Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 5-6

Til söngstjórans. Með hljóðpípu. Davíðssálmur.

Heyr orð mín, Drottinn, gef gaum að andvörpum mínum.

Hlýð þú á kveinstafi mína, konungur minn og Guð minn, því að til þín bið ég.

Drottinn, á morgnana heyrir þú rödd mína, á morgnana legg ég bæn mína fram fyrir þig, og ég bíð þín.

Þú ert eigi sá Guð, er óguðlegt athæfi líki, hinir vondu fá eigi að dveljast hjá þér.

Hinir hrokafullu fá eigi staðist fyrir þér, þú hatar alla er illt gjöra.

Þú tortímir þeim, sem lygar mæla, á blóðvörgum og svikurum hefir Drottinn andstyggð.

En ég fæ að ganga í hús þitt fyrir mikla miskunn þína, fæ að falla fram fyrir þínu heilaga musteri í ótta frammi fyrir þér.

Drottinn, leið mig eftir réttlæti þínu sakir óvina minna, gjör sléttan veg þinn fyrir mér.

10 Einlægni er ekki til í munni þeirra, hjarta þeirra er glötunardjúp. Kok þeirra er opin gröf, með tungu sinni hræsna þeir.

11 Dæm þá seka, Guð, falli þeir sakir ráðagjörða sinna, hrind þeim burt sakir hinna mörgu afbrota þeirra, því að þeir storka þér.

12 Allir kætast, er treysta þér, þeir fagna að eilífu, því að þú verndar þá. Þeir sem elska nafn þitt gleðjast yfir þér.

13 Því að þú, Drottinn, blessar hinn réttláta, hlífir honum með náð þinni eins og með skildi.

Til söngstjórans. Með strengjaleik á áttstrengjað hljóðfæri. Davíðssálmur.

Drottinn, refsa mér ekki í reiði þinni og tyfta mig ekki í gremi þinni.

Líkna mér, Drottinn, því að ég örmagnast, lækna mig, Drottinn, því að bein mín tærast.

Sál mín er óttaslegin, en þú, ó Drottinn _ hversu lengi?

Snú þú aftur, Drottinn, frelsa sálu mína, hjálpa mér sakir elsku þinnar.

Því að enginn minnist þín í dánarheimum, hver skyldi lofa þig hjá Helju?

Ég er þreyttur af andvörpum mínum, ég lauga rekkju mína í tárum, læt hvílu mína flóa hverja nótt.

Augu mín eru döpruð af harmi, orðin sljó sakir allra óvina minna.

Farið frá mér, allir illgjörðamenn, því að Drottinn hefir heyrt grátraust mína.

10 Drottinn hefir heyrt grátbeiðni mína, Drottinn tekur á móti bæn minni.

11 Allir óvinir mínir skulu verða til skammar og skelfast mjög, hraða sér sneyptir burt.

Sálmarnir 10-11

10 Hví stendur þú fjarri, Drottinn, hví byrgir þú augu þín á neyðartímum?

Hinn óguðlegi ofsækir hina hrjáðu í hroka sínum, þeir flækjast í vélum þeim, er þeir hafa upp hugsað.

Hinn óguðlegi lofar Guð fyrir það, er sála hans girnist, og hinn ásælni prísar Drottin, sem hann fyrirlítur.

Hinn óguðlegi segir í drambsemi sinni: "Hann hegnir eigi!" "Guð er ekki til" _ svo hugsar hann í öllu.

Fyrirtæki hans heppnast ætíð, dómar þínir fara hátt yfir höfði hans, alla fjandmenn sína kúgar hann.

Hann segir í hjarta sínu: "Ég verð eigi valtur á fótum, frá kyni til kyns mun ég eigi í ógæfu rata."

Munnur hans er fullur af formælingum, svikum og ofbeldi, undir tungu hans býr illska og ranglæti.

Hann situr í launsátri í þorpunum, í skúmaskotinu drepur hann hinn saklausa, augu hans skima eftir hinum bágstöddu.

Hann gjörir fyrirsát í fylgsninu eins og ljón í skógarrunni; hann gjörir fyrirsát til þess að ná hinum volaða, hann nær honum í snöru sína, í net sitt.

10 Kraminn hnígur hann niður, hinn bágstaddi fellur fyrir klóm hans.

11 Hann segir í hjarta sínu: "Guð gleymir því, hann hefir hulið auglit sitt, sér það aldrei."

12 Rís þú upp, Drottinn! Lyft þú upp hendi þinni, Guð! Gleym eigi hinum voluðu.

13 Hvers vegna á hinn óguðlegi að sýna Guði fyrirlitningu, segja í hjarta sínu: "Þú hegnir eigi"?

14 Þú gefur gaum að mæðu og böli til þess að taka það í hönd þína. Hinn bágstaddi felur þér það; þú ert hjálpari föðurlausra.

15 Brjót þú armlegg hins óguðlega, og er þú leitar að guðleysi hins vonda, finnur þú það eigi framar.

16 Drottinn er konungur um aldur og ævi, heiðingjum er útrýmt úr landi hans.

17 Þú hefir heyrt óskir hinna voluðu, Drottinn, þú eykur þeim hugrekki, hneigir eyra þitt.

18 Þú lætur hina föðurlausu og kúguðu ná rétti sínum. Eigi skulu menn af moldu framar beita kúgun.

11 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Hjá Drottni leita ég hælis. Hvernig getið þér sagt við mig: "Fljúg sem fugl til fjallanna!"

Því að nú benda hinir óguðlegu bogann, leggja örvar sínar á streng til þess að skjóta í myrkrinu á hina hjartahreinu.

Þegar stoðirnar eru rifnar niður, hvað megna þá hinir réttlátu?

Drottinn er í sínu heilaga musteri, hásæti Drottins er á himnum, augu hans sjá, sjónir hans rannsaka mennina.

Drottinn rannsakar hinn réttláta og hinn óguðlega, og þann er elskar ofríki, hatar hann.

Á óguðlega lætur hann rigna glóandi kolum, eldur og brennisteinn og brennheitur vindur er þeirra mældi bikar.

Því að Drottinn er réttlátur og hefir mætur á réttlætisverkum. Hinir hreinskilnu fá að líta auglit hans.

Fyrri Samúelsbók 15:24-35

24 Sál mælti við Samúel: "Ég hefi syndgað, þar eð ég hefi brotið boð Drottins og þín fyrirmæli, en ég óttaðist fólkið og lét því að orðum þess.

25 Fyrirgef mér nú synd mína og snú þú við með mér, svo að ég megi falla fram fyrir Drottni."

26 Samúel svaraði Sál: "Ég sný ekki við með þér. Af því að þú hefir hafnað skipun Drottins, þá hefir og Drottinn hafnað þér og svipt þig konungdómi yfir Ísrael."

27 Samúel sneri sér nú við og ætlaði að ganga burt. Þá greip Sál í lafið á skikkju hans, og rifnaði það af.

28 Þá mælti Samúel til hans: "Rifið hefir Drottinn frá þér í dag konungdóminn yfir Ísrael og gefið hann öðrum, sem er betri en þú.

29 Ekki lýgur heldur vegsemd Ísraels, og ekki iðrar hann, því að hann er ekki maður, að hann iðri."

30 Sál mælti: "Ég hefi syndgað, en sýn mér þó þá virðingu frammi fyrir öldungum þjóðar minnar og frammi fyrir Ísrael að snúa við með mér, svo að ég megi falla fram fyrir Drottni Guði þínum."

31 Þá sneri Samúel við og fór með Sál, og Sál féll fram fyrir Drottni.

32 Og Samúel mælti: "Færið mér Agag, Amaleks konung." Og Agag gekk til hans kátur. Og Agag mælti: "Sannlega er nú beiskja dauðans á brott vikin."

33 Þá mælti Samúel: "Eins og sverð þitt hefir gjört konur barnlausar, svo skal nú móðir þín vera barnlaus öðrum konum framar." Síðan hjó Samúel Agag banahögg frammi fyrir Drottni í Gilgal.

34 Því næst fór Samúel til Rama, en Sál fór heim til sín í Gíbeu Sáls.

35 Og Samúel sá ekki Sál upp frá því allt til dauðadags, því að Samúel var sorgmæddur út af Sál, og Drottin iðraði þess, að hann hafði gjört Sál konung yfir Ísrael.

Postulasagan 9:32-43

32 Svo bar við, er Pétur var að ferðast um og vitja allra, að hann kom og til hinna heilögu, sem áttu heima í Lýddu.

33 Þar fann hann mann nokkurn, Eneas að nafni, er í átta ár hafði legið rúmfastur. Hann var lami.

34 Pétur sagði við hann: "Eneas, Jesús Kristur læknar þig, statt upp og bú um þig." Jafnskjótt stóð hann upp.

35 Allir þeir, sem áttu heima í Lýddu og Saron, sáu hann, og þeir sneru sér til Drottins.

36 Í Joppe var lærisveinn, kona að nafni Tabíþa, á grísku Dorkas. Hún var mjög góðgerðasöm og örlát við snauða.

37 En á þeim dögum tók hún sótt og andaðist. Var hún lauguð og lögð í loftstofu.

38 Nú er Lýdda í grennd við Joppe, og höfðu lærisveinarnir heyrt, að Pétur væri þar. Sendu þeir tvo menn til hans og báðu hann: "Kom án tafar til vor."

39 Pétur brá við og fór með þeim. Þegar þangað kom, fóru þeir með hann upp í loftstofuna, og allar ekkjurnar komu til hans grátandi og sýndu honum kyrtla og yfirhafnir, sem Dorkas hafði gjört, meðan hún var hjá þeim.

40 En Pétur lét alla fara út, féll á kné og baðst fyrir. Síðan sneri hann sér að líkinu og sagði: "Tabíþa, rís upp." En hún opnaði augun, sá Pétur og settist upp.

41 Og hann rétti henni höndina og reisti hana á fætur, kallaði síðan á hina heilögu og ekkjurnar og leiddi hana fram lifandi.

42 Þetta varð hljóðbært um alla Joppe, og margir tóku trú á Drottin.

43 Var Pétur um kyrrt í Joppe allmarga daga hjá Símoni nokkrum sútara.

Lúkasarguðspjall 23:56-24:11

56 Þær sneru aftur og bjuggu ilmjurtir og smyrsl. Hvíldardaginn héldu þær kyrru fyrir samkvæmt boðorðinu.

24 En í afturelding fyrsta dag vikunnar komu þær til grafarinnar með ilmsmyrslin, sem þær höfðu búið.

Þær sáu þá, að steininum hafði verið velt frá gröfinni,

og þegar þær stigu inn, fundu þær ekki líkama Drottins Jesú.

Þær skildu ekkert í þessu, en þá brá svo við, að hjá þeim stóðu tveir menn í leiftrandi klæðum.

Þær urðu mjög hræddar og hneigðu andlit til jarðar. En þeir sögðu við þær: "Hví leitið þér hins lifanda meðal dauðra?

Hann er ekki hér, hann er upp risinn. Minnist þess, hvernig hann talaði við yður, meðan hann var enn í Galíleu.

Hann sagði, að Mannssonurinn skyldi framseldur verða í hendur syndugra manna og krossfestur, en rísa upp á þriðja degi."

Og þær minntust orða hans,

sneru frá gröfinni og kunngjörðu allt þetta þeim ellefu og öllum hinum.

10 Þessar konur voru þær María Magdalena, Jóhanna og María móðir Jakobs og hinar, sem voru með þeim. Þær sögðu postulunum frá þessu.

11 En þeir töldu orð þeirra markleysu eina og trúðu þeim ekki.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society