Book of Common Prayer
80 Til söngstjórans. Liljulag. Asafs-vitnisburður. Sálmur.
2 Hirðir Ísraels, hlýð á, þú sem leiddir Jósef eins og hjörð, þú sem ríkir uppi yfir kerúbunum, birst þú í geisladýrð.
3 Tak á mætti þínum frammi fyrir Efraím, Benjamín og Manasse og kom oss til hjálpar!
4 Guð, snú oss til þín aftur og lát ásjónu þína lýsa, að vér megum frelsast.
5 Drottinn, Guð hersveitanna, hversu lengi ætlar þú að vera reiður þrátt fyrir bænir lýðs þíns?
6 Þú hefir gefið þeim tárabrauð að eta og fært þeim gnægð tára að drekka.
7 Þú hefir gjört oss að þrætuefni nágranna vorra, og óvinir vorir gjöra gys að oss.
8 Guð hersveitanna leið oss aftur til þín og lát ásjónu þína lýsa, að vér megum frelsast.
9 Þú kipptir upp vínvið úr Egyptalandi, stökktir burt þjóðum, en gróðursettir hann,
10 þú rýmdir til fyrir honum, hann festi rætur og fyllti landið.
11 Fjöllin huldust í skugga hans og sedrustré Guðs af greinum hans.
12 Hann breiddi út álmur sínar til hafsins og teinunga sína til Fljótsins.
13 Hví hefir þú brotið niður múrveggina um hann, svo að allir vegfarendur tína berin?
14 Skógargeltirnir naga hann, og öll dýr merkurinnar bíta hann.
15 Guð hersveitanna, æ, snú þú aftur, lít niður af himni og sjá og vitja vínviðar þessa
16 og varðveit það sem hægri hönd þín hefir plantað, og son þann, er þú hefir styrkvan gjört þér til handa.
17 Hann er brenndur í eldi og upphöggvinn, fyrir ógnun auglitis þíns farast þeir.
18 Lát hönd þína hvíla yfir manninum við þína hægri hönd, yfir mannsins barni, er þú hefir styrkvan gjört þér til handa,
19 þá skulum vér eigi víkja frá þér. Viðhald lífi voru, þá skulum vér ákalla nafn þitt.
20 Drottinn, Guð hersveitanna, snú oss til þín aftur, lát ásjónu þína lýsa, að vér megum frelsast.
77 Til söngstjórans. Fyrir Jedútún. Asafs-sálmur.
2 Ég kalla til Guðs og hrópa, kalla til Guðs, að hann megi heyra til mín.
3 Þegar ég er í nauðum, leita ég Drottins, rétti út hendur mínar um nætur og þreytist ekki, sál mín er óhuggandi.
4 Ég minnist Guðs og kveina, ég styn, og andi minn örmagnast. [Sela]
5 Þú heldur uppi augnalokum mínum, mér er órótt og ég má eigi mæla.
6 Ég íhuga fyrri daga, ár þau sem löngu eru liðin,
7 ég minnist strengjaleiks míns um nætur, ég hugleiði í hjarta mínu, og andi minn rannsakar.
8 Mun Drottinn þá útskúfa um eilífð og aldrei framar vera náðugur?
9 Er miskunn hans lokið um eilífð, fyrirheit hans þrotin um aldir alda?
10 Hefir Guð gleymt að sýna líkn, byrgt miskunn sína með reiði? [Sela]
11 Þá sagði ég: "Þetta er kvöl mín, að hægri hönd Hins hæsta hefir brugðist."
12 Ég víðfrægi stórvirki Drottins, ég vil minnast furðuverka þinna frá fyrri tíðum,
13 ég íhuga allar athafnir þínar, athuga stórvirki þín.
14 Guð, helgur er vegur þinn, hver er svo mikill Guð sem Drottinn?
15 Þú ert Guð, sá er furðuverk gjörir, þú hefir kunngjört mátt þinn meðal þjóðanna.
16 Með máttugum armlegg frelsaðir þú lýð þinn, sonu Jakobs og Jósefs. [Sela]
17 Vötnin sáu þig, ó Guð, vötnin sáu þig og skelfdust, og undirdjúpin skulfu.
18 Vatnið streymdi úr skýjunum, þrumuraust drundi úr skýþykkninu, og örvar þínar flugu.
19 Reiðarþrumur þínar kváðu við, leiftur lýstu um jarðríki, jörðin skalf og nötraði.
20 Leið þín lá gegnum hafið, stígar þínir gegnum mikil vötn, og spor þín urðu eigi rakin.
21 Þú leiddir lýð þinn eins og hjörð fyrir Móse og Aron.
79 Asafs-sálmur. Guð, heiðingjar hafa brotist inn í óðal þitt, þeir hafa saurgað þitt heilaga musteri og lagt Jerúsalem í rústir.
2 Þeir hafa gefið lík þjóna þinna fuglum himins að fæðu og villidýrunum hold dýrkenda þinna.
3 Þeir hafa úthellt blóði þeirra sem vatni umhverfis Jerúsalem, og enginn jarðaði þá.
4 Vér erum til háðungar nábúum vorum, til spotts og athlægis þeim er búa umhverfis oss.
5 Hversu lengi, Drottinn, ætlar þú að vera reiður, á vandlæti þitt að brenna sem eldur án afláts?
6 Hell þú reiði þinni yfir heiðingjana, sem eigi þekkja þig, og yfir konungsríki, er eigi ákalla nafn þitt.
7 Því að þeir hafa uppetið Jakob og lagt bústað hans í eyði.
8 Lát oss eigi gjalda misgjörða forfeðra vorra, lát miskunn þína fljótt koma í móti oss, því að vér erum mjög þjakaðir.
9 Hjálpa þú oss, Guð hjálpræðis vors, sakir dýrðar nafns þíns, frelsa oss og fyrirgef syndir vorar sakir nafns þíns.
10 Hví eiga heiðingjarnir að segja: "Hvar er Guð þeirra?" Lát fyrir augum vorum kunna verða á heiðingjunum hefndina fyrir úthellt blóð þjóna þinna.
11 Lát andvörp bandingjanna koma fram fyrir þig, leys þá sem komnir eru í dauðann, með þínum sterka armlegg,
12 og gjald nágrönnum vorum sjöfalt háðungina er þeir hafa sýnt þér, Drottinn.
13 En vér, lýður þinn og gæsluhjörð þín, munum lofa þig um eilífð, kunngjöra lofstír þinn frá kyni til kyns.
1 Maður er nefndur Elkana. Hann var frá Ramataím-Sófím, frá Efraímfjöllum; hann var sonur Jeróhams Elíhúsonar, Tóhúsonar, Súfssonar Efraímíta.
2 Elkana átti tvær konur. Hét önnur Hanna, en hin Peninna. Peninna átti börn, en Hanna átti engin börn.
3 Þessi maður fór á ári hverju úr borg sinni til þess að biðjast fyrir og til þess að færa Drottni allsherjar fórnir í Síló. En þar voru báðir synir Elí, Hofní og Pínehas, prestar Drottins.
4 Í hvert sinn er Elkana fórnaði, þá gaf hann Peninnu, konu sinni, og öllum sonum hennar og dætrum sinn hlut hverju.
5 Hann gaf Hönnu ekki nema einn hlut, þótt hann elskaði hana, en Drottinn hafði lokað móðurkviði hennar.
6 Elja hennar skapraunaði henni einnig til þess að reita hana til reiði, af því að Drottinn hafði lokað móðurkviði hennar.
7 Svo gjörði Elkana ár eftir ár, í hvert skipti sem þau fóru upp til húss Drottins, og þannig skapraunaði hún henni. Hanna grét og neytti eigi matar.
8 Þá sagði Elkana, maður hennar, við hana: "Hanna, hví grætur þú og hví neytir þú eigi matar og hví liggur svo illa á þér? Er ég þér ekki betri en tíu synir?"
9 Og Hanna stóð upp, þá er þau höfðu etið í Síló og þá er þau höfðu drukkið. En Elí prestur sat á stól við dyrastafinn á musteri Drottins.
10 Hanna var sárhrygg. Hún bað til Drottins og grét mjög,
11 gjörði heit og mælti: "Drottinn allsherjar! Ef þú lítur á eymd ambáttar þinnar og minnist mín og gleymir eigi ambátt þinni og gefur ambátt þinni son, þá skal ég gefa hann Drottni alla daga ævi hans, og eigi skal rakhnífur koma á höfuð honum."
12 Er hún gjörði lengi bæn sína fyrir augliti Drottins, og Elí tók eftir munni hennar, _
13 en Hanna mæltist fyrir í hljóði; bærðust aðeins varirnar, en rödd hennar heyrðist ekki _, þá hélt Elí, að hún væri drukkin.
14 Þá sagði Elí við hana: "Hversu lengi ætlar þú að láta sjá þig drukkna? Láttu vímuna renna af þér!"
15 Hanna svaraði og sagði: "Nei, herra minn, ég er kona með hryggð í hjarta. Vín hefi ég ekki drukkið né áfengan drykk, en ég hefi úthellt hjarta mínu fyrir Drottni.
16 Ætla þú eigi, að ambátt þín sé afhrak, því að af mínum mikla harmi og trega hefi ég talað hingað til."
17 Elí svaraði og sagði: "Far þú í friði. Ísraels Guð mun veita þér það, er þú hefir beðið hann um."
18 Hanna mælti: "Ó að ambátt þín mætti finna náð í augum þínum!" Síðan fór konan leiðar sinnar og mataðist og var eigi framar með döpru bragði.
19 Morguninn eftir risu þau árla og gjörðu bæn sína fyrir augliti Drottins, sneru síðan aftur og komu heim til Rama. Og Elkana kenndi Hönnu konu sinnar, og Drottinn minntist hennar.
20 Og er ár var liðið, hafði Hanna orðið þunguð og alið son, og hún nefndi hann Samúel, "því að ég hefi beðið Drottin um hann."
1 Fyrri sögu mína, Þeófílus, samdi ég um allt, sem Jesús gjörði og kenndi frá upphafi,
2 allt til þess dags, er hann gaf postulunum, sem hann hafði valið, fyrirmæli sín fyrir heilagan anda og varð upp numinn.
3 Þeim birti hann sig lifandi eftir písl sína með mörgum órækum kennimerkjum, lét þá sjá sig í fjörutíu daga og talaði um Guðs ríki.
4 Er hann var með þeim, bauð hann þeim að fara ekki burt úr Jerúsalem, heldur bíða eftir fyrirheiti föðurins, "sem þér," sagði hann, "hafið heyrt mig tala um.
5 Því að Jóhannes skírði með vatni, en þér skuluð skírðir verða með heilögum anda, nú innan fárra daga."
6 Meðan þeir voru saman, spurðu þeir hann: "Herra, ætlar þú á þessum tíma að endurreisa ríkið handa Ísrael?"
7 Hann svaraði: "Ekki er það yðar að vita tíma eða tíðir, sem faðirinn setti af sjálfs sín valdi.
8 En þér munuð öðlast kraft, er heilagur andi kemur yfir yður, og þér munuð verða vottar mínir í Jerúsalem og allri Júdeu, í Samaríu og allt til endimarka jarðarinnar."
9 Þegar hann hafði þetta mælt, varð hann upp numinn að þeim ásjáandi, og ský huldi hann sjónum þeirra.
10 Er þeir störðu til himins á eftir honum, þegar hann hvarf, þá stóðu hjá þeim allt í einu tveir menn í hvítum klæðum
11 og sögðu: "Galíleumenn, hví standið þér og horfið til himins? Þessi Jesús, sem varð upp numinn frá yður til himins, mun koma á sama hátt og þér sáuð hann fara til himins."
12 Þá sneru þeir aftur til Jerúsalem frá Olíufjallinu, sem svo er nefnt og er í nánd við Jerúsalem, hvíldardagsleið þaðan.
13 Er þeir komu þangað, fóru þeir upp í loftstofuna, þar sem þeir dvöldust: Pétur og Jóhannes, Jakob og Andrés, Filippus, Tómas, Bartólómeus, Matteus, Jakob Alfeusson, Símon vandlætari og Júdas Jakobsson.
14 Allir þessir voru með einum huga stöðugir í bæninni ásamt konunum. María, móðir Jesú, var líka með þeim og bræður hans.
9 Og hann tók að segja lýðnum dæmisögu þessa: "Maður nokkur plantaði víngarð og seldi hann vínyrkjum á leigu, fór síðan úr landi til langdvala.
10 Á settum tíma sendi hann þjón til vínyrkjanna, að þeir fengju honum hlut af ávexti víngarðsins, en vínyrkjarnir börðu hann og sendu burt tómhentan.
11 Aftur sendi hann annan þjón. Þeir börðu hann einnig og svívirtu og sendu burt tómhentan.
12 Og enn sendi hann hinn þriðja, en þeir veittu honum einnig áverka og köstuðu honum út.
13 Þá sagði eigandi víngarðsins: ,Hvað á ég að gjöra? Ég sendi son minn elskaðan. Má vera, þeir virði hann.`
14 En er vínyrkjarnir sáu hann, báru þeir saman ráð sín og sögðu: ,Þetta er erfinginn. Drepum hann, þá fáum vér arfinn.`
15 Og þeir köstuðu honum út fyrir víngarðinn og drápu hann. Hvað mun nú eigandi víngarðsins gjöra við þá?
16 Hann mun koma, tortíma vínyrkjum þessum og fá öðrum víngarðinn." Þegar þeir heyrðu þetta, sögðu þeir: "Verði það aldrei."
17 Jesús horfði á þá og mælti: "Hvað merkir þá ritning þessi: Sá steinn, sem smiðirnir höfnuðu, er orðinn hyrningarsteinn?
18 Hver sem fellur á þennan stein, mun sundur molast, og þann sem hann fellur á, mun hann sundur merja."
19 Fræðimennirnir og æðstu prestarnir vildu leggja hendur á hann á sömu stundu, en óttuðust lýðinn. Þeir skildu, að hann átti við þá með dæmisögu þessari.
by Icelandic Bible Society