Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 61-62

61 Til söngstjórans. Með strengjaleik. Eftir Davíð.

Heyr, ó Guð, hróp mitt, gef gaum bæn minni.

Frá endimörkum jarðar hrópa ég til þín, meðan hjarta mitt örmagnast. Hef mig upp á bjarg það, sem mér er of hátt.

Leið mig, því að þú ert orðinn mér hæli, öruggt vígi gegn óvinum.

Lát mig gista í tjaldi þínu um eilífð, leita hælis í skjóli vængja þinna. [Sela]

Því að þú, ó Guð, hefir heyrt heit mín, þú hefir uppfyllt óskir þeirra er óttast nafn þitt.

Þú munt lengja lífdaga konungs, láta ár hans vara frá kyni til kyns.

Hann skal sitja um eilífð frammi fyrir Guði, lát miskunn og trúfesti varðveita hann.

Þá vil ég lofsyngja nafni þínu um aldur, og efna heit mín dag frá degi.

62 Til söngstjórans. Fyrir Jedútún. Davíðssálmur.

Bíð róleg eftir Guði, sála mín, frá honum kemur hjálpræði mitt.

Hann einn er klettur minn og hjálpræði, háborg mín _ ég verð eigi valtur á fótum.

Hversu lengi ætlið þér að ryðjast allir saman gegn einum manni til að fella hann eins og hallan vegg, eins og hrynjandi múr?

Þeir ráðgast um það eitt að steypa honum úr tign hans, þeir hafa yndi af lygi, þeir blessa með munninum, en bölva í hjartanu. [Sela]

Bíð róleg eftir Guði, sála mín, því að frá honum kemur von mín.

Hann einn er klettur minn og hjálpræði, háborg mín _ ég verð eigi valtur á fótum.

Hjá Guði er hjálpræði mitt og vegsemd, minn örugga klett og hæli mitt hefi ég í Guði.

Treyst honum, allur þjóðsöfnuðurinn, úthellið hjörtum yðar fyrir honum, Guð er vort hæli. [Sela]

10 Hégóminn einn eru mennirnir, tál eru mannanna börn, á metaskálunum lyftast þeir upp, einber hégómi eru þeir allir saman.

11 Treystið eigi ránfeng og alið eigi fánýta von til rændra muna, þótt auðurinn vaxi, þá gefið því engan gaum.

12 Eitt sinn hefir Guð talað, tvisvar hefi ég heyrt það: "Hjá Guði er styrkleikur."

13 Já, hjá þér, Drottinn, er miskunn, því að þú geldur sérhverjum eftir verkum hans.

Sálmarnir 68

68 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Ljóð.

Guð rís upp, óvinir hans tvístrast, þeir sem hata hann flýja fyrir augliti hans.

Eins og reykur eyðist, eyðast þeir, eins og vax bráðnar í eldi, tortímast óguðlegir fyrir augliti Guðs.

En réttlátir gleðjast, fagna fyrir augliti Guðs og kætast stórum.

Syngið fyrir Guði, vegsamið nafn hans, leggið braut fyrir hann er ekur gegnum öræfin. Drottinn heitir hann, fagnið fyrir augliti hans.

Hann er faðir föðurlausra, vörður ekknanna, Guð í sínum heilaga bústað.

Guð lætur hina einmana hverfa heim aftur, hann leiðir hina fjötruðu út til hamingju, en uppreisnarseggir skulu búa í hrjóstrugu landi.

Ó Guð, þegar þú fórst út á undan lýð þínum, þegar þú brunaðir fram um öræfin, [Sela]

þá nötraði jörðin, og himnarnir drupu fyrir Guði, Drottni frá Sínaí, fyrir Guði, Ísraels Guði.

10 Ríkulegu regni dreyptir þú, ó Guð, á arfleifð þína, það sem vanmegnaðist, styrktir þú.

11 Staðinn þar sem söfnuður þinn dvelur, bjóst þú hinum hrjáðu, ó Guð, sakir gæsku þinnar.

12 Drottinn lætur orð sín rætast, konurnar sem sigur boða eru mikill her:

13 "Konungar hersveitanna flýja, þeir flýja, en hún sem heima situr skiptir herfangi.

14 Hvort viljið þér liggja milli fjárgirðinganna? Vængir dúfunnar eru lagðir silfri og fjaðrir hennar íbleiku gulli."

15 Þegar Hinn almáttki tvístraði konungunum, þá snjóaði á Salmon.

16 Guðs fjall er Basansfjall, tindafjall er Basansfjall.

17 Hví lítið þér, tindafjöll, öfundarauga það fjall er Guð hefir kjörið sér til bústaðar, þar sem Drottinn samt mun búa um eilífð?

18 Hervagnar Guðs eru tíþúsundir, þúsundir á þúsundir ofan. Hinn alvaldi kom frá Sínaí til helgidómsins.

19 Þú steigst upp til hæða, hafðir á burt bandingja, tókst við gjöfum frá mönnum, jafnvel uppreisnarmönnum, að þú, Drottinn, Guð, mættir búa þar.

20 Lofaður sé Drottinn, er ber oss dag eftir dag, Guð er hjálpráð vort. [Sela]

21 Guð er oss hjálpræðisguð, og Drottinn alvaldur bjargar frá dauðanum.

22 Já, Guð sundurmolar höfuð óvina sinna, hvirfil þeirra, er ganga í sekt sinni.

23 Drottinn hefir sagt: "Ég vil sækja þá til Basan, flytja þá frá djúpi hafsins,

24 að þú megir troða þá til bana, að tungur hunda þinna megi fá sinn hlut af óvinunum."

25 Menn horfa á inngöngu þína, ó Guð, inngöngu Guðs míns og konungs í musterið.

26 Söngvarar eru í fararbroddi, þá strengleikarar, ásamt yngismeyjum, er berja bumbur.

27 Lofið Guð á hátíðarsamkundum, lofið Drottin, þér sem eruð af uppsprettu Ísraels.

28 Þar er Benjamín litli, er ríkir yfir þeim, höfðingjar Júda í þyrpingu, höfðingjar Sebúlons, höfðingjar Naftalí.

29 Bjóð út, ó Guð, styrkleik þínum, þeim styrkleik sem þú hefir auðsýnt oss

30 frá musteri þínu í Jerúsalem. Konungar skulu færa þér gjafir.

31 Ógna þú dýrinu í sefinu, uxaflokkunum ásamt bolakálfum þjóðanna, sem troða menn fótum sökum ágirndar sinnar á silfri. Tvístra þú þjóðum, er unna ófriði!

32 Það koma sendiherrar frá Egyptalandi, Bláland færir Guði gjafir hröðum höndum.

33 Þér konungsríki jarðar, syngið Guði, syngið Drottni lof, [Sela]

34 honum sem ekur um himnanna himna frá eilífð, hann lætur raust sína gjalla, hina voldugu raust.

35 Tjáið Guði dýrð, yfir Ísrael er hátign hans og máttur hans í skýjunum.

36 Ógurlegur er Guð í helgidómi sínum, Ísraels Guð veitir lýðnum mátt og megin. Lofaður sé Guð!

Síðari Samúelsbók 3:6-21

Meðan ófriðurinn stóð milli Sáls húss og Davíðs húss, var Abner öflugur fylgismaður Sáls húss.

Sál hafði átt hjákonu, er Rispa hét og var Ajasdóttir. Og Ísbóset, sonur Sáls, sagði við Abner: "Hví hefir þú gengið í eina sæng með hjákonu föður míns?"

Abner reiddist mjög orðum Ísbósets og mælti: "Er ég sá hundshaus, að ég haldi með Júda? Enn í dag auðsýni ég elsku húsi Sáls, föður þíns, vandamönnum hans og vinum, og ég hefi ekki framselt þig í hendur Davíðs, og þó ásakar þú mig í dag um konumál.

Guð gjöri mér það, er hann vill, nú og síðar: Eins og Drottinn hefir svarið Davíð, svo skal ég við hann gjöra:

10 flytja konungdóminn frá húsi Sáls og reisa hásæti Davíðs yfir Ísrael og Júda, frá Dan til Beerseba."

11 Hinn gat ekki svarað Abner einu orði af hræðslu við hann.

12 Þá gjörði Abner sendimenn á fund Davíðs í Hebron með þessa orðsending: "Hvers er landið?" Og: "Gjör þú sáttmála við mig, þá mun ég veita þér fulltingi til að snúa öllum Ísrael til fylgis við þig."

13 Davíð svaraði: "Gott og vel, ég vil gjöra sáttmála við þig. En eins krefst ég af þér: Þú skalt ekki líta ásjónu mína fyrr en þú færir mér Míkal, dóttur Sáls, þá er þú kemur til þess að líta ásjónu mína."

14 Og Davíð gjörði sendimenn á fund Ísbósets, sonar Sáls, með þá orðsending: "Fá mér konu mína Míkal, er ég festi mér fyrir hundrað filistayfirhúðir."

15 Þá sendi Ísbóset og lét taka hana frá manni hennar, Paltíel Laíssyni.

16 Og maður hennar fylgdi henni með miklum gráti til Bahúrím. Þá sagði Abner við hann: "Farðu nú heim aftur!" Fór hann þá aftur heim.

17 Abner hafði átt tal við öldunga Ísraels og sagt: "Þér hafið þegar fyrir löngu æskt þess, að Davíð yrði konungur yðar.

18 Látið nú af því verða, því að Drottinn hefir sagt við Davíð: ,Fyrir hönd Davíðs, þjóns míns, mun ég frelsa lýð minn Ísrael af hendi Filista og af hendi allra óvina þeirra."`

19 Abner kom og að máli við Benjamíníta. Því næst hélt Abner á fund Davíðs í Hebron til þess að segja honum frá, hversu Ísrael og allt Benjamíns hús vildi allt vera láta.

20 En er Abner kom til Davíðs í Hebron og með honum tveir tigir manna, þá gjörði Davíð Abner veislu og mönnunum, sem með honum voru.

21 Þá sagði Abner við Davíð: "Ég vil taka mig til og fara og safna öllum Ísrael utan um herra minn, konunginn, til þess að þeir gjöri sáttmála við þig, og þú verðir konungur yfir öllum þeim, sem þín sála girnist." Síðan lét Davíð Abner burt fara í friði.

Postulasagan 16:6-15

Þeir fóru um Frýgíu og Galataland, því heilagur andi varnaði þeim að boða orðið í Asíu.

Og sem þeir voru komnir að Mýsíu, reyndu þeir að fara til Biþýníu, en andi Jesú leyfði það eigi.

Þeir fóru þá um Mýsíu og komu niður til Tróas.

Um nóttina birtist Páli sýn: Maður nokkur makedónskur stóð hjá honum og bað hann: "Kom yfir til Makedóníu og hjálpa oss!"

10 En jafnskjótt og hann hafði séð þessa sýn, leituðum vér færis að komast til Makedóníu, þar sem vér skildum, að Guð hafði kallað oss til þess að flytja þeim fagnaðarerindið.

11 Nú lögðum vér út frá Tróas og sigldum beint til Samóþrake, en næsta dag til Neapólis

12 og þaðan til Filippí. Hún er helsta borg í þessum hluta Makedóníu, rómversk nýlenda. Í þeirri borg dvöldumst vér nokkra daga.

13 Hvíldardaginn gengum vér út fyrir hliðið að á einni, en þar hugðum vér vera bænastað. Settumst vér niður og töluðum við konurnar, sem voru þar saman komnar.

14 Kona nokkur guðrækin úr Þýatíruborg, Lýdía að nafni, er verslaði með purpura, hlýddi á. Opnaði Drottinn hjarta hennar, og hún tók við því, sem Páll sagði.

15 Hún var skírð og heimili hennar og hún bað oss: "Gangið inn í hús mitt og dveljist þar, fyrst þér teljið mig trúa á Drottin." Þessu fylgdi hún fast fram.

Markúsarguðspjall 6:30-46

30 Postularnir komu nú aftur til Jesú og sögðu honum frá öllu því, er þeir höfðu gjört og kennt.

31 Hann sagði við þá: "Komið þér nú á óbyggðan stað, svo að vér séum einir saman, og hvílist um stund." En fjöldi fólks var stöðugt að koma og fara, svo að þeir höfðu ekki einu sinni næði til að matast.

32 Og þeir fóru á bátnum einir saman á óbyggðan stað.

33 Menn sáu þá fara, og margir þekktu þá, og nú streymdi fólk þangað gangandi úr öllum borgunum og varð á undan þeim.

34 Þegar Jesús steig á land, sá hann þar mikinn mannfjölda, og hann kenndi í brjósti um þá, því að þeir voru sem sauðir, er engan hirði hafa. Og hann kenndi þeim margt.

35 Þá er mjög var áliðið dags, komu lærisveinar hans að máli við hann og sögðu: "Hér er engin mannabyggð og langt á daginn liðið.

36 Lát þá fara, að þeir geti náð til býla og þorpa hér í kring og keypt sér eitthvað til matar."

37 En hann svaraði þeim: "Gefið þeim sjálfir að eta." Þeir svara honum: "Eigum vér að fara og kaupa brauð fyrir tvö hundruð denara og gefa þeim að eta?"

38 Jesús spyr þá: "Hve mörg brauð hafið þér? Farið og gætið að." Þeir hugðu að og svöruðu: "Fimm brauð og tvo fiska."

39 Þá bauð hann þeim að láta alla setjast í grængresið og skipta sér í hópa.

40 Þeir settust niður í flokkum, hundrað í sumum, en fimmtíu í öðrum.

41 Og hann tók brauðin fimm og fiskana tvo, leit upp til himins, þakkaði Guði, braut brauðin og gaf lærisveinunum til að bera fram fyrir mannfjöldann. Fiskunum tveim skipti hann og meðal allra.

42 Og þeir neyttu allir og urðu mettir.

43 Þeir tóku saman brauðbitana, er fylltu tólf körfur, svo og fiskleifarnar.

44 En þeir, sem brauðanna neyttu, voru fimm þúsund karlmenn.

45 Tafarlaust knúði hann lærisveina sína að fara í bátinn og halda á undan yfir til Betsaídu, meðan hann sendi fólkið brott.

46 Og þá er hann hafði kvatt það, fór hann til fjalls að biðjast fyrir.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society