Book of Common Prayer
145 Ég kalla af öllu hjarta, bænheyr mig, Drottinn, ég vil halda lög þín.
146 Ég ákalla þig, hjálpa þú mér, að ég megi varðveita reglur þínar.
147 Ég er á ferli fyrir dögun og hrópa og bíð orða þinna.
148 Fyrr en vakan hefst eru augu mín vökul til þess að íhuga orð þitt.
149 Hlýð á raust mína eftir miskunn þinni, lát mig lífi halda, Drottinn, eftir ákvæðum þínum.
150 Þeir eru nærri, er ofsækja mig af fláræði, þeir eru langt burtu frá lögmáli þínu.
151 Þú ert nálægur, Drottinn, og öll boð þín eru trúfesti.
152 Fyrir löngu hefi ég vitað um reglur þínar, að þú hefir grundvallað þær um eilífð.
153 Sjá þú eymd mína og frelsa mig, því að ég hefi eigi gleymt lögmáli þínu.
154 Flyt þú mál mitt og leys mig, lát mig lífi halda samkvæmt fyrirheiti þínu.
155 Hjálpræðið er fjarri óguðlegum, því að þeir leita eigi fyrirmæla þinna.
156 Mikil er miskunn þín, Drottinn, lát mig lífi halda eftir ákvæðum þínum.
157 Margir eru ofsækjendur mínir og fjendur, en frá reglum þínum hefi ég eigi vikið.
158 Ég sé trúrofana og kenni viðbjóðs, þeir varðveita eigi orð þitt.
159 Sjá, hversu ég elska fyrirmæli þín, lát mig lífi halda, Drottinn, eftir miskunn þinni.
160 Allt orð þitt samanlagt er trúfesti, og hvert réttlætisákvæði þitt varir að eilífu.
161 Höfðingjar ofsækja mig að ástæðulausu, en hjarta mitt óttast orð þín.
162 Ég gleðst yfir fyrirheiti þínu eins og sá er fær mikið herfang.
163 Ég hata lygi og hefi andstyggð á henni, en þitt lögmál elska ég.
164 Sjö sinnum á dag lofa ég þig sakir þinna réttlátu ákvæða.
165 Gnótt friðar hafa þeir er elska lögmál þitt, og þeim er við engri hrösun hætt.
166 Ég vænti hjálpræðis þíns, Drottinn, og framkvæmi boð þín.
167 Sál mín varðveitir reglur þínar, og þær elska ég mjög.
168 Ég varðveiti fyrirmæli þín og reglur, allir mínir vegir eru þér augljósir.
169 Ó að hróp mitt mætti nálgast auglit þitt, Drottinn, veit mér að skynja í samræmi við orð þitt.
170 Ó að grátbeiðni mín mætti koma fyrir auglit þitt, frelsa mig samkvæmt fyrirheiti þínu.
171 Lof um þig skal streyma mér af vörum, því að þú kennir mér lög þín.
172 Tunga mín skal mæra orð þitt, því að öll boðorð þín eru réttlæti.
173 Hönd þín veiti mér lið, því að þín fyrirmæli hefi ég útvalið.
174 Ég þrái hjálpræði þitt, Drottinn, og lögmál þitt er unun mín.
175 Lát sál mína lifa, að hún megi lofa þig og dómar þínir veiti mér lið.
176 Ég villist sem týndur sauður, leita þú þjóns þíns, því að þínum boðum hefi ég eigi gleymt.
128 Sæll er hver sá, er óttast Drottin, er gengur á hans vegum.
2 Já, afla handa þinna skalt þú njóta, sæll ert þú, vel farnast þér.
3 Kona þín er sem frjósamur vínviður innst í húsi þínu, synir þínir sem teinungar olíutrésins umhverfis borð þitt.
4 Sjá, sannarlega hlýtur slíka blessun sá maður, er óttast Drottin.
5 Drottinn blessi þig frá Síon, þú munt horfa með unun á hamingju Jerúsalem alla ævidaga þína,
6 og sjá sonu sona þinna. Friður sé yfir Ísrael!
129 Þeir hafa fjandskapast mjög við mig frá æsku, _ skal Ísrael segja _
2 þeir hafa fjandskapast mjög við mig frá æsku, en þó eigi borið af mér.
3 Plógmennirnir hafa plægt um hrygg mér, gjört plógför sín löng,
4 en Drottinn hinn réttláti hefir skorið í sundur reipi óguðlegra.
5 Sneypast skulu þeir og undan hörfa, allir þeir sem hata Síon.
6 Þeir skulu verða sem gras á þekju, er visnar áður en það frævist.
7 Sláttumaðurinn skal eigi fylla hönd sína né sá fang sitt sem bindur,
8 og þeir sem fram hjá fara skulu ekki segja: "Blessun Drottins sé með yður." Vér blessum yður í nafni Drottins!
130 Úr djúpinu ákalla ég þig, Drottinn,
2 Drottinn, heyr þú raust mína, lát eyru þín hlusta á grátbeiðni mína!
3 Ef þú, Drottinn, gæfir gætur að misgjörðum, Drottinn, hver fengi þá staðist?
4 En hjá þér er fyrirgefning, svo að menn óttist þig.
5 Ég vona á Drottin, sál mín vonar, og hans orðs bíð ég.
6 Meir en vökumenn morgun, vökumenn morgun, þreyr sál mín Drottin.
7 Ó Ísrael, bíð þú Drottins, því að hjá Drottni er miskunn, og hjá honum er gnægð lausnar.
8 Hann mun leysa Ísrael frá öllum misgjörðum hans.
12 Samúel mælti til alls Ísraels: "Sjá, ég hefi látið að orðum yðar í öllu því, sem þér hafið beiðst af mér, og ég hefi sett yfir yður konung.
2 Og sjá, nú gengur konungurinn frammi fyrir yður, en ég er orðinn gamall og grár fyrir hærum, og synir mínir eru meðal yðar. En ég hefi gengið fyrir augliti yðar frá barnæsku fram á þennan dag.
3 Hér er ég, vitnið á móti mér frammi fyrir Drottni og hans smurða: Hvers uxa hefi ég tekið? Og hvers asna hefi ég tekið? Og hvern hefi ég féflett? Hverjum hefi ég sýnt ofríki? Og af hverjum hefi ég þegið mútu eða jafnvel eina skó? Vitnið móti mér, og mun ég gjalda yður það aftur."
4 Þeir svöruðu: "Eigi hefir þú féflett oss, og eigi hefir þú sýnt oss ofríki, og við engu hefir þú af nokkurs manns hendi tekið."
5 Hann sagði við þá: "Drottinn sé vitni móti yður, og hans smurði sé vitni í dag, að þér hafið ekkert fundið í minni hendi." Og þeir sögðu: "Já, þeir skulu vera vitni!"
6 Þá sagði Samúel við lýðinn: "Drottinn sé vitni, hann sem skóp Móse og Aron og leiddi feður yðar út af Egyptalandi.
16 Gangið nú fram og sjáið þann mikla atburð, er Drottinn lætur verða fyrir augum yðar.
17 Er nú ekki hveitiuppskera? Ég ætla að biðja Drottin að senda þrumur og regn. Þá skuluð þér kannast við og skilja, hversu mikið illt þér gjörðuð í augum Drottins, er þér beiddust að fá konung."
18 Og Samúel ákallaði Drottin, og Drottinn sendi þrumur og regn þennan sama dag. Þá varð lýðurinn mjög hræddur við Drottin og við Samúel.
19 Og allur lýðurinn sagði við Samúel: "Bið til Drottins Guðs þíns fyrir þjónum þínum, svo að vér deyjum ekki, því að vér höfum bætt þeirri misgjörð ofan á allar syndir vorar, að vér höfum beiðst konungs."
20 Samúel sagði við lýðinn: "Óttist ekki. Þér hafið að vísu framið þessa misgjörð, en víkið nú ekki frá Drottni og þjónið Drottni af öllu hjarta yðar
21 og eltið ekki fánýtin, sem að engu liði eru og eigi frelsa, því að fánýt eru þau.
22 Því að Drottinn mun eigi útskúfa lýð sínum vegna síns mikla nafns, af því að Drottni hefir þóknast að gjöra yður að sínum lýð.
23 Og fjarri sé það mér að syndga á móti Drottni með því að hætta að biðja fyrir yður. Ég vil kenna yður hinn góða og rétta veg.
24 Óttist aðeins Drottin og þjónið honum trúlega af öllu hjarta yðar, því sjáið, hversu mikið hann hefir fyrir yður gjört.
25 En ef þér breytið illa, þá verður bæði yður og konungi yðar í burtu kippt."
14 Þegar postularnir í Jerúsalem heyrðu, að Samaría hefði tekið við orði Guðs, sendu þeir til þeirra þá Pétur og Jóhannes.
15 Þeir fóru norður þangað og báðu fyrir þeim, að þeir mættu öðlast heilagan anda,
16 því að enn var hann ekki kominn yfir neinn þeirra. Þeir voru aðeins skírðir til nafns Drottins Jesú.
17 Nú lögðu þeir hendur yfir þá, og fengu þeir heilagan anda.
18 En er Símon sá, að heilagur andi veittist fyrir handayfirlagning postulanna, bauð hann þeim fé og sagði:
19 "Gefið einnig mér þetta vald, að hver sá, er ég legg hendur yfir, fái heilagan anda."
20 En Pétur svaraði: "Þrífist aldrei silfur þitt né sjálfur þú, fyrst þú hugðist eignast gjöf Guðs fyrir fé.
21 Eigi átt þú skerf né hlut í þessu, því að hjarta þitt er ekki einlægt gagnvart Guði.
22 Snú því huga þínum frá þessari illsku þinni og bið Drottin, að þér mætti fyrirgefast hugsun hjarta þíns,
23 því ég sé, að þú ert fullur gallbeiskju og í fjötrum ranglætis."
24 Símon sagði: "Biðjið þér fyrir mér til Drottins, að ekkert komi það yfir mig, sem þér hafið mælt."
25 Er þeir höfðu nú vitnað og talað orð Drottins, sneru þeir aftur áleiðis til Jerúsalem og boðuðu fagnaðarerindið í mörgum þorpum Samverja.
23 Þá stóð upp allur skarinn og færði hann fyrir Pílatus.
2 Þeir tóku að ákæra hann og sögðu: "Vér höfum komist að raun um, að þessi maður leiðir þjóð vora afvega, hann bannar að gjalda keisaranum skatt og segist sjálfur vera Kristur, konungur."
3 Pílatus spurði hann þá: "Ert þú konungur Gyðinga?" Jesús svaraði: "Þú segir það."
4 Pílatus sagði við æðstu prestana og fólkið: "Enga sök finn ég hjá þessum manni."
5 En þeir urðu því ákafari og sögðu: "Hann æsir upp lýðinn með því, sem hann kennir í allri Júdeu, hann byrjaði í Galíleu og er nú kominn hingað."
6 Þegar Pílatus heyrði þetta, spurði hann, hvort maðurinn væri Galílei.
7 Og er hann varð þess vís, að hann var úr umdæmi Heródesar, sendi hann hann til Heródesar, er þá var og í Jerúsalem á þeim dögum.
8 En Heródes varð næsta glaður, er hann sá Jesú, því hann hafði lengi langað að sjá hann, þar eð hann hafði heyrt frá honum sagt. Vænti hann nú að sjá hann gjöra eitthvert tákn.
9 Hann spurði Jesú á marga vegu, en hann svaraði honum engu.
10 Æðstu prestarnir og fræðimennirnir stóðu þar og ákærðu hann harðlega.
11 En Heródes óvirti hann og spottaði ásamt hermönnum sínum, lagði yfir hann skínandi klæði og sendi hann aftur til Pílatusar.
12 Á þeim degi urðu þeir Heródes og Pílatus vinir, en áður var fjandskapur með þeim.
by Icelandic Bible Society