Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 97

97 Drottinn er konungur orðinn! jörðin fagni, eyjafjöldinn gleðjist.

Ský og sorti eru umhverfis hann, réttlæti og réttvísi eru grundvöllur hásætis hans,

eldur fer fyrir honum og bálast umhverfis spor hans.

Leiftur hans lýsa um jarðríki, jörðin sér það og nötrar.

Björgin bráðna sem vax fyrir Drottni, fyrir Drottni gjörvallrar jarðarinnar.

Himnarnir kunngjöra réttlæti hans, og allar þjóðir sjá dýrð hans.

Allir skurðgoðadýrkendur verða til skammar, þeir er stæra sig af falsguðunum. Allir guðir falla fram fyrir honum.

Síon heyrir það og gleðst, Júdadætur fagna sakir dóma þinna, Drottinn.

Því að þú, Drottinn, ert Hinn hæsti yfir gjörvallri jörðunni, þú ert hátt hafinn yfir alla guði.

10 Drottinn elskar þá er hata hið illa, hann verndar sálir dýrkenda sinna, frelsar þá af hendi óguðlegra.

11 Ljós rennur upp réttlátum og gleði hjartahreinum.

12 Gleðjist, þér réttlátir, yfir Drottni, vegsamið hans heilaga nafn.

Sálmarnir 99-100

99 Drottinn er konungur orðinn! Þjóðirnar skjálfi. Hann situr uppi yfir kerúbunum, jörðin nötri.

Drottinn er mikill á Síon og hátt upp hafinn yfir alla lýði.

Þeir skulu lofa nafn þitt, hið mikla og óttalega. Heilagur er hann!

Þú ert voldugur konungur, sem elskar réttinn, þú hefir staðfest réttvísina, rétt og réttlæti hefir þú framið í Jakob.

Tignið Drottin, Guð vorn, og fallið fram fyrir fótskör hans. Heilagur er hann!

Móse og Aron eru meðal presta hans, Samúel meðal þeirra er ákalla nafn hans, þeir ákalla Drottin og hann bænheyrir þá.

Hann talar til þeirra í skýstólpanum, því að þeir gæta vitnisburða hans og laganna, er hann gaf þeim.

Drottinn, Guð vor, þú bænheyrir þá, þú reynist þeim fyrirgefandi Guð og sýknar þá af gjörðum þeirra.

Tignið Drottin Guð vorn, og fallið fram fyrir hans heilaga fjalli, því að heilagur er Drottinn, Guð vor.

100 Þakkarfórnar-sálmur. Öll veröldin fagni fyrir Drottni!

Þjónið Drottni með gleði, komið fyrir auglit hans með fagnaðarsöng!

Vitið, að Drottinn er Guð, hann hefir skapað oss, og hans erum vér, lýður hans og gæsluhjörð.

Gangið inn um hlið hans með lofsöng, í forgarða hans með sálmum, lofið hann, vegsamið nafn hans.

Því að Drottinn er góður, miskunn hans varir að eilífu og trúfesti hans frá kyni til kyns.

Sálmarnir 94-95

94 Drottinn, Guð hefndarinnar, Guð hefndarinnar, birst þú í geisladýrð!

Rís þú upp, dómari jarðar, endurgjald ofstopamönnunum það er þeir hafa aðhafst!

Hversu lengi, Drottinn, eiga illir menn, hversu lengi, Drottinn, eiga illir menn að fagna?

Þeir ausa úr sér drambyrðum, allir illvirkjarnir rembast.

Þeir kremja lýð þinn, Drottinn, þjá arfleifð þína,

drepa ekkjur og aðkomandi og myrða föðurlausa

og segja: "Drottinn sér það ekki, Jakobs Guð tekur eigi eftir því."

Takið eftir, þér hinir fíflsku meðal lýðsins, og þér fáráðlingar, hvenær ætlið þér að verða hyggnir?

Mun sá eigi heyra, sem eyrað hefir plantað, mun sá eigi sjá, sem augað hefir til búið?

10 Skyldi sá er agar þjóðirnar eigi hegna, hann sem kennir mönnunum þekkingu?

11 Drottinn þekkir hugsanir mannsins, að þær eru einber hégómi.

12 Sæll er sá maður, er þú agar, Drottinn, og fræðir í lögmáli þínu,

13 til þess að hlífa honum við mótlætisdögunum, uns gröf er grafin fyrir óguðlega.

14 Því að Drottinn hrindir eigi burt lýð sínum og yfirgefur eigi arfleifð sína,

15 heldur mun rétturinn hverfa aftur til hins réttláta, og honum munu allir hjartahreinir fylgja.

16 Hver rís upp mér til hjálpar gegn illvirkjunum, hver gengur fram fyrir mig gegn illgjörðamönnunum?

17 Ef Drottinn veitti mér eigi fulltingi, þá mundi sál mín brátt hvíla í dauðaþögn.

18 Þegar ég hugsaði: "Mér skriðnar fótur," þá studdi mig miskunn þín, Drottinn.

19 Þegar miklar áhyggjur lögðust á hjarta mitt, hressti huggun þín sálu mína.

20 Mun dómstóll spillingarinnar vera í bandalagi við þig, hann sem býr öðrum tjón undir yfirskini réttarins?

21 Þeir ráðast á líf hins réttláta og sakfella saklaust blóð.

22 En Drottinn er mér háborg og Guð minn klettur mér til hælis.

23 Hann geldur þeim misgjörð þeirra og afmáir þá í illsku þeirra, Drottinn, Guð vor, afmáir þá.

95 Komið, fögnum fyrir Drottni, látum gleðióp gjalla fyrir kletti hjálpræðis vors.

Komum með lofsöng fyrir auglit hans, syngjum gleðiljóð fyrir honum.

Því að Drottinn er mikill Guð og mikill konungur yfir öllum guðum.

Í hans hendi eru jarðardjúpin, og fjallatindarnir heyra honum til.

Hans er hafið, hann hefir skapað það, og hendur hans mynduðu þurrlendið.

Komið, föllum fram og krjúpum niður, beygjum kné vor fyrir Drottni, skapara vorum,

því að hann er vor Guð, og vér erum gæslulýður hans og hjörð sú, er hann leiðir. Ó að þér í dag vilduð heyra raust hans!

Herðið eigi hjörtu yðar eins og hjá Meríba, eins og daginn við Massa í eyðimörkinni,

þegar feður yðar freistuðu mín, reyndu mig, þótt þeir sæju verk mín.

10 Í fjörutíu ár hafði ég viðbjóð á þessari kynslóð, og ég sagði: "Þeir eru andlega villtur lýður og þekkja ekki vegu mína."

11 Þess vegna sór ég í reiði minni: "Þeir skulu eigi ganga inn til hvíldar minnar."

Fyrri Samúelsbók 6:1-16

Örk Drottins var sjö mánuði í Filistalandi.

Og Filistar kölluðu prestana og spásagnarmennina og sögðu: "Hvað eigum vér að gjöra við örk Drottins? Segið oss til, hvernig vér eigum að senda hana heim á sinn stað."

Þeir svöruðu: "Ef þér sendið burt örk Ísraels Guðs, þá sendið hana ekki gjafalaust, heldur greiðið henni sektarfórn. Þá munuð þér heilir verða, og yður mun verða kunnugt, hvers vegna hönd hans hefir ekki frá yður vikið."

Þá sögðu Filistar: "Hvaða sektarfórn eigum vér að greiða henni?" Þeir svöruðu: "Fimm kýli af gulli og fimm mýs af gulli, eins og höfðingjar Filista eru margir til, því að sama plágan hefir gengið yfir yður og höfðingja yðar.

Búið nú til myndir af kýlum yðar og myndir af músum yðar, þeim er eyða landið, og gefið Ísraels Guði dýrðina: Má vera að hann létti þá af yður hendi sinni og af guði yðar og af landi yðar.

Hvers vegna viljið þér herða hjörtu yðar, eins og Egyptar og Faraó hertu hjarta sitt? Var ekki svo, að þegar hann hafði leikið þá hart, þá slepptu þeir þeim, svo að þeir fóru burt?

Og takið nú og gjörið nýjan vagn og tvær kýr, sem kálfar ganga undir og ok hefir ekki komið á, og beitið kúnum fyrir vagninn, en takið kálfana undan þeim og farið heim með þá.

Takið síðan örk Drottins og setjið hana á vagninn, en gullgripi þá, er þér greiðið henni í sektarfórn, skuluð þér láta í kistil við hlið hennar. Látið hana síðan fara leiðar sinnar.

Og hyggið að: Ef hún fer veginn til síns lands upp til Bet Semes, þá er það hann, sem hefir látið oss þessa miklu ógæfu að höndum bera. En fari hún ekki veginn, þá vitum vér, að ekki er það hönd hans, sem hefir lostið oss; þá er það tilviljun, er oss hefir að höndum borið."

10 Og menn gjörðu svo. Þeir tóku tvær kýr, er kálfar gengu undir, og beittu þeim fyrir vagninn, en kálfana byrgðu þeir inni heima.

11 Síðan settu þeir örk Drottins á vagninn, svo og kistilinn með gullmúsunum og kýlamyndunum.

12 Og kýrnar fóru beina leið til Bet Semes. Þræddu þær brautina og bauluðu án afláts og viku hvorki til hægri né vinstri, og höfðingjar Filista fóru á eftir þeim allt að landamærum Bet Semes.

13 Bet Semes-búar voru að hveitiuppskeru í dalnum. Varð þeim nú litið upp og sáu þeir örkina, og urðu þeir fegnir að sjá hana.

14 Og vagninn kom inn á akur Jósúa í Bet Semes og nam þar staðar. En þar var stór steinn. Og þeir klufu viðinn úr vagninum og fórnuðu kúnum í brennifórn Drottni til handa.

15 En levítarnir tóku örk Drottins niður og kistilinn, sem hjá henni var og gullgripirnir voru í, og settu á stóra steininn. Og Bet Semes-búar fórnuðu brennifórnum og slátruðu sláturfórnum á þeim degi Drottni til handa.

16 Og höfðingjar Filistanna fimm sáu það og fóru þann sama dag aftur til Ekron.

Postulasagan 5:27-42

27 Þegar þeir voru komnir með þá, leiddu þeir þá fram fyrir ráðið, og æðsti presturinn tók að yfirheyra þá og sagði:

28 "Stranglega bönnuðum vér yður að kenna í þessu nafni, og nú hafið þér fyllt Jerúsalem með kenningu yðar og viljið steypa yfir oss blóði þessa manns."

29 En Pétur og hinir postularnir svöruðu: "Framar ber að hlýða Guði en mönnum.

30 Guð feðra vorra hefur upp vakið Jesú, sem þér hengduð á tré og tókuð af lífi.

31 Hann hefur Guð hafið sér til hægri handar og gjört hann að foringja og frelsara til að veita Ísrael afturhvarf og fyrirgefningu synda sinna.

32 Vér erum vottar alls þessa, og heilagur andi, sem Guð hefur gefið þeim, er honum hlýða."

33 Þegar þeir heyrðu þetta, fylltust þeir bræði og hugðust deyða þá.

34 Reis þá upp í ráðinu farísei nokkur, Gamalíel að nafni, kennari í lögmálinu, virtur af öllum lýð. Hann bauð, að mennirnir væru látnir fara út stundarkorn.

35 Síðan sagði hann: "Ísraelsmenn, athugið vel, hvað þér gjörið við þessa menn.

36 Ekki alls fyrir löngu kom Þevdas fram og þóttist vera eitthvað. Hann aðhylltust um fjögur hundruð manns. En hann var drepinn, og allir þeir, sem fylgdu honum, tvístruðust og hurfu.

37 Eftir hann kom fram Júdas frá Galíleu á dögum skrásetningarinnar og sneri fólki til fylgis við sig. Hann fórst líka, og þeir dreifðust allir, sem fylgdu honum.

38 Og nú segi ég yður: Látið þessa menn eiga sig og sleppið þeim. Sé þetta ráð eða verk frá mönnum, verður það að engu,

39 en sé það frá Guði, þá megnið þér ekki að yfirbuga þá. Eigi má það verða, að þér berjist við sjálfan Guð."

40 Þeir féllust á mál hans, kölluðu á postulana, húðstrýktu þá, fyrirbuðu þeim að tala í Jesú nafni og létu þá síðan lausa.

41 Þeir fóru burt frá ráðinu, glaðir yfir því, að þeir höfðu verið virtir þess að þola háðung vegna nafns Jesú.

42 Létu þeir eigi af að kenna dag hvern í helgidóminum og í heimahúsum og boða fagnaðarerindið um, að Jesús sé Kristur.

Lúkasarguðspjall 21:37-22:13

37 Á daginn var hann að kenna í helgidóminum, en fór og dvaldist um nætur á Olíufjallinu, sem svo er nefnt.

38 Og allt fólkið kom árla á morgnana til hans í helgidóminn að hlýða á hann.

22 Nú fór í hönd hátíð ósýrðu brauðanna, sú er nefnist páskar.

Og æðstu prestarnir og fræðimennirnir leituðu fyrir sér, hvernig þeir gætu ráðið hann af dögum, því að þeir voru hræddir við lýðinn.

Þá fór Satan í Júdas, sem kallaður var Ískaríot og var í tölu þeirra tólf.

Hann fór og ræddi við æðstu prestana og varðforingjana um það, hvernig hann skyldi framselja þeim Jesú.

Þeir urðu glaðir við og hétu honum fé fyrir.

Hann gekk að því og leitaði færis að framselja hann þeim, þegar fólkið væri fjarri.

Þegar sá dagur ósýrðu brauðanna kom, er slátra skyldi páskalambinu,

sendi Jesús þá Pétur og Jóhannes og sagði: "Farið og búið til páskamáltíðar fyrir oss."

Þeir sögðu við hann: "Hvar vilt þú, að við búum hana?"

10 En hann sagði við þá: "Þegar þið komið inn í borgina, mætir ykkur maður, sem ber vatnsker. Fylgið honum inn þangað sem hann fer,

11 og segið við húsráðandann: ,Meistarinn spyr þig: Hvar er herbergið, þar sem ég get neytt páskamáltíðarinnar með lærisveinum mínum?`

12 Hann mun þá sýna ykkur loftsal mikinn, búinn hægindum. Hafið þar viðbúnað."

13 Þeir fóru og fundu allt eins og hann hafði sagt og bjuggu til páskamáltíðar.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society