Book of Common Prayer
88 Ljóð. Kóraíta-sálmur. Til söngstjórans. Syngist með Makalat-lagi. Hemans-maskíl Esraíta.
2 Drottinn, Guð minn, ég kalla um daga, um nætur hrópa ég frammi fyrir þér.
3 Lát bæn mína koma fyrir þig, hneig eyra að hrópi mínu,
4 því að sál mín er mett orðin af böli, og líf mitt nálægist Hel.
5 Ég er talinn með þeim, sem gengnir eru til grafar, ég er sem magnþrota maður.
6 Mér er fenginn bústaður með framliðnum, eins og vegnum mönnum, er liggja í gröfinni, er þú minnist eigi framar, því að þeir eru hrifnir burt úr hendi þinni.
7 Þú hefir lagt mig í gryfju undirheima, í myrkrið niðri í djúpinu.
8 Reiði þín hvílir á mér, og alla boða þína hefir þú látið skella á mér. [Sela]
9 Þú hefir fjarlægt frá mér kunningja mína, gjört mig að andstyggð í augum þeirra. Ég er byrgður inni og kemst ekki út,
10 augu mín eru döpruð af eymd. Ég ákalla þig, Drottinn, dag hvern, breiði út hendurnar í móti þér.
11 Gjörir þú furðuverk vegna framliðinna, eða munu hinir dauðu rísa upp til þess að lofa þig? [Sela]
12 Er sagt frá miskunn þinni í gröfinni, frá trúfesti þinni í undirdjúpunum?
13 Eru furðuverk þín kunngjörð í myrkrinu eða réttlæti þitt í landi gleymskunnar?
14 En ég hrópa til þín, Drottinn, og á morgnana kemur bæn mín fyrir þig.
15 Hví útskúfar þú, Drottinn, sálu minni, hylur auglit þitt fyrir mér?
16 Ég er hrjáður og aðþrengdur frá æsku, ég ber skelfingar þínar og er ráðþrota.
17 Reiðiblossar þínir ganga yfir mig, ógnir þínar eyða mér.
18 Þær umkringja mig eins og vötn allan liðlangan daginn, lykja um mig allar saman.
19 Þú hefir fjarlægt frá mér ástvini og félaga og gjört myrkrið að kunningja mínum.
91 Sæll er sá, er situr í skjóli Hins hæsta, sá er gistir í skugga Hins almáttka,
2 sá er segir við Drottin: "Hæli mitt og háborg, Guð minn, er ég trúi á!"
3 Hann frelsar þig úr snöru fuglarans, frá drepsótt glötunarinnar,
4 hann skýlir þér með fjöðrum sínum, undir vængjum hans mátt þú hælis leita, trúfesti hans er skjöldur og verja.
5 Eigi þarft þú að óttast ógnir næturinnar, eða örina, sem flýgur um daga,
6 drepsóttina, er reikar um í dimmunni, eða sýkina, er geisar um hádegið.
7 Þótt þúsund falli þér við hlið og tíu þúsund þér til hægri handar, þá nær það ekki til þín.
8 Þú horfir aðeins á með augunum, sér hversu óguðlegum er endurgoldið.
9 Þitt hæli er Drottinn, þú hefir gjört Hinn hæsta að athvarfi þínu.
10 Engin ógæfa hendir þig, og engin plága nálgast tjald þitt.
11 Því að þín vegna býður hann út englum sínum til þess að gæta þín á öllum vegum þínum.
12 Þeir munu bera þig á höndum sér, til þess að þú steytir ekki fót þinn við steini.
13 Þú skalt stíga ofan á höggorma og nöðrur, troða fótum ljón og dreka.
14 "Af því að hann leggur ást á mig, mun ég frelsa hann, ég bjarga honum, af því að hann þekkir nafn mitt.
15 Ákalli hann mig, mun ég bænheyra hann, ég er hjá honum í neyðinni, ég frelsa hann og gjöri hann vegsamlegan.
16 Ég metta hann með fjöld lífdaga og læt hann sjá hjálpræði mitt."
92 Gott er að lofa Drottin og lofsyngja nafni þínu, þú Hinn hæsti,
2 að kunngjöra miskunn þína að morgni og trúfesti þína um nætur
3 á tístrengjað hljóðfæri og hörpu með strengjaleik gígjunnar.
4 Þú hefir glatt mig, Drottinn, með dáð þinni, yfir handaverkum þínum fagna ég.
5 Hversu mikil eru verk þín, Drottinn, harla djúpar hugsanir þínar.
6 Fíflið eitt skilur eigi, og fáráðlingurinn einn skynjar eigi þetta.
7 Þegar óguðlegir greru sem gras og allir illgjörðamennirnir blómguðust, þá var það til þess að þeir skyldu afmáðir verða að eilífu,
8 en þú sem ert á hæðum, ert til að eilífu, Drottinn.
9 Því sjá, óvinir þínir, Drottinn, því sjá, óvinir þínir farast, allir illgjörðamennirnir tvístrast.
10 En mig lætur þú bera hornið hátt eins og vísundinn, mig hressir þú með ferskri olíu.
11 Auga mitt lítur með gleði á fjandmenn mína, eyra mitt heyrir með gleði um níðingana, er rísa gegn mér.
12 Hinir réttlátu gróa sem pálminn, vaxa sem sedrustréð á Líbanon.
13 Þeir eru gróðursettir í húsi Drottins, gróa í forgörðum Guðs vors.
14 Jafnvel í hárri elli bera þeir ávöxt, þeir eru safamiklir og grænir.
15 Þeir kunngjöra, að Drottinn er réttlátur, klettur minn, sem ekkert ranglæti er hjá.
3 Sveinninn Samúel gegndi þjónustu Drottins hjá Elí. Orð frá Drottni var sjaldgæft á þeim dögum, vitranir voru þá fátíðar.
2 Þá bar svo til einn dag, að Elí svaf á sínum vanalega stað. En augu hans voru tekin að daprast, svo að hann var hættur að sjá,
3 og enn var ekki slokknað á Guðs lampa, en Samúel svaf í musteri Drottins, þar sem Guðs örk var.
4 Þá kallaði Drottinn á Samúel. Hann svaraði: "Hér er ég."
5 Og hann hljóp til Elí og sagði: "Hér er ég, því að þú kallaðir á mig." En Elí sagði: "Ég hefi ekki kallað. Far þú aftur að sofa." Fór hann þá og lagðist til svefns.
6 En Drottinn kallaði enn að nýju: "Samúel!" Og Samúel reis upp og fór til Elí og sagði: "Hér er ég, því að þú kallaðir á mig." En hann sagði: "Ég hefi ekki kallað, sonur minn. Leggst þú aftur til svefns."
7 En Samúel þekkti ekki enn Drottin, og honum hafði ekki enn birst orð frá Drottni.
8 Þá kallaði Drottinn enn á Samúel, í þriðja skiptið. Og hann reis upp og fór til Elí og sagði: "Hér er ég, því að þú kallaðir á mig." Þá skildi Elí, að það var Drottinn, sem var að kalla á sveininn.
9 Fyrir því sagði Elí við Samúel: "Far þú og leggstu til svefns, og verði nú á þig kallað, þá svara þú: ,Tala þú, Drottinn, því að þjónn þinn heyrir."` Fór Samúel þá og lagðist til svefns á sínum stað.
10 Þá kom Drottinn og gekk fram og kallaði sem hin fyrri skiptin: "Samúel! Samúel!" Og Samúel svaraði: "Tala þú, því að þjónn þinn heyrir."
11 Drottinn mælti þá við Samúel: "Þá hluti mun ég gjöra í Ísrael, að óma mun fyrir báðum eyrum allra þeirra, er það heyra.
12 Á þeim degi mun ég láta fram koma á Elí allt það, er ég hefi talað um hús hans _ frá upphafi til enda.
13 Því að ég hefi kunngjört honum, að ég muni dæma hús hans að eilífu vegna misgjörðar þeirrar, er honum var kunn, að synir hans leiddu bölvun yfir sig, og þó hafði hann ekki taum á þeim.
14 Og fyrir því hefi ég svarið húsi Elí: Sannlega skal eigi verða friðþægt fyrir misgjörð Elí húss með sláturfórn eða matfórn að eilífu."
15 Lá Samúel nú kyrr allt til morguns. Og um morguninn reis hann árla og lauk upp dyrunum á húsi Drottins. En Samúel þorði ekki að segja Elí frá sýninni.
16 Elí kallaði á Samúel og sagði: "Samúel, sonur minn!" Hann svaraði: "Hér er ég."
17 Elí sagði: "Hvað var það, sem hann talaði við þig? Leyndu mig því ekki. Guð láti þig gjalda þess nú og síðar, ef þú leynir mig nokkru af því, sem hann talaði við þig."
18 Þá sagði Samúel honum allt saman og leyndi hann engu. En Elí sagði: "Hann er Drottinn. Gjöri hann það, sem honum þóknast!"
19 Samúel óx, og Drottinn var með honum og lét ekkert af því, er hann hafði boðað, falla til jarðar.
20 Og allur Ísrael frá Dan til Beerseba kannaðist við, að Samúel væri falið að vera spámaður Drottins.
21 Og Drottinn hélt áfram að birtast í Síló, og Drottinn opinberaðist Samúel í Síló með orði sínu.
37 Er þeir heyrðu þetta, var sem stungið væri í hjörtu þeirra, og þeir sögðu við Pétur og hina postulana: "Hvað eigum vér að gjöra, bræður?"
38 Pétur sagði við þá: "Gjörið iðrun og látið skírast hver og einn í nafni Jesú Krists til fyrirgefningar synda yðar; þá munuð þér öðlast að gjöf heilagan anda.
39 Því að yður er ætlað fyrirheitið, börnum yðar og öllum þeim, sem í fjarlægð eru, öllum þeim, sem Drottinn Guð vor kallar til sín."
40 Og með öðrum fleiri orðum vitnaði hann, áminnti þá og sagði: "Látið frelsast frá þessari rangsnúnu kynslóð."
41 En þeir, sem veittu orði hans viðtöku, voru skírðir, og þann dag bættust við um þrjú þúsund sálir.
42 Þeir ræktu trúlega uppfræðslu postulanna og samfélagið, brotning brauðsins og bænirnar.
43 Ótta setti að hverjum manni, en mörg undur og tákn gjörðust fyrir hendur postulanna.
44 Allir þeir sem trúðu héldu hópinn og höfðu allt sameiginlegt.
45 Þeir seldu eignir sínar og fjármuni og skiptu meðal allra eftir því sem hver hafði þörf á.
46 Daglega komu þeir saman með einum huga í helgidóminum, þeir brutu brauð í heimahúsum, neyttu fæðu saman í fögnuði og einlægni hjartans.
47 Þeir lofuðu Guð og höfðu vinsældir af öllum. En Drottinn bætti daglega við í hópinn þeim, er frelsast létu.
5 Einhverjir höfðu orð á, að helgidómurinn væri prýddur fögrum steinum og heitgjöfum. Þá sagði Jesús:
6 "Þér horfið á þetta, en þeir dagar munu koma, að hér stendur ekki eftir steinn yfir steini, er eigi sé niður brotinn."
7 En þeir spurðu hann: "Meistari, hvenær verður þetta? Og hvert mun tákn þess, að það sé að koma fram?"
8 Hann svaraði: "Varist að láta leiða yður í villu. Margir munu koma í mínu nafni og segja: ,Það er ég!` og ,Tíminn er í nánd!` Fylgið þeim ekki.
9 En þegar þér spyrjið hernað og upphlaup, þá skelfist ekki. Þetta á undan að fara, en endirinn kemur ekki samstundis."
10 Síðan sagði hann við þá: "Þjóð mun rísa gegn þjóð og ríki gegn ríki,
11 þá verða landskjálftar miklir og drepsóttir og hungur á ýmsum stöðum, en ógnir og tákn mikil á himni.
12 En á undan öllu þessu munu menn leggja hendur á yður, ofsækja yður, færa yður fyrir samkundur og í fangelsi og draga yður fyrir konunga og landshöfðingja sakir nafns míns.
13 Þetta veitir yður tækifæri til vitnisburðar.
14 En festið það vel í huga að vera ekki fyrirfram að hugsa um, hvernig þér eigið að verjast,
15 því ég mun gefa yður orð og visku, sem engir mótstöðumenn yðar fá staðið í gegn né hrakið.
16 Jafnvel foreldrar og bræður, frændur og vinir munu framselja yður, og sumir yðar munu líflátnir.
17 Og þér munuð hataðir af öllum vegna nafns míns,
18 en ekki mun týnast eitt hár á höfði yðar.
19 Verið þrautseigir og þér munuð ávinna sálir yðar.
by Icelandic Bible Society