Book of Common Prayer
56 Til söngstjórans. Lag: Dúfan í fjarlægum eikilundi. Miktam eftir Davíð, þá er Filistar gripu hann í Gat.
2 Ver mér náðugur, Guð, því að menn kremja mig, liðlangan daginn kreppa bardagamenn að mér.
3 Fjandmenn mínir kremja mig liðlangan daginn, því að margir eru þeir, sem berjast gegn mér.
4 Þegar ég er hræddur, treysti ég þér.
5 Með Guðs hjálp mun ég lofa orð hans, Guði treysti ég, ég óttast eigi. Hvað getur hold gjört mér?
6 Þeir spilla málefnum mínum án afláts, allt það er þeir hafa hugsað í gegn mér, er til ills.
7 Þeir áreita mig, þeir sitja um mig, þeir gefa gætur að ferðum mínum, eins og þeir væntu eftir að ná lífi mínu.
8 Sakir ranglætis þeirra verður þeim engrar undankomu auðið, steyp þjóðunum í reiði þinni, ó Guð.
9 Þú hefir talið hrakninga mína, tárum mínum er safnað í sjóð þinn, já, rituð í bók þína.
10 Fyrir því skulu óvinir mínir hörfa undan, er ég hrópa, það veit ég, að Guð liðsinnir mér.
11 Með Guðs hjálp mun ég lofa orð hans, með hjálp Drottins mun ég lofa orð hans.
12 Guði treysti ég, ég óttast eigi, hvað geta menn gjört mér?
13 Á mér hvíla, ó Guð, heit við þig, ég vil gjalda þér þakkarfórnir,
14 af því þú hefir frelsað sál mína frá dauða og fætur mína frá hrösun, svo að ég megi ganga frammi fyrir Guði í ljósi lífsins.
57 Til söngstjórans. Lag: Spill eigi. Miktam eftir Davíð, þá er hann flýði inn í hellinn fyrir Sál.
2 Ver mér náðugur, ó Guð, ver mér náðugur! Því að hjá þér leitar sál mín hælis, og í skugga vængja þinna vil ég hælis leita, uns voðinn er liðinn hjá.
3 Ég hrópa til Guðs, hins hæsta, þess Guðs, er kemur öllu vel til vegar fyrir mig.
4 Hann sendir af himni og hjálpar mér, þegar sá er kremur mig spottar. [Sela] Guð sendir náð sína og trúfesti.
5 Ég verð að liggja meðal ljóna, er eldi fnæsa. Tennur þeirra eru spjót og örvar, og tungur þeirra eru bitur sverð.
6 Sýn þig himnum hærri, ó Guð, dýrð þín breiðist yfir gjörvalla jörðina!
7 Þeir hafa lagt net fyrir fætur mína, sál mín er beygð. Þeir hafa grafið gryfju fyrir framan mig, sjálfir falla þeir í hana. [Sela]
8 Hjarta mitt er stöðugt, ó Guð, hjarta mitt er stöðugt, ég vil syngja og leika.
9 Vakna þú, sál mín, vakna þú, harpa og gígja, ég vil vekja morgunroðann.
10 Ég vil lofa þig meðal lýðanna, Drottinn, vegsama þig meðal þjóðanna,
11 því að miskunn þín nær til himna og trúfesti þín til skýjanna.
12 Sýn þig himnum hærri, ó Guð, dýrð þín breiðist yfir gjörvalla jörðina.
58 Til söngstjórans. Lag: Spill eigi. Davíðs-miktam.
2 Talið þér í sannleika það sem rétt er, þér guðir? Dæmið þér mennina með sanngirni?
3 Nei, allir aðhafist þér ranglæti á jörðu, hendur yðar vega út ofbeldi.
4 Hinir illu eru frá móðurlífi viknir af leið, lygarar fara villir vegar frá móðurskauti.
5 Eitur þeirra er eins og höggormseitur, þeir eru eins og dauf naðra, sem lokar eyrunum
6 til þess að heyra ekki raust særingamannsins né hins slungna töframanns.
7 Guð, brjót sundur tennurnar í munni þeirra, mölva jaxlana úr ljónunum, Drottinn!
8 Lát þá hverfa eins og vatn, sem rennur burt; miði hann örvum sínum á þá, þá hníga þeir,
9 eins og snigillinn, sem rennur í sundur og hverfur, ótímaburður konunnar, er eigi sá sólina.
10 Áður en pottar yðar kenna hitans af þyrnunum, hvort sem þyrnarnir eru grænir eða glóandi, feykir hann hinum illa burt.
11 Þá mun hinn réttláti fagna, af því að hann hefir fengið að sjá hefndina, hann mun lauga fætur sína í blóði hinna óguðlegu.
12 Þá munu menn segja: Hinn réttláti hlýtur þó ávöxt; það er þó til Guð, sem dæmir á jörðunni.
64 Til söngstjórans. Davíðssálmur.
2 Heyr, ó Guð, raust mína, er ég kveina, varðveit líf mitt fyrir ógnum óvinarins.
3 Skýl mér fyrir bandalagi bófanna, fyrir óaldarflokki illvirkjanna,
4 er hvetja tungur sínar sem sverð, leggja örvar sínar, beiskyrðin, á streng
5 til þess að skjóta í leyni á hinn ráðvanda, skjóta á hann allt í einu, hvergi hræddir.
6 Þeir binda fastmælum með sér ill áform, tala um að leggja leynisnörur, þeir hugsa: "Hver ætli sjái það?"
7 Þeir upphugsa ranglæti: "Vér erum tilbúnir, vel ráðin ráð!" því að hugskot hvers eins og hjarta er fullt véla.
8 Þá lýstur Guð þá með örinni, allt í einu verða þeir sárir,
9 og tunga þeirra verður þeim að falli. Allir þeir er sjá þá, munu hrista höfuðið.
10 Þá mun hver maður óttast og kunngjöra dáðir Guðs og gefa gætur að verkum hans.
11 Hinn réttláti mun gleðjast yfir Drottni og leita hælis hjá honum, og allir hjartahreinir munu sigri hrósa.
65 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Ljóð.
2 Þér ber lofsöngur, Guð, á Síon, og við þig séu heitin efnd.
3 Þú sem heyrir bænir, til þín kemur allt hold.
4 Margvíslegar misgjörðir urðu mér yfirsterkari, en þú fyrirgafst afbrot vor.
5 Sæll er sá er þú útvelur og lætur nálægjast þig til þess að búa í forgörðum þínum, að vér megum seðjast af gæðum húss þíns, helgidómi musteris þíns.
6 Með óttalegum verkum svarar þú oss í réttlæti, þú Guð hjálpræðis vors, þú athvarf allra jarðarinnar endimarka og fjarlægra stranda,
7 þú sem festir fjöllin með krafti þínum, gyrtur styrkleika,
8 þú sem stöðvar brimgný hafsins, brimgnýinn í bylgjum þess og háreystina í þjóðunum,
9 svo að þeir er búa við endimörk jarðar óttast tákn þín, austrið og vestrið lætur þú fagna.
10 Þú hefir vitjað landsins og vökvað það, blessað það ríkulega með læk Guðs, fullum af vatni, þú hefir framleitt korn þess, því að þannig hefir þú gjört það úr garði.
11 Þú hefir vökvað plógför þess, jafnað plóggarða þess, með regnskúrum hefir þú mýkt það, blessað gróður þess.
12 Þú hefir krýnt árið með gæsku þinni, og vagnspor þín drjúpa af feiti.
13 Það drýpur af heiðalöndunum, og hæðirnar girðast fögnuði.
14 Hagarnir klæðast hjörðum, og dalirnir hyljast korni. Allt fagnar og syngur.
30 Þegar allt þetta, blessunin og bölvunin, sem ég hefi lagt fyrir þig í dag, kemur fram við þig, og þú hugfestir það meðal allra þeirra þjóða, er Drottinn Guð þinn rekur þig til,
2 og þú snýr þér aftur til Drottins Guðs þíns og hlýðir raustu hans í öllu, sem ég býð þér í dag, bæði þú og börn þín, af öllu hjarta þínu og af allri sálu þinni,
3 þá mun Drottinn Guð þinn snúa við högum þínum og miskunna þér og safna þér aftur saman frá öllum þjóðum, þeim er Drottinn Guð þinn hefir dreift þér á meðal.
4 Þótt þínir brottreknu væru yst við skaut himins, þá mun Drottinn Guð þinn saman safna þér þaðan og sækja þig þangað.
5 Og Drottinn Guð þinn mun leiða þig inn í landið, sem feður þínir áttu, og þú skalt taka það til eignar, og hann mun gjöra enn betur til þín og fjölga þér enn meir en feðrum þínum.
6 Drottinn Guð þinn mun umskera hjarta þitt og hjarta niðja þinna, svo að þú elskir Drottin Guð þinn af öllu hjarta þínu og af allri sálu þinni, til þess að þú megir lifa.
7 Og Drottinn Guð þinn mun láta allar þessar bölvanir bitna á óvinum þínum og fjendum, þeim er hafa ofsótt þig.
8 En þú munt aftur hlýða raustu Drottins og halda allar skipanir hans, þær er ég legg fyrir þig í dag.
9 Drottinn Guð þinn mun veita þér gnægð gæða í öllu, sem þú tekur þér fyrir hendur, í ávexti kviðar þíns og í ávexti fénaðar þíns og í ávexti lands þíns, því að Drottinn mun aftur gleðjast yfir þér, þér til heilla, eins og hann gladdist yfir feðrum þínum,
10 ef þú hlýðir raustu Drottins Guðs þíns og varðveitir skipanir hans og lög, sem rituð eru í þessari lögmálsbók, ef þú snýr þér til Drottins Guðs þíns af öllu hjarta þínu og af allri sálu þinni.
10 Nú áminni ég sjálfur, Páll, yður með hógværð og mildi Krists, ég, sem í návist yðar á að vera auðmjúkur, en fjarverandi djarfmáll við yður.
2 Ég bið yður þess, að láta mig ekki þurfa að vera djarfmálan, þegar ég kem, og beita þeim myndugleika, sem ég ætla mér að beita gagnvart nokkrum, er álíta, að vér látum stjórnast af mannlegum hvötum.
3 Þótt vér lifum jarðnesku lífi, þá berjumst vér ekki á jarðneskan hátt, _
4 því að vopnin, sem vér berjumst með, eru ekki jarðnesk, heldur máttug vopn Guðs til að brjóta niður vígi.
5 Vér brjótum niður hugsmíðar og allt, sem hreykir sér gegn þekkingunni á Guði, og hertökum hverja hugsun til hlýðni við Krist.
6 Og vér erum þess albúnir að refsa sérhverri óhlýðni, þegar hlýðni yðar er fullkomin orðin.
7 Þér horfið á hið ytra. Ef einhver treystir því, að hann sé Krists, þá hyggi hann betur að og sjái, að eins og hann er Krists, þannig erum vér það einnig.
8 Jafnvel þótt ég vildi hrósa mér í frekara lagi af valdi voru, sem Drottinn hefur gefið til að uppbyggja, en ekki til að niðurbrjóta yður, þá yrði ég mér ekki til skammar.
9 Ekki má líta svo út sem ég vilji hræða yður með bréfunum.
10 "Bréfin," segja menn, "eru þung og ströng, en sjálfur er hann lítill fyrir mann að sjá og enginn tekur mark á ræðu hans."
11 Sá, sem slíkt segir, festi það í huga sér, að eins og vér fjarstaddir tölum til yðar í bréfunum, þannig munum vér koma fram, þegar vér erum hjá yður.
12 Ekki dirfumst vér að telja oss til þeirra eða bera oss saman við suma af þeim, er mæla með sjálfum sér. Þeir mæla sig við sjálfa sig og bera sig saman við sjálfa sig og eru óskynsamir.
13 En vér viljum ekki hrósa oss án viðmiðunar, heldur samkvæmt þeirri mælistiku, sem Guð hefur úthlutað oss: Að ná alla leið til yðar.
14 Því að vér teygjum oss ekki of langt fram, ella hefðum vér ekki komist til yðar. En vér vorum fyrstir til yðar með fagnaðarerindið um Krist.
15 Vér höfum vora viðmiðun og stærum oss ekki af erfiði annarra. Vér höfum þá von, að eftir því sem trú yðar vex, verðum vér miklir á meðal yðar, já, stórmiklir samkvæmt mælistiku vorri.
16 Þá getum vér boðað fagnaðarerindið í löndum handan við yður án þess að nota annarra mælistikur eða stæra oss af því, sem þegar er gjört.
17 En "sá sem hrósar sér, hann hrósi sér í Drottni."
18 Því að fullgildur er ekki sá, er mælir með sjálfum sér, heldur sá, er Drottinn mælir með.
31 Hann tók þá tólf til sín og sagði við þá: "Nú förum vér upp til Jerúsalem, og mun allt það koma fram við Mannssoninn, sem skrifað er hjá spámönnunum.
32 Hann verður framseldur heiðingjum, menn munu hæða hann, misþyrma honum og hrækja á hann.
33 Þeir munu húðstrýkja hann og lífláta, en á þriðja degi mun hann upp rísa."
34 En þeir skildu ekkert af þessu, orð þessi voru þeim hulin, og þeir skynjuðu ekki það, sem sagt var.
35 Svo bar við, er hann nálgaðist Jeríkó, að blindur maður sat þar við veginn og betlaði.
36 Hann heyrði, að mannfjöldi gekk hjá, og spurði, hvað um væri að vera.
37 Var honum sagt, að Jesús frá Nasaret færi hjá.
38 Þá hrópaði hann: "Jesús, sonur Davíðs, miskunna þú mér!"
39 En þeir sem á undan fóru, höstuðu á hann, að hann þegði. En hann hrópaði því meir: "Sonur Davíðs, miskunna þú mér!"
40 Jesús nam staðar og bauð að leiða hann til sín. Er hann kom nær, spurði Jesús hann:
41 "Hvað vilt þú, að ég gjöri fyrir þig?" Hinn svaraði: "Herra, að ég fái aftur sjón."
42 Jesús sagði við hann: "Fá þú aftur sjónina. Trú þín hefur bjargað þér."
43 Jafnskjótt fékk hann sjónina. Og hann fylgdi honum og lofaði Guð. En allt fólkið, er sá þetta, vegsamaði Guð.
by Icelandic Bible Society