Book of Common Prayer
116 Ég elska Drottin, af því að hann heyrir grátbeiðni mína.
2 Hann hefir hneigt eyra sitt að mér, og alla ævi vil ég ákalla hann.
3 Snörur dauðans umkringdu mig, angist Heljar mætti mér, ég mætti nauðum og harmi.
4 Þá ákallaði ég nafn Drottins: "Ó, Drottinn, bjarga sál minni!"
5 Náðugur er Drottinn og réttlátur, og vor Guð er miskunnsamur.
6 Drottinn varðveitir varnarlausa, þegar ég var máttvana hjálpaði hann mér.
7 Verð þú aftur róleg, sála mín, því að Drottinn gjörir vel til þín.
8 Já, þú hreifst sál mína frá dauða, auga mitt frá gráti, fót minn frá hrösun.
9 Ég geng frammi fyrir Drottni á landi lifenda.
10 Ég trúði, þó ég segði: "Ég er mjög beygður."
11 Ég sagði í angist minni: "Allir menn ljúga."
12 Hvað á ég að gjalda Drottni fyrir allar velgjörðir hans við mig?
13 Ég lyfti upp bikar hjálpræðisins og ákalla nafn Drottins.
14 Ég greiði Drottni heit mín, og það í augsýn alls lýðs hans.
15 Dýr er í augum Drottins dauði dýrkenda hans.
16 Æ, Drottinn, víst er ég þjónn þinn, ég er þjónn þinn, sonur ambáttar þinnar, þú leystir fjötra mína.
17 Þér færi ég þakkarfórn og ákalla nafn Drottins.
18 Ég greiði Drottni heit mín, og það í augsýn alls lýðs hans,
19 í forgörðum húss Drottins, í þér, Jerúsalem. Halelúja.
14 Fagna þú, dóttirin Síon, lát gleðilátum, þú Ísrael! Ver kát og gleð þig af öllu hjarta, dóttirin Jerúsalem!
15 Drottinn hefir afmáð refsidóma þína, rýmt burt óvini þínum. Konungur Ísraels, Drottinn, er hjá þér, þú munt eigi framar á neinu illu kenna.
16 Á þeim degi mun sagt verða við Jerúsalem: "Óttast ekki, Síon, lát ekki hugfallast!
17 Drottinn, Guð þinn, er hjá þér, hetjan er sigur veitir. Hann kætist yfir þér með fögnuði, hann þegir í kærleika sínum, hann fagnar yfir þér með gleðisöng."
18 Ég saman safna þeim, sem hryggir eru út af hátíðarsamkomunni, frá þér voru þeir, smán hvílir á þeim.
19 Sjá, á þeim tíma skal ég eiga erindi við þá, er þig þjáðu. Þá skal ég frelsa hið halta og smala saman því tvístraða, og ég skal gjöra þá fræga og nafnkunna á allri jörðunni.
47 María Magdalena og María móðir Jóse sáu, hvar hann var lagður.
16 Þá er hvíldardagurinn var liðinn, keyptu þær María Magdalena, María móðir Jakobs og Salóme ilmsmyrsl til að fara og smyrja hann.
2 Og mjög árla hinn fyrsta dag vikunnar, um sólarupprás, koma þær að gröfinni.
3 Þær sögðu sín á milli: "Hver mun velta fyrir oss steininum frá grafarmunnanum?"
4 En þegar þær líta upp, sjá þær, að steininum hafði verið velt frá, en hann var mjög stór.
5 Þær stíga inn í gröfina og sjá ungan mann sitja hægra megin, klæddan hvítri skikkju og þær skelfdust.
6 En hann sagði við þær: "Skelfist eigi. Þér leitið að Jesú frá Nasaret, hinum krossfesta. Hann er upp risinn, hann er ekki hér. Sjá, þarna er staðurinn, þar sem þeir lögðu hann.
7 En farið og segið lærisveinum hans og Pétri: ,Hann fer á undan yður til Galíleu. Þar munuð þér sjá hann, eins og hann sagði yður`."
30 Musterisvígsluljóð. Davíðssálmur.
2 Ég tigna þig, Drottinn, því að þú hefir bjargað mér og eigi látið óvini mína hlakka yfir mér.
3 Drottinn, Guð minn, ég hrópaði til þín og þú læknaðir mig.
4 Drottinn, þú heimtir sál mína úr Helju, lést mig halda lífi, er aðrir gengu til grafar.
5 Syngið Drottni lof, þér hans trúuðu, vegsamið hans heilaga nafn.
6 Andartak stendur reiði hans, en alla ævi náð hans. Að kveldi gistir oss grátur, en gleðisöngur að morgni.
7 En ég uggði eigi að mér og hugsaði: "Aldrei skriðnar mér fótur."
8 Drottinn, af náð þinni hafðir þú gjört bjarg mitt stöðugt, en nú huldir þú auglit þitt og ég skelfdist.
9 Til þín, Drottinn, kallaði ég, og Drottin grátbændi ég:
10 "Hver ávinningur er í dauða mínum, í því að ég gangi til grafar? Getur duftið lofað þig, kunngjört trúfesti þína?
11 Heyr, Drottinn, og líkna mér, ó Drottinn, ver þú hjálpari minn!"
12 Þú breyttir grát mínum í gleðidans, leystir af mér hærusekkinn og gyrtir mig fögnuði,
13 að sál mín megi lofsyngja þér og eigi þagna. Drottinn, Guð minn, ég vil þakka þér að eilífu.
149 Halelúja. Syngið Drottni nýjan söng, lofsöngur hans hljómi í söfnuði trúaðra.
2 Ísrael gleðjist yfir skapara sínum, synir Síonar fagni yfir konungi sínum.
3 Þeir skulu lofa nafn hans með gleðidansi, leika fyrir honum á bumbur og gígjur.
4 Því að Drottinn hefir þóknun á lýð sínum, hann skrýðir hrjáða með sigri.
5 Hinir trúuðu skulu gleðjast með sæmd, syngja fagnandi í hvílum sínum
6 með lofgjörð Guðs á tungu og tvíeggjað sverð í höndum
7 til þess að framkvæma hefnd á þjóðunum, hirtingu á lýðunum,
8 til þess að binda konunga þeirra með fjötrum, þjóðhöfðingja þeirra með járnhlekkjum,
9 til þess að fullnægja á þeim skráðum dómi. Það er til vegsemdar öllum dýrkendum hans. Halelúja.
3 Lofaður sé Guð og faðir Drottins vors Jesú Krists, faðir miskunnsemdanna og Guð allrar huggunar,
4 sem huggar oss í sérhverri þrenging vorri, svo að vér getum huggað alla aðra í þrengingum þeirra með þeirri huggun, sem vér höfum sjálfir af Guði hlotið.
5 Því að eins og þjáningar Krists koma í ríkum mæli yfir oss, þannig hljótum vér og huggun í ríkum mæli fyrir Krist.
6 En ef vér sætum þrengingum, þá er það yður til huggunar og hjálpræðis, og ef vér hljótum huggun, þá er það til þess að þér hljótið huggun og kraft til að standast þær þjáningar, sem vér einnig líðum.
7 Von vor um yður er staðföst. Vér vitum, að þér eigið hlut í huggun vorri eins og þér eigið hlut í þjáningum vorum.
by Icelandic Bible Society