Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 33

33 Gleðjist, þér réttlátir, yfir Drottni! Hreinlyndum hæfir lofsöngur.

Lofið Drottin með gígjum, leikið fyrir honum á tístrengjaða hörpu.

Syngið honum nýjan söng, knýið strengina ákaft með fagnaðarópi.

Því að orð Drottins er áreiðanlegt, og öll verk hans eru í trúfesti gjörð.

Hann hefir mætur á réttlæti og rétti, jörðin er full af miskunn Drottins.

Fyrir orð Drottins voru himnarnir gjörðir og öll þeirra prýði fyrir anda munns hans.

Hann safnaði vatni hafsins sem í belg, lét straumana í forðabúr.

Öll jörðin óttist Drottin, allir heimsbúar hræðist hann,

því að hann talaði _ og það varð, hann bauð _ þá stóð það þar.

10 Drottinn ónýtir ráð þjóðanna, gjörir að engu áform lýðanna,

11 en ráð Drottins stendur stöðugt um aldur, áform hjarta hans frá kyni til kyns.

12 Sæl er sú þjóð er á Drottin að Guði, sá lýður er hann hefir kjörið sér til eignar.

13 Drottinn lítur niður af himni, sér öll mannanna börn,

14 frá bústað sínum virðir hann fyrir sér alla jarðarbúa,

15 hann sem myndað hefir hjörtu þeirra allra og gefur gætur að öllum athöfnum þeirra.

16 Eigi sigrar konungurinn fyrir gnótt herafla síns, eigi bjargast kappinn fyrir ofurafl sitt.

17 Svikull er víghestur til sigurs, með ofurafli sínu bjargar hann ekki.

18 En augu Drottins hvíla á þeim er óttast hann, á þeim er vona á miskunn hans.

19 Hann frelsar þá frá dauða og heldur lífinu í þeim í hallæri.

20 Sálir vorar vona á Drottin, hann er hjálp vor og skjöldur.

21 Já, yfir honum fagnar hjarta vort, hans heilaga nafni treystum vér.

22 Miskunn þín, Drottinn, sé yfir oss, svo sem vér vonum á þig.

Error: Book name not found: Sir for the version: Icelandic Bible
Error: Book name not found: Sir for the version: Icelandic Bible
Hið almenna bréf Jakobs 5:7-10

Þreyið því, bræður, þangað til Drottinn kemur. Sjáið akuryrkjumanninn, hann bíður eftir hinum dýrmæta ávexti jarðarinnar og þreyir eftir honum, þangað til hann hefur fengið haustregn og vorregn.

Þreyið og þér, styrkið hjörtu yðar, því að koma Drottins er í nánd.

Kvartið ekki hver yfir öðrum, bræður, svo að þér verðið ekki dæmdir. Dómarinn stendur fyrir dyrum.

10 Bræður, takið spámennina til fyrirmyndar, sem talað hafa í nafni Drottins og liðið illt með þolinmæði.

Sálmarnir 107:1-32

107 Þakkið Drottni, því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu.

Svo skulu hinir endurleystu Drottins segja, þeir er hann hefir leyst úr nauðum

og safnað saman úr löndunum, frá austri og vestri, frá norðri og suðri.

Þeir reikuðu um eyðimörkina, um veglaus öræfin, og fundu eigi byggilegar borgir,

þá hungraði og þyrsti, sál þeirra vanmegnaðist í þeim.

Þá hrópuðu þeir til Drottins í neyð sinni, hann bjargaði þeim úr angist þeirra

og leiddi þá um slétta leið, svo að þeir komust til byggilegrar borgar.

Þeir skulu þakka Drottni miskunn hans og dásemdarverk hans við mannanna börn,

því að hann mettaði magnþrota sál og fyllti hungraða sál gæðum.

10 Þeir sem sátu í myrkri og niðdimmu, bundnir eymd og járnum,

11 af því að þeir höfðu þrjóskast við orðum Guðs og fyrirlitið ráð Hins hæsta,

12 svo að hann beygði hug þeirra með mæðu, þeir hrösuðu, og enginn liðsinnti þeim.

13 Þá hrópuðu þeir til Drottins í neyð sinni, hann frelsaði þá úr angist þeirra,

14 hann leiddi þá út úr myrkrinu og niðdimmunni og braut sundur fjötra þeirra.

15 Þeir skulu þakka Drottni miskunn hans og dásemdarverk hans við mannanna börn,

16 því að hann braut eirhliðin og mölvaði járnslárnar.

17 Heimskingjar, er vegna sinnar syndsamlegu breytni og vegna misgjörða sinna voru þjáðir,

18 þeim bauð við hverri fæðu og voru komnir nálægt hliðum dauðans.

19 Þá hrópuðu þeir til Drottins í neyð sinni, hann frelsaði þá úr angist þeirra,

20 hann sendi út orð sitt og læknaði þá og bjargaði þeim frá gröfinni.

21 Þeir skulu þakka Drottni miskunn hans og dásemdarverk hans við mannanna börn,

22 og færa þakkarfórnir og kunngjöra verk hans með fögnuði.

23 Þeir sem fóru um hafið á skipum, ráku verslun á hinum miklu vötnum,

24 þeir hafa séð verk Drottins og dásemdir hans á djúpinu.

25 Því að hann bauð og þá kom stormviðri, sem hóf upp bylgjur þess.

26 Þeir hófust til himins, sigu niður í djúpið, þeim féllst hugur í neyðinni.

27 Þeir römbuðu og skjögruðu eins og drukkinn maður, og öll kunnátta þeirra var þrotin.

28 Þá hrópuðu þeir til Drottins í neyð sinni, og hann leiddi þá úr angist þeirra.

29 Hann breytti stormviðrinu í blíðan blæ, svo að bylgjur hafsins urðu hljóðar.

30 Þá glöddust þeir, af því að þær kyrrðust, og hann lét þá komast í höfn þá, er þeir þráðu.

31 Þeir skulu þakka Drottni miskunn hans og dásemdarverk hans við mannanna börn,

32 vegsama hann á þjóðarsamkomunni og lofa hann í hóp öldunganna.

Opinberun Jóhannesar 21:1-7

21 Og ég sá nýjan himin og nýja jörð, því að hinn fyrri himinn og hin fyrri jörð voru horfin og hafið er ekki framar til.

Og ég sá borgina helgu, nýja Jerúsalem, stíga niður af himni frá Guði, búna sem brúði, er skartar fyrir manni sínum.

Og ég heyrði raust mikla frá hásætinu, er sagði: "Sjá, tjaldbúð Guðs er meðal mannanna og hann mun búa hjá þeim, og þeir munu vera fólk hans og Guð sjálfur mun vera hjá þeim, Guð þeirra.

Og hann mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið."

Og sá, sem í hásætinu sat, sagði: "Sjá, ég gjöri alla hluti nýja," og hann segir: "Rita þú, því að þetta eru orðin trúu og sönnu."

Og hann sagði við mig: "Það er fram komið. Ég er Alfa og Ómega, upphafið og endirinn. Ég mun gefa þeim ókeypis, sem þyrstur er, af lind lífsins vatns.

Sá er sigrar mun erfa þetta, og ég mun vera hans Guð og hann mun vera minn sonur.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society