Book of Common Prayer
72 Eftir Salómon. Guð, sel konungi í hendur dóma þína og konungssyni réttlæti þitt,
2 að hann dæmi lýð þinn með réttvísi og þína þjáðu með sanngirni.
3 Fjöllin beri lýðnum frið og hálsarnir réttlæti.
4 Hann láti hina þjáðu meðal lýðsins ná rétti sínum, hann hjálpi hinum snauðu og kremji kúgarann.
5 Þá mun hann lifa meðan sólin skín og tunglið ber birtu, frá kyni til kyns.
6 Hann mun falla sem regn á slægjuland, sem regnskúrir, er vökva landið.
7 Um hans daga skal réttlætið blómgast og gnóttir friðar, uns tunglið er eigi framar til.
8 Og hann skal ríkja frá hafi til hafs, frá Fljótinu til endimarka jarðar.
9 Fjandmenn hans skulu beygja kné fyrir honum og óvinir hans sleikja duftið.
10 Konungarnir frá Tarsis og eylöndunum skulu koma með gjafir, konungarnir frá Saba og Seba skulu færa skatt.
11 Og allir konungar skulu lúta honum, allar þjóðir þjóna honum.
12 Hann bjargar hinum snauða, er hrópar á hjálp, og hinum þjáða, er enginn liðsinnir.
13 Hann aumkast yfir bágstadda og snauða, og fátækum hjálpar hann.
14 Frá ofbeldi og ofríki leysir hann þá, og blóð þeirra er dýrmætt í augum hans.
15 Hann mun lifa og menn munu gefa honum Saba-gull, menn munu sífellt biðja fyrir honum, blessa hann liðlangan daginn.
16 Gnóttir korns munu vera í landinu, á fjallatindunum, í gróðri þess mun þjóta eins og í Líbanon, og menn skulu spretta upp í borgunum eins og gras úr jörðu.
17 Nafn hans mun vara að eilífu, meðan sólin skín mun nafn hans gróa. Og með honum skulu allar ættkvíslir jarðarinnar óska sér blessunar, allar þjóðir munu hann sælan segja.
18 Lofaður sé Drottinn, Guð, Ísraels Guð, sem einn gjörir furðuverk,
19 og lofað sé hans dýrlega nafn um eilífð, og öll jörðin fyllist dýrð hans. Amen, amen.
20 Bænir Davíðs Ísaísonar eru á enda.
73 Hendur þínar hafa gjört mig og skapað, veit mér skyn, að ég megi læra boð þín.
74 Þeir er óttast þig sjá mig og gleðjast, því að ég vona á orð þitt.
75 Ég veit, Drottinn, að dómar þínir eru réttlátir og að þú hefir lægt mig í trúfesti þinni.
76 Lát miskunn þína verða mér til huggunar, eins og þú hefir heitið þjóni þínum.
77 Lát miskunn þína koma yfir mig, að ég megi lifa, því að lögmál þitt er unun mín.
78 Lát ofstopamennina verða til skammar, af því að þeir kúga mig með rangsleitni, en ég íhuga fyrirmæli þín.
79 Til mín snúi sér þeir er óttast þig og þeir er þekkja reglur þínar.
80 Hjarta mitt sé grandvart í lögum þínum, svo að ég verði eigi til skammar.
81 Sál mín tærist af þrá eftir hjálpræði þínu, ég bíð eftir orði þínu.
82 Augu mín tærast af þrá eftir fyrirheiti þínu: Hvenær munt þú hugga mig?
83 Því að ég er orðinn eins og belgur í reykhúsi, en lögum þínum hefi ég eigi gleymt.
84 Hversu margir eru dagar þjóns þíns? Hvenær munt þú heyja dóm á ofsækjendum mínum?
85 Ofstopamenn hafa grafið mér grafir, menn, er eigi hlýða lögmáli þínu.
86 Öll boð þín eru trúfesti. Menn ofsækja mig með lygum, veit þú mér lið.
87 Nærri lá, að þeir gjörðu út af við mig á jörðunni, og þó hafði ég eigi yfirgefið fyrirmæli þín.
88 Lát mig lífi halda sakir miskunnar þinnar, að ég megi varðveita reglurnar af munni þínum.
89 Orð þitt, Drottinn, varir að eilífu, það stendur stöðugt á himnum.
90 Frá kyni til kyns varir trúfesti þín, þú hefir grundvallað jörðina, og hún stendur.
91 Eftir ákvæðum þínum stendur hún enn í dag, því að allt lýtur þér.
92 Ef lögmál þitt hefði eigi verið unun mín, þá hefði ég farist í eymd minni.
93 Ég skal eigi gleyma fyrirmælum þínum að eilífu, því að með þeim hefir þú látið mig lífi halda.
94 Þinn er ég, hjálpa þú mér, því að ég leita fyrirmæla þinna.
95 Óguðlegir bíða mín til þess að tortíma mér, en ég gef gætur að reglum þínum.
96 Á allri fullkomnun hefi ég séð endi, en þín boð eiga sér engin takmörk.
30 Móse flutti þá öllum söfnuði Ísraels orð þessa kvæðis, uns því var lokið:
32 Hlustið, þér himnar, því að nú mun ég mæla, og jörðin hlýði á mál munns míns!
2 Kenning mín streymi sem regn, ræða mín drjúpi sem dögg, eins og gróðrarskúrir á grængresið og sem þungaregn á jurtirnar.
3 Ég vil kunngjöra nafn Drottins: Gefið Guði vorum dýrðina!
4 Bjargið _ fullkomin eru verk hans, því að allir vegir hans eru réttlæti. Trúfastur Guð og tállaus, réttlátur og réttvís er hann.
5 Synir hans eru spilltir orðnir, blettur er á þeim, rangsnúin og rammspillt kynslóð.
6 Ætlið þér að launa Drottni þannig, þú heimska og óvitra þjóð? Er hann ekki faðir þinn, sá er skóp þig, sá er gjörði þig og myndaði?
7 Minnstu fyrri tíða, hyggið að árum liðinna alda! Spyr föður þinn, að hann megi fræða þig, gamalmenni þín, að þau megi segja þér frá!
8 Þá er hinn hæsti skipti óðulum meðal þjóðanna, þá er hann greindi í sundur mannanna börn, þá skipaði hann löndum þjóðflokkanna eftir tölu Ísraels sona.
9 Því að hlutskipti Drottins er lýður hans, Jakob úthlutuð arfleifð hans.
10 Hann fann hann í eyðimerkurlandi og í óbyggðum, innan um öskrið á öræfunum. Hann verndaði hann, hugði að honum, hann varðveitti hann sem sjáaldur auga síns.
11 Eins og örn, sem vekur upp hreiður sitt og svífur yfir ungum sínum, svo útbreiddi hann vængi sína, tók hann upp og bar hann á flugfjöðrum sínum.
12 Drottinn einn leiddi hann, og enginn annar guð var með honum.
13 Hann lét hann fram bruna á hæðum landsins og lét hann njóta ávaxtar akursins. Hann lét hann sjúga hunang úr klettunum og olífuolíu úr tinnusteinunum.
14 Hann ól hann á kúarjóma og sauðamjólk, ásamt feitu kjöti af dilkum og hrútum. Hann gaf honum Basan-uxa og kjarnhafra, ásamt nýrnafeiti hveitisins. Þrúgnablóð drakkst þú sem kostavín.
21 Ég segi það mér til minnkunar, að í þessu höfum vér sýnt oss veika. En þar sem aðrir láta drýgindalega, _ ég tala fávíslega _, þar gjöri ég það líka.
22 Eru þeir Hebrear? Ég líka. Eru þeir Ísraelítar? Ég líka. Eru þeir Abrahams niðjar? Ég líka.
23 Eru þeir þjónar Krists? _ Nú tala ég eins og vitfirringur! _ Ég fremur. Meira hef ég unnið, oftar verið í fangelsi, fleiri högg þolað og oft dauðans hættu.
24 Af Gyðingum hef ég fimm sinnum fengið höggin þrjátíu og níu,
25 þrisvar verið húðstrýktur, einu sinni verið grýttur, þrisvar beðið skipbrot, verið sólarhring í sjó.
26 Ég hef verið á sífelldum ferðalögum, komist í hann krappan í ám, lent í háska af völdum ræningja, í háska af völdum samlanda og af völdum heiðingja, í háska í borgum og í óbyggðum, á sjó og meðal falsbræðra.
27 Ég hef stritað og erfiðað, átt margar svefnlausar nætur, verið hungraður og þyrstur og iðulega fastað, og ég hef verið kaldur og klæðlaus.
28 Og ofan á allt annað bætist það, sem mæðir á mér hvern dag, áhyggjan fyrir öllum söfnuðunum.
29 Hver er sjúkur, án þess að ég sé sjúkur? Hver hrasar, án þess að ég líði?
30 Ef ég á að hrósa mér, vil ég hrósa mér af veikleika mínum.
31 Guð og faðir Drottins Jesú, hann sem blessaður er að eilífu, veit að ég lýg ekki.
32 Í Damaskus setti landshöfðingi Areta konungs vörð um borgina til þess að handtaka mig.
33 En gegnum glugga var ég látinn síga út fyrir múrinn í körfu og slapp þannig úr höndum hans.
11 Meðan þeir hlýddu á, bætti hann við dæmisögu, því að hann var í nánd við Jerúsalem, og þeir ætluðu, að Guðs ríki mundi þegar birtast.
12 Hann sagði: "Maður nokkur tiginborinn fór í fjarlægt land til þess að taka við konungdómi og koma síðan aftur.
13 Hann kallaði tíu þjóna sína, seldi þeim í hendur tíu pund og sagði við þá: ,Verslið með þetta, þangað til ég kem.`
14 En landar hans hötuðu hann og gerðu sendimann á eftir honum til að segja: ,Vér viljum ekki, að þessi maður verði konungur yfir oss.`
15 Nú kom hann aftur og hafði tekið konungdóm. Þá lét hann kalla fyrir sig þjóna þá er hann hafði selt féð í hendur, til þess að vita, hvað hver hefði grætt.
16 Hinn fyrsti kom og sagði: ,Herra, pund þitt hefur ávaxtast um tíu pund.`
17 Konungur sagði við hann: ,Gott, þú góði þjónn, þú varst trúr í mjög litlu og því skaltu ráða fyrir tíu borgum.`
18 Annar kom og sagði: ,Pund þitt, herra, hefur gefið af sér fimm pund.`
19 Hann sagði eins við hann: ,Þú skalt og vera yfir fimm borgum.`
20 Enn kom einn og sagði: ,Herra, hér er pund þitt. Ég hef haft það geymt í dúki,
21 því að ég var hræddur við þig, en þú ert maður strangur og tekur það út, sem þú lagðir ekki inn, og uppsker það, sem þú sáðir ekki.`
22 Hann segir við hann: ,Illi þjónn, eftir orðum þínum dæmi ég þig. Þú vissir, að ég er maður strangur, sem tek það út, sem ég lagði ekki inn, og uppsker það, sem ég sáði ekki.
23 Hvers vegna léstu þá ekki fé mitt í banka? Þá hefði ég fengið það með vöxtum, er ég kom heim.`
24 Og hann sagði við þá er hjá voru: ,Takið af honum pundið, og fáið þeim, sem hefur tíu pundin.`
25 En þeir sögðu við hann: ,Herra, hann hefur tíu pund.`
26 Ég segi yður: Hverjum sem hefur, mun gefið verða, og frá þeim sem eigi hefur, mun tekið verða jafnvel það, sem hann hefur.
27 En þessa óvini mína, sem vildu ekki að ég yrði konungur yfir sér, færið þá hingað og höggvið þá frammi fyrir mér."
by Icelandic Bible Society