Book of Common Prayer
72 Eftir Salómon. Guð, sel konungi í hendur dóma þína og konungssyni réttlæti þitt,
2 að hann dæmi lýð þinn með réttvísi og þína þjáðu með sanngirni.
3 Fjöllin beri lýðnum frið og hálsarnir réttlæti.
4 Hann láti hina þjáðu meðal lýðsins ná rétti sínum, hann hjálpi hinum snauðu og kremji kúgarann.
5 Þá mun hann lifa meðan sólin skín og tunglið ber birtu, frá kyni til kyns.
6 Hann mun falla sem regn á slægjuland, sem regnskúrir, er vökva landið.
7 Um hans daga skal réttlætið blómgast og gnóttir friðar, uns tunglið er eigi framar til.
8 Og hann skal ríkja frá hafi til hafs, frá Fljótinu til endimarka jarðar.
9 Fjandmenn hans skulu beygja kné fyrir honum og óvinir hans sleikja duftið.
10 Konungarnir frá Tarsis og eylöndunum skulu koma með gjafir, konungarnir frá Saba og Seba skulu færa skatt.
11 Og allir konungar skulu lúta honum, allar þjóðir þjóna honum.
12 Hann bjargar hinum snauða, er hrópar á hjálp, og hinum þjáða, er enginn liðsinnir.
13 Hann aumkast yfir bágstadda og snauða, og fátækum hjálpar hann.
14 Frá ofbeldi og ofríki leysir hann þá, og blóð þeirra er dýrmætt í augum hans.
15 Hann mun lifa og menn munu gefa honum Saba-gull, menn munu sífellt biðja fyrir honum, blessa hann liðlangan daginn.
16 Gnóttir korns munu vera í landinu, á fjallatindunum, í gróðri þess mun þjóta eins og í Líbanon, og menn skulu spretta upp í borgunum eins og gras úr jörðu.
17 Nafn hans mun vara að eilífu, meðan sólin skín mun nafn hans gróa. Og með honum skulu allar ættkvíslir jarðarinnar óska sér blessunar, allar þjóðir munu hann sælan segja.
18 Lofaður sé Drottinn, Guð, Ísraels Guð, sem einn gjörir furðuverk,
19 og lofað sé hans dýrlega nafn um eilífð, og öll jörðin fyllist dýrð hans. Amen, amen.
20 Bænir Davíðs Ísaísonar eru á enda.
73 Hendur þínar hafa gjört mig og skapað, veit mér skyn, að ég megi læra boð þín.
74 Þeir er óttast þig sjá mig og gleðjast, því að ég vona á orð þitt.
75 Ég veit, Drottinn, að dómar þínir eru réttlátir og að þú hefir lægt mig í trúfesti þinni.
76 Lát miskunn þína verða mér til huggunar, eins og þú hefir heitið þjóni þínum.
77 Lát miskunn þína koma yfir mig, að ég megi lifa, því að lögmál þitt er unun mín.
78 Lát ofstopamennina verða til skammar, af því að þeir kúga mig með rangsleitni, en ég íhuga fyrirmæli þín.
79 Til mín snúi sér þeir er óttast þig og þeir er þekkja reglur þínar.
80 Hjarta mitt sé grandvart í lögum þínum, svo að ég verði eigi til skammar.
81 Sál mín tærist af þrá eftir hjálpræði þínu, ég bíð eftir orði þínu.
82 Augu mín tærast af þrá eftir fyrirheiti þínu: Hvenær munt þú hugga mig?
83 Því að ég er orðinn eins og belgur í reykhúsi, en lögum þínum hefi ég eigi gleymt.
84 Hversu margir eru dagar þjóns þíns? Hvenær munt þú heyja dóm á ofsækjendum mínum?
85 Ofstopamenn hafa grafið mér grafir, menn, er eigi hlýða lögmáli þínu.
86 Öll boð þín eru trúfesti. Menn ofsækja mig með lygum, veit þú mér lið.
87 Nærri lá, að þeir gjörðu út af við mig á jörðunni, og þó hafði ég eigi yfirgefið fyrirmæli þín.
88 Lát mig lífi halda sakir miskunnar þinnar, að ég megi varðveita reglurnar af munni þínum.
89 Orð þitt, Drottinn, varir að eilífu, það stendur stöðugt á himnum.
90 Frá kyni til kyns varir trúfesti þín, þú hefir grundvallað jörðina, og hún stendur.
91 Eftir ákvæðum þínum stendur hún enn í dag, því að allt lýtur þér.
92 Ef lögmál þitt hefði eigi verið unun mín, þá hefði ég farist í eymd minni.
93 Ég skal eigi gleyma fyrirmælum þínum að eilífu, því að með þeim hefir þú látið mig lífi halda.
94 Þinn er ég, hjálpa þú mér, því að ég leita fyrirmæla þinna.
95 Óguðlegir bíða mín til þess að tortíma mér, en ég gef gætur að reglum þínum.
96 Á allri fullkomnun hefi ég séð endi, en þín boð eiga sér engin takmörk.
22 Rétt í þessu komu menn Davíðs og Jóab heim úr ránsferð, og fluttu þeir með sér mikið herfang. En Abner var þá ekki hjá Davíð í Hebron, því að hann hafði látið hann í burt fara í friði.
23 Þegar Jóab nú kom og allur herinn, sem með honum var, færðu menn Jóab þessi tíðindi: "Abner Nersson kom hingað á konungs fund, og hann lét hann fara aftur burt í friði."
24 Þá gekk Jóab fyrir konung og mælti: "Hvað hefir þú gjört? Abner hefir komið hingað til þín! Hví lést þú hann frjálsan í brott fara?
25 Veistu ekki, að Abner Nersson hefir komið til þess að fleka þig og til þess að verða vísari um hátterni þitt og fá vitneskju um allt, sem þú hefir fyrir stafni?"
26 Og er Jóab var genginn út frá Davíð, þá sendi hann menn eftir Abner, og þeir komu með hann aftur frá Sírabrunni. Davíð vissi ekki af þessu.
27 En er Abner var aftur kominn til Hebron, veik Jóab honum á eintal afsíðis í borgarhliðinu og lagði hann þar í kviðinn, svo að hann beið bana af _ til hefnda fyrir víg Asahels bróður síns.
28 En er Davíð síðar frétti það, sagði hann: "Saklaus er ég og mitt ríki fyrir Drottni að eilífu af blóði Abners Nerssonar!
29 Komi það yfir höfuð Jóabs og yfir alla ætt hans! Aldrei verði í ætt Jóabs þeirra vant, er rennsli hafa og líkþráir eru, sem ganga við hækju, falla fyrir sverði eða vantar brauð!"
30 En Jóab og Abísaí bróðir hans myrtu Abner, af því að hann hafði drepið Asahel bróður þeirra hjá Gíbeon í bardaga.
31 Og Davíð sagði við Jóab og allt fólkið, sem hjá honum var: "Rífið klæði yðar og gyrðist hærusekk og gangið kveinandi fyrir Abner!" En Davíð konungur gekk á eftir líkbörunum.
32 Og þeir jörðuðu Abner í Hebron, og hóf þá konungur grát við gröf Abners, og allur lýðurinn grét líka.
33 Og konungur orti þessi sorgarljóð eftir Abner: Varð þá Abner að deyja dauða guðleysingjans?
34 Hendur þínar voru ekki bundnar, og fætur þínir voru ekki fjötraðir. Þú ert fallinn, eins og menn falla fyrir níðingum. Þá grét allur lýðurinn enn meira yfir honum.
35 Allur lýðurinn kom og vildi fá Davíð til að neyta matar meðan enn var dagur, en Davíð sór og mælti: "Guð láti mig gjalda þess nú og síðar, ef ég smakka brauð eða nokkuð annað fyrir sólarlag."
36 Allur lýðurinn tók eftir því og líkaði þeim það vel. Reyndar líkaði öllum lýðnum vel allt það, sem konungurinn gjörði.
37 Og allt fólkið og allur Ísrael sannfærðist um það á þeim degi, að konungur væri ekki valdur að vígi Abners Nerssonar.
38 Konungur mælti og við menn sína: "Vitið þér ekki, að höfðingi og mikill maður er í dag fallinn í Ísrael?
39 En ég má mín enn lítils, þótt ég sé smurður til konungs, og þessir menn, Serújusynir, eru mér yfirsterkari. Drottinn gjaldi þeim, sem níðingsverkið hefir unnið, svo sem hann á skilið fyrir níðingsverk sitt!"
16 Eitt sinn, er vér gengum til bænastaðarins, mætti oss ambátt nokkur, sem hafði spásagnaranda og aflaði húsbændum sínum mikils gróða með því að spá.
17 Hún elti Pál og oss og hrópaði: "Menn þessir eru þjónar Guðs hins hæsta, og boða þeir yður veg til hjálpræðis!"
18 Þetta gjörði hún dögum saman. Páli féll það illa. Loks sneri hann sér við og sagði við andann: "Ég býð þér í nafni Jesú Krists að fara út af henni." Og hann fór út á samri stundu.
19 Nú sem húsbændur hennar sáu, að þar fór ábatavon þeirra, gripu þeir Pál og Sílas og drógu þá á torgið fyrir valdsmennina.
20 Þeir færðu þá til höfuðsmannanna og sögðu: "Menn þessir gjöra mestu óspektir í borg vorri. Þeir eru Gyðingar
21 og boða siði, sem oss, rómverskum mönnum, leyfist hvorki að þýðast né fylgja."
22 Múgurinn réðst og gegn þeim, og höfuðsmennirnir létu fletta þá klæðum og skipuðu að húðstrýkja þá.
23 Og er þeir höfðu lostið þá mörg högg, vörpuðu þeir þeim í fangelsi og buðu fangaverðinum að gæta þeirra vandlega.
24 Þegar hann hafði fengið slíka skipun, varpaði hann þeim í innsta fangelsið og felldi stokk á fætur þeim.
47 Þegar kvöld var komið, var báturinn á miðju vatni, en hann einn á landi.
48 Hann sá, að þeim var þungur róðurinn, því að vindur var á móti þeim, og er langt var liðið nætur kemur hann til þeirra, gangandi á vatninu, og ætlar fram hjá þeim.
49 Þegar þeir sáu hann ganga á vatninu, hugðu þeir, að þar færi vofa, og æptu upp yfir sig.
50 Því að allir sáu þeir hann og varð þeim bilt við. En Jesús mælti jafnskjótt til þeirra: "Verið hughraustir, það er ég, verið óhræddir."
51 Og hann sté í bátinn til þeirra og lægði þá vindinn. Og þeir urðu öldungis agndofa,
52 enda höfðu þeir ekki skilið það, sem gjörst hafði með brauðin, hjörtu þeirra voru blind.
53 Þegar þeir höfðu náð yfir um, komu þeir að landi við Genesaret og lögðu þar að.
54 Um leið og þeir stigu úr bátnum, þekktu menn hann.
55 Og fólk tók að streyma fram og aftur um allt það hérað og bera sjúklinga í burðarrekkjum hvert þangað, sem þeir heyrðu, að hann væri.
56 Og hvar sem hann kom í þorp, borgir eða á bæi, lögðu menn sjúka á torgin og báðu hann, að þeir fengju rétt að snerta fald klæða hans, og allir þeir, sem snertu hann, urðu heilir.
by Icelandic Bible Society