Book of Common Prayer
120 Ég ákalla Drottin í nauðum mínum, og hann bænheyrir mig.
2 Drottinn, frelsa sál mína frá ljúgandi vörum, frá tælandi tungu.
3 Hversu mun fara fyrir þér nú og síðar, þú tælandi tunga?
4 Örvar harðstjórans eru hvesstar með glóandi viðarkolum.
5 Vei mér, að ég dvel hjá Mesek, bý hjá tjöldum Kedars.
6 Nógu lengi hefir sál mín búið hjá þeim er friðinn hata.
7 Þótt ég tali friðlega, vilja þeir ófrið.
121 Ég hef augu mín til fjallanna: Hvaðan kemur mér hjálp?
2 Hjálp mín kemur frá Drottni, skapara himins og jarðar.
3 Hann mun eigi láta fót þinn skriðna, vörður þinn blundar ekki.
4 Nei, hann blundar ekki og sefur ekki, hann, vörður Ísraels.
5 Drottinn er vörður þinn, Drottinn skýlir þér, hann er þér til hægri handar.
6 Um daga mun sólarhitinn eigi vinna þér mein, né heldur tunglið um nætur.
7 Drottinn mun vernda þig fyrir öllu illu, hann mun vernda sál þína.
8 Drottinn mun varðveita útgöngu þína og inngöngu héðan í frá og að eilífu.
122 Ég varð glaður, er menn sögðu við mig: "Göngum í hús Drottins."
2 Fætur vorir standa í hliðum þínum, Jerúsalem.
3 Jerúsalem, þú hin endurreista, borgin þar sem öll þjóðin safnast saman,
4 þangað sem kynkvíslirnar fara, kynkvíslir Drottins _ það er regla fyrir Ísrael _ til þess að lofa nafn Drottins,
5 því að þar standa dómarastólar, stólar fyrir Davíðs ætt.
6 Biðjið Jerúsalem friðar, hljóti heill þeir, er elska þig.
7 Friður sé kringum múra þína, heill í höllum þínum.
8 Sakir bræðra minna og vina óska ég þér friðar.
9 Sakir húss Drottins, Guðs vors, vil ég leita þér hamingju.
123 Til þín hef ég augu mín, þú sem situr á himnum.
2 Eins og augu þjónanna mæna á hönd húsbónda síns, eins og augu ambáttarinnar mæna á hönd húsmóður sinnar, svo mæna augu vor á Drottin, Guð vorn, uns hann líknar oss.
3 Líkna oss, Drottinn, líkna oss, því að vér höfum fengið meira en nóg af spotti.
4 Sál vor hefir fengið meira en nóg af háði hrokafullra, af spotti dramblátra.
124 Hefði það ekki verið Drottinn sem var með oss, _ skal Ísrael segja _
2 hefði það ekki verið Drottinn sem var með oss, þegar menn risu í móti oss,
3 þá hefðu þeir gleypt oss lifandi, þegar reiði þeirra bálaðist upp í móti oss.
4 Þá hefðu vötnin streymt yfir oss, elfur gengið yfir oss,
5 þá hefðu gengið yfir oss hin beljandi vötn.
6 Lofaður sé Drottinn, er ekki gaf oss tönnum þeirra að bráð.
7 Sál vor slapp burt eins og fugl úr snöru fuglarans. Brast snaran, burt sluppum vér.
8 Hjálp vor er í nafni Drottins, skapara himins og jarðar.
125 Þeir sem treysta Drottni eru sem Síonfjall, er eigi bifast, sem stendur að eilífu.
2 Fjöll eru kringum Jerúsalem, og Drottinn er kringum lýð sinn héðan í frá og að eilífu.
3 Því að veldissproti guðleysisins mun eigi hvíla á landi réttlátra, til þess að hinir réttlátu skuli eigi rétta fram hendur sínar til ranglætis.
4 Gjör þú góðum vel til, Drottinn, og þeim sem hjartahreinir eru.
5 En þá er beygja á krókóttar leiðir mun Drottinn láta hverfa með illgjörðamönnum. Friður sé yfir Ísrael!
126 Þegar Drottinn sneri við hag Síonar, þá var sem oss dreymdi.
2 Þá fylltist munnur vor hlátri, og tungur vorar fögnuði. Þá sögðu menn meðal þjóðanna: "Mikla hluti hefir Drottinn gjört við þá."
3 Drottinn hefir gjört mikla hluti við oss, vér vorum glaðir.
4 Snú við hag vorum, Drottinn, eins og þú gjörir við lækina í Suðurlandinu.
5 Þeir sem sá með tárum, munu uppskera með gleðisöng.
6 Grátandi fara menn og bera sæðið til sáningar, með gleðisöng koma þeir aftur og bera kornbindin heim.
127 Ef Drottinn byggir ekki húsið, erfiða smiðirnir til ónýtis. Ef Drottinn verndar eigi borgina, vakir vörðurinn til ónýtis.
2 Það er til ónýtis fyrir yður, þér sem snemma rísið og gangið seint til hvíldar og etið brauð, sem aflað er með striti: Svo gefur hann ástvinum sínum í svefni!
3 Sjá, synir eru gjöf frá Drottni, ávöxtur móðurkviðarins er umbun.
4 Eins og örvar í hendi kappans, svo eru synir getnir í æsku.
5 Sæll er sá maður, er fyllt hefir örvamæli sinn með þeim, þeir verða eigi til skammar, er þeir tala við óvini sína í borgarhliðinu.
11 Nahas Ammóníti fór og settist um Jabes í Gíleað. Þá sögðu allir Jabesbúar við Nahas: "Gjör þú sáttmála við oss, og munum vér þjóna þér."
2 Nahas Ammóníti svaraði þeim: "Með þeim kostum vil ég gjöra sáttmála við yður, að ég stingi út á yður öllum hægra augað og gjöri öllum Ísrael háðung með því."
3 Öldungarnir í Jabes sögðu við hann: "Gef oss sjö daga frest, og munum vér senda sendiboða um allt Ísraels land, og ef enginn þá hjálpar oss, munum vér gefast upp fyrir þér."
4 Þegar sendiboðarnir komu til Gíbeu Sáls og báru upp erindi sitt í áheyrn lýðsins, þá hóf allur lýðurinn upp raust sína og grét.
5 Og sjá, þá kom Sál á eftir nautunum utan af akri. Og Sál mælti: "Hvað ber til þess, að fólkið er að gráta?" Og þeir sögðu honum erindi Jabesmanna.
6 Þá kom andi Guðs yfir Sál, er hann heyrði þessi tíðindi, og varð hann reiður mjög.
7 Og hann tók tvo uxa og brytjaði þá og sendi stykkin um allt Ísraels land með sendiboðunum og lét þá orðsending fylgja: "Svo skal farið með naut hvers þess manns, er eigi fylgir Sál og Samúel í hernað." Þá kom ótti Drottins yfir fólkið, svo að þeir lögðu af stað sem einn maður.
8 Og hann kannaði liðið í Besek, og voru þá Ísraelsmenn þrjú hundruð þúsund og Júdamenn þrjátíu þúsund.
9 Og þeir sögðu við sendiboðana, sem komnir voru: "Segið svo mönnunum í Jabes í Gíleað: Á morgun um hádegisbil skal yður koma hjálp." Og sendimennirnir komu og sögðu Jabesbúum frá þessu, og urðu þeir glaðir við.
10 Og Jabesbúar sögðu við Nahas: "Á morgun munum vér gefast upp fyrir yður. Þá getið þér gjört við oss hvað sem yður gott þykir."
11 En morguninn eftir skipti Sál liðinu í þrjá flokka, og brutust þeir inn í herbúðirnar um morgunvökuna og felldu Ammóníta fram til hádegis. Og þeir, sem af komust, dreifðust víðsvegar, svo að ekki urðu eftir af þeim tveir saman.
12 Þá sagði fólkið við Samúel: "Hverjir voru það, sem sögðu: ,Á Sál að verða konungur yfir oss?` Framseljið þá menn, svo að vér getum drepið þá."
13 En Sál sagði: "Engan mann skal deyða á þessum degi, því að í dag hefir Drottinn veitt Ísrael sigur."
14 Samúel sagði við lýðinn: "Komið, vér skulum fara til Gilgal og endurnýja þar konungdóminn."
15 Þá fór allur lýðurinn til Gilgal og gjörði Sál þar að konungi frammi fyrir Drottni í Gilgal. Og þeir fórnuðu þar heillafórnum frammi fyrir Drottni, og Sál og allir Ísraelsmenn glöddu sig þar mikillega.
8 Sál lét sér vel líka líflát hans. Á þeim degi hófst mikil ofsókn gegn söfnuðinum í Jerúsalem. Allir dreifðust út um byggðir Júdeu og Samaríu nema postularnir.
2 Guðræknir menn greftruðu Stefán og höfðu sorgarathöfn mikla.
3 En Sál gjörði sér allt far um að uppræta söfnuðinn. Hann óð inn í hvert hús, dró þaðan bæði karla og konur og lét setja í varðhald.
4 Þeir sem dreifst höfðu, fóru víðs vegar og fluttu fagnaðarerindið.
5 Filippus fór norður til höfuðborgar Samaríu og prédikaði Krist þar.
6 Menn hlýddu með athygli á orð Filippusar, þegar þeir heyrðu hann tala og sáu táknin, sem hann gjörði.
7 Margir höfðu óhreina anda, og fóru þeir út af þeim með ópi miklu. Og margir lama menn og haltir voru læknaðir.
8 Mikill fögnuður varð í þeirri borg.
9 Maður nokkur, Símon að nafni, var fyrir í borginni. Hann lagði stund á töfra og vakti hrifningu fólksins í Samaríu. Hann þóttist vera næsta mikill.
10 Allir flykktust til hans, háir og lágir, og sögðu: "Þessi maður er kraftur Guðs, sá hinn mikli."
11 En því flykktust menn um hann, að hann hafði lengi heillað þá með töfrum.
12 Nú trúðu menn Filippusi, þegar hann flutti fagnaðarerindið um Guðs ríki og nafn Jesú Krists, og létu skírast, bæði karlar og konur.
13 Meira að segja Símon tók trú. Hann var skírður og gjörðist mjög fylgisamur Filippusi. Og er hann sá tákn og mikil kraftaverk gjörast, var hann frá sér numinn.
63 En þeir menn, sem gættu Jesú, hæddu hann og börðu,
64 huldu andlit hans og sögðu: "Spáðu nú, hver það var, sem sló þig?"
65 Og marga aðra svívirðu sögðu þeir við hann.
66 Þegar dagur rann, kom öldungaráð lýðsins saman, bæði æðstu prestar og fræðimenn, og létu færa hann fyrir ráðsfund sinn.
67 Þeir sögðu: "Ef þú ert Kristur, þá seg oss það." En hann sagði við þá: "Þótt ég segi yður það, munuð þér ekki trúa,
68 og ef ég spyr yður, svarið þér ekki.
69 En upp frá þessu mun Mannssonurinn sitja til hægri handar Guðs kraftar."
70 Þá spurðu þeir allir: "Ert þú þá sonur Guðs?" Og hann sagði við þá: "Þér segið, að ég sé sá."
71 En þeir sögðu: "Hvað þurfum vér nú framar vitnis við? Vér höfum sjálfir heyrt það af munni hans."
by Icelandic Bible Society