Book of Common Prayer
97 Hve mjög elska ég lögmál þitt, allan liðlangan daginn íhuga ég það.
98 Boð þín hafa gjört mig vitrari en óvinir mínir eru, því að þau heyra mér til um eilífð.
99 Ég er hyggnari en allir kennarar mínir, því að ég íhuga reglur þínar.
100 Ég er skynsamari en öldungar, því að ég held fyrirmæli þín.
101 Ég held fæti mínum frá hverjum vondum vegi til þess að gæta orðs þíns.
102 Frá ákvæðum þínum hefi ég eigi vikið, því að þú hefir frætt mig.
103 Hversu sæt eru fyrirheit þín gómi mínum, hunangi betri munni mínum.
104 Af fyrirmælum þínum er ég skynsamur orðinn, fyrir því hata ég sérhvern lygaveg.
105 Þitt orð er lampi fóta minna og ljós á vegum mínum.
106 Ég hefi svarið og haldið það að varðveita þín réttlátu ákvæði.
107 Ég er mjög beygður, Drottinn, lát mig lífi halda eftir orði þínu.
108 Haf þóknun á sjálfviljafórnum munns míns, Drottinn, og kenn mér ákvæði þín.
109 Líf mitt er ætíð í hættu, en þínu lögmáli hefi ég eigi gleymt.
110 Óguðlegir hafa lagt snöru fyrir mig, en ég hefi eigi villst frá fyrirmælum þínum.
111 Reglur þínar eru eign mín um aldur, því að þær eru yndi hjarta míns.
112 Ég hneigi hjarta mitt að því að breyta eftir lögum þínum, um aldur og allt til enda.
113 Ég hata þá, er haltra til beggja hliða, en lögmál þitt elska ég.
114 Þú ert skjól mitt og skjöldur, ég vona á orð þitt.
115 Burt frá mér, þér illgjörðamenn, að ég megi halda boð Guðs míns.
116 Styð mig samkvæmt fyrirheiti þínu, að ég megi lifa, og lát mig eigi til skammar verða í von minni.
117 Styð þú mig, að ég megi frelsast og ætíð líta til laga þinna.
118 Þú hafnar öllum þeim, er villast frá lögum þínum, því að svik þeirra eru til einskis.
119 Sem sora metur þú alla óguðlega á jörðu, þess vegna elska ég reglur þínar.
120 Hold mitt nötrar af hræðslu fyrir þér, og dóma þína óttast ég.
81 Til söngstjórans. Á gittít. Asafs-sálmur.
2 Fagnið fyrir Guði, styrkleika vorum, látið gleðióp gjalla Guði Jakobs.
3 Hefjið lofsöng og berjið bumbur, knýið hinar hugljúfu gígjur og hörpur.
4 Þeytið lúðurinn á tunglkomudögum, við tunglfylling á hátíðisdegi vorum.
5 Því að þetta eru lög fyrir Ísrael, boðorð Jakobs Guðs.
6 Hann gjörði það að reglu í Jósef, þá er hann fór út í móti Egyptalandi. Ég heyri mál, sem ég þekki eigi:
7 "Ég hefi losað herðar hans við byrðina, hendur hans eru sloppnar við burðarkörfuna.
8 Þú kallaðir í neyðinni, og ég frelsaði þig, ég bænheyrði þig í þrumuskýi, reyndi þig hjá Meríbavötnum. [Sela]
9 Heyr, lýður minn, að ég megi áminna þig, ó, að þú, Ísrael, vildir heyra mig!
10 Enginn annar guð má vera meðal þín, og engan útlendan guð mátt þú tilbiðja.
11 Ég er Drottinn, Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi, opna munn þinn, að ég megi seðja þig.
12 En lýður minn heyrði eigi raust mína, og Ísrael var mér eigi auðsveipur.
13 Þá sleppti ég þeim í þrjósku hjartna þeirra, þeir fengu að ganga eftir eigin geðþótta.
14 Ó, að lýður minn vildi heyra mig, Ísrael ganga á mínum vegum,
15 þá skyldi ég skjótt lægja óvini þeirra, og snúa hendi minni gegn fjendum þeirra.
16 Hatursmenn Drottins skyldu hræsna fyrir honum og ógæfutími þeirra vara að eilífu.
17 Ég skyldi gefa þér hið kjarnbesta hveiti að eta og seðja þig á hunangi úr klettunum."
82 Asafs-sálmur. Guð stendur á guðaþingi, heldur dóm mitt á meðal guðanna:
2 "Hversu lengi ætlið þér að dæma með rangsleitni og draga taum hinna óguðlegu? [Sela]
3 Rekið réttar bágstaddra og föðurlausra, látið hinn þjáða og fátæka ná rétti sínum,
4 bjargið bágstöddum og snauðum, frelsið þá af hendi óguðlegra."
5 Þeir hafa eigi skyn né skilning, þeir ráfa í myrkri, allar undirstöður jarðarinnar riða.
6 Ég hefi sagt: "Þér eruð guðir og allir saman synir Hins hæsta,
7 en sannlega skuluð þér deyja sem menn, falla sem einn af höfðingjunum."
8 Rís upp, ó Guð, dæm þú jörðina, því að þú ert erfðahöfðingi yfir öllum þjóðum.
12 Synir Elí voru hrakmenni. Þeir skeyttu ekki um Drottin,
13 né hvað prestinum bar með réttu af hálfu lýðsins. Hvenær sem einhver færði sláturfórn, þá kom sveinn prestsins, meðan verið var að sjóða kjötið, með þrítenntan fork í hendinni
14 og rak hann ofan í ketilinn, eða pottinn eða suðupönnuna eða grýtuna, og allt sem upp kom á forkinum, það tók presturinn handa sér. Svo fóru þeir með alla Ísraelsmenn, sem komu þangað til Síló.
15 Meira að segja, áður en fitan var brennd, kom sveinn prestsins og sagði við þann, sem fórnaði: "Gef mér kjöt til þess að steikja handa prestinum. Hann vill ekki taka við soðnu kjöti af þér, heldur hráu."
16 Segði maðurinn þá við hann: "Fyrst verður þó að brenna fituna; tak síðan slíkt er þú girnist!" þá svaraði hann: "Nei, heldur skalt þú gefa það nú þegar, ella mun ég taka það með valdi."
17 Synd hinna ungu manna var mjög mikil frammi fyrir Drottni, því að þeir lítilsvirtu fórn Drottins.
18 En Samúel gegndi þjónustu frammi fyrir Drottni sem ungur sveinn, skrýddur línhökli.
19 Og móðir hans var vön að gjöra honum lítinn möttul og færði honum hann á ári hverju, þá er hún kom með manni sínum til þess að færa hina árlegu fórn.
20 Þá blessaði Elí Elkana og konu hans og sagði: "Drottinn gefi þér afkvæmi við þessari konu í stað hans, er léður var Drottni." Síðan fóru þau heim til sín.
21 Og Drottinn vitjaði Hönnu, og hún varð þunguð og fæddi þrjá sonu og tvær dætur. En sveinninn Samúel óx upp hjá Drottni.
22 Elí gjörðist mjög gamall og heyrði allt um það, hvernig synir hans fóru með allan Ísrael og að þeir legðust með konum þeim, sem gegndu þjónustu við dyr samfundatjaldsins.
23 Og hann sagði við þá: "Hvers vegna hegðið þið ykkur svo? Því að ég hefi heyrt allan þennan lýð tala um illt athæfi ykkar.
24 Eigi má svo vera, synir mínir! Það er ekki fallegur orðrómur, sem ég heyri lýð Drottins vera að breiða út.
25 Syndgi maður á móti öðrum manni, þá sker Guð úr, en syndgi maður móti Drottni, hver má þá biðja honum líknar?" En þeir hlýddu ekki orðum föður síns, því að Drottinn vildi deyða þá.
26 En sveinninn Samúel óx og þroskaðist og varð æ þekkari bæði Drottni og mönnum.
2 Þá er upp var runninn hvítasunnudagur, voru þeir allir saman komnir.
2 Varð þá skyndilega gnýr af himni eins og aðdynjanda sterkviðris og fyllti allt húsið, þar sem þeir voru.
3 Þeim birtust tungur, eins og af eldi væru, er kvísluðust og settust á hvern og einn þeirra.
4 Þeir fylltust allir heilögum anda og tóku að tala öðrum tungum, eins og andinn gaf þeim að mæla.
5 Í Jerúsalem dvöldust Gyðingar, guðræknir menn, frá öllum löndum undir himninum.
6 Er þetta hljóð heyrðist, dreif að fjölda manns. Þeim brá mjög við, því að hver og einn heyrði þá mæla á sína tungu.
7 Þeir voru frá sér af undrun og sögðu: "Eru þetta ekki allt Galíleumenn, sem hér eru að tala?
8 Hvernig má það vera, að vér, hver og einn, heyrum þá tala vort eigið móðurmál?
9 Vér erum Partar, Medar og Elamítar, vér erum frá Mesópótamíu, Júdeu, Kappadókíu, Pontus og Asíu,
10 frá Frýgíu og Pamfýlíu, Egyptalandi og Líbýubyggðum við Kýrene, og vér, sem hingað erum fluttir frá Róm.
11 Hér eru bæði Gyðingar og þeir sem tekið hafa trú Gyðinga, Kríteyingar og Arabar. Vér heyrum þá tala á vorum tungum um stórmerki Guðs."
12 Þeir voru allir furðu lostnir og ráðalausir og sögðu hver við annan: "Hvað getur þetta verið?"
13 En aðrir höfðu að spotti og sögðu: "Þeir eru drukknir af sætu víni."
14 Þá steig Pétur fram og þeir ellefu, og hann hóf upp rödd sína og mælti til þeirra: "Gyðingar og allir þér Jerúsalembúar! Þetta skuluð þér vita. Ljáið eyru orðum mínum.
15 Eigi eru þessir menn drukknir, eins og þér ætlið, enda aðeins komin dagmál.
16 Hér er að rætast það, sem spámaðurinn Jóel segir:
17 Það mun verða á efstu dögum, segir Guð, að ég mun úthella anda mínum yfir alla menn. Synir yðar og dætur munu spá, ungmenni yðar munu sjá sýnir og gamalmenni yðar mun drauma dreyma.
18 Jafnvel yfir þræla mína og ambáttir mínar mun ég á þeim dögum úthella anda mínum, og þau munu spá.
19 Og ég mun láta undur verða á himnum uppi og tákn á jörðu niðri, blóð og eld og reykjarmökk.
20 Sólin mun snúast í myrkur og tunglið í blóð, áður dagur Drottins kemur, hinn mikli og dýrlegi.
21 En hver sá, sem ákallar nafn Drottins, mun frelsast.
27 Þá komu nokkrir saddúkear, en þeir neita því, að upprisa sé til, og sögðu við hann:
28 "Meistari, Móse segir oss í ritningunum, að deyi maður kvæntur, en barnlaus, skuli bróðir hans ganga að eiga ekkjuna og vekja honum niðja.
29 Nú voru sjö bræður. Sá fyrsti tók sér konu og dó barnlaus.
30 Gekk þá annar bróðirinn
31 og síðan hinn þriðji að eiga hana og eins allir sjö, og létu þeir engin börn eftir sig, er þeir dóu.
32 Síðast dó og konan.
33 Kona hvers þeirra verður hún í upprisunni? Allir sjö höfðu þeir átt hana."
34 Jesús svaraði þeim: "Börn þessarar aldar kvænast og giftast,
35 en þeir sem verðir þykja að fá hlutdeild í komandi veröld og upprisunni frá dauðum, kvænast hvorki né giftast.
36 Þeir geta ekki heldur dáið framar, þeir eru englum jafnir og börn Guðs, enda börn upprisunnar.
37 En að dauðir rísi upp, það hefur jafnvel Móse sýnt í sögunni um þyrnirunninn, er hann kallar ,Drottin Guð Abrahams, Guð Ísaks og Guð Jakobs.`
38 Ekki er hann Guð dauðra, heldur lifenda, því að honum lifa allir."
39 Þá sögðu nokkrir fræðimannanna: "Vel mælt, meistari."
40 En þeir þorðu ekki framar að spyrja hann neins.
by Icelandic Bible Society