Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 70-71

70 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Minningarljóð.

Guð, lát þér þóknast að frelsa mig, Drottinn, skunda mér til hjálpar.

Lát þá verða til skammar og hljóta kinnroða, er sitja um líf mitt, lát þá hverfa aftur með skömm, er óska mér ógæfu.

Lát þá hörfa undan sakir smánar sinnar, er hrópa háð og spé.

En allir þeir er leita þín, skulu gleðjast og fagna yfir þér, þeir er unna hjálpræði þínu, skulu sífellt segja: "Vegsamaður sé Guð!"

Ég er þjáður og snauður, hraða þér til mín, ó Guð. Þú ert fulltingi mitt og frelsari, dvel eigi, Drottinn!

71 Hjá þér, Drottinn, leita ég hælis, lát mig aldrei verða til skammar.

Frelsa mig og bjarga mér eftir réttlæti þínu, hneig eyru þín til mín og hjálpa mér.

Ver mér verndarbjarg, vígi mér til hjálpar, því að þú ert bjarg mitt og vígi.

Guð minn, bjarga mér úr hendi illgjarnra, undan valdi illvirkja og harðstjóra.

Því að þú ert von mín, þú, Drottinn, ert athvarf mitt frá æsku.

Við þig hefi ég stuðst frá móðurlífi, frá móðurskauti hefir þú verið skjól mitt, um þig hljómar ætíð lofsöngur minn.

Ég er mörgum orðinn sem undur, en þú ert mér öruggt hæli.

Munnur minn er fullur af lofstír þínum, af dýrð þinni daginn allan.

Útskúfa mér eigi í elli minni, yfirgef mig eigi, þá er þróttur minn þverrar.

10 Því að óvinir mínir tala um mig, þeir er sitja um líf mitt, bera ráð sín saman:

11 "Guð hefir yfirgefið hann. Eltið hann og grípið hann, því að enginn bjargar."

12 Guð, ver eigi fjarri mér, Guð minn, skunda til liðs við mig.

13 Lát þá er sýna mér fjandskap farast með skömm, lát þá íklæðast háðung og svívirðing, er óska mér ógæfu.

14 En ég vil sífellt vona og auka enn á allan lofstír þinn.

15 Munnur minn skal segja frá réttlæti þínu, frá hjálpsemdum þínum allan daginn, því að ég veit eigi tölu á þeim.

16 Ég vil segja frá máttarverkum Drottins, ég vil boða réttlæti þitt, það eitt.

17 Guð, þú hefir kennt mér frá æsku, og allt til þessa kunngjöri ég dásemdarverk þín.

18 Yfirgef mig eigi, ó Guð, þegar ég er gamall orðinn og grár fyrir hærum, að ég megi kunngjöra styrkleik þinn komandi kynslóð.

19 Máttur þinn og réttlæti þitt, ó Guð, nær til himins, þú sem hefir framið stórvirki, Guð, hver er sem þú?

20 Þú sem hefir látið oss horfa upp á miklar nauðir og ógæfu, þú munt láta oss lifna við að nýju og láta oss aftur stíga upp úr undirdjúpum jarðar.

21 Þú munt auka við tign mína og aftur veita mér huggun.

22 Þá vil ég lofa trúfesti þína með hörpuleik, Guð minn, leika á gígju fyrir þér, þú Hinn heilagi í Ísrael.

23 Varir mínar skulu fagna, er ég leik fyrir þér, og sál mín er þú hefir leyst.

24 Þá skal og tunga mín tala um réttlæti þitt liðlangan daginn, því að þeir urðu til skammar, já hlutu kinnroða, er óskuðu mér ógæfu.

Sálmarnir 74

74 Asafs-maskíl. Hví hefir þú, Guð, hafnað oss að fullu, hví rýkur reiði þín gegn gæsluhjörð þinni?

Haf í minni söfnuð þinn, er þú aflaðir forðum og leystir til þess að vera kynkvísl óðals þíns, haf í minni Síonfjall, þar sem þú hefir tekið þér bústað.

Bein þú skrefum þínum til hinna endalausu rústa: Öllu hafa óvinirnir spillt í helgidóminum!

Fjandmenn þínir grenjuðu inni á samkomustað þínum, reistu upp hermerki sín.

Eins og menn sem reiða hátt axir í þykkum skógi,

höggva þeir allan útskurð, mölva með exi og hamri.

Þeir hafa lagt eld í helgidóm þinn, vanhelgað bústað nafns þíns til grunna.

Þeir hugsuðu með sjálfum sér: "Vér skulum tortíma þeim öllum." Þeir brenndu öll samkomuhús Guðs í landinu.

Vér sjáum eigi merki vor, þar er enginn spámaður framar, og enginn er hjá oss sem veit hve lengi.

10 Hversu lengi, ó Guð, á fjandmaðurinn að hæða, á óvinurinn að spotta nafn þitt um aldur?

11 Hví dregur þú að þér hönd þína, hví geymir þú hægri hönd þína í barmi þér?

12 Og þó er Guð konungur minn frá fornum tíðum, sá er framkvæmir hjálpræðisverk á jörðu.

13 Þú klaufst hafið með mætti þínum, þú braust sundur höfuð drekans á vatninu,

14 þú molaðir sundur hausa Levjatans, gafst hann dýrum eyðimerkurinnar að æti.

15 Þú lést lindir og læki spretta upp, þú þurrkaðir upp sírennandi ár.

16 Þinn er dagurinn og þín er nóttin, þú gjörðir ljós og sól.

17 Þú settir öll takmörk jarðarinnar, sumar og vetur hefir þú gjört.

18 Minnst þess, Drottinn, að óvinurinn lastmælir, og heimskur lýður smánar nafn þitt.

19 Ofursel eigi villidýrunum sál turtildúfu þinnar, gleym eigi um aldur lífi þinna hrjáðu.

20 Gef gætur að sáttmála þínum, því að skúmaskot landsins eru full af bælum ofríkisins.

21 Lát eigi þann er kúgun sætir, snúa aftur með svívirðing, lát hina hrjáðu og snauðu lofa nafn þitt.

22 Rís upp, Guð, berst fyrir málefni þínu, minnst þú háðungar þeirrar, er þú sætir af heimskingjum daginn á enda.

23 Gleym eigi hrópi fjenda þinna, glaumkæti andstæðinga þinna, þeirri er sífellt stígur upp.

Error: Book name not found: Sir for the version: Icelandic Bible
Síðara bréf Páls til Kori 12:1-10

12 Hrósa mér verð ég, þótt gagnlegt sé það ekki. En ég mun nú snúa mér að vitrunum og opinberunum Drottins.

Mér er kunnugt um mann, hann tilheyrir Kristi, sem fyrir fjórtán árum, _ hvort það var í líkamanum eða utan líkamans, veit ég ekki, Guð veit það _, var hrifinn burt allt til þriðja himins.

Og mér er kunnugt um þennan mann, _ hvort það var í líkamanum eða án líkamans, veit ég ekki, Guð veit það _,

að hann var hrifinn upp í Paradís og heyrði ósegjanleg orð, sem engum manni er leyft að mæla.

Af slíku vil ég hrósa mér, en af sjálfum mér vil ég ekki hrósa mér, nema þá af veikleika mínum.

Þótt ég vildi hrósa mér, væri ég ekki frávita, því að ég mundi segja sannleika. En ég veigra mér við því, til þess að enginn skuli ætla mig meiri en hann sér mig eða heyrir.

Og til þess að ég skuli ekki hrokast upp af hinum miklu opinberunum, er mér gefinn fleinn í holdið, Satans engill, sem slær mig, til þess að ég skuli ekki hrokast upp.

Þrisvar hef ég beðið Drottin þess að láta hann fara frá mér.

Og hann hefur svarað mér: "Náð mín nægir þér; því að mátturinn fullkomnast í veikleika." Því vil ég helst hrósa mér af veikleika mínum, til þess að kraftur Krists megi taka sér bústað í mér.

10 Þess vegna uni ég mér vel í veikleika, í misþyrmingum, í nauðum, í ofsóknum, í þrengingum vegna Krists. Þegar ég er veikur, þá er ég máttugur.

Lúkasarguðspjall 19:28-40

28 Þá er Jesús hafði þetta mælt, hélt hann á undan áfram upp til Jerúsalem.

29 Þegar hann nálgaðist Betfage og Betaníu við Olíufjallið, sem svo er nefnt, sendi hann tvo lærisveina sína

30 og mælti: "Farið í þorpið hér fram undan. Þegar þið komið þangað, munuð þið finna fola bundinn, sem enginn hefur enn komið á bak. Leysið hann og komið með hann.

31 Ef einhver spyr ykkur: ,Hvers vegna leysið þið hann?` þá svarið svo: ,Herrann þarf hans við`."

32 Þeir sem sendir voru, fóru og fundu svo sem hann hafði sagt þeim.

33 Og er þeir leystu folann, sögðu eigendur hans við þá: "Hvers vegna leysið þið folann?"

34 Þeir svöruðu: "Herrann þarf hans við,"

35 og fóru síðan með hann til Jesú. Þeir lögðu klæði sín á folann og settu Jesú á bak.

36 En þar sem hann fór, breiddu menn klæði sín á veginn.

37 Þegar hann var að koma þar að, sem farið er ofan af Olíufjallinu, hóf allur flokkur lærisveina hans að lofa Guð fagnandi hárri raustu fyrir öll þau kraftaverk, er þeir höfðu séð,

38 og segja: "Blessaður sé sá sem kemur, konungurinn, í nafni Drottins. Friður á himni og dýrð í upphæðum!"

39 Nokkrir farísear í mannfjöldanum sögðu við hann: "Meistari, hasta þú á lærisveina þína."

40 Hann svaraði: "Ég segi yður, ef þeir þegja, munu steinarnir hrópa."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society