öll sköpun þín lofar þig, Drottinn, og dýrkendur þínir prísa þig.

11 Þeir tala um dýrð konungdóms þíns, segja frá veldi þínu.

12 Þeir kunngjöra mönnum veldi þitt, hina dýrlegu tign konungdóms þíns.

13 Konungdómur þinn er konungdómur um allar aldir og ríki þitt stendur frá kyni til kyns. Drottinn er trúfastur í öllum orðum sínum og miskunnsamur í öllum verkum sínum.

14 Drottinn styður alla þá, er ætla að hníga, og reisir upp alla niðurbeygða.

15 Allra augu vona á þig, og þú gefur þeim fæðu þeirra á réttum tíma.

16 Þú lýkur upp hendi þinni og seður allt sem lifir með blessun.

17 Drottinn er réttlátur á öllum sínum vegum og miskunnsamur í öllum sínum verkum.

18 Drottinn er nálægur öllum sem ákalla hann, öllum sem ákalla hann í einlægni.

19 Hann uppfyllir ósk þeirra er óttast hann, og hróp þeirra heyrir hann og hjálpar þeim.

20 Drottinn varðveitir alla þá er elska hann, en útrýmir öllum níðingum.

21 Munnur minn skal mæla orðstír Drottins, allt hold vegsami hans heilaga nafn um aldur og ævi.

146 Halelúja. Lofa þú Drottin, sála mín!

Ég vil lofa Drottin meðan lifi, lofsyngja Guði mínum, meðan ég er til.

Treystið eigi tignarmennum, mönnum sem enga hjálp geta veitt.

Andi þeirra líður burt, þeir verða aftur að jörðu, á þeim degi verða áform þeirra að engu.

Sæll er sá, er á Jakobs Guð sér til hjálpar, sá er setur von sína á Drottin, Guð sinn,

hann sem skapað hefir himin og jörð, hafið og allt sem í því er, hann sem varðveitir trúfesti sína að eilífu,

sem rekur réttar kúgaðra og veitir brauð hungruðum. Drottinn leysir hina bundnu,

Drottinn opnar augu blindra, Drottinn reisir upp niðurbeygða, Drottinn elskar réttláta.

Drottinn varðveitir útlendingana, hann annast ekkjur og föðurlausa, en óguðlega lætur hann fara villa vegar.

10 Drottinn er konungur að eilífu, hann er Guð þinn, Síon, frá kyni til kyns. Halelúja.

147 Halelúja. Það er gott að leika fyrir Guði vorum, því að hann er yndislegur, honum hæfir lofsöngur.

Drottinn endurreisir Jerúsalem, safnar saman hinum tvístruðu af Ísrael.

Hann læknar þá, er hafa sundurkramið hjarta, og bindur um benjar þeirra.

Hann ákveður tölu stjarnanna, kallar þær allar með nafni.

Mikill er Drottinn vor og ríkur að veldi, speki hans er ómælanleg.

Drottinn annast hrjáða, en óguðlega lægir hann að jörðu.

Syngið Drottni með þakklæti, leikið á gígju fyrir Guði vorum.

Hann hylur himininn skýjum, býr regn handa jörðinni, lætur gras spretta á fjöllunum.

Hann gefur skepnunum fóður þeirra, hrafnsungunum, þegar þeir kalla.

10 Hann hefir eigi mætur á styrkleika hestsins, eigi þóknun á fótleggjum mannsins.

11 Drottinn hefir þóknun á þeim er óttast hann, þeim er bíða miskunnar hans.

12 Vegsama Drottin, Jerúsalem, lofa þú Guð þinn, Síon,

13 því að hann hefir gjört sterka slagbrandana fyrir hliðum þínum, blessað börn þín, sem í þér eru.

14 Hann gefur landi þínu frið, seður þig á hinu kjarnbesta hveiti.

15 Hann sendir orð sitt til jarðar, boð hans hleypur með hraða.

16 Hann gefur snjó eins og ull, stráir út hrími sem ösku.

17 Hann sendir hagl sitt sem brauðmola, hver fær staðist frost hans?

18 Hann sendir út orð sitt og lætur ísinn þiðna, lætur vind sinn blása, og vötnin renna.

19 Hann kunngjörði Jakob orð sitt, Ísrael lög sín og ákvæði.

20 Svo hefir hann eigi gjört við neina þjóð, þeim kennir hann ekki ákvæði sín. Halelúja.

148 Halelúja. Lofið Drottin af himnum, lofið hann á hæðum.

Lofið hann, allir englar hans, lofið hann, allir herskarar hans.

Lofið hann, sól og tungl, lofið hann, allar lýsandi stjörnur.

Lofið hann, himnar himnanna og vötnin, sem eru yfir himninum.

Þau skulu lofa nafn Drottins, því að hans boði voru þau sköpuð.

Og hann fékk þeim stað um aldur og ævi, hann gaf þeim lög, sem þau mega eigi brjóta.

Lofið Drottin af jörðu, þér sjóskrímsl og allir hafstraumar,

eldur og hagl, snjór og reykur, stormbylurinn, sem framkvæmir orð hans,

fjöllin og allar hæðir, ávaxtartrén og öll sedrustrén,

10 villidýrin og allur fénaður, skriðkvikindin og fleygir fuglar,

11 konungar jarðarinnar og allar þjóðir, höfðingjar og allir dómendur jarðar,

12 bæði yngismenn og yngismeyjar, öldungar og ungir sveinar!

13 Þau skulu lofa nafn Drottins, því að hans nafn eitt er hátt upp hafið, tign hans er yfir jörð og himni.

14 Hann lyftir upp horni fyrir lýð sinn, lofsöngur hljómi hjá öllum dýrkendum hans, hjá sonum Ísraels, þjóðinni, sem er nálæg honum. Halelúja.

149 Halelúja. Syngið Drottni nýjan söng, lofsöngur hans hljómi í söfnuði trúaðra.

Ísrael gleðjist yfir skapara sínum, synir Síonar fagni yfir konungi sínum.

Þeir skulu lofa nafn hans með gleðidansi, leika fyrir honum á bumbur og gígjur.

Því að Drottinn hefir þóknun á lýð sínum, hann skrýðir hrjáða með sigri.

Hinir trúuðu skulu gleðjast með sæmd, syngja fagnandi í hvílum sínum

með lofgjörð Guðs á tungu og tvíeggjað sverð í höndum

til þess að framkvæma hefnd á þjóðunum, hirtingu á lýðunum,

til þess að binda konunga þeirra með fjötrum, þjóðhöfðingja þeirra með járnhlekkjum,

til þess að fullnægja á þeim skráðum dómi. Það er til vegsemdar öllum dýrkendum hans. Halelúja.

150 Halelúja. Lofið Guð í helgidómi hans, lofið hann í voldugri festingu hans!

Lofið hann fyrir máttarverk hans, lofið hann eftir mikilleik hátignar hans!

Lofið hann með lúðurhljómi, lofið hann með hörpu og gígju!

Lofið hann með bumbum og gleðidansi, lofið hann með strengleik og hjarðpípum!

Lofið hann með hljómandi skálabumbum, lofið hann með hvellum skálabumbum!

Orðskviðir Salómons Davíðssonar, Ísraels konungs,

til þess að menn kynnist visku og aga, læri að skilja skynsamleg orð,

til þess að menn fái viturlegan aga, réttlæti, réttvísi og ráðvendni,

til þess að þeir veiti hinum óreyndu hyggindi, unglingum þekking og aðgætni, _

hinn vitri hlýðir á og eykur lærdóm sinn, og hinn hyggni nemur hollar lífsreglur _

til þess að menn skilji orðskviði og líkingamál, orð spekinganna og gátur þeirra.

Ótti Drottins er upphaf þekkingar, visku og aga fyrirlíta afglapar einir.

Hlýð þú, son minn, á áminning föður þíns og hafna eigi viðvörun móður þinnar,

því að þær eru yndislegur sveigur á höfði þér og men um háls þinn.

10 Son minn, þegar skálkar ginna þig, þá gegn þeim eigi.

11 Þegar þeir segja: "Kom með oss! Leggjumst í launsátur til manndrápa, sitjum án saka um saklausan mann,

12 gleypum þá lifandi eins og Hel _ með húð og hári, eins og þá sem farnir eru til dánarheima.

13 Alls konar dýra muni munum vér eignast, fylla hús vor rændum fjármunum.

14 Þú skalt taka jafnan hlut með oss, einn sjóð skulum vér allir hafa" _

15 son minn, þá haf ekki samleið við þá, halt fæti þínum frá stigum þeirra.

16 Því að fætur þeirra eru skjótir til ills og fljótir til að úthella blóði.

17 Því að til einskis þenja menn út netið í augsýn allra fleygra fugla,

18 og slíkir menn sitja um sitt eigið líf, liggja í launsátri fyrir sjálfum sér.

19 Þannig fer öllum þeim, sem fíknir eru í rangfenginn gróða: fíknin verður þeim að fjörlesti.

20 Spekin kallar hátt á strætunum, lætur rödd sína gjalla á torgunum.

21 Hún hrópar á glaummiklum gatnamótum, við borgarhliðin heldur hún tölur sínar:

22 Hversu lengi ætlið þér, fávísir, að elska fávísi og hinir háðgjörnu að hafa yndi af háði og heimskingjarnir að hata þekkingu?

23 Snúist til umvöndunar minnar, sjá, ég læt anda minn streyma yfir yður, kunngjöri yður orð mín.

24 En af því að þér færðust undan, þá er ég kallaði, og enginn gaf því gaum, þótt ég rétti út höndina,

25 heldur létuð öll mín ráð sem vind um eyrun þjóta og skeyttuð eigi umvöndun minni,

26 þá mun ég hlæja í ógæfu yðar, draga dár að, þegar skelfingin dynur yfir yður,

27 þegar skelfingin dynur yfir yður eins og þrumuveður og ógæfa yðar nálgast eins og fellibylur, þegar neyð og angist dynja yfir yður.

28 Þá munu þeir kalla á mig, en ég mun ekki svara, þeir munu leita mín, en ekki finna mig.

29 Vegna þess að þeir hötuðu þekking og aðhylltust ekki ótta Drottins,

30 skeyttu ekki ráðum mínum og smáðu alla umvöndun mína,

31 þá skulu þeir fá að neyta ávaxtar breytni sinnar og mettast af sínum eigin vélræðum.

32 Því að fráhvarf fávísra drepur þá, og uggleysi heimskingjanna tortímir þeim.

33 En sá sem á mig hlýðir, mun búa óhultur, mun vera öruggur og engri óhamingju kvíða.

Son minn, ef þú veitir orðum mínum viðtöku og geymir boðorð mín hjá þér,

svo að þú ljáir spekinni athygli þína, hneigir hjarta þitt að hyggindum,

já, ef þú kallar á skynsemina og hrópar á hyggindin,

ef þú leitar að þeim sem að silfri og grefst eftir þeim eins og fólgnum fjársjóðum,

þá munt þú skilja, hvað ótti Drottins er, og öðlast þekking á Guði.

Því að Drottinn veitir speki, af munni hans kemur þekking og hyggindi.

Hann geymir hinum ráðvöndu gæfuna, er skjöldur þeirra, sem breyta grandvarlega,

með því að hann vakir yfir stigum réttarins og varðveitir veg sinna guðhræddu.

Þá munt þú og skilja, hvað réttlæti er og réttur og ráðvendni, _ í stuttu máli, sérhverja braut hins góða.

10 Því að speki mun koma í hjarta þitt, og þekking verða sálu þinni yndisleg.

11 Aðgætni mun vernda þig, og hyggindin varðveita þig,

12 til þess að frelsa þig frá vegi hins illa, frá þeim mönnum, sem fara með fals,

13 sem yfirgefa stigu einlægninnar og ganga á vegum myrkursins

14 sem hafa gleði af því að gjöra illt, fagna yfir illsku hrekkjum,

15 sem gjöra vegu sína hlykkjótta og komnir eru út á glapstigu í breytni sinni,

16 til þess að frelsa þig frá léttúðarkonu, frá blíðmálugri konu sem annar á,

17 sem yfirgefið hefir unnusta æsku sinnar og gleymt sáttmála Guðs síns,

18 því að hús hennar hnígur í dauðann, og brautir hennar liggja niður til framliðinna,

19 þeir sem inn til hennar fara, snúa engir aftur, og aldrei komast þeir á lífsins stigu, _

20 til þess að þú gangir á vegi góðra manna og haldir þig á stigum réttlátra.

21 Því að hinir hreinskilnu munu byggja landið, og hinir grandvöru verða eftir í því.

22 En hinir óguðlegu munu upprættir verða úr landinu, og hinum svikulu verða útrýmt þaðan.

Son minn, gleym eigi kenning minni, og hjarta þitt varðveiti boðorð mín,

því að langa lífdaga og farsæl ár og velgengni munu þau veita þér í ríkum mæli.

Kærleiki og trúfesti munu aldrei yfirgefa þig. Bind þau um háls þér, rita þau á spjald hjarta þíns,

þá munt þú ávinna þér hylli og fögur hyggindi, bæði í augum Guðs og manna.

Treystu Drottni af öllu hjarta, en reiddu þig ekki á eigið hyggjuvit.

Mundu til hans á öllum þínum vegum, þá mun hann gjöra stigu þína slétta.

Þú skalt ekki þykjast vitur, óttast Drottin og forðast illt,

það mun verða heilnæmt fyrir líkama þinn og hressandi fyrir bein þín.

Tigna Drottin með eigum þínum og með frumgróða allrar uppskeru þinnar,

10 þá munu hlöður þínar verða nægtafullar og vínberjalögurinn flóa út af vínlagarþróm þínum.

11 Son minn, lítilsvirð eigi ögun Drottins og lát þér eigi gremjast umvöndun hans,

12 því að Drottinn agar þann, sem hann elskar, og lætur þann son kenna til, sem hann hefir mætur á.

13 Sæll er sá maður, sem öðlast hefir speki, sá maður, sem hyggindi hlotnast.

14 Því að betra er að afla sér hennar en að afla silfurs, og arðurinn af henni ágætari en gull.

15 Hún er dýrmætari en perlur, og allir dýrgripir þínir jafnast ekki á við hana.

16 Langir lífdagar eru í hægri hendi hennar, auður og mannvirðingar í vinstri hendi hennar.

17 Vegir hennar eru yndislegir vegir og allar götur hennar velgengni.

18 Hún er lífstré þeim, sem grípa hana, og sæll er hver sá, er heldur fast í hana.

19 Drottinn grundvallaði jörðina með visku, festi himininn af hyggjuviti.

20 Fyrir þekking hans mynduðust hafdjúpin og drýpur döggin úr skýjunum.

21 Son minn, varðveit þú visku og gætni, lát þær eigi víkja frá augum þínum,

22 þá munu þær verða líf sálu þinni og prýði fyrir háls þinn.

23 Þá muntu ganga óhultur veg þinn og eigi drepa við fæti.

24 Þegar þú leggst til hvíldar, þarft þú ekki að hræðast, og hvílist þú, mun svefninn verða vær.

25 Þú þarft ekki að óttast skyndilega hræðslu, né eyðilegging hinna óguðlegu, þegar hún dynur yfir.

26 Því að Drottinn mun vera athvarf þitt og varðveita fót þinn, að hann verði eigi fanginn.

27 Synja eigi góðs þeim, er þarfnast þess, ef það er á þínu valdi að gjöra það.

28 Seg þú ekki við náunga þinn: "Far og kom aftur! á morgun skal ég gefa þér" _ ef þú þó átt það til.

29 Brugga eigi illt gegn náunga þínum, þegar hann býr öruggur hjá þér.

30 Deil ekki við neinn að ástæðulausu, ef hann hefir ekki gjört þér neitt mein.

31 Öfunda ekki ofbeldismanninn og haf engar mætur á neinum gjörðum hans.

32 Því að andstyggð er sá Drottni, er afvega fer, en ráðvandir menn alúðarvinir hans.

33 Bölvun Drottins er yfir húsi hins óguðlega, en bústað réttlátra blessar hann.

34 Spottsama spottar hann, en lítillátum veitir hann náð.

35 Vitrir menn munu heiður hljóta, en heimskingjar bera smán úr býtum.

Heyrið, synir, áminning föður yðar og hlýðið til, svo að þér lærið hyggindi!

Því að góðan lærdóm gef ég yður, hafnið eigi kenning minni!

Þegar ég var sonur í föðurhúsum, viðkvæmt einkabarn heima hjá móður minni,

þá kenndi faðir minn mér og sagði við mig: "Hjarta þitt haldi fast orðum mínum, varðveit þú boðorð mín, og muntu lifa!

Afla þér visku, afla þér hygginda! Gleym eigi og vík eigi frá orðum munns míns!

Hafna henni eigi, þá mun hún varðveita þig, elska hana, þá mun hún vernda þig.

Upphaf viskunnar er: afla þér visku, afla þér hygginda fyrir allar eigur þínar!

Haf hana í hávegum, þá mun hún hefja þig, hún mun koma þér til vegs, ef þú umfaðmar hana.

Hún mun setja yndislegan sveig á höfuð þér, sæma þig prýðilegri kórónu."

10 Heyr þú, son minn, og veit viðtöku orðum mínum, þá munu æviár þín mörg verða.

11 Ég vísa þér veg spekinnar, leiði þig á brautir ráðvendninnar.

12 Gangir þú þær, skal leið þín ekki verða þröng, og hlaupir þú, skalt þú ekki hrasa.

13 Haltu fast í agann, slepptu honum ekki, varðveittu hann, því að hann er líf þitt.

14 Kom þú eigi á götu óguðlegra og gakk eigi á vegi vondra manna.

15 Sneið hjá honum, farðu hann ekki, snú þú frá honum og farðu fram hjá.

16 Því að þeir geta ekki sofið, nema þeir hafi gjört illt, og þeim kemur ekki dúr á auga, nema þeir hafi fellt einhvern.

17 Því að þeir eta glæpabrauð og drekka ofbeldisvín.

18 Gata réttlátra er eins og bjartur árdagsljómi, sem verður æ skærari fram á hádegi.

19 Vegur óguðlegra er eins og niðamyrkur, þeir vita ekki, um hvað þeir hrasa.

20 Son minn, gef gaum að ræðu minni, hneig eyra þitt að orðum mínum.

21 Lát þau eigi víkja frá augum þínum, varðveit þau innst í hjarta þínu.

22 Því að þau eru líf þeirra, er öðlast þau, og lækning fyrir allan líkama þeirra.

23 Varðveit hjarta þitt framar öllu öðru, því að þar eru uppsprettur lífsins.

24 Haltu fláræði munnsins burt frá þér og lát fals varanna vera fjarri þér.

25 Augu þín líti beint fram og augnalok þín horfi beint fram undan þér.

26 Gjör braut fóta þinna slétta, og allir vegir þínir séu staðfastir.

27 Vík hvorki til hægri né vinstri, haltu fæti þínum burt frá illu.

Son minn, gef gaum að speki minni, hneig eyra þitt að hyggindum mínum,

til þess að þú megir varðveita mannvit og varir þínar geymi þekkingu.

Því að hunangsseimur drýpur af vörum lauslátrar konu, og gómur hennar er hálli en olía.

En að síðustu er hún beiskari en malurt, beitt eins og tvíeggjað sverð.

Fætur hennar ganga niður til dauðans, spor hennar liggja til Heljar.

Til þess að hún hitti ekki leið lífsins, eru brautir hennar á reiki, og hún veit ekki hvert hún fer.

Heyrið mig því, synir, og víkið eigi frá orðum munns míns.

Legg leið þína langt frá henni og kom þú ekki nálægt húsdyrum hennar,

svo að þú gefir ekki öðrum æskublóma þinn og ár þín grimmum manni,

10 svo að útlendir menn mettist ekki af eigum þínum og aflafé þitt lendi ekki í annarlegu húsi,

11 og þú andvarpir að lokum, þá er líkami þinn og hold veslast upp,

12 og segir: "Hversu hefi ég hatað aga og hjarta mitt fyrirlitið umvöndun!

13 að ég skyldi ekki hlýða raustu kennara minna og hneigja eyra mitt til þeirra, er fræddu mig!

14 Við sjálft lá, að ég hefði ratað í mestu ógæfu á miðju dómþingi safnaðarins."

15 Drekk þú vatn úr vatnsþró þinni og rennandi vatn úr brunni þínum.

16 Eiga lindir þínar að flóa út á götuna, lækir þínir út á torgin?

17 Þér einum skulu þær tilheyra og engum óviðkomandi með þér.

18 Uppspretta þín sé blessuð, og gleð þig yfir festarmey æsku þinnar,

19 elsku-hindinni, yndis-gemsunni. Brjóst hennar gjöri þig ætíð drukkinn, og ást hennar fjötri þig ævinlega.

20 En hví skyldir þú, son minn, láta léttúðarkonu töfra þig, og faðma barm lauslátrar konu?

21 Því að vegir sérhvers manns blasa við Drottni, og allar brautir hans gjörir hann sléttar.

22 Misgjörðir hins óguðlega fanga hann, og hann verður veiddur í snörur synda sinna.

23 Hann mun deyja vegna skorts á aga og kollsteypast vegna sinnar miklu heimsku.

Son minn, hafir þú gengið í ábyrgð fyrir náunga þinn, hafir þú gengið til handsala fyrir annan mann,

hafir þú ánetjað þig með orðum munns þíns, látið veiðast með orðum munns þíns,

þá gjör þetta, son minn, til að losa þig _ því að þú ert kominn á vald náunga þíns _ far þú, varpa þér niður og legg að náunga þínum.

Lát þér eigi koma dúr á auga, né blund á brá.

Losa þig eins og skógargeit úr höndum hans, eins og fugl úr höndum fuglarans.

Far þú til maursins, letingi! skoða háttu hans og verð hygginn.

Þótt hann hafi engan höfðingja, engan yfirboðara eða valdsherra,

þá aflar hann sér samt vista á sumrin og dregur saman fæðu sína um uppskerutímann.

Hversu lengi ætlar þú, letingi, að hvílast? hvenær ætlar þú að rísa af svefni?

10 Sofa ögn enn, blunda ögn enn, leggja saman hendurnar ögn enn til að hvílast!

11 Þá kemur fátæktin yfir þig eins og ræningi og skorturinn eins og vopnaður maður.

12 Varmenni, illmenni er sá, sem gengur um með fláttskap í munni,

13 sem deplar augunum, gefur merki með fótunum, bendir með fingrunum,

14 elur fláræði í hjarta sínu, upphugsar ávallt illt, kveikir illdeilur.

15 Fyrir því mun ógæfa skyndilega yfir hann koma, snögglega mun hann sundurmolast og engin lækning fást.

16 Sex hluti hatar Drottinn og sjö eru sálu hans andstyggð:

17 drembileg augu, lygin tunga og hendur sem úthella saklausu blóði,

18 hjarta sem bruggar glæpsamleg ráð, fætur sem fráir eru til illverka,

19 ljúgvottur sem lygar mælir, og sá er kveikir illdeilur meðal bræðra.

20 Varðveit þú, son minn, boðorð föður þíns og hafna eigi viðvörun móður þinnar.

21 Fest þau á hjarta þitt stöðuglega, bind þau um háls þinn.

22 Þegar þú ert á gangi, þá leiði þau þig, þegar þú hvílist, vaki þau yfir þér, og þegar þú vaknar, þá ræði þau við þig.

23 Því að boðorð er lampi og viðvörun ljós og agandi áminningar leið til lífsins,

24 með því að þær varðveita þig fyrir vondri konu, fyrir hálli tungu hinnar lauslátu.

25 Girnst eigi fríðleik hennar í hjarta þínu og lát hana eigi töfra þig með augnahárum sínum.

26 Því að skækja fæst fyrir einn brauðhleif, og hórkona sækist eftir dýru lífi.

27 Getur nokkur borið svo eld í barmi sínum, að föt hans sviðni ekki?

28 Eða getur nokkur gengið á glóðum án þess að brenna sig á fótunum?

29 Svo fer þeim, sem hefir mök við konu náunga síns, enginn sá kemst klakklaust af, sem hana snertir.

30 Fyrirlíta menn eigi þjófinn, þó að hann steli til þess að seðja hungur sitt?

31 Og náist hann, verður hann að borga sjöfalt, verður að láta allar eigur húss síns.

32 En sá sem drýgir hór með giftri konu, er vitstola, sá einn gjörir slíkt, er tortíma vill sjálfum sér.

33 Högg og smán mun hann hljóta, og skömm hans mun aldrei afmáð verða.

34 Því að afbrýði er karlmanns-reiði, og hann hlífir ekki á hefndarinnar degi.

35 Hann lítur ekki við neinum bótum og friðast eigi, þótt þú ryðjir í hann gjöfum.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society