Book of Common Prayer
37 Davíðssálmur. Ver eigi of bráður vegna illvirkjanna, öfunda eigi þá er ranglæti fremja,
2 því að þeir fölna skjótt sem grasið, visna sem grænar jurtir.
3 Treyst Drottni og gjör gott, bú þú í landinu og iðka ráðvendni,
4 þá munt þú gleðjast yfir Drottni, og hann mun veita þér það sem hjarta þitt girnist.
5 Fel Drottni vegu þína og treyst honum, hann mun vel fyrir sjá.
6 Hann mun láta réttlæti þitt renna upp sem ljós og rétt þinn sem hábjartan dag.
7 Ver hljóður fyrir Drottni og vona á hann. Ver eigi of bráður vegna þeirra er vel gengur, vegna þess manns er svik fremur.
8 Lát af reiði og slepp heiftinni, ver eigi of bráður, það leiðir til ills eins.
9 Illvirkjarnir verða afmáðir, en þeir er vona á Drottin, fá landið til eignar.
10 Innan stundar eru engir guðlausir til framar, þegar þú gefur gætur að stað þeirra, eru þeir horfnir.
11 En hinir hógværu fá landið til eignar, gleðjast yfir ríkulegri gæfu.
12 Óguðlegur maður býr yfir illu gegn réttlátum, nístir tönnum gegn honum.
13 Drottinn hlær að honum, því að hann sér að dagur hans kemur.
14 Óguðlegir bregða sverðinu og benda boga sína til þess að fella hinn hrjáða og snauða, til þess að brytja niður hina ráðvöndu.
15 En sverð þeirra lendir í þeirra eigin hjörtum, og bogar þeirra munu brotnir verða.
16 Betri er lítil eign réttláts manns en auðlegð margra illgjarnra,
17 því að armleggur illgjarnra verður brotinn, en réttláta styður Drottinn.
18 Drottinn þekkir daga ráðvandra, og arfleifð þeirra varir að eilífu.
19 Á vondum tímum verða þeir eigi til skammar, á hallæristímum hljóta þeir saðning.
20 En óguðlegir farast, og óvinir Drottins eru sem skraut vallarins: þeir hverfa _ sem reykur hverfa þeir.
21 Guðlaus maður tekur lán og borgar eigi, en hinn réttláti er mildur og örlátur.
22 Því að þeir sem Drottinn blessar, fá landið til eignar, en hinum bannfærðu verður útrýmt.
23 Frá Drottni kemur skrefum mannsins festa, þegar hann hefir þóknun á breytni hans.
24 Þótt hann falli, þá liggur hann ekki flatur, því að Drottinn heldur í hönd hans.
25 Ungur var ég og gamall er ég orðinn, en aldrei sá ég réttlátan mann yfirgefinn né niðja hans biðja sér matar.
26 Ætíð er hann mildur og lánar, og niðjar hans verða öðrum til blessunar.
27 Forðastu illt og gjörðu gott, þá munt þú búa kyrr um aldur,
28 því að Drottinn hefir mætur á réttlæti og yfirgefur ekki sína trúuðu. Þeir verða eilíflega varðveittir, en niðjar óguðlegra upprætast.
29 Hinir réttlátu fá landið til eignar og búa í því um aldur.
30 Munnur réttláts manns mælir speki og tunga hans talar það sem rétt er.
31 Lögmál Guðs hans er í hjarta hans, eigi skriðnar honum fótur.
32 Hinn guðlausi skimar eftir hinum réttláta og situr um að drepa hann,
33 en Drottinn ofurselur hann honum ekki og lætur hann ekki ganga sekan frá dómi.
34 Vona á Drottin og gef gætur að vegi hans, þá mun hann hefja þig upp, að þú erfir landið, og þú skalt horfa á, þegar illvirkjum verður útrýmt.
35 Ég sá hinn óguðlega í ofstopa sínum og þenja sig út sem grænt tré á gróðrarstöðvum sínum,
36 og ég gekk fram hjá, og sjá, hann var þar ekki framar, ég leitaði hans, en hann fannst ekki.
37 Gef gætur að hinum ráðvanda og lít á hinn hreinskilna, því að friðsamir menn eiga framtíð fyrir höndum,
38 en afbrotamönnum verður útrýmt öllum samt, framtíðarvon óguðlegra bregst.
39 Hjálp réttlátra kemur frá Drottni, hann er hæli þeirra á neyðartímum.
40 Drottinn liðsinnir þeim og bjargar þeim, bjargar þeim undan hinum óguðlega og hjálpar þeim, af því að þeir leituðu hælis hjá honum.
24 Þá fól Davíð sig úti á víðavangi. Er tunglkomudagurinn kom, settist konungur undir borð að máltíð.
25 Sat konungur í sæti sínu, eins og vant var, í sætinu við vegginn, en Jónatan sat gegnt honum, og Abner sat við hliðina á Sál. En sæti Davíðs var autt.
26 Þó sagði Sál ekkert þann dag, því að hann hugsaði: "Það er tilviljun: hann er ekki hreinn. Hann hefir ekki látið hreinsa sig."
27 En daginn eftir tunglkomuna var sæti Davíðs enn autt. Þá sagði Sál við Jónatan son sinn: "Hvers vegna hefir sonur Ísaí ekki komið til máltíðar, hvorki í gær né í dag?"
28 Jónatan svaraði Sál: "Davíð beiddist þess af mér að mega fara til Betlehem.
29 Hann sagði: ,Leyf mér að fara, því að vér ætlum að halda ættarfórn í borginni, og bræður mínir hafa beðið mig að koma, og hafi ég fundið náð í augum þínum, þá lofaðu mér að komast burt, svo að ég geti heimsótt bræður mína.` Fyrir því hefir hann ekki komið að konungsborði."
30 Þá reiddist Sál Jónatan og sagði við hann: "Þú sonur þrjóskrar móður! Ætli ég viti ekki að þú ert vinur Ísaísonar, þér til skammar, og blygðun móður þinnar til skammar!
31 Því að alla þá stund, sem Ísaísonur er lifandi á jörðinni, munt þú og konungdómur þinn eigi fastur standa. Send því nú og lát koma með hann til mín, því að hann er dauðamaður."
32 Þá svaraði Jónatan Sál föður sínum og sagði við hann: "Hví skal deyða hann? Hvað hefir hann gjört?"
33 Þá snaraði Sál að honum spjótinu og ætlaði að leggja hann í gegn. Sá Jónatan þá, að faðir hans hafði fastráðið að drepa Davíð.
34 Og Jónatan stóð upp frá borðinu ævareiður og neytti ekki matar annan tunglkomudaginn, því að hann tók sárt til Davíðs, af því að faðir hans hafði smánað hann.
35 Morguninn eftir gekk Jónatan út á víðavang á þeim tíma, er þeir Davíð höfðu til tekið, og var ungur sveinn með honum.
36 Og hann sagði við svein sinn: "Hlauptu og sæktu örina, sem ég ætla að skjóta." Sveinninn hljóp af stað, en hann skaut örinni yfir hann fram.
37 En er sveinninn kom þar að, er örin lá, sem Jónatan hafði skotið, þá kallaði Jónatan á eftir sveininum og sagði: "Örin liggur hinumegin við þig!"
38 Og Jónatan kallaði enn á eftir sveininum: "Áfram, flýttu þér, stattu ekki kyrr!" Og sveinn Jónatans tók upp örina og færði húsbónda sínum.
39 En sveinninn vissi ekki neitt. Þeir Jónatan og Davíð vissu einir, hvað þetta átti að þýða.
40 Og Jónatan fékk sveini sínum vopn sín og sagði við hann: "Farðu með þau inn í borgina."
41 Sveinninn fór nú heim, en Davíð reis upp undan hólnum, féll fram á ásjónu sína til jarðar og laut þrisvar sinnum, og þeir kysstu hvor annan og grétu hvor með öðrum, þó Davíð miklu meir.
42 Og Jónatan sagði við Davíð: "Far þú í friði. En viðvíkjandi því, sem við báðir höfum unnið eið að í nafni Drottins, þá sé Drottinn vitni milli mín og þín, og milli minna niðja og þinna niðja að eilífu." Síðan hélt Davíð af stað og fór burt, en Jónatan gekk inn í borgina.
13 Í söfnuðinum í Antíokkíu voru spámenn og kennarar. Þar voru þeir Barnabas, Símeon, nefndur Níger, Lúkíus frá Kýrene, Manaen, samfóstri Heródesar fjórðungsstjóra, og Sál.
2 Eitt sinn er þeir voru að þjóna Drottni og föstuðu sagði heilagur andi: "Skiljið frá mér til handa þá Barnabas og Sál til þess verks, sem ég hef kallað þá til."
3 Síðan föstuðu þeir og báðust fyrir, lögðu hendur yfir þá og létu þá fara.
4 Þeir fóru nú, sendir af heilögum anda, til Selevkíu og sigldu þaðan til Kýpur.
5 Þegar þeir voru komnir til Salamis, boðuðu þeir orð Guðs í samkunduhúsum Gyðinga. Höfðu þeir og Jóhannes til aðstoðar.
6 Þeir fóru um alla eyna, allt til Pafos. Þar fundu þeir töframann nokkurn og falsspámann, Gyðing, er hét Barjesús.
7 Hann var hjá landstjóranum Sergíusi Páli, hyggnum manni, sem hafði boðað þá Barnabas og Sál á fund sinn og fýsti að heyra Guðs orð.
8 Gegn þeim stóð Elýmas, töframaðurinn, en svo er nafn hans útlagt. Reyndi hann að gjöra landstjórann fráhverfan trúnni.
9 En Sál, sem og er nefndur Páll, hvessti á hann augun og sagði, fylltur heilögum anda:
10 "Þú djöfuls sonur, fullur allra véla og flærðar, óvinur alls réttlætis, ætlar þú aldrei að hætta að rangsnúa réttum vegum Drottins?
11 Nú er hönd Drottins reidd gegn þér, og þú munt verða blindur og ekki sjá sól um tíma." Jafnskjótt féll yfir hann þoka og myrkur, og hann reikaði um og leitaði einhvers til að leiða sig.
12 Þegar landstjórinn sá þennan atburð, varð hann gagntekinn af kenningu Drottins og tók trú.
23 Svo bar við, að Jesús fór um sáðlönd á hvíldardegi, og lærisveinar hans tóku að tína kornöx á leiðinni.
24 Farísearnir sögðu þá við hann: "Lít á, hví gjöra þeir það, sem er ekki leyfilegt á hvíldardegi?"
25 Hann svaraði þeim: "Hafið þér aldrei lesið, hvað Davíð gjörði, er honum lá á, þegar hann hungraði og menn hans?
26 Hann fór inn í Guðs hús, þegar Abíatar var æðsti prestur, og át skoðunarbrauðin, en þau má enginn eta nema prestarnir, og gaf líka mönnum sínum."
27 Og hann sagði við þá: "Hvíldardagurinn varð til mannsins vegna og eigi maðurinn vegna hvíldardagsins.
28 Því er Mannssonurinn einnig herra hvíldardagsins."
3 Öðru sinni gekk hann í samkunduhús. Þar var maður með visna hönd,
2 og höfðu þeir nánar gætur á Jesú, hvort hann læknaði hann á hvíldardegi. Þeir hugðust kæra hann.
3 Og Jesús segir við manninn með visnu höndina: "Statt upp og kom hér fram!"
4 Síðan spyr hann þá: "Hvort er heldur leyfilegt að gjöra gott eða gjöra illt á hvíldardegi, bjarga lífi eða deyða?" En þeir þögðu.
5 Og hann leit í kring á þá með reiði, sárhryggur yfir harðúð hjartna þeirra, og sagði við manninn: "Réttu fram hönd þína." Hann rétti fram höndina, og hún varð heil.
6 Þá gengu farísearnir út og tóku þegar með Heródesarsinnum saman ráð sín gegn honum, hvernig þeir gætu náð lífi hans.
by Icelandic Bible Society