Book of Common Prayer
34 Sálmur Davíðs, þá er hann gjörði sér upp vitfirringu frammi fyrir Abímelek, svo að Abímelek rak hann í burt, og hann fór burt.
2 Ég vil vegsama Drottin alla tíma, ætíð sé lof hans mér í munni.
3 Sál mín hrósar sér af Drottni, hinir hógværu skulu heyra það og fagna.
4 Miklið Drottin ásamt mér, tignum í sameiningu nafn hans.
5 Ég leitaði Drottins, og hann svaraði mér, frelsaði mig frá öllu því er ég hræddist.
6 Lítið til hans og gleðjist, og andlit yðar skulu eigi blygðast.
7 Hér er volaður maður sem hrópaði, og Drottinn heyrði hann og hjálpaði honum úr öllum nauðum hans.
8 Engill Drottins setur vörð kringum þá er óttast hann, og frelsar þá.
9 Finnið og sjáið, að Drottinn er góður, sæll er sá maður er leitar hælis hjá honum.
10 Óttist Drottin, þér hans heilögu, því að þeir er óttast hann líða engan skort.
11 Ung ljón eiga við skort að búa og svelta, en þeir er leita Drottins fara einskis góðs á mis.
12 Komið, börn, hlýðið á mig, ég vil kenna yður ótta Drottins.
13 Ef einhver óskar lífs, þráir lífdaga til þess að njóta hamingjunnar,
14 þá varðveit tungu þína frá illu og varir þínar frá svikatali,
15 forðast illt og gjörðu gott, leita friðar og legg stund á hann.
16 Augu Drottins hvíla á réttlátum, og eyru hans gefa gaum að hrópi þeirra.
17 Auglit Drottins horfir á þá er illa breyta, til þess að afmá minningu þeirra af jörðunni.
18 Ef réttlátir hrópa, þá heyrir Drottinn, úr öllum nauðum þeirra frelsar hann þá.
19 Drottinn er nálægur þeim er hafa sundurmarið hjarta, þeim er hafa sundurkraminn anda, hjálpar hann.
20 Margar eru raunir réttláts manns, en Drottinn frelsar hann úr þeim öllum.
21 Hann gætir allra beina hans, ekki eitt af þeim skal brotið.
22 Ógæfa drepur óguðlegan mann, þeir er hata hinn réttláta, skulu sekir dæmdir.
23 Drottinn frelsar líf þjóna sinna, enginn sá er leitar hælis hjá honum, mun sekur dæmdur.
14 Sjá, fyrir því munu þeir dagar koma _ segir Drottinn _ að ekki mun framar sagt verða: "Svo sannarlega sem Drottinn lifir, sá er leiddi Ísraelsmenn út af Egyptalandi,"
15 heldur: "Svo sannarlega sem Drottinn lifir, sá er leiddi Ísraelsmenn út úr landinu norður frá og úr öllum þeim löndum, þangað sem hann hafði rekið þá." Og ég mun flytja þá aftur til lands þeirra, sem ég gaf feðrum þeirra.
16 Sjá, ég mun senda út marga fiskimenn _ segir Drottinn _ og þeir munu fiska þá, og eftir það mun ég senda marga veiðimenn, og þeir munu veiða þá á hverju fjalli, á hverri hæð og í bergskorunum.
17 Því að augu mín horfa á alla þeirra vegu, þeir eru ekki huldir fyrir mér og misgjörð þeirra er eigi falin fyrir augum mér.
18 En fyrst vil ég gjalda þeim tvöfalt misgjörð þeirra og synd, af því að þeir hafa vanhelgað land mitt með hræi viðurstyggða sinna og fyllt óðal mitt andstyggðum sínum.
19 Drottinn, styrkur minn, vígi mitt og hæli mitt á neyðardegi, til þín munu þjóðir koma frá endimörkum jarðar og segja: Lygar einar hafa feður vorir hlotið að eign, fánýta guði, og enginn þeirra er að neinu gagni.
20 Getur maðurinn gjört sér guði? Slíkt eru engir guðir!
21 Fyrir því vil ég í þetta sinn kenna þeim. Ég vil láta þá kannast við kraft minn og styrkleika, og þeir skulu viðurkenna, að nafn mitt er Drottinn.
14 Þegar Jóhannes hafði verið tekinn höndum, kom Jesús til Galíleu og prédikaði fagnaðarerindi Guðs
15 og sagði: "Tíminn er fullnaður og Guðs ríki í nánd. Gjörið iðrun og trúið fagnaðarerindinu."
16 Jesús var á gangi með Galíleuvatni og sá Símon og Andrés, bróður Símonar, vera að kasta netum í vatnið, en þeir voru fiskimenn.
17 Jesús sagði við þá: "Komið og fylgið mér, og mun ég láta yður menn veiða."
18 Og þegar í stað létu þeir eftir netin og fylgdu honum.
19 Hann gekk skammt þaðan og sá Jakob Sebedeusson og Jóhannes bróður hans, og voru þeir einnig á báti að búa net.
20 Jesús kallaði þá, og þeir yfirgáfu Sebedeus föður sinn hjá daglaunamönnunum í bátnum og fylgdu honum.
33 Gleðjist, þér réttlátir, yfir Drottni! Hreinlyndum hæfir lofsöngur.
2 Lofið Drottin með gígjum, leikið fyrir honum á tístrengjaða hörpu.
3 Syngið honum nýjan söng, knýið strengina ákaft með fagnaðarópi.
4 Því að orð Drottins er áreiðanlegt, og öll verk hans eru í trúfesti gjörð.
5 Hann hefir mætur á réttlæti og rétti, jörðin er full af miskunn Drottins.
6 Fyrir orð Drottins voru himnarnir gjörðir og öll þeirra prýði fyrir anda munns hans.
7 Hann safnaði vatni hafsins sem í belg, lét straumana í forðabúr.
8 Öll jörðin óttist Drottin, allir heimsbúar hræðist hann,
9 því að hann talaði _ og það varð, hann bauð _ þá stóð það þar.
10 Drottinn ónýtir ráð þjóðanna, gjörir að engu áform lýðanna,
11 en ráð Drottins stendur stöðugt um aldur, áform hjarta hans frá kyni til kyns.
12 Sæl er sú þjóð er á Drottin að Guði, sá lýður er hann hefir kjörið sér til eignar.
13 Drottinn lítur niður af himni, sér öll mannanna börn,
14 frá bústað sínum virðir hann fyrir sér alla jarðarbúa,
15 hann sem myndað hefir hjörtu þeirra allra og gefur gætur að öllum athöfnum þeirra.
16 Eigi sigrar konungurinn fyrir gnótt herafla síns, eigi bjargast kappinn fyrir ofurafl sitt.
17 Svikull er víghestur til sigurs, með ofurafli sínu bjargar hann ekki.
18 En augu Drottins hvíla á þeim er óttast hann, á þeim er vona á miskunn hans.
19 Hann frelsar þá frá dauða og heldur lífinu í þeim í hallæri.
20 Sálir vorar vona á Drottin, hann er hjálp vor og skjöldur.
21 Já, yfir honum fagnar hjarta vort, hans heilaga nafni treystum vér.
22 Miskunn þín, Drottinn, sé yfir oss, svo sem vér vonum á þig.
16 Sjá, ég sendi yður eins og sauði meðal úlfa. Verið því kænir sem höggormar og falslausir sem dúfur.
17 Varið yður á mönnunum. Þeir munu draga yður fyrir dómstóla og húðstrýkja yður í samkundum sínum.
18 Þér munuð leiddir fyrir landshöfðingja og konunga mín vegna þeim og heiðingjunum til vitnisburðar.
19 En þá er menn draga yður fyrir rétt, skuluð þér ekki hafa áhyggjur af því, hvernig eða hvað þér eigið að tala. Yður verður gefið á sömu stundu, hvað segja skal.
20 Þér eruð ekki þeir sem tala, heldur andi föður yðar, hann talar í yður.
21 Bróðir mun selja bróður í dauða og faðir barn sitt. Börn munu rísa gegn foreldrum og valda þeim dauða.
22 Og þér munuð hataðir af öllum vegna nafns míns. En sá sem staðfastur er allt til enda, mun hólpinn verða.
23 Þegar þeir ofsækja yður í einni borg, þá flýið í aðra. Sannlega segi ég yður: Þér munuð ekki hafa náð til allra borga Ísraels, áður en Mannssonurinn kemur.
24 Ekki er lærisveinn meistaranum fremri né þjónn herra sínum.
25 Nægja má lærisveini að vera sem meistari hans og þjóni sem herra hans. Fyrst þeir kölluðu húsföðurinn Beelsebúl, hvað kalla þeir þá heimamenn hans?
26 Óttist þá því eigi. Ekkert er hulið, sem eigi verður opinbert, né leynt, er eigi verður kunnugt.
27 Það sem ég segi yður í myrkri, skuluð þér tala í birtu, og það sem þér heyrið hvíslað í eyra, skuluð þér kunngjöra á þökum uppi.
28 Hræðist ekki þá, sem líkamann deyða, en fá ekki deytt sálina. Hræðist heldur þann, sem megnar að tortíma bæði sálu og líkama í helvíti.
29 Eru ekki tveir spörvar seldir fyrir smápening? Og ekki fellur einn þeirra til jarðar án vitundar föður yðar.
30 Á yður eru jafnvel höfuðhárin öll talin.
31 Verið því óhræddir, þér eruð meira verðir en margir spörvar.
32 Hvern þann sem kannast við mig fyrir mönnum, mun og ég við kannast fyrir föður mínum á himnum.
by Icelandic Bible Society