Book of Common Prayer
49 Minnst þú þess orðs við þjón þinn, sem þú lést mig vona á.
50 Þetta er huggun mín í eymd minni, að orð þitt lætur mig lífi halda.
51 Ofstopamenn spotta mig ákaflega, en ég vík eigi frá lögmáli þínu.
52 Ég minnist dóma þinna frá öndverðu, Drottinn, og læt huggast.
53 Heiftarreiði við óguðlega hrífur mig, við þá er yfirgefa lögmál þitt.
54 Lög þín eru efni ljóða minna á þessum stað, þar sem ég er gestur.
55 Um nætur minnist ég nafns þíns, Drottinn, og geymi laga þinna.
56 Þetta er orðin hlutdeild mín, að halda fyrirmæli þín.
57 Drottinn er hlutskipti mitt, ég hefi ákveðið að varðveita orð þín.
58 Ég hefi leitað hylli þinnar af öllu hjarta, ver mér náðugur samkvæmt fyrirheiti þínu.
59 Ég hefi athugað vegu mína og snúið fótum mínum að reglum þínum.
60 Ég hefi flýtt mér og eigi tafið að varðveita boð þín.
61 Snörur óguðlegra lykja um mig, en lögmáli þínu hefi ég eigi gleymt.
62 Um miðnætti rís ég upp til þess að þakka þér þín réttlátu ákvæði.
63 Ég er félagi allra þeirra er óttast þig og varðveita fyrirmæli þín.
64 Jörðin er full af miskunn þinni, Drottinn, kenn mér lög þín.
65 Þú hefir gjört vel til þjóns þíns eftir orði þínu, Drottinn.
66 Kenn mér góð hyggindi og þekkingu, því að ég trúi á boð þín.
67 Áður en ég var beygður, villtist ég, en nú varðveiti ég orð þitt.
68 Þú ert góður og gjörir vel, kenn mér lög þín.
69 Ofstopamenn spinna upp lygar gegn mér, en ég held fyrirmæli þín af öllu hjarta.
70 Hjarta þeirra er tilfinningarlaust sem mör væri, en ég leita unaðar í lögmáli þínu.
71 Það varð mér til góðs, að ég var beygður, til þess að ég mætti læra lög þín.
72 Lögmálið af munni þínum er mér mætara en þúsundir af gulli og silfri.
49 Fyrir kvenraddir. Til söngstjórans. Kóraítasálmur.
2 Heyrið þetta, allar þjóðir, hlustið á, allir heimsbúar,
3 bæði lágir og háir, jafnt ríkir sem fátækir!
4 Munnur minn talar speki, og ígrundun hjarta míns er hyggindi.
5 Ég hneigi eyra mitt að spakmæli, ræð gátu mína við gígjuhljóm.
6 Hví skyldi ég óttast á mæðudögunum, þá er hinir lævísu óvinir mínir umkringja mig með illsku,
7 þeir sem reiða sig á auðæfi sín og stæra sig af sínu mikla ríkidæmi.
8 Enginn maður fær keypt bróður sinn lausan né greitt Guði lausnargjald fyrir hann.
9 Lausnargjaldið fyrir líf þeirra mundi verða of hátt, svo að hann yrði að hætta við það að fullu,
10 ætti hann að halda áfram að lifa ævinlega og líta ekki í gröfina.
11 Nei, hann sér, að vitrir menn deyja, að fífl og fáráðlingar farast hver með öðrum og láta öðrum eftir auðæfi sín.
12 Grafir verða heimkynni þeirra að eilífu, bústaðir þeirra frá kyni til kyns, jafnvel þótt þeir hafi kennt lendur við nafn sitt.
13 Maðurinn í allri sinni vegsemd stenst ekki, hann verður jafn skepnunum sem farast.
14 Svo fer þeim sem eru þóttafullir, og þeim sem fylgja þeim og hafa þóknun á tali þeirra. [Sela]
15 Þeir stíga niður til Heljar eins og sauðahjörð, dauðinn heldur þeim á beit, og hinir hreinskilnu drottna yfir þeim, þá er morgnar, og mynd þeirra eyðist, Hel verður bústaður þeirra.
16 En mína sál mun Guð endurleysa, því að hann mun hrífa mig úr greipum Heljar. [Sela]
17 Óttast þú ekki, þegar einhver verður ríkur, þegar dýrð húss hans verður mikil,
18 því að hann tekur ekkert af því með sér, þegar hann deyr, auður hans fer ekki niður þangað á eftir honum.
19 Hann telur sig sælan meðan hann lifir: "Menn lofa þig, af því að þér farnast vel."
20 _ Hann verður þó að fara til kynslóðar feðra sinna, sem aldrei að eilífu sjá ljósið.
21 Maðurinn í vegsemd, en hyggindalaus, verður jafn skepnunum sem farast.
53 Til söngstjórans. Með makalatlagi. Davíðs-maskíl.
2 Heimskinginn segir í hjarta sínu: "Enginn Guð er til!" Ill og andstyggileg er breytni þeirra, enginn gjörir það sem gott er.
3 Guð lítur af himni niður á mennina til þess að sjá, hvort nokkur sé hygginn, nokkur sem leiti Guðs.
4 Allir eru viknir af leið, allir spilltir, enginn gjörir það sem gott er, ekki einn.
5 Skyldu þeir ekki fá að kenna á því, illgjörðamennirnir, þeir er eta lýð minn sem brauð væri og ákalla eigi Guð?
6 Þá skulu þeir verða mjög óttaslegnir, þar sem ekkert er að óttast, því að Guð tvístrar beinum þeirra, er setja herbúðir móti þér. Þú lætur þá verða til skammar, því að Guð hefir hafnað þeim.
7 Ó að hjálpræði Ísraels komi frá Síon! Þegar Guð snýr við hag lýðs síns, skal Jakob fagna, Ísrael gleðjast.
23 En er Abígail sá Davíð, sté hún sem skjótast niður af asnanum og féll fram á ásjónu sína fyrir Davíð og laut til jarðar.
24 Og hún féll honum til fóta og mælti: "Sökin hvílir á mér, herra minn! Leyf ambátt þinni að tala við þig og hlýð á orð ambáttar þinnar.
25 Skeyt eigi, herra minn, um hrakmenni þetta, hann Nabal, því að hann ber nafn með réttu. Heimskingi heitir hann og heimskur er hann. En ég, ambátt þín, hefi ekki séð sveinana, er þú, herra minn, sendir.
26 Og nú, herra minn, svo sannarlega sem Drottinn lifir, og svo sannarlega sem þú lifir og Drottinn hefir aftrað þér frá að úthella blóði og hefna þín sjálfur, þá verði nú óvinir þínir sem Nabal og allir þeir, sem sitja um að gjöra þér illt, herra!
27 Og gáfu þessa, sem þerna þín hefir fært þér, herra minn, lát nú gefa hana sveinunum, sem eru í fylgd með þér, herra minn!
28 Fyrirgef afbrot ambáttar þinnar, því að veita mun Drottinn herra mínum staðfast hús, af því að herra minn heyir bardaga Drottins, og illt mun ekki finnast í fari þínu meðan þú lifir.
29 Og rísi einhver maður upp til þess að ofsækja þig og sitja um líf þitt, þá sé líf herra míns bundið í bundini lifandi manna hjá Drottni, Guði þínum, en lífi óvina þinna þeyti hann burt úr slöngvunni.
30 Og þegar Drottinn veitir þér, herra minn, öll þau gæði, er hann hefir þér heitið, og hefir skipað þig höfðingja yfir Ísrael,
31 þá mun það ekki verða þér til ásteytingar né herra mínum að samviskubiti, að herra minn hafi úthellt blóði að orsakalausu og hefnt sín sjálfur. En þegar Drottinn gjörir vel við þig, herra minn, þá minnstu ambáttar þinnar."
32 Þá mælti Davíð til Abígail: "Lofaður veri Drottinn, Ísraels Guð, sem sendi þig í dag á minn fund.
33 Og blessuð séu hyggindi þín og blessuð sért þú sjálf, sem aftrað hefir mér í dag frá að baka mér blóðskuld og að hefna mín sjálfur.
34 En svo sannarlega sem Drottinn, Ísraels Guð, lifir, sem varðveitt hefir mig frá að gjöra þér illt, hefðir þú eigi hraðað þér svo á minn fund, þá myndi eigi nokkur af mönnum Nabals hafa beðið morguns ódrepinn."
35 Og Davíð tók við því af henni, sem hún færði honum, og sagði við hana: "Far þú í friði heim til þín. Sjá, ég hefi hlýtt á mál þitt og veitt þér bæn þína."
36 Þegar Abígail kom til Nabals, þá hafði hann veislu í húsi sínu, sem konungsveisla væri. Var Nabal hinn kátasti og drukkinn mjög. Sagði hún honum ekkert, hvorki smátt né stórt, fyrr en birti morguninn eftir.
37 En um morguninn, þá er víman var runnin af Nabal, sagði kona hans honum öll þessi tíðindi. Þá dó hjartað í brjósti honum og hann varð sem steinn.
38 Og að eitthvað tíu dögum liðnum laust Drottinn Nabal, svo að hann dó.
39 Þegar Davíð frétti, að Nabal væri dáinn, mælti hann: "Lofaður sé Drottinn, sem hefnt hefir svívirðu minnar á Nabal og haldið hefir þjóni sínum frá illu. En illsku Nabals hefir Drottinn látið honum sjálfum í koll koma." Sendi þá Davíð menn til Abígail þess erindis, að hann vill fá hennar sér til eiginkonu.
40 Þjónar Davíðs komu til Abígail í Karmel og mæltu svo til hennar: "Davíð hefir sent oss á þinn fund þess erindis, að hann vill fá þín sér til eiginkonu."
41 Þá stóð hún upp og hneigði andlit sitt til jarðar og mælti: "Sjá, ambátt þín er þess albúin að gjörast þerna til þess að þvo fætur þjóna herra míns."
42 Síðan bjó Abígail sig í skyndi og steig á bak asna sínum, svo og meyjar hennar fimm, þær er með henni fóru. Hún fór með sendimönnum Davíðs og varð kona hans.
43 Akínóam frá Jesreel hafði Davíð fengið sér til eiginkonu, og báðar urðu þær konur hans.
44 En Sál hafði gefið Míkal dóttur sína, konu Davíðs, Paltí Laíssyni frá Gallím.
19 Þá komu Gyðingar frá Antíokkíu og Íkóníum. Töldu þeir fólkið á sitt mál, og menn grýttu Pál, drógu hann út úr borginni og hugðu hann dáinn.
20 En lærisveinarnir slógu hring um hann, og reis hann þá upp og gekk inn í borgina. Daginn eftir fór hann þaðan með Barnabasi til Derbe.
21 Þegar þeir höfðu boðað fagnaðarerindið í þeirri borg og gjört marga að lærisveinum, sneru þeir aftur til Lýstru, Íkóníum og Antíokkíu,
22 styrktu lærisveinana og hvöttu þá til að vera staðfastir í trúnni. Þeir sögðu: "Vér verðum að ganga inn í Guðs ríki gegnum margar þrengingar."
23 Þeir völdu þeim öldunga í hverjum söfnuði, fólu þá síðan með föstum og bænahaldi Drottni, sem þeir höfðu fest trú á.
24 Þá fóru þeir um Pisidíu og komu til Pamfýlíu.
25 Þeir fluttu orðið í Perge, fóru til Attalíu
26 og sigldu þaðan til Antíokkíu, en þar höfðu þeir verið faldir náð Guðs til þess verks, sem þeir höfðu nú fullnað.
27 Þegar þeir voru þangað komnir, stefndu þeir saman söfnuðinum og greindu frá, hversu mikið Guð hafði látið þá gjöra og að hann hefði upp lokið dyrum trúarinnar fyrir heiðingjum.
28 Dvöldust þeir nú alllengi hjá lærisveinunum.
35 Að kvöldi sama dags sagði hann við þá: "Förum yfir um!"
36 Þeir skildu þá við mannfjöldann og tóku hann með sér, þar sem hann var, í bátnum, en aðrir bátar voru með honum.
37 Þá brast á stormhrina mikil, og féllu öldurnar inn í bátinn, svo við lá, að hann fyllti.
38 Jesús var í skutnum og svaf á kodda. Þeir vöktu hann og sögðu við hann: "Meistari, hirðir þú ekki um, að vér förumst?"
39 Hann vaknaði, hastaði á vindinn og sagði við vatnið: "Þegi þú, haf hljótt um þig!" Þá lægði vindinn og gerði stillilogn.
40 Og hann sagði við þá: "Hví eruð þér hræddir, hafið þér enn enga trú?"
41 En þeir urðu miklum ótta lostnir og sögðu hver við annan: "Hver er þessi? Jafnvel vindur og vatn hlýða honum."
by Icelandic Bible Society