Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 118

118 Þakkið Drottni, því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu.

Það mæli Ísrael: "Því að miskunn hans varir að eilífu!"

Það mæli Arons ætt: "Því að miskunn hans varir að eilífu!"

Það mæli þeir sem óttast Drottin: "Því að miskunn hans varir að eilífu!"

Í þrengingunni ákallaði ég Drottin, hann bænheyrði mig og rýmkaði um mig.

Drottinn er með mér, ég óttast eigi, hvað geta menn gjört mér?

Drottinn er með mér með hjálp sína, og ég mun fá að horfa á ófarir hatursmanna minna.

Betra er að leita hælis hjá Drottni en að treysta mönnum,

betra er að leita hælis hjá Drottni en að treysta tignarmönnum.

10 Allar þjóðir umkringdu mig, en í nafni Drottins hefi ég sigrast á þeim.

11 Þær umkringdu mig á alla vegu, en í nafni Drottins hefi ég sigrast á þeim.

12 Þær umkringdu mig eins og býflugur vax, brunnu sem eldur í þyrnum, en í nafni Drottins hefi ég sigrast á þeim.

13 Mér var hrundið, til þess að ég skyldi falla, en Drottinn veitti mér lið.

14 Drottinn er styrkur minn og lofsöngur, og hann varð mér til hjálpræðis.

15 Fagnaðar- og siguróp kveður við í tjöldum réttlátra: Hægri hönd Drottins vinnur stórvirki,

16 hægri hönd Drottins upphefur, hægri hönd Drottins vinnur stórvirki.

17 Ég mun eigi deyja, heldur lifa og kunngjöra verk Drottins.

18 Drottinn hefir hirt mig harðlega, en eigi ofurselt mig dauðanum.

19 Ljúkið upp fyrir mér hliðum réttlætisins, að ég megi fara inn um þau og lofa Drottin.

20 Þetta er hlið Drottins, réttlátir menn fara inn um það.

21 Ég lofa þig, af því að þú bænheyrðir mig og ert orðinn mér hjálpræði.

22 Steinninn sem smiðirnir höfnuðu er orðinn að hyrningarsteini.

23 Að tilhlutun Drottins er þetta orðið, það er dásamlegt í augum vorum.

24 Þetta er dagurinn sem Drottinn hefir gjört, fögnum, verum glaðir á honum.

25 Drottinn, hjálpa þú, Drottinn, gef þú gengi!

26 Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins, frá húsi Drottins blessum vér yður.

27 Drottinn er Guð, hann lætur oss skína ljós. Tengið saman dansraðirnar með laufgreinum, allt inn að altarishornunum.

28 Þú ert Guð minn, og ég þakka þér, Guð minn, ég vegsama þig.

29 Þakkið Drottni, því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu.

Sálmarnir 145

145 Davíðs-lofsöngur. Ég vil vegsama þig, ó Guð minn, þú konungur, og prísa nafn þitt um aldur og ævi.

Á hverjum degi vil ég prísa þig og lofa nafn þitt um aldur og ævi.

Mikill er Drottinn og mjög vegsamlegur, mikilleikur hans er órannsakanlegur.

Ein kynslóðin vegsamar verk þín fyrir annarri og kunngjörir máttarverk þín.

Þær segja frá tign og dýrð vegsemdar þinnar: "Ég vil syngja um dásemdir þínar."

Og um mátt ógnarverka þinna tala þær: "Ég vil segja frá stórvirkjum þínum."

Þær minna á þína miklu gæsku og fagna yfir réttlæti þínu.

Náðugur og miskunnsamur er Drottinn, þolinmóður og mjög gæskuríkur.

Drottinn er öllum góður, og miskunn hans er yfir öllu, sem hann skapar.

10 Öll sköpun þín lofar þig, Drottinn, og dýrkendur þínir prísa þig.

11 Þeir tala um dýrð konungdóms þíns, segja frá veldi þínu.

12 Þeir kunngjöra mönnum veldi þitt, hina dýrlegu tign konungdóms þíns.

13 Konungdómur þinn er konungdómur um allar aldir og ríki þitt stendur frá kyni til kyns. Drottinn er trúfastur í öllum orðum sínum og miskunnsamur í öllum verkum sínum.

14 Drottinn styður alla þá, er ætla að hníga, og reisir upp alla niðurbeygða.

15 Allra augu vona á þig, og þú gefur þeim fæðu þeirra á réttum tíma.

16 Þú lýkur upp hendi þinni og seður allt sem lifir með blessun.

17 Drottinn er réttlátur á öllum sínum vegum og miskunnsamur í öllum sínum verkum.

18 Drottinn er nálægur öllum sem ákalla hann, öllum sem ákalla hann í einlægni.

19 Hann uppfyllir ósk þeirra er óttast hann, og hróp þeirra heyrir hann og hjálpar þeim.

20 Drottinn varðveitir alla þá er elska hann, en útrýmir öllum níðingum.

21 Munnur minn skal mæla orðstír Drottins, allt hold vegsami hans heilaga nafn um aldur og ævi.

Jesaja 11:1-9

11 Af stofni Ísaí mun kvistur fram spretta og angi upp vaxa af rótum hans.

Yfir honum mun hvíla andi Drottins: Andi vísdóms og skilnings, andi ráðspeki og kraftar, andi þekkingar og ótta Drottins.

Unun hans mun vera að óttast Drottin. Hann mun ekki dæma eftir því, sem augu hans sjá, og ekki skera úr málum eftir því, sem eyru hans heyra.

Með réttvísi mun hann dæma hina fátæku og skera með réttlæti úr málum hinna nauðstöddu í landinu. Hann mun ljósta ofbeldismanninn með sprota munns síns og deyða hinn óguðlega með anda vara sinna.

Réttlæti mun vera beltið um lendar hans og trúfesti beltið um mjaðmir hans.

Þá mun úlfurinn búa hjá lambinu og pardusdýrið liggja hjá kiðlingnum, kálfar, ung ljón og alifé ganga saman og smásveinn gæta þeirra.

Kýr og birna munu vera á beit saman og kálfar og húnar liggja hvorir hjá öðrum, og ljónið mun hey eta sem naut.

Brjóstmylkingurinn mun leika sér við holudyr nöðrunnar, og barnið nývanið af brjósti stinga hendi sinni inn í bæli hornormsins.

Hvergi á mínu heilaga fjalli munu menn illt fremja eða skaða gjöra, því að jörðin er full af þekkingu á Drottni, eins og djúp sjávarins er vötnum hulið.

Fyrra bréf Páls til Korin 2:1-13

Er ég kom til yðar, bræður, og boðaði yður leyndardóm Guðs, kom ég ekki með frábærri mælskusnilld eða speki.

Ég ásetti mér að vita ekkert á meðal yðar, nema Jesú Krist og hann krossfestan.

Og ég dvaldist á meðal yðar í veikleika, ótta og mikilli angist.

Orðræða mín og prédikun studdist ekki við sannfærandi vísdómsorð, heldur við sönnun anda og kraftar,

til þess að trú yðar væri eigi byggð á vísdómi manna, heldur á krafti Guðs.

Speki tölum vér meðal hinna fullkomnu, þó ekki speki þessarar aldar eða höfðingja þessarar aldar, sem að engu verða,

heldur tölum vér leynda speki Guðs, sem hulin hefur verið, en Guð hefur frá eilífð fyrirhugað oss til dýrðar.

Enginn af höfðingjum þessarar aldar þekkti hana, því að ef þeir hefðu þekkt hana, hefðu þeir ekki krossfest Drottin dýrðarinnar.

En það er eins og ritað er: Það sem auga sá ekki og eyra heyrði ekki og ekki kom upp í hjarta nokkurs manns, allt það sem Guð fyrirbjó þeim, er elska hann.

10 En oss hefur Guð opinberað hana fyrir andann, því að andinn rannsakar allt, jafnvel djúp Guðs.

11 Hver meðal manna veit hvað mannsins er, nema andi mannsins, sem í honum er? Þannig hefur heldur enginn komist að raun um, hvað Guðs er, nema Guðs andi.

12 En vér höfum ekki hlotið anda heimsins, heldur andann, sem er frá Guði, til þess að vér skulum vita, hvað oss er af Guði gefið.

13 Enda tölum vér það ekki með orðum, sem mannlegur vísdómur kennir, heldur með orðum, sem andinn kennir, og útlistum andleg efni á andlegan hátt.

Jóhannesarguðspjall 14:21-29

21 Sá sem hefur boðorð mín og heldur þau, hann er sá sem elskar mig. En sá sem elskar mig, mun elskaður verða af föður mínum, og ég mun elska hann og birta honum sjálfan mig."

22 Júdas _ ekki Ískaríot _ sagði við hann: "Herra, hverju sætir það, að þú vilt birtast oss, en eigi heiminum?"

23 Jesús svaraði: "Sá sem elskar mig, varðveitir mitt orð, og faðir minn mun elska hann. Til hans munum við koma og gjöra okkur bústað hjá honum.

24 Sá sem elskar mig ekki, varðveitir ekki mín orð. Orðið, sem þér heyrið, er ekki mitt, heldur föðurins, sem sendi mig.

25 Þetta hef ég talað til yðar, meðan ég var hjá yður.

26 En hjálparinn, andinn heilagi, sem faðirinn mun senda í mínu nafni, mun kenna yður allt og minna yður á allt það, sem ég hef sagt yður.

27 Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður. Ekki gef ég yður eins og heimurinn gefur. Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist.

28 Þér heyrðuð, að ég sagði við yður: ,Ég fer burt og kem til yðar.` Ef þér elskuðuð mig, yrðuð þér glaðir af því, að ég fer til föðurins, því faðirinn er mér meiri.

29 Nú hef ég sagt yður það, áður en það verður, svo að þér trúið, þegar það gerist.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society