Book of Common Prayer
38 Davíðssálmur. Minningarljóð.
2 Drottinn, refsa mér ekki í reiði þinni og tyfta mig ekki í gremi þinni.
3 Örvar þínar standa fastar í mér, og hönd þín liggur þungt á mér.
4 Enginn heilbrigður blettur er á líkama mínum sakir reiði þinnar, ekkert heilt í beinum mínum sakir syndar minnar.
5 Misgjörðir mínar ganga mér yfir höfuð, sem þung byrði eru þær mér of þungar orðnar.
6 Ódaun leggur af sárum mínum, rotnun er í þeim sakir heimsku minnar.
7 Ég er beygður og mjög bugaður, ráfa um harmandi daginn langan.
8 Lendar mínar eru fullar bruna, og enginn heilbrigður blettur er á líkama mínum.
9 Ég er lémagna og kraminn mjög, kveina af angist hjartans.
10 Drottinn, öll mín þrá er þér kunn og andvörp mín eru eigi hulin þér.
11 Hjarta mitt berst ákaft, kraftur minn er þrotinn, jafnvel ljós augna minna er horfið mér.
12 Ástvinir mínir og kunningjar hörfa burt fyrir kröm minni, og frændur mínir standa fjarri.
13 Þeir er sitja um líf mitt, leggja snörur fyrir mig, þeir er leita mér meins, mæla skaðræði og hyggja á svik allan liðlangan daginn.
14 En ég er sem daufur, ég heyri það ekki, og sem dumbur, er eigi opnar munninn,
15 ég er sem maður er eigi heyrir og engin andmæli eru í munni hans.
16 Því að á þig, Drottinn, vona ég, þú munt svara mér, Drottinn minn og Guð minn,
17 því að ég segi: "Lát þá eigi hlakka yfir mér, eigi hælast um af því, að mér skriðni fótur."
18 Því að ég er að falli kominn, og þjáningar mínar eru mér æ fyrir augum.
19 Ég játa misgjörð mína, harma synd mína,
20 og þeir sem án saka eru óvinir mínir, eru margir, fjölmargir þeir er hata mig að ástæðulausu.
21 Þeir gjalda mér gott með illu, sýna mér fjandskap, af því ég legg stund á það sem gott er.
22 Yfirgef mig ekki, Drottinn, Guð minn, ver ekki fjarri mér,
23 skunda til liðs við mig, Drottinn, þú hjálp mín.
25 Sál mín loðir við duftið, lát mig lífi halda eftir orði þínu.
26 Ég hefi talið upp málefni mín, og þú bænheyrðir mig, kenn mér lög þín.
27 Lát mig skilja veg fyrirmæla þinna, að ég megi íhuga dásemdir þínar.
28 Sál mín tárast af trega, reis mig upp eftir orði þínu.
29 Lát veg lyginnar vera fjarri mér og veit mér náðarsamlega lögmál þitt.
30 Ég hefi útvalið veg sannleikans, sett mér ákvæði þín fyrir sjónir.
31 Ég held fast við reglur þínar, Drottinn, lát mig eigi verða til skammar.
32 Ég vil skunda veg boða þinna, því að þú hefir gjört mér létt um hjartað.
33 Kenn mér, Drottinn, veg laga þinna, að ég megi halda þau allt til enda.
34 Veit mér skyn, að ég megi halda lögmál þitt og varðveita það af öllu hjarta.
35 Leið mig götu boða þinna, því að af henni hefi ég yndi.
36 Beyg hjarta mitt að reglum þínum, en eigi að ranglátum ávinningi.
37 Snú augum mínum frá því að horfa á hégóma, lífga mig á vegum þínum.
38 Staðfest fyrirheit þitt fyrir þjóni þínum, sem gefið er þeim er þig óttast.
39 Nem burt háðungina, sem ég er hræddur við, því að ákvæði þín eru góð.
40 Sjá, ég þrái fyrirmæli þín, lífga mig með réttlæti þínu.
41 Lát náð þína koma yfir mig, Drottinn, hjálpræði þitt, samkvæmt fyrirheiti þínu,
42 að ég fái andsvör veitt þeim er smána mig, því að þínu orði treysti ég.
43 Og tak aldrei sannleikans orð burt úr munni mínum, því að ég bíð dóma þinna.
44 Ég vil stöðugt varðveita lögmál þitt, um aldur og ævi,
45 þá mun ég ganga um víðlendi, því að ég leita fyrirmæla þinna,
46 þá mun ég tala um reglur þínar frammi fyrir konungum, og eigi skammast mín,
47 og leita unaðar í boðum þínum, þeim er ég elska,
48 og rétta út hendurnar eftir boðum þínum, þeim er ég elska, og íhuga lög þín.
20 Davíð flýði frá Najót í Rama og kom til Jónatans og sagði: "Hvað hefi ég gjört? Í hverju hefi ég misgjört og í hverju hefi ég syndgað á móti föður þínum, fyrst hann situr um líf mitt?"
2 Jónatan sagði við hann: "Það skal aldrei verða! Þú munt eigi lífi týna. Sjá, faðir minn gjörir ekkert, hvorki stórt né smátt, að hann láti mig eigi vita það. Og hví skyldi faðir minn þá leyna mig þessu? Nei, slíkt á sér ekki stað."
3 Davíð svaraði aftur og mælti: "Faðir þinn veit það vel, að þér þykir vænt um mig, og hugsar með sér: ,Jónatan má eigi vita þetta, það kynni að fá honum hryggðar.` En svo sannarlega sem Drottinn lifir og þú lifir: Milli mín og dauðans er aðeins eitt fótmál."
4 Jónatan sagði við Davíð: "Hvað sem þú biður um mun ég fyrir þig gjöra."
5 Þá sagði Davíð við Jónatan: "Sjá, á morgun er tunglkomudagur, og ég get ekki með neinu móti setið til borðs með konunginum. Leyf mér því að fara burt, svo að ég geti falið mig úti á víðavangi til kvelds.
6 Ef nú faðir þinn saknar mín, þá skalt þú segja: ,Davíð beiddist leyfis af mér að mega bregða sér til Betlehem, föðurborgar sinnar, því að ársfórn allrar ættarinnar fer þar fram.`
7 Ef hann þá segir: ,Það er gott!` þá er þjóni þínum óhætt, en verði hann reiður, þá vit, að hann hefir illt af ráðið.
8 Auðsýn nú þjóni þínum kærleika, úr því að þú hefir látið þjón þinn ganga í Drottins-fóstbræðralag við þig. En hafi ég misgjört, þá drep þú mig sjálfur. Hví skyldir þú fara með mig til föður þíns?"
9 Jónatan mælti: "Lát þér eigi koma það til hugar! Ef ég yrði þess áskynja, að faðir minn hafi illt af ráðið gegn þér, mundi ég þá ekki segja þér frá því?"
10 Davíð sagði við Jónatan: "Hver lætur mig nú vita, hvort faðir þinn svarar þér illu til?"
11 Jónatan sagði við Davíð: "Kom þú, við skulum ganga út á víðavang." Og þeir gengu báðir út á víðavang.
12 En Jónatan sagði við Davíð: "Drottinn, Ísraels Guð, veri vitni: Þegar ég á morgun um þetta leyti hefi komist eftir, hvað föður mínum býr í skapi, og ég sé að þér er óhætt, mun ég senda til þín og láta þig vita.
13 Drottinn láti mig gjalda þess nú og síðar, ef faðir minn hefir illt í huga gegn þér, og ég læt þig ekki vita það. Ég leyfi þér að fara, svo að þú megir fara óhultur. Drottinn mun vera með þér, eins og hann hefir verið með föður mínum.
14 Og vilt þú ekki, verði ég þá enn á lífi, auðsýna mér miskunn Drottins, svo að ég týni eigi lífi?
15 Og svipt hús mitt aldrei miskunn þinni, og þegar Drottinn upprætir alla óvini Davíðs af jörðinni,
16 þá skal nafn Jónatans eigi verða slitið frá húsi Davíðs. Drottinn hefni Davíðs á óvinum hans!"
17 Jónatan vann Davíð enn eið við ást þá, er hann bar til hans, því að hann unni honum hugástum.
18 Og Jónatan sagði við hann: "Á morgun er tunglkomudagur. Þá verður þín saknað, því að sæti þitt mun verða autt.
19 En á þriðja degi mun þín mjög verða saknað. Þá skalt þú fara til þess staðar, þar sem þú fólst þig fyrri daginn, og sestu hjá þeim hól.
20 Ég mun þá á þriðja degi skjóta örvum í hólinn, eins og ég væri að skjóta til marks.
21 Og sjá, ég mun senda sveininn og segja: ,Farðu og sæktu örina.` Ef ég nú kalla til sveinsins: ,Sjá, örin liggur hérnamegin við þig, kom þú með hana!` þá skalt þú koma heim, því að þá er þér óhætt og ekkert er að, svo sannarlega sem Drottinn lifir.
22 En ef ég kalla svo til piltsins: ,Örin liggur hinumegin við þig!` þá far þú, því að Drottinn hefir þá sent þig burt.
23 En viðvíkjandi því, sem við höfum talað, ég og þú, þá er Drottinn vitni milli mín og þín að eilífu."
18 Þegar dagur rann, kom ekki lítið fát á hermennina út af því, hvað af Pétri væri orðið.
19 Heródes lét leita hans, en fann hann ekki. Hann lét þá yfirheyra varðmennina og bauð síðan að taka þá af lífi. Síðan fór hann úr Júdeu niður til Sesareu og sat þar um kyrrt.
20 Heródes hafði verið harla gramur Týrverjum og Sídóningum. Komu þeir saman á fund hans, fengu Blastus, stallara konungs, til fylgis við sig og báðust friðar, en land þeirra var háð landi konungs um vistaföng.
21 Á tilsettum degi klæddist Heródes konungsskrúða, settist í hásæti og flutti þeim ræðu.
22 En lýðurinn kallaði: "Guðs rödd er þetta, en eigi manns."
23 Jafnskjótt laust engill Drottins hann, sökum þess að hann gaf ekki Guði dýrðina. Hann varð ormétinn og dó.
24 En orð Guðs efldist og breiddist út.
25 Barnabas og Sál sneru aftur frá Jerúsalem að loknu erindi sínu og tóku með sér Jóhannes, öðru nafni Markús.
13 Aftur fór hann út og gekk með vatninu, og allur mannfjöldinn kom til hans, og hann kenndi þeim.
14 Og er hann gekk þar, sá hann Leví Alfeusson sitja hjá tollbúðinni, og hann segir við hann: "Fylg þú mér!" Og hann stóð upp og fylgdi honum.
15 Svo bar við, að Jesús sat að borði í húsi hans, og margir tollheimtumenn og bersyndugir sátu þar með honum og lærisveinum hans, en margir fylgdu honum.
16 Fræðimenn af flokki farísea, sem sáu, að hann samneytti bersyndugum og tollheimtumönnum, sögðu þá við lærisveina hans: "Hann etur með tollheimtumönnum og bersyndugum."
17 Jesús heyrði þetta og svaraði þeim: "Ekki þurfa heilbrigðir læknis við, heldur þeir, sem sjúkir eru. Ég er ekki kominn til að kalla réttláta, heldur syndara."
18 Lærisveinar Jóhannesar og farísear héldu nú föstu. Þá koma menn til Jesú og spyrja hann: "Hví fasta lærisveinar Jóhannesar og lærisveinar farísea, en þínir lærisveinar fasta ekki?"
19 Jesús svaraði þeim: "Hvort geta brúðkaupsgestir fastað, meðan brúðguminn er hjá þeim? Alla þá stund, sem brúðguminn er hjá þeim, geta þeir ekki fastað.
20 En koma munu þeir dagar, er brúðguminn verður frá þeim tekinn, þá munu þeir fasta, á þeim degi.
21 Enginn saumar bót af óþæfðum dúk á gamalt fat, því þá rífur nýja bótin af hinu gamla og verður af verri rifa.
22 Og enginn lætur nýtt vín á gamla belgi, því þá sprengir vínið belgina, og vínið ónýtist og belgirnir. Nýtt vín er látið á nýja belgi."
by Icelandic Bible Society