Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Bible in 90 Days

An intensive Bible reading plan that walks through the entire Bible in 90 days.
Duration: 88 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Jesaja 41:19-52:12

19 Ég læt sedrustré, akasíutré, myrtustré og olíutré vaxa í eyðimörkinni, og kýpresviður, álmviður og sortulyngsviður spretta hver með öðrum á sléttunum,

20 svo að þeir allir sjái og viti, skynji og skilji, að hönd Drottins hefir gjört þetta og Hinn heilagi í Ísrael hefir því til vegar komið.

21 Berið nú fram málefni yðar, segir Drottinn. Færið fram varnir yðar, segir konungur Jakobsættar.

22 Látum þá koma með málefni sín og kunngjöra oss, hvað verða muni. Gjörið kunnugt það sem áður var, svo að vér getum hugleitt það! Látið oss heyra, hvað koma á, svo að vér vitum, hvað í vændum er!

23 Gjörið kunnugt, hvað hér eftir muni fram koma, svo að vér megum sjá, að þér eruð guðir! Gjörið annaðhvort af yður gott eða illt, svo að við fáum reynt með okkur og sjón verði sögu ríkari.

24 Sjá, þér eruð ekkert og verk yðar ekki neitt! Andstyggilegur er sá, sem yður kýs!

25 Ég vakti upp mann í norðri, og hann kom. Frá upprás sólar kallaði ég þann, er ákallar nafn mitt. Hann gengur yfir landstjóra sem leir, eins og leirkerasmiður treður deigulmó.

26 Hver hefir kunngjört það frá öndverðu, svo að vér vissum það, eða fyrirfram, svo að vér gætum sagt: "Hann hefir rétt fyrir sér"? Nei, enginn hefir kunngjört það, enginn látið til sín heyra, enginn hefir heyrt yður segja neitt.

27 Ég var hinn fyrsti, sem sagði við Síon: "Sjá, þar kemur það fram!" og hinn fyrsti, er sendi Jerúsalem fagnaðarboða.

28 Ég litast um, en þar er enginn, og á meðal þeirra er ekki neinn, er úrskurð veiti, svo að ég geti spurt þá og þeir svarað mér.

29 Sjá, þeir eru allir hégómi og verk þeirra ekki neitt, líkneski þeirra vindur og hjóm.

42 Sjá þjón minn, sem ég leiði mér við hönd, minn útvalda, sem ég hefi þóknun á. Ég legg anda minn yfir hann, hann mun boða þjóðunum rétt.

Hann kallar ekki og hefir ekki háreysti og lætur ekki heyra raust sína á strætunum.

Brákaðan reyrinn brýtur hann ekki sundur, og dapran hörkveik slökkur hann ekki. Hann boðar réttinn með trúfesti.

Hann daprast eigi og gefst eigi upp, uns hann fær komið inn rétti á jörðu, og fjarlægar landsálfur bíða eftir boðskap hans.

Svo segir Drottinn Guð, sá er skóp himininn og þandi hann út, sá er breiddi út jörðina með öllu því, sem á henni vex, sá er andardrátt gaf mannfólkinu á jörðinni og lífsanda þeim, er á henni ganga:

Ég, Drottinn, hefi kallað þig til réttlætis og held í hönd þína. Ég mun varðveita þig og gjöra þig að sáttmála fyrir lýðinn og að ljósi fyrir þjóðirnar

til að opna hin blindu augun, til að leiða út úr varðhaldinu þá, er bundnir eru, og úr dýflissunni þá, er í myrkri sitja.

Ég er Drottinn, það er nafn mitt, og dýrð mína gef ég eigi öðrum né lof mitt úthöggnum líkneskjum.

Sjá, hinir fyrri hlutir eru fram komnir, en nú boða ég nýja hluti og læt yður heyra þá áður en fyrir þeim vottar.

10 Syngið Drottni nýjan söng, syngið lof hans til endimarka jarðarinnar, þér sjófarendur og allt sem í hafinu er, þér fjarlægar landsálfur og þeir sem þær byggja!

11 Eyðimörkin og borgir hennar og þorpin, þar sem Kedar býr, skulu hefja upp raustina. Fjallabúarnir skulu fagna, æpa af gleði ofan af fjallatindunum!

12 Þeir skulu gefa Drottni dýrðina og kunngjöra lof hans í fjarlægum landsálfum!

13 Drottinn leggur af stað sem hetja, elur á hugmóð sínum eins og bardagamaður. Hann kallar, hann lýstur upp herópi, sýnir hetjuskap á óvinum sínum:

14 Ég hefi þagað langan tíma, verið hljóður og stillt mig. Nú mun ég hljóða sem jóðsjúk kona, stynja og standa á öndinni í sama bili.

15 Ég mun svíða fjöllin og hálsana og skrælna láta allar jurtir, er þar vaxa. Ég mun gjöra ár að eyjum og þurrka upp tjarnirnar.

16 Ég mun leiða blinda menn um veg, er þeir ekki rata, færa þá um stigu, sem þeir ekki þekkja. Ég vil gjöra myrkrið fram undan þeim að ljósi og hólótt landið að jafnsléttu. Þessa hluti mun ég gjöra, og ég hætti eigi við þá.

17 Þeir sem treysta skurðgoðunum, hörfa aftur á bak og verða sér til skammar, þeir sem segja við steypt líkneski: "Þér eruð guðir vorir."

18 Heyrið, þér hinir daufu! Lítið upp, þér hinir blindu, að þér megið sjá!

19 Hver er svo blindur sem þjónn minn og svo daufur sem sendiboði minn, er ég hefi sent? Hver er svo blindur sem trúnaðarmaðurinn og svo blindur sem þjónn Drottins?

20 Þú hefir séð margt, en athugar það ekki, eyrun eru opin, en þú heyrir þó ekki.

21 Fyrir sakir réttlætis síns hefir Drottni þóknast að gjöra kenninguna háleita og vegsamlega.

22 Og þó er þetta rændur og ruplaður lýður, þeir eru allir fjötraðir í gryfjum og byrgðir í myrkvastofum. Þeir eru orðnir að herfangi, og enginn frelsar þá, orðnir að ránsfeng, og enginn segir: "Skilið þeim aftur!"

23 Hver af yður vill hlýða á þetta, gefa því gaum og veita því athygli framvegis?

24 Hver hefir framselt Jakob til ráns og fengið Ísrael ræningjum í hendur? Er það ekki Drottinn, hann, sem vér höfum syndgað á móti? Á hans vegum vildu þeir ekki ganga, og hans lögmáli hlýddu þeir ekki.

25 Fyrir því jós hann yfir þá brennandi reiði sinni og styrjaldarofsa. Hún bálaðist umhverfis þá, en þeir skildu það eigi, hún brenndi þá, en þeir hugfestu það eigi.

43 En nú segir Drottinn svo, sá er skóp þig, Jakobsætt, og myndaði þig, Ísrael: Óttast þú eigi, því að ég frelsa þig. Ég kalla á þig með nafni, þú ert minn.

Gangir þú gegnum vötnin, þá er ég með þér, gegnum vatnsföllin, þá skulu þau ekki flæða yfir þig. Gangir þú gegnum eld, skalt þú eigi brenna þig, og loginn skal eigi granda þér.

Því að ég, Drottinn, er Guð þinn, Hinn heilagi í Ísrael frelsari þinn. Ég gef Egyptaland í lausnargjald fyrir þig, læt Bláland og Seba í stað þín.

Sökum þess að þú ert dýrmætur í mínum augum og mikils metinn, og af því að ég elska þig, þá legg ég menn í sölurnar fyrir þig og þjóðir fyrir líf þitt.

Óttast þú eigi, því að ég er með þér. Ég kem með niðja þína úr austri og safna þér saman úr vestri.

Ég segi við norðrið: "Lát fram!" og við suðrið: "Haltu þeim eigi! Flyt þú sonu mína úr fjarlægð og dætur mínar frá endimörkum jarðarinnar:

sérhvern þann, sem við nafn mitt er kenndur og ég hefi skapað mér til dýrðar, sérhvern þann, er ég hefi myndað og gjört!"

Lát nú koma fram lýð þann, sem blindur er, þótt hann hafi augu, og þá menn, sem daufir eru, þótt þeir hafi eyru.

Lát alla heiðingjana safnast í einn hóp og þjóðirnar koma saman. Hver af þeim getur kunngjört slíkt og látið oss heyra það, er áður er fram komið? Leiði þeir fram votta sína og færi sönnur á mál sitt, svo að menn segi, er þeir heyra það: "Það er satt!"

10 En þér eruð mínir vottar, segir Drottinn, og minn þjónn, sem ég hefi útvalið, til þess að þér skylduð kannast við og trúa mér og skilja, að það er ég einn. Á undan mér hefir enginn guð verið búinn til, og eftir mig mun enginn verða til.

11 Ég, ég er Drottinn, og enginn frelsari er til nema ég.

12 Það var ég, sem boðaði og hjálpaði og kunngjörði, en enginn annar yðar á meðal, og þér eruð vottar mínir _ segir Drottinn. Ég er Guð.

13 Já, enn í dag er ég hinn sami. Enginn getur frelsað af minni hendi. Hver vill gjöra það ógjört, sem ég framkvæmi?

14 Svo segir Drottinn, frelsari yðar, Hinn heilagi í Ísrael: Yðar vegna sendi ég til Babýlon og brýt niður slagbranda hennar. Og gleðilæti Kaldeanna munu snúast í sorgarsöng.

15 Ég, Drottinn, er yðar Heilagi, skapari Ísraels, konungur yðar.

16 Svo segir Drottinn, hann sem lagði veg yfir hafið og braut yfir hin ströngu vötn,

17 hann sem leiddi út vagna og hesta, herafla og fyrirliða. Þeir liggja þar hver með öðrum og fá eigi risið á fætur, þeir slokknuðu, kulnuðu út sem hörkveikur:

18 Rennið eigi huga til hins umliðna og gefið eigi gætur að því er áður var.

19 Sjá, nú hefi ég nýtt fyrir stafni, það tekur þegar að votta fyrir því _ sjáið þér það ekki? Ég gjöri veg um eyðimörkina og leiði ár um öræfin.

20 Dýr merkurinnar, sjakalar og strútsfuglar skulu vegsama mig, því að ég leiði vatn um eyðimörkina og ár um öræfin til þess að svala lýð mínum, mínum útvalda.

21 Sá lýður, sem ég hefi skapað mér til handa, skal víðfrægja lof mitt.

22 Eigi hefir þú ákallað mig, Jakobsætt, né lagt þig í líma fyrir mig, Ísrael.

23 Þú hefir ekki fært mér sauðkindur þínar í brennifórnir og eigi tignað mig með sláturfórnum þínum. Ég hefi eigi mætt þig með matfórnum né þreytt þig með reykelsi.

24 Þú hefir ekki keypt ilmreyr fyrir silfur mér til handa, og þú hefir ekki satt mig á feiti sláturfórna þinna, heldur hefir þú mætt mig með syndum þínum og þreytt mig með misgjörðum þínum.

25 Ég, ég einn afmái afbrot þín sjálfs mín vegna og minnist ekki synda þinna.

26 Minn mig á, við skulum eigast lög við. Tel þú upp, svo að þú fáir réttlætt þig.

27 Hinn fyrsti forfaðir þinn syndgaði og talsmenn þínir brutu á móti mér.

28 Þess vegna vanhelgaði ég hina heilögu höfðingja og ofurseldi Jakobsætt bannfæringunni og Ísrael háðunginni.

44 Heyr þú nú, Jakob, þjónn minn, og Ísrael, sem ég hefi útvalið.

Svo segir Drottinn, sá er þig hefir skapað og þig hefir myndað frá móðurkviði, hann sem hjálpar þér: Óttast þú eigi, þjónn minn Jakob, og þú Jesjúrún, sem ég hefi útvalið.

Því að ég mun ausa vatni yfir hið þyrsta og veita árstraumum yfir þurrlendið. Ég mun úthella anda mínum yfir niðja þína og blessan minni yfir afsprengi þitt.

Þeir skulu spretta upp, eins og gras milli vatna, eins og pílviðir á lækjarbökkum.

Einn mun segja: "Ég heyri Drottni," annar mun kalla sig nafni Jakobs, og enn annar rita á hönd sína "Helgaður Drottni" og kenna sig við Ísrael.

Svo segir Drottinn, konungur Ísraels og frelsari, Drottinn allsherjar: Ég er hinn fyrsti og ég er hinn síðasti, og enginn Guð er til nema ég.

Hver er sem ég _ hann segi frá því og sanni mér það _ frá því er ég hóf hina örgömlu þjóð? Látum þá kunngjöra hið ókomna og það sem verða mun!

Skelfist eigi og látið eigi hugfallast. Hefi ég ekki þegar fyrir löngu sagt þér það og boðað það? Þér eruð vottar mínir: Er nokkur Guð til nema ég? Nei, ekkert annað hellubjarg er til, ég veit af engu öðru.

Þeir sem búa til goðalíkneski, eru hver með öðrum hégóminn einber, og dýrindissmíðar þeirra eru að engu liði. Vottar slíkra guða sjá eigi og vita eigi, til þess að þeir verði sér til skammar.

10 Hver hefir myndað guð og steypt líkneski, til þess að það verði að engu liði?

11 Sjá, allir dýrkendur þess munu til skammar verða. Og smiðirnir, þeir eru þó ekki nema menn, _ látum þá alla safnast saman og ganga fram, þeir skulu skelfast og til skammar verða hver með öðrum.

12 Járnsmiðurinn myndar egg á öxina, tekur hana fram við glóð og lagar hana með hömrunum. Hann býr hana til með hinum sterka armlegg sínum. En svelti hann, þá vanmegnast hann, fái hann ekki vatn að drekka, lýist hann.

13 Trésmiðurinn strengir mæliþráð sinn og markar fyrir með alnum, telgir tréð með hnífum og afmarkar það með sirkli. Og hann býr til úr því mannlíkan, fríðan mann, til þess að búa í húsi.

14 Hann heggur sér sedrustré, tekur steineik eða eik og velur um meðal skógartrjánna. Hann gróðursetur furutré, og regnskúrirnar koma vexti í þau.

15 Og maðurinn hefir tréð til eldiviðar, hann tekur nokkuð af því og vermir sig við, hann kveikir eld við það og bakar brauð, en auk þess býr hann til guð úr því og fellur fram fyrir honum. Hann smíðar úr því skurðgoð og knékrýpur því.

16 Helmingnum af trénu brennir hann í eldi. Við þann helminginn steikir hann kjöt, etur steik og verður saddur; hann vermir sig og segir: "Æ, nú hitnar mér, ég sé eldinn."

17 En úr afganginum býr hann til guð, skurðgoð handa sér. Hann knékrýpur því, fellur fram og gjörir bæn sína til þess og segir: "Frelsaðu mig, því að þú ert minn guð!"

18 Þeir hafa hvorki skyn né skilning, augu þeirra eru lokuð, svo að þeir sjá ekki, og hjörtu þeirra, svo að þeir skynja ekki.

19 Og þeir hugleiða það eigi, þeir hafa eigi vitsmuni og skilning til að hugsa með sér: "Helmingnum af því brenndi ég í eldi, ég bakaði brauð við glæðurnar, steikti kjöt og át; og svo ætti ég að fara að búa til andstyggilegt líkneski af því, sem afgangs er, og falla á kné fyrir trédrumbi!"

20 Þann mann, er sækist eftir ösku, hefir táldregið hjarta leitt afvega, svo að hann fær eigi borgið lífi sínu. Hann segir ekki við sjálfan sig: "Er það ekki svikatál, sem ég held á í hægri hendi minni?"

21 Minnstu þess, Jakob, og þú Ísrael, því að þú ert þjónn minn. Ég hefi skapað þig til að vera þjón minn, þú, Ísrael, munt mér aldrei úr minni líða!

22 Ég hefi feykt burt misgjörðum þínum eins og þoku og syndum þínum eins og skýi. Hverf aftur til mín, því að ég frelsa þig.

23 Fagnið, þér himnar, því að Drottinn hefir því til vegar komið, látið gleðilátum, þér undirdjúp jarðarinnar. Hefjið fagnaðarsöng, þér fjöll, skógurinn og öll tré, sem í honum eru, því að Drottinn frelsar Jakob og sýnir vegsemd sína á Ísrael.

24 Svo segir Drottinn, frelsari þinn, sá er þig hefir myndað frá móðurkviði: Ég er Drottinn, sem allt hefi skapað, sem útþandi himininn aleinn og útbreiddi jörðina hjálparlaust,

25 sá sem ónýtir tákn lygaranna og gjörir spásagnamennina að fíflum, sem gjörir vitringana afturreka og þekking þeirra að heimsku,

26 sem staðfestir orð þjóns síns og framkvæmir ráð sendiboða sinna. Ég er sá sem segi um Jerúsalem: "Verði hún aftur byggð!" og um borgirnar í Júda: "Verði þær endurreistar, og rústir þeirra reisi ég við!"

27 Ég er sá sem segi við djúpið: "Þorna þú upp, og ár þínar þurrka ég upp!"

28 Ég er sá sem segi um Kýrus: "Hann er hirðir minn, og hann skal framkvæma allan vilja minn og segja um Jerúsalem: Hún skal endurreist verða og musterið grundvallað að nýju!"

45 Svo segir Drottinn við sinn smurða, við Kýrus, sem ég held í hægri höndina á, til þess að leggja að velli þjóðir fyrir augliti hans og spretta belti af lendum konunganna, til þess að opna fyrir honum dyrnar og til þess að borgarhliðin verði eigi lokuð:

Ég mun ganga á undan þér og jafna hólana, ég mun brjóta eirhliðin og mölva járnslárnar.

Ég mun gefa þér hina huldu fjársjóðu og hina fólgnu dýrgripi, svo að þú kannist við, að það er ég, Drottinn, sem kalla þig með nafni þínu, ég Ísraels Guð.

Vegna þjóns míns Jakobs og vegna Ísraels, míns útvalda, kallaði ég þig með nafni þínu, nefndi þig sæmdarnafni, þó að þú þekktir mig ekki.

Ég er Drottinn og enginn annar. Enginn Guð er til nema ég. Ég hertygjaði þig, þó að þú þekktir mig ekki,

svo að menn skyldu kannast við það bæði í austri og vestri, að enginn er til nema ég. Ég er Drottinn og enginn annar.

Ég tilbý ljósið og framleiði myrkrið, ég veiti heill og veld óhamingju. Ég er Drottinn, sem gjöri allt þetta.

Drjúpið, þér himnar, að ofan, og láti skýin réttlæti niður streyma. Jörðin opnist og láti hjálpræði fram spretta og réttlæti blómgast jafnframt. Ég, Drottinn, kem því til vegar.

Vei þeim, sem þráttar við skapara sinn, sjálfur leirbrot innan um önnur leirbrot jarðar! Hvort má leirinn segja við leirmyndarann: "Hvað getur þú?" eða handaverk hans: "Hann hefir engar hendur."

10 Vei þeim, sem segir við föður sinn: "Hvað munt þú fá getið!" eða við konuna: "Hvað ætli þú getir fætt!"

11 Svo segir Drottinn, Hinn heilagi í Ísrael og sá er hann hefir myndað: Spyrjið mig um hið ókomna og felið mér að annast sonu mína og verk handa minna!

12 Ég hefi til búið jörðina og skapað mennina á henni. Mínar hendur hafa þanið út himininn og ég hefi kallað fram allan hans her.

13 Ég hefi vakið hann upp í réttlæti og ég mun greiða alla hans vegu. Hann skal byggja upp borg mína og gefa útlögum mínum heimfararleyfi, og það án endurgjalds og án fégjafa, _ segir Drottinn allsherjar.

14 Svo segir Drottinn: Auður Egyptalands og verslunargróði Blálands og Sebainga, hinna hávöxnu manna, skal ganga til þín og verða þín eign. Þeir skulu fylgja þér, í fjötrum skulu þeir koma, og þeir skulu falla fram fyrir þér og grátbæna þig og segja: "Guð er hjá þér einum, enginn annar er til, enginn annar guð."

15 Sannlega ert þú Guð, sem hylur þig, Ísraels Guð, frelsari.

16 Skurðgoðasmiðirnir verða sér til skammar, já, til háðungar allir saman, þeir ganga allir sneyptir.

17 En Ísrael frelsast fyrir Drottin eilífri frelsun. Þér skuluð eigi verða til skammar né háðungar að eilífu.

18 Já, svo segir Drottinn, sá er himininn hefir skapað _ hann einn er Guð, sá er jörðina hefir myndað og hana til búið, hann, sem hefir grundvallað hana og hefir eigi skapað hana til þess, að hún væri auðn, heldur myndað hana svo, að hún væri byggileg: Ég er Drottinn, og enginn annar.

19 Ég hefi ekki talað í leynum, einhvers staðar í landi myrkranna. Ég hefi eigi sagt við Jakobsniðja: "Leitið mín út í bláinn!" Ég, Drottinn, tala það sem rétt er og kunngjöri sannmæli.

20 Safnist saman og komið, nálægið yður, allir þér af þjóðunum, sem undan hafið komist: Skynlausir eru þeir, sem burðast með trélíkneski sitt og biðja til guðs, er eigi getur hjálpað.

21 Gjörið kunnugt og segið til! Já, ráðfæri þeir sig hver við annan! Hver hefir boðað þetta frá öndverðu og kunngjört það fyrir löngu? Hefi ég, Drottinn, ekki gjört það? Enginn Guð er til nema ég. Fyrir utan mig er enginn sannur Guð og hjálpari til.

22 Snúið yður til mín og látið frelsast, þér gjörvöll endimörk jarðarinnar, því að ég er Guð og enginn annar.

23 Ég hefi svarið við sjálfan mig, af munni mínum er sannleikur út genginn, orð, er eigi mun bregðast: Fyrir mér skal sérhvert kné beygja sig, sérhver tunga sverja mér trúnað.

24 "Hjá Drottni einum," mun um mig sagt verða, "er réttlæti og vald." Allir fjendur hans skulu til hans koma og blygðast sín.

25 Allir Ísraelsniðjar skulu réttlætast fyrir Drottin og miklast af honum.

46 Bel er hokinn, Nebó er boginn. Líkneski þeirra eru fengin eykjum og gripum, goðalíkneskin, sem þér áður báruð um kring, eru nú látin upp á þreyttan eyk, eins og önnur byrði.

Þeir eru bæði bognir og hoknir. Þeir megna ekki að frelsa byrðina, og sjálfir hljóta þeir að fara í útlegð.

Hlýðið á mig, þér kynsmenn Jakobs, og allir þér, sem eftir eruð af kyni Ísraels, þér sem eruð mér á herðar lagðir allt í frá móðurkviði og ég hefi borið allt í frá móðurlífi:

Allt til elliára er ég hinn sami, og ég vil bera yður, þar til er þér verðið gráir fyrir hærum. Ég hefi gjört yður, og ég skal bera yður, ég skal bera yður og frelsa.

Við hvern viljið þér samlíkja mér og jafna mér? Saman við hvern viljið þér bera mig sem jafningja minn?

Þeir sem steypa gullinu úr sjóðnum og vega silfrið á vogarskálum, leigja sér gullsmið til að smíða úr því guð, síðan knékrjúpa þeir og falla fram.

Þeir lyfta honum á axlir sér, bera hann og setja hann á sinn stað, og þar stendur hann og víkur ekki úr stað. Og þótt einhver ákalli hann, þá svarar hann ekki, hann frelsar eigi úr nauðum.

Minnist þessa og látið yður segjast, leggið það á hjarta, þér trúrofar.

Minnist þess hins fyrra frá upphafi, að ég er Guð og enginn annar, hinn sanni Guð og enginn minn líki.

10 Ég kunngjörði endalokin frá öndverðu og sagði fyrir fram það, sem eigi var enn fram komið. Ég segi: Mín ráðsályktun stendur stöðug, og allt, sem mér vel líkar, framkvæmi ég.

11 Ég kalla örninn úr austurátt, úr fjarlægu landi mann þann, er framkvæmir ráðsályktun mína. Það sem ég tala, það læt ég einnig fram koma, það sem ég áset mér, það gjöri ég einnig.

12 Hlýðið á mig, þér harðsvíruðu, sem eruð fjarlægir réttlætinu!

13 Ég nálægi mitt réttlæti, það er ekki langt í burtu, og hjálp mín skal ekki dvelja. Ég veiti hjálp í Síon og vegsemd mína Ísrael.

47 Stíg niður og sest í duftið, þú mærin Babeldóttir! Sest þú á jörðina hásætislaus, þú Kaldeadóttir! því þú munt eigi framar kölluð verða hin lystilega og látprúða.

Tak kvörnina og mala mjöl! Bregð burt skýlu þinni, tak upp um þig klæðin, gjör beran fótlegg þinn og vað yfir fljótin!

Ber verði blygðan þín og svívirða þín augsýnileg. Ég vil hefna mín og hlífi engum,

segir lausnari vor; Drottinn allsherjar er nafn hans, Hinn heilagi í Ísrael.

Sit hljóð og gakk inn í myrkrið, þú Kaldeadóttir, því þú munt eigi framar kölluð verða drottning konungsríkjanna.

Ég var reiður lýð mínum og lét eign mína verða fyrir vansæmd og seldi hana í hendur þér. En þú sýndir þeim enga miskunnsemi. Jafnvel á gamalmennin lagðir þú þitt afar þunga ok.

Og þú sagðir: "Ég skal verða drottning um aldur og ævi." Þú hugfestir þetta eigi og hugsaðir eigi um, hver endalokin mundu verða.

En heyr nú þetta, þú hin sællífa, er situr andvaralaus og segir í hjarta þínu: "Ég og engin önnur. Í ekkjudómi skal ég aldrei sitja og eigi reyna, hvað það er að vera barnalaus."

En hvort tveggja þetta skal þér að hendi bera skyndilega, á einum degi. Þú skalt bæði verða barnalaus og ekkja. Í fullum mæli mun það yfir þig koma, þrátt fyrir þína margvíslegu töfra og þínar miklu særingar.

10 Þú þóttist örugg í vonsku þinni og sagðir: "Enginn sér til mín." Viska þín og kunnátta hefir leitt þig afvega, svo að þú sagðir í hjarta þínu: "Ég og engin önnur!"

11 Þess vegna skal ógæfa yfir þig koma, sem þú skalt ekki geta keypt þig undan. Ólán skal yfir þig dynja, er þú eigi fær afstýrt með fégjöfum. Skyndilega skal eyðing yfir þig koma, þegar þig varir minnst.

12 Kom þú nú með særingar þínar og með hina margvíslegu töfra þína, sem þú hefir stundað með allri elju í frá barnæsku þinni. Má vera, að þú getir eitthvað áunnið, má vera, þú fáir fælt það burt.

13 Þú ert orðin þreytt á hinum mörgu fyrirætlunum þínum. Lát því himinfræðingana og stjörnuskoðarana koma og hjálpa þér, þá er á mánuði hverjum boða þér, hvað yfir þig á að koma.

14 Sjá, þeir eru sem hálmleggir, eldurinn eyðir þeim. Þeir geta ekki bjargað lífi sjálfra sín úr loganum, því það verður ekki glóð til að orna sér við eða eldur til að sitja við.

15 Svo munu þeir reynast þér, er þú hefir mæðst fyrir, þeir er keypt hafa við þig frá æskuárum þínum: Þeir þjóta í sína áttina hver, og enginn verður til að hjálpa þér.

48 Heyrið þetta, þér Jakobs niðjar, þér sem nefndir eruð eftir Ísrael og runnir eruð úr Júda lindum, þér sem sverjið við nafn Drottins og tignið Ísraels Guð, þótt eigi sé í sannleika og réttlæti,

því að þeir kenna sig við hina helgu borg og leita trausts hjá Ísraels Guði: Nafn hans er Drottinn allsherjar.

Það sem nú er fram komið, hefi ég kunngjört fyrir löngu, það er útgengið af mínum munni, og ég hefi gjört það heyrinkunnugt. Skyndilega færði ég það til vegar, og það kom fram.

Af því að ég vissi, að þú ert þrjóskur og háls þinn seigur sem járnseymi og enni þitt hart sem kopar,

fyrir því kunngjörði ég þér það löngu fyrir og lét þig vita það áður en það kom fram, til þess að þú skyldir ekki segja: "Goð mitt hefir komið því til leiðar, og skurðgoð mitt og hið steypta líkneski mitt hefir ráðstafað því."

Þú hefir heyrt það, sjá, nú er það allt komið fram! Og þér, hljótið þér ekki að játa það? Nú boða ég þér nýja hluti og hulda, sem þú ekkert veist um.

Þeir eru nú að skapast, en eigi fyrr, fyrr en í dag hefir þú ekkert um þá heyrt, svo að þú skyldir ekki geta sagt: "Sjá, ég vissi það!"

Þú hefir hvorki heyrt það né vitað það, né heldur hefir eyra þitt verið opið fyrir löngu, því að ég vissi, að þú ert mjög ótrúr og að þú hefir kallaður verið "trúrofi" frá móðurlífi.

Fyrir sakir nafns míns sefa ég reiði mína og vegna lofs míns hefti ég hana þér í vil, svo að ég uppræti þig eigi.

10 Sjá, ég hefi hreinsað þig, þó eigi sem silfur, ég hefi reynt þig í bræðsluofni hörmungarinnar.

11 Mín vegna, sjálfs mín vegna gjöri ég það, og dýrð mína gef ég eigi öðrum, því að hversu mjög yrði nafn mitt vanhelgað!

12 Heyr mig, Jakob, og þú Ísrael, sem ég hefi kallað: Ég er hann, ég er hinn fyrsti, ég er einnig hinn síðasti.

13 Hönd mín hefir grundvallað jörðina, og hægri hönd mín hefir þanið út himininn. Þegar ég kalla á þau, koma þau.

14 Safnist allir saman og heyrið: Hver á meðal þeirra hefir kunngjört þetta: Sá er Drottinn elskar, skal framkvæma vilja hans á Babýlon og vera armleggur hans meðal Kaldea?

15 Það er ég, það er ég, sem hefi talað það, ég hefi og kallað hann. Ég hefi leitt hann fram og veitt honum sigurgengi.

16 Komið til mín og heyrið þetta: Frá upphafi hefi ég eigi talað í leyndum; þegar kominn var sá tími, að það skyldi verða, kom ég. Nú hefir hinn alvaldi Drottinn sent mig með sinn anda.

17 Svo segir Drottinn, frelsari þinn, Hinn heilagi í Ísrael: Ég, Drottinn Guð þinn, er sá sem kenni þér að gjöra það sem þér er gagnlegt, sem vísa þér þann veg, er þú skalt ganga.

18 Æ, að þú vildir gefa gaum að boðorðum mínum, þá mundi heill þín verða sem fljót og réttlæti þitt sem bylgjur sjávarins.

19 Niðjar þínir mundu þá verða sem fjörusandur og lífsafkvæmi þín sem sandkorn. Nafn hans mun aldrei afmáð verða og aldrei hverfa burt frá mínu augliti.

20 Gangið út úr Babýlon, skundið burt frá Kaldeum með fagnaðarópi, boðið þetta og birtið það, útbreiðið það til endimarka jarðarinnar: Drottinn hefir frelsað þjón sinn Jakob!

21 Og þá þyrsti ekki, þegar hann leiddi þá um öræfin. Hann lét vatn spretta upp úr kletti handa þeim, og hann klauf klettinn, svo að vatnið vall þar upp.

22 Hinum óguðlegu, segir Drottinn, er enginn friður búinn.

49 Heyrið mig, þér eylönd, og hyggið að, þér fjarlægar þjóðir! Drottinn hefir kallað mig allt í frá móðurlífi, nefnt nafn mitt frá því ég var í kviði móður minnar.

Hann hefir gjört munn minn sem beitt sverð og hulið mig í skugga handar sinnar. Hann hefir gjört mig að fágaðri ör og falið mig í örvamæli sínum.

Hann sagði við mig: "Þú ert þjónn minn, Ísrael, sá er ég mun sýna á vegsemd mína."

En ég sagði: "Ég hefi þreytt mig til einskis, eytt krafti mínum til ónýtis og árangurslaust. Samt sem áður er réttur minn hjá Drottni og laun mín hjá Guði mínum."

En nú segir Drottinn, hann sem myndaði mig allt í frá móðurlífi til að vera þjón sinn, til þess að ég sneri Jakob aftur til hans og til þess að Ísrael yrði safnað saman til hans, _ og ég er dýrmætur í augum Drottins og Guð minn varð minn styrkur _

nú segir hann: "Það er of lítið fyrir þig að vera þjónn minn, til þess að endurreisa ættkvíslir Jakobs og leiða heim aftur þá, er varðveitst hafa af Ísrael. Fyrir því gjöri ég þig að ljósi fyrir þjóðirnar, svo að þú sért mitt hjálpræði til endimarka jarðarinnar."

Svo segir Drottinn, frelsari og heilagur Guð Ísraels, við þann, sem af mönnum er fyrirlitinn, við þann, sem fólk hefir andstyggð á, við þjón harðstjóranna: Konungar munu sjá það og standa upp, þjóðhöfðingjar munu sjá það og falla fram, vegna Drottins, sem reynist trúr, vegna Hins heilaga í Ísrael, sem þig hefir útvalið.

Svo segir Drottinn: Á tíma náðarinnar bænheyri ég þig, og á degi hjálpræðisins hjálpa ég þér. Ég varðveiti þig og gjöri þig að sáttmála fyrir lýðinn, til þess að reisa við landið, til þess að úthluta erfðahlutum, sem komnir eru í auðn,

til þess að segja hinum fjötruðu: "Gangið út," og þeim sem í myrkrunum eru: "Komið fram í dagsbirtuna." Fram með vegunum skulu þeir vera á beit, og á öllum gróðurlausum hæðum skal vera beitiland fyrir þá.

10 Þá skal ekki hungra og ekki þyrsta, og eigi skal breiskjuloftið og sólarhitinn vinna þeim mein, því að miskunnari þeirra vísar þeim veg og leiðir þá að uppsprettulindum.

11 Ég gjöri öll mín fjöll að vegi, og brautir mínar skulu hækka.

12 Sjá, sumir koma langt að, sumir frá norðri og vestri, aðrir frá Syene.

13 Lofsyngið, þér himnar, og fagna þú, jörð! Hefjið gleðisöng, þér fjöll, því að Drottinn veitir huggun sínum lýð og auðsýnir miskunn sínum þjáðu.

14 Síon segir: "Drottinn hefir yfirgefið mig, hinn alvaldi hefir gleymt mér!"

15 Hvort fær kona gleymt brjóstbarni sínu, að hún miskunni eigi lífsafkvæmi sínu? Og þó að þær gætu gleymt, þá gleymi ég þér samt ekki.

16 Sjá, ég hefi rist þig á lófa mína, múrar þínir standa jafnan fyrir augum mér.

17 Byggjendur þínir koma með flýti, en þeir, sem brutu þig niður og lögðu þig í rústir, víkja burt frá þér.

18 Hef upp augu þín og litast um: Þeir safnast allir saman og koma til þín. Svo sannarlega sem ég lifi, segir Drottinn, skalt þú íklæðast þeim öllum sem skarti og belta þig með þeim sem brúður.

19 Því að rústir þínar, eyðistaðir þínir og umturnað land þitt _ já, nú verður þú of þröng fyrir íbúana og eyðendur þínir munu vera langt í burtu.

20 Enn munu börnin frá árunum, er þú varst barnalaus, segja í eyru þér: "Hér er of þröngt um mig. Færðu þig, svo að ég fái bústað!"

21 Þá muntu segja í hjarta þínu: "Hver hefir alið mér þessi börn? Ég var barnlaus og óbyrja, útlæg og brottrekin. Og hver hefir fóstrað þessi börn? Sjá, ég var ein eftir skilin, hvernig stendur þá á börnum þessum?"

22 Svo segir hinn alvaldi Drottinn: Sjá, ég mun banda hendi minni til þjóðanna og reisa upp merki mitt fyrir lýðina, og munu þeir þá færa hingað sonu þína í fangi sér, og dætur þínar bornar verða hingað á öxlinni.

23 Konungar skulu verða barnfóstrar þínir og drottningar þeirra barnfóstrur þínar. Þeir munu falla til jarðar fram á ásjónur sínar fyrir þér og sleikja duft fóta þinna. Þá munt þú komast að raun um, að ég er Drottinn og að þeir verða ekki til skammar, sem á mig vona.

24 Hvort mun herfangið verða tekið af hinum sterka? Og munu bandingjar ofbeldismannsins fá komist undan?

25 Já, svo segir Drottinn: Bandingjarnir skulu teknir verða af hinum sterka og herfang ofbeldismannsins komast undan. Ég skal verja sök þína gegn sökunautum þínum, og sonu þína mun ég frelsa.

26 Ég mun láta kúgara þína eta eigið hold, og þeir skulu verða drukknir af eigin blóði, eins og af vínberjalegi. Allt hold mun þá komast að raun um, að ég, Drottinn, er frelsari þinn, og hinn voldugi Jakobs Guð, lausnari þinn.

50 Svo segir Drottinn: Hvar er sú skilnaðarskrá móður yðar, er ég á að hafa rekið hana burt með? Eða hverjum af lánardrottnum mínum hefi ég selt yður? Sjá, sökum misgjörða yðar hafið þér seldir verið og vegna afbrota yðar hefir móðir yðar verið burt rekin.

Hvers vegna var enginn fyrir, þegar ég kom, hví gegndi enginn, þegar ég kallaði? Er hönd mín þá svo stutt orðin, að hún geti eigi frelsað, eða vantar mig mátt til að bjarga? Sjá, með hótun minni þurrka ég upp hafið, gjöri fljótin að eyðimörk, svo að fiskarnir í þeim úldna af vatnsleysi og deyja af þorsta.

Ég færi himininn í svartan hjúp og sveipa hann í sorgarbúning.

Hinn alvaldi Drottinn hefir gefið mér lærisveina tungu, svo að ég hefði vit á að styrkja hina mæddu með orðum mínum. Hann vekur á hverjum morgni, á hverjum morgni vekur hann eyra mitt, svo að ég taki eftir, eins og lærisveinar gjöra.

Hinn alvaldi Drottinn opnaði eyra mitt, og ég þverskallaðist eigi, færðist ekki undan.

Ég bauð bak mitt þeim, sem börðu mig, og kinnar mínar þeim, sem reyttu mig. Ég byrgði eigi ásjónu mína fyrir háðungum og hrákum.

Drottinn hinn alvaldi hjálpar mér, því lét ég ekki háðungarnar á mér festa. Fyrir því gjörði ég andlit mitt að tinnusteini, því að ég veit, að ég verð ekki til skammar.

Nálægur er sá er mig réttlætir. Hver vill deila við mig? Við skulum báðir ganga fram! Hver hefir sök að kæra á hendur mér? Komi hann til mín!

Sjá, hinn alvaldi Drottinn hjálpar mér. Hver er sá er geti gjört mig sekan? Sjá, þeir munu allir detta sundur eins og gamalt fat, mölur skal eyða þeim.

10 Hver sá meðal yðar, sem óttast Drottin, hlýði raustu þjóns hans. Sá sem í myrkrunum gengur og enga skímu sér, hann treysti á nafn Drottins og reiði sig á Guð sinn.

11 Sjá, allir þér, sem kveikið eld og gyrðið yður eldlegum skeytum, gangið þér út í þann eld, sem þér hafið kveikt, og sláið umhverfis yður þeim slagbröndum, sem þér hafið tendrað! Frá minni hendi kemur þetta yfir yður, þér skuluð liggja í kvölum.

51 Hlýðið á mig, þér sem leggið stund á réttlæti, þér sem leitið Drottins! Lítið á hellubjargið, sem þér eruð af höggnir, og á brunnholuna, sem þér eruð úr grafnir!

Lítið á Abraham, föður yðar, og á Söru, sem ól yður! Því að barnlausan kallaði ég hann, en ég blessaði hann og jók kyn hans.

Já, Drottinn huggar Síon, huggar allar rústir hennar. Hann gjörir auðn hennar sem Eden og heiði hennar sem aldingarð Drottins. Fögnuður og gleði mun finnast í henni, þakkargjörð og lofsöngur.

Hlýð þú á mig, þú lýður minn, hlusta á mig, þú þjóð mín, því frá mér mun kenning út ganga og minn réttur sem ljós fyrir þjóðirnar.

Skyndilega nálgast réttlæti mitt, hjálpræði mitt er á leiðinni. Armleggir mínir munu færa þjóðunum réttlæti. Fjarlægar landsálfur vænta mín og bíða eftir mínum armlegg.

Hefjið augu yðar til himins og lítið á jörðina hér neðra. Himinninn mun leysast sundur sem reykur og jörðin fyrnast sem fat og þeir, sem á henni búa, deyja sem mý. En mitt hjálpræði varir eilíflega, og mínu réttlæti mun eigi linna.

Hlýðið á mig, þér sem þekkið réttlætið, þú lýður, sem ber lögmál mitt í hjarta þínu. Óttist eigi spott manna og hræðist eigi smánaryrði þeirra,

því að mölur mun eta þá eins og klæði og maur eta þá eins og ull. En réttlæti mitt varir eilíflega og hjálpræði mitt frá kyni til kyns.

Vakna þú, vakna þú, íklæð þig styrkleika, armleggur Drottins! Vakna þú, eins og fyrr á tíðum, eins og í árdaga! Varst það eigi þú, sem banaðir skrímslinu og lagðir í gegn drekann?

10 Varst það eigi þú, sem þurrkaðir upp hafið, vötn hins mikla djúps, sem gjörðir sjávardjúpin að vegi, svo að hinir endurleystu gætu komist yfir?

11 Hinir endurkeyptu Drottins skulu aftur hverfa og koma með fögnuði til Síonar, og eilíf gleði skal leika yfir höfði þeim. Fögnuður og gleði skal fylgja þeim, en hryggð og andvarpan flýja.

12 Ég, ég er sá sem huggar yður. Hver ert þú, að þú skulir hrædd vera við mennina, sem eiga að deyja, og mannanna börn, sem felld verða eins og grasið,

13 en gleymir Drottni, skapara þínum, sem útþandi himininn og grundvallaði jörðina, að þú óttast stöðugt liðlangan daginn heift kúgarans? Þegar hann býr sig til að gjöreyða, hvar er þá heift kúgarans?

14 Brátt skulu þeir, er fjötraðir eru, leystir verða, og þeir skulu eigi deyja og fara í gröfina, né heldur skal þá skorta brauð _

15 svo sannarlega sem ég er Drottinn, Guð þinn, sá er æsir hafið, svo að bylgjurnar gnýja. Drottinn allsherjar er nafn hans.

16 Ég hefi lagt mín orð í munn þér og skýlt þér undir skugga handar minnar, ég, sem gróðursetti himininn og grundvallaði jörðina og segi við Síon: "Þú ert minn lýður!"

17 Hresstu þig upp, hresstu þig upp, rístu upp, Jerúsalem, þú sem drukkið hefir reiðibikar Drottins, er hönd hans rétti að þér. Vímubikarinn hefir þú drukkið í botn!

18 Af öllum þeim sonum, sem hún hafði alið, var ekki nokkur einn, sem leiddi hana. Af öllum þeim sonum, sem hún hafði upp fætt, var enginn, sem tæki í hönd hennar.

19 Þetta tvennt henti þig _ hver aumkar þig? _ eyðing og umturnun, hungur og sverð _ hver huggar þig?

20 Synir þínir liðu í ómegin og lágu á öllum strætamótum, eins og antílópur í veiðigröf, fullir af reiði Drottins, af hirtingarorðum Guðs þíns.

21 Fyrir því heyr þú þetta, þú hin vesala, þú sem drukkin ert, og þó ekki af víni:

22 Svo segir Drottinn þinn alvaldur og Guð þinn, sem réttir hlut lýðs síns: Sjá, ég tek úr hendi þinni vímubikarinn, skál reiði minnar, þú skalt ekki framar á henni bergja.

23 Ég fæ hana í hendur þeim, sem angra þig, þeim er sögðu við þig: "Varpa þér niður, svo að vér getum gengið á þér!" Og þú varðst að gjöra hrygg þinn sem gólf og að götu fyrir vegfarendur.

52 Vakna þú, vakna þú, íklæð þig styrk þínum, Síon! Klæð þig skartklæðum þínum, Jerúsalem, þú hin heilaga borg! því að enginn óumskorinn eða óhreinn skal framar inn í þig ganga.

Hrist af þér rykið, rís upp og sest í sæti þitt, Jerúsalem! Losa þú af þér hálsfjötra þína, þú hin hertekna, dóttirin Síon!

Svo segir Drottinn: Þér voruð seldir fyrir ekkert, þér skuluð og án silfurs leystir verða.

Svo segir hinn alvaldi Drottinn: Til Egyptalands fór lýður minn forðum til þess að dveljast þar um hríð, og Assýringar kúguðu hann heimildarlaust.

Og nú, hvað hefi ég hér að gjöra _ segir Drottinn _ þar sem lýður minn hefir verið burt numinn fyrir ekkert? Yfirdrottnarar hans dramba _ segir Drottinn _ og stöðugt er nafn mitt smáð liðlangan daginn.

Fyrir því skal lýður minn fá að þekkja nafn mitt, fá að reyna það á þeim degi, að það er ég, sem segi: "Sjá, hér er ég!"

Hversu yndislegir eru á fjöllunum fætur fagnaðarboðans, sem friðinn kunngjörir, gleðitíðindin flytur, hjálpræðið boðar og segir við Síon: "Guð þinn er setstur að völdum!"

Varðmenn þínir hefja upp raustina allir í einu, þeir æpa fagnaðaróp, því að með eigin augum sjá þeir Drottin hverfa aftur til Síonar.

Hefjið gleðisöng, æpið fagnaðaróp allar í einu, þér eyðirústir Jerúsalem, því að Drottinn huggar lýð sinn, leysir Jerúsalem.

10 Drottinn hefir beran gjört heilagan armlegg sinn í augsýn allra þjóða, og öll endimörk jarðarinnar skulu sjá hjálpræði Guðs vors.

11 Farið burt, farið burt, gangið út þaðan! Snertið ekkert óhreint! Gangið burt þaðan, hreinsið yður, þér sem berið ker Drottins!

12 Því að eigi skuluð þér í flýti brott ganga né fara með skyndingu, því að Drottinn fer fyrir yður í fararbroddi og Guð Ísraels gengur aftastur í flokki yðar.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society