Book of Common Prayer
105 Þakkið Drottni, ákallið nafn hans, gjörið máttarverk hans kunn meðal þjóðanna!
2 Syngið fyrir honum, leikið fyrir honum, talið um öll hans dásemdarverk.
3 Hrósið yður af hans helga nafni, hjarta þeirra er leita Drottins gleðjist.
4 Leitið Drottins og máttar hans, stundið sífellt eftir augliti hans.
5 Minnist dásemdarverka hans, þeirra er hann gjörði, tákna hans og refsidóma munns hans,
6 þér niðjar Abrahams, þjónar hans, þér synir Jakobs, hans útvöldu.
7 Hann er Drottinn, vor Guð, um víða veröld ganga dómar hans.
8 Hann minnist að eilífu sáttmála síns, orðs þess, er hann hefir gefið þúsundum kynslóða,
9 sáttmálans, er hann gjörði við Abraham, og eiðs síns við Ísak,
10 þess er hann setti sem lög fyrir Jakob, eilífan sáttmála fyrir Ísrael,
11 þá er hann mælti: Þér mun ég gefa Kanaanland sem erfðahlut yðar.
12 Þegar þeir voru fámennur hópur, örfáir og bjuggu þar útlendingar,
13 þá fóru þeir frá einni þjóð til annarrar og frá einu konungsríki til annars lýðs.
14 Hann leið engum að kúga þá og hegndi konungum þeirra vegna.
15 "Snertið eigi við mínum smurðu og gjörið eigi spámönnum mínum mein."
16 Þá er hann kallaði hallæri yfir landið, braut í sundur hverja stoð brauðsins,
17 þá sendi hann mann á undan þeim, Jósef var seldur sem þræll.
18 Þeir þjáðu fætur hans með fjötrum, hann var lagður í járn,
19 allt þar til er orð hans rættust, og orð Drottins létu hann standast raunina.
20 Konungur sendi boð og lét hann lausan, drottnari þjóðanna leysti fjötra hans.
21 Hann gjörði hann að herra yfir húsi sínu og að drottnara yfir öllum eigum sínum,
22 að hann gæti fjötrað höfðingja eftir vild og kennt öldungum hans speki.
23 Síðan kom Ísrael til Egyptalands, Jakob var gestur í landi Kams.
24 Og Guð gjörði lýð sinn mjög mannmargan og lét þá verða fleiri en fjendur þeirra.
25 Hann sneri hjörtum Egypta til haturs við lýð sinn, til lævísi við þjóna sína.
26 Hann sendi Móse, þjón sinn, og Aron, er hann hafði útvalið,
27 hann gjörði tákn sín á þeim og undur í landi Kams.
28 Hann sendi sorta og myrkvaði landið, en þeir gáfu orðum hans engan gaum,
29 hann breytti vötnum þeirra í blóð og lét fiska þeirra deyja,
30 land þeirra varð kvikt af froskum, alla leið inn í svefnherbergi konungs,
31 hann bauð, þá komu flugur, mývargur um öll héruð þeirra,
32 hann gaf þeim hagl fyrir regn, bálandi eld í land þeirra,
33 hann laust vínvið þeirra og fíkjutré og braut sundur trén í héruðum þeirra,
34 hann bauð, þá kom jarðvargur og óteljandi engisprettur,
35 sem átu upp allar jurtir í landi þeirra og átu upp ávöxtinn af jörð þeirra,
36 hann laust alla frumburði í landi þeirra, frumgróða alls styrkleiks þeirra.
37 Síðan leiddi hann þá út með silfri og gulli, enginn hrasaði af kynkvíslum hans.
38 Egyptaland gladdist yfir burtför þeirra, því að ótti við þá var fallinn yfir þá.
39 Hann breiddi út ský sem hlíf og eld til þess að lýsa um nætur.
40 Þeir báðu, þá lét hann lynghæns koma og mettaði þá með himnabrauði.
41 Hann opnaði klett, svo að vatn vall upp, rann sem fljót um eyðimörkina.
42 Hann minntist síns heilaga heits við Abraham þjón sinn
43 og leiddi lýð sinn út með gleði, sína útvöldu með fögnuði.
44 Og hann gaf þeim lönd þjóðanna, það sem þjóðirnar höfðu aflað með striti, fengu þeir til eignar,
45 til þess að þeir skyldu halda lög hans og varðveita lögmál hans. Halelúja.
8 Er Samúel var orðinn gamall, setti hann sonu sína dómara yfir Ísrael.
2 Frumgetinn sonur hans hét Jóel, en annar sonur hans Abía. Þeir dæmdu í Beerseba.
3 En synir hans fetuðu ekki í fótspor hans, heldur hneigðust þeir til ágirndar og þágu mútur og hölluðu réttinum.
4 Þá söfnuðust allir öldungar Ísraels saman og fóru á fund Samúels í Rama
5 og sögðu við hann: "Sjá, þú ert nú orðinn gamall og synir þínir feta ekki í fótspor þín. Set oss því konung til að dæma oss, eins og er hjá öllum öðrum þjóðum."
6 En Samúel mislíkaði það, að þeir sögðu: "Gef oss konung til þess að dæma oss!" Og Samúel bað til Drottins.
7 Drottinn sagði við Samúel: "Lát þú að orðum lýðsins í öllu því, sem þeir biðja þig um, því að þeir hafa ekki hafnað þér, heldur hafa þeir hafnað mér, að ég skuli ekki lengur vera konungur yfir þeim.
8 Svona hafa þeir ávallt breytt frá þeim degi, er ég leiddi þá út af Egyptalandi, allt fram á þennan dag. Þeir hafa yfirgefið mig og þjónað öðrum guðum. Öldungis á sama hátt fara þeir nú og með þig.
9 Lát því nú að orðum þeirra. Þó skalt þú vara þá alvarlega við, og segja þeim háttu konungsins, sem ríkja á yfir þeim."
10 Þá sagði Samúel lýðnum, sem heimti af honum konung, öll orð Drottins
11 og mælti: "Þessi mun verða háttur konungsins, sem yfir yður á að ríkja: Sonu yðar mun hann taka og setja þá við vagn sinn og á hesta sína, og þeir munu hlaupa fyrir vagni hans,
12 og hann mun skipa þá höfuðsmenn yfir þúsund og höfuðsmenn yfir fimmtíu, og setja þá til að plægja akurland sitt og skera upp korn sitt og gjöra hernaðartygi sín og ökutygi.
13 Og dætur yðar mun hann taka og láta þær búa til smyrsl, elda og baka.
14 Og bestu lendur yðar, víngarða og olífugarða mun hann taka og gefa þjónum sínum,
15 og af sáðlöndum yðar og víngörðum mun hann taka tíund og gefa hana geldingum sínum og þjónum sínum.
16 Og þræla yðar og ambáttir og hina bestu uxa yðar og asna yðar mun hann taka og hafa til sinna verka.
17 Af sauðfénaði yðar mun hann taka tíund, en sjálfir munuð þér verða þrælar hans.
18 Þá munuð þér hrópa undan konungi yðar, er þér þá hafið kjörið yður, en þá mun Drottinn ekki svara yður."
19 En fólkið vildi ekki hlýða fortölum Samúels og sagði: "Nei, konungur skal yfir oss vera,
20 svo að vér séum eins og allar aðrar þjóðir, og konungur vor skal dæma oss og vera fyrirliði vor og heyja bardaga vora."
21 Samúel hlýddi á öll ummæli lýðsins og tjáði þau fyrir Drottni.
22 En Drottinn sagði við Samúel: "Lát þú að orðum þeirra og set yfir þá konung." Þá sagði Samúel við Ísraelsmenn: "Farið burt, hver til síns heimkynnis."
15 Allir sem í ráðinu sátu, störðu á hann og sáu, að ásjóna hans var sem engils ásjóna.
7 Þá spurði æðsti presturinn: "Er þessu svo farið?"
2 Stefán svaraði: "Heyrið mig, bræður og feður. Guð dýrðarinnar birtist föður vorum, Abraham, er hann var enn í Mesópótamíu, áður en hann settist að í Haran,
3 og sagði við hann: ,Far þú burt úr landi þínu og frá ættfólki þínu til landsins, sem ég mun vísa þér á.`
4 Þá fór hann burt úr Kaldealandi og settist að í Haran. En eftir lát föður hans leiddi Guð hann þaðan til þessa lands, sem þér nú byggið.
5 Ekki gaf hann honum óðal hér, ekki eitt fótmál. En hann hét honum að gefa honum landið til eignar og niðjum hans eftir hann, þótt hann væri enn barnlaus.
6 Guð sagði, að niðjar hans mundu búa sem útlendingar í ókunnu landi og verða þjáðir og þrælkaðir í fjögur hundruð ár.
7 ,En þjóðina, sem þrælkar þá, mun ég dæma,` sagði Guð, ,og eftir það munu þeir fara þaðan og þjóna mér á þessum stað.`
8 Þá gaf hann honum sáttmála umskurnarinnar. Síðan gat Abraham Ísak og umskar hann á áttunda degi, og Ísak gat Jakob og Jakob ættfeðurna tólf.
9 Og ættfeðurnir öfunduðu Jósef og seldu hann til Egyptalands. En Guð var með honum,
10 frelsaði hann úr öllum þrengingum hans og veitti honum hylli og visku í augum Faraós, Egyptalandskonungs, svo að hann skipaði hann höfðingja yfir Egyptaland og yfir allt sitt hús.
11 Nú kom hallæri á öllu Egyptalandi og Kanaan og mikil þrenging, og feður vorir höfðu ekki lífsbjörg.
12 En er Jakob heyrði, að korn væri til á Egyptalandi, sendi hann feður vora þangað hið fyrra sinn.
13 Og í síðara skiptið gaf Jósef sig fram við bræður sína, og Faraó varð kunn ætt Jósefs.
14 En Jósef sendi eftir Jakobi föður sínum og öllu ættfólki sínu, sjötíu og fimm manns,
15 og Jakob fór suður til Egyptalands. Þar andaðist hann og feður vorir.
16 Þeir voru fluttir til Síkem og lagðir í grafreitinn, er Abraham hafði keypt fyrir silfur af sonum Hemors í Síkem.
24 Og þeir fóru að metast um, hver þeirra væri talinn mestur.
25 En Jesús sagði við þá: "Konungar þjóða drottna yfir þeim og valdhafar þeirra kallast velgjörðamenn.
26 En eigi sé yður svo farið, heldur sé hinn mesti yðar á meðal sem væri hann yngstur og foringinn sem þjónn.
27 Því hvort er sá meiri, sem situr til borðs, eða hinn, sem þjónar? Er það ekki sá sem situr til borðs? Samt er ég meðal yðar eins og þjónninn.
28 En þér eruð þeir sem hafið verið stöðugir með mér í freistingum mínum.
29 Og yður fæ ég ríki í hendur, eins og faðir minn hefur fengið mér,
30 að þér megið eta og drekka við borð mitt í ríki mínu, sitja í hásætum og dæma tólf ættkvíslir Ísraels.
by Icelandic Bible Society