Book of Common Prayer
83 Ljóð. Asafs-sálmur.
2 Guð, ver eigi hljóður, ver eigi þögull og hald eigi kyrru fyrir, ó Guð!
3 Því sjá, óvinir þínir gjöra hark, og hatursmenn þínir hefja höfuðið,
4 þeir bregða á slæg ráð gegn lýð þínum, bera ráð sín saman gegn þeim er þú geymir.
5 Þeir segja: "Komið, látum oss uppræta þá, svo að þeir séu ekki þjóð framar, og nafns Ísraels verði eigi framar minnst!"
6 Því að þeir hafa einhuga borið saman ráð sín, gegn þér hafa þeir gjört bandalag:
7 Edómtjöld og Ísmaelítar, Móab og Hagrítar,
8 Gebal, Ammon og Amalek, Filistea ásamt Týrusbúum.
9 Assúr hefir einnig gjört bandalag við þá og ljær armlegg sinn Lots-sonum. [Sela]
10 Far með þá eins og Midían, eins og Sísera, eins og Jabín við Kísonlæk,
11 þeim var útrýmt hjá Endór, urðu að áburði á jörðina.
12 Gjör þá, göfugmenni þeirra, eins og Óreb og Seeb, og alla höfðingja þeirra eins og Seba og Salmúna,
13 þá er sögðu: "Vér viljum kasta eign vorri á vengi Guðs."
14 Guð vor, gjör þá sem rykmökk, sem hálmleggi fyrir vindi.
15 Eins og eldur, sem brennir skóginn, eins og logi, sem bálast upp um fjöllin,
16 svo skalt þú elta þá með ofviðri þínu, skelfa þá með fellibyl þínum.
17 Lát andlit þeirra fyllast sneypu, að þeir megi leita nafns þíns, Drottinn!
18 Lát þá verða til skammar og skelfast um aldur, lát þá sæta háðung og tortímast,
19 að þeir megi komast að raun um, að þú einn heitir Drottinn, Hinn hæsti yfir allri jörðunni.
34 Sálmur Davíðs, þá er hann gjörði sér upp vitfirringu frammi fyrir Abímelek, svo að Abímelek rak hann í burt, og hann fór burt.
2 Ég vil vegsama Drottin alla tíma, ætíð sé lof hans mér í munni.
3 Sál mín hrósar sér af Drottni, hinir hógværu skulu heyra það og fagna.
4 Miklið Drottin ásamt mér, tignum í sameiningu nafn hans.
5 Ég leitaði Drottins, og hann svaraði mér, frelsaði mig frá öllu því er ég hræddist.
6 Lítið til hans og gleðjist, og andlit yðar skulu eigi blygðast.
7 Hér er volaður maður sem hrópaði, og Drottinn heyrði hann og hjálpaði honum úr öllum nauðum hans.
8 Engill Drottins setur vörð kringum þá er óttast hann, og frelsar þá.
9 Finnið og sjáið, að Drottinn er góður, sæll er sá maður er leitar hælis hjá honum.
10 Óttist Drottin, þér hans heilögu, því að þeir er óttast hann líða engan skort.
11 Ung ljón eiga við skort að búa og svelta, en þeir er leita Drottins fara einskis góðs á mis.
12 Komið, börn, hlýðið á mig, ég vil kenna yður ótta Drottins.
13 Ef einhver óskar lífs, þráir lífdaga til þess að njóta hamingjunnar,
14 þá varðveit tungu þína frá illu og varir þínar frá svikatali,
15 forðast illt og gjörðu gott, leita friðar og legg stund á hann.
16 Augu Drottins hvíla á réttlátum, og eyru hans gefa gaum að hrópi þeirra.
17 Auglit Drottins horfir á þá er illa breyta, til þess að afmá minningu þeirra af jörðunni.
18 Ef réttlátir hrópa, þá heyrir Drottinn, úr öllum nauðum þeirra frelsar hann þá.
19 Drottinn er nálægur þeim er hafa sundurmarið hjarta, þeim er hafa sundurkraminn anda, hjálpar hann.
20 Margar eru raunir réttláts manns, en Drottinn frelsar hann úr þeim öllum.
21 Hann gætir allra beina hans, ekki eitt af þeim skal brotið.
22 Ógæfa drepur óguðlegan mann, þeir er hata hinn réttláta, skulu sekir dæmdir.
23 Drottinn frelsar líf þjóna sinna, enginn sá er leitar hælis hjá honum, mun sekur dæmdur.
85 Til söngstjórans. Kóraíta-sálmur.
2 Þú hefir haft þóknun á landi þínu, Drottinn, snúið við hag Jakobs,
3 þú hefir fyrirgefið misgjörð lýðs þíns, hulið allar syndir þeirra. [Sela]
4 Þú hefir dregið að þér alla bræði þína, látið af heiftarreiði þinni.
5 Snú þér til vor aftur, þú Guð hjálpræðis vors, og lát af gremju þinni í gegn oss.
6 Ætlar þú að vera oss reiður um eilífð, láta reiði þína haldast við frá kyni til kyns?
7 Vilt þú eigi láta oss lifna við aftur, svo að lýður þinn megi gleðjast yfir þér?
8 Lát oss, Drottinn, sjá miskunn þína og veit oss hjálpræði þitt!
9 Ég vil hlýða á það sem Guð Drottinn talar. Hann talar frið til lýðs síns og til dýrkenda sinna og til þeirra, er snúa hjarta sínu til hans.
10 Já, hjálp hans er nálæg þeim er óttast hann, og vegsemdir munu búa í landi voru.
11 Elska og trúfesti mætast, réttlæti og friður kyssast.
12 Trúfesti sprettur upp úr jörðunni, og réttlæti lítur niður af himni.
13 Þá gefur og Drottinn gæði, og land vort veitir afurðir sínar.
14 Réttlæti fer fyrir honum, og friður fylgir skrefum hans.
86 Davíðs-bæn. Hneig eyra þitt, Drottinn, og bænheyr mig, því að ég er hrjáður og snauður.
2 Vernda líf mitt, því að ég er helgaður þér, hjálpa þú, Guð minn, þjóni þínum, er treystir þér.
3 Ver mér náðugur, Drottinn, því þig ákalla ég allan daginn.
4 Gleð þú sál þjóns þíns, því að til þín, Drottinn, hef ég sál mína.
5 Þú, Drottinn, ert góður og fús til að fyrirgefa, gæskuríkur öllum þeim er ákalla þig.
6 Hlýð, Drottinn, á bæn mína og gef gaum grátbeiðni minni.
7 Þegar ég er í nauðum staddur ákalla ég þig, því að þú bænheyrir mig.
8 Enginn er sem þú meðal guðanna, Drottinn, og ekkert er sem þín verk.
9 Allar þjóðir, er þú hefir skapað, munu koma og falla fram fyrir þér, Drottinn, og tigna nafn þitt.
10 Því að þú ert mikill og gjörir furðuverk, þú einn, ó Guð!
11 Vísa mér veg þinn, Drottinn, lát mig ganga í sannleika þínum, gef mér heilt hjarta, að ég tigni nafn þitt.
12 Ég vil lofa þig, Drottinn, Guð minn, af öllu hjarta og heiðra nafn þitt að eilífu,
13 því að miskunn þín er mikil við mig, og þú hefir frelsað sál mína frá djúpi Heljar.
14 Ofstopamenn hefjast gegn mér, ó Guð, og hópur ofríkismanna sækist eftir lífi mínu, eigi hafa þeir þig fyrir augum.
15 En þú, Drottinn, ert miskunnsamur og líknsamur Guð, þolinmóður og gæskuríkur og harla trúfastur.
16 Snú þér að mér og ver mér náðugur, veit þjóni þínum kraft þinn og hjálpa syni ambáttar þinnar.
17 Gjör þú tákn til góðs fyrir mig, að hatursmenn mínir megi horfa á það sneyptir, að þú, Drottinn, hjálpar mér og huggar mig.
27 Guðsmaður einn kom til Elí og sagði við hann: "Svo segir Drottinn: Ég opinberaði mig ættmönnum föður þíns, þá er þeir heyrðu til húsi Faraós í Egyptalandi,
28 og ég valdi mér þá fyrir presta úr öllum ættkvíslum Ísraels, til þess að þeir gengju upp að altari mínu til að færa reykelsisfórn og bæru hökul frammi fyrir mér, og ég hefi gefið húsi föður þíns allar eldfórnir Ísraelsmanna.
29 Hvers vegna fótum troðið þér sláturfórnir mínar og matfórnir, sem ég hefi fyrirskipað í bústað mínum? Og þú metur sonu þína meira en mig, er þér feitið yður á hinu besta af öllum fórnum Ísraels, lýðs míns!
30 Fyrir því segir Drottinn, Ísraels Guð: Ég hefi sagt: ,Þitt hús og hús föður þíns skal ganga fyrir augliti mínu eilíflega.` En nú segir Drottinn: Það sé fjarri mér. Því að ég heiðra þá, sem mig heiðra, en þeir, sem fyrirlíta mig, munu til skammar verða.
31 Sjá, þeir tímar munu koma, að ég sundurbrýt arm þinn og arm ættar þinnar, svo að enginn verður gamall í húsi þínu.
32 Og þú munt sjá ofsjónum yfir þeirri farsæld, sem Ísrael mun hlotnast, og aldrei framar skal nokkur verða gamall í húsi þínu.
33 En einum af þínum vil ég eigi útrýma frá altari mínu. En ég mun láta augu þín daprast og sálu þína örmagnast, og öll viðkoma húss þíns skal falla fyrir sverði manna.
34 Og þetta skal vera þér merkið, sem koma mun fram á báðum sonum þínum, Hofní og Pínehas: Á sama degi munu þeir báðir deyja.
35 En ég mun skipa mér til handa trúan prest, og hann mun gjöra að mínum vilja og mínu skapi. Honum mun ég reisa stöðugt hús, og hann skal ganga fyrir augliti míns smurða alla daga.
36 Þá mun það verða, að hver sá, sem eftir er í húsi þínu, mun koma til að lúta honum til þess að fá smáskilding eða brauðhleif, og segja: ,Kom þú mér niður við eitthvert prestsembættið, svo að ég fái brauðbita að eta."`
22 Ísraelsmenn, heyrið þessi orð: Jesús frá Nasaret var maður, sem Guð sannaði yður með kraftaverkum, undrum og táknum, er Guð lét hann gjöra meðal yðar, eins og þér sjálfir vitið.
23 Hann var framseldur að fyrirhuguðu ráði Guðs og fyrirvitund, og þér létuð heiðna menn negla hann á kross og tókuð hann af lífi.
24 En Guð leysti hann úr nauðum dauðans og reisti hann upp, enda gat það aldrei orðið, að dauðinn fengi haldið honum,
25 því að Davíð segir um hann: Ávallt hafði ég Drottin fyrir augum mér, því að hann er mér til hægri hliðar, til þess að ég bifist ekki.
26 Fyrir því gladdist hjarta mitt, og tunga mín fagnaði. Meira að segja mun líkami minn hvílast í von.
27 Því að ekki munt þú skilja sálu mína eftir í helju og eigi láta þinn heilaga verða rotnun að bráð.
28 Kunna gjörðir þú mér lífsins vegu. Þú munt mig fögnuði fylla fyrir þínu augliti.
29 Bræður, óhikað get ég við yður talað um ættföðurinn Davíð. Hann dó og var grafinn, og leiði hans er til hér allt til þessa dags.
30 En hann var spámaður og vissi, að Guð hafði með eiði heitið honum að setja í hásæti hans einhvern niðja hans.
31 Því sá hann fyrir upprisu Krists og sagði: Ekki varð hann eftir skilinn í helju, og ekki varð líkami hans rotnun að bráð.
32 Þennan Jesú reisti Guð upp, og erum vér allir vottar þess.
33 Nú er hann upp hafinn til Guðs hægri handar og hefur af föðurnum tekið við heilögum anda, sem fyrirheitið var, og úthellt honum, eins og þér sjáið og heyrið.
34 Ekki steig Davíð upp til himna, en hann segir: Drottinn sagði við minn drottin: Set þig mér til hægri handar,
35 þangað til ég gjöri óvini þína að fótskör þinni.
36 Með öruggri vissu viti þá öll Ísraels ætt, að þennan Jesú, sem þér krossfestuð, hefur Guð gjört bæði að Drottni og Kristi."
41 Hann sagði við þá: "Hvernig geta menn sagt, að Kristur sé sonur Davíðs?
42 Davíð segir sjálfur í sálmunum: Drottinn sagði við minn drottin: Set þig mér til hægri handar,
43 þangað til ég gjöri óvini þína að fótskör þinni.
44 Davíð kallar hann drottin, hvernig getur hann þá verið sonur hans?"
45 Í áheyrn alls lýðsins sagði hann við lærisveina sína:
46 "Varist fræðimennina, sem fýsir að ganga í síðskikkjum og er ljúft að láta heilsa sér á torgum, vilja skipa æðsta bekk í samkundum og hefðarsæti í veislum.
47 Þeir eta upp heimili ekkna og flytja langar bænir að yfirskini. Þeir munu fá því þyngri dóm."
21 Þá leit hann upp og sá auðmenn leggja gjafir sínar í fjárhirsluna.
2 Hann sá og ekkju eina fátæka leggja þar tvo smápeninga.
3 Þá sagði hann: "Ég segi yður með sanni, þessi fátæka ekkja gaf meira en allir hinir.
4 Hinir allir lögðu í sjóðinn af allsnægtum sínum, en hún gaf af skorti sínum, alla björg sína."
by Icelandic Bible Society