Book of Common Prayer
87 Kóraíta-sálmur. Ljóð.
2 Drottinn grundvallaði borg sína á heilögum fjöllum, hann elskar hlið Síonar framar öllum bústöðum Jakobs.
3 Dýrlega er talað um þig, þú borg Guðs. [Sela]
4 Ég nefni Egyptaland og Babýlon vegna játenda minna þar, hér er Filistea og Týrus, ásamt Blálandi, einn er fæddur hér, annar þar.
5 En Síon kallast móðirin, hver þeirra er fæddur í henni, og hann, Hinn hæsti, verndar hana.
6 Drottinn telur saman í þjóðaskránum, einn er fæddur hér, annar þar. [Sela]
7 Og menn syngja eins og þeir er stíga dans: "Allar uppsprettur mínar eru í þér."
90 Bæn guðsmannsins Móse. Drottinn, þú hefir verið oss athvarf frá kyni til kyns.
2 Áður en fjöllin fæddust og jörðin og heimurinn urðu til, frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð.
3 Þú lætur manninn hverfa aftur til duftsins og segir: "Hverfið aftur, þér mannanna börn!"
4 Því að þúsund ár eru í þínum augum sem dagurinn í gær, þegar hann er liðinn, já, eins og næturvaka.
5 Þú hrífur þá burt, sem í svefni, þá er að morgni voru sem gróandi gras.
6 Að morgni blómgast það og grær, að kveldi fölnar það og visnar.
7 Vér hverfum fyrir reiði þinni, skelfumst fyrir bræði þinni.
8 Þú hefir sett misgjörðir vorar fyrir augu þér, vorar huldu syndir fyrir ljós auglitis þíns.
9 Allir dagar vorir hverfa fyrir reiði þinni, ár vor líða sem andvarp.
10 Ævidagar vorir eru sjötíu ár og þegar best lætur áttatíu ár, og dýrsta hnossið er mæða og hégómi, því að þeir líða í skyndi og vér fljúgum burt.
11 Hver þekkir styrkleik reiði þinnar og bræði þína, svo sem hana ber að óttast?
12 Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta.
13 Snú þú aftur, Drottinn. Hversu lengi er þess að bíða, að þú aumkist yfir þjóna þína?
14 Metta oss að morgni með miskunn þinni, að vér megum fagna og gleðjast alla daga vora.
15 Veit oss gleði í stað daga þeirra, er þú hefir lægt oss, ára þeirra, er vér höfum illt reynt.
16 Lát dáðir þínar birtast þjónum þínum og dýrð þína börnum þeirra.
17 Hylli Drottins, Guðs vors, sé yfir oss, styrk þú verk handa vorra.
136 Þakkið Drottni, því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu.
2 Þakkið Guði guðanna, því að miskunn hans varir að eilífu,
3 þakkið Drottni drottnanna, því að miskunn hans varir að eilífu,
4 honum, sem einn gjörir mikil dásemdarverk, því að miskunn hans varir að eilífu,
5 honum, sem skapaði himininn með speki, því að miskunn hans varir að eilífu,
6 honum, sem breiddi jörðina út á vötnunum, því að miskunn hans varir að eilífu,
7 honum, sem skapaði stóru ljósin, því að miskunn hans varir að eilífu,
8 sólina til þess að ráða deginum, því að miskunn hans varir að eilífu,
9 tunglið og stjörnurnar til þess að ráða nóttunni, því að miskunn hans varir að eilífu,
10 honum, sem laust Egypta með deyðing frumburðanna, því að miskunn hans varir að eilífu,
11 og leiddi Ísrael burt frá þeim, því að miskunn hans varir að eilífu,
12 með sterkri hendi og útréttum armlegg, því að miskunn hans varir að eilífu,
13 honum, sem skipti Rauðahafinu sundur, því að miskunn hans varir að eilífu,
14 og lét Ísrael ganga gegnum það, því að miskunn hans varir að eilífu,
15 og keyrði Faraó og her hans út í Rauðahafið, því að miskunn hans varir að eilífu,
16 honum, sem leiddi lýð sinn gegnum eyðimörkina, því að miskunn hans varir að eilífu,
17 honum, sem laust mikla konunga, því að miskunn hans varir að eilífu,
18 og deyddi volduga konunga, því að miskunn hans varir að eilífu,
19 Síhon Amorítakonung, því að miskunn hans varir að eilífu,
20 og Óg konung í Basan, því að miskunn hans varir að eilífu,
21 og gaf land þeirra að erfð, því að miskunn hans varir að eilífu,
22 að erfð Ísrael þjóni sínum, því að miskunn hans varir að eilífu,
23 honum, sem minntist vor í læging vorri, því að miskunn hans varir að eilífu,
24 og frelsaði oss frá fjandmönnum vorum, því að miskunn hans varir að eilífu,
25 sem gefur fæðu öllu holdi, því að miskunn hans varir að eilífu.
26 Þakkið Guði himnanna, því að miskunn hans varir að eilífu.
4 Þá sagði hann við mig: "Þú mannsson, far nú til Ísraelsmanna og tala mínum orðum til þeirra.
5 Því að þú ert ekki sendur til fólks, er mæli á torskilda tungu,
6 eigi til margra þjóða, er þú skilur eigi, heldur hefi ég sent þig til Ísraelsmanna. Þeir geta skilið þig.
7 En Ísraelsmenn munu eigi vilja hlýða á þig, því að þeir vilja eigi hlýða á mig, því að allir Ísraelsmenn hafa hörð enni og þverúðarfull hjörtu.
8 Sjá, ég gjöri andlit þitt hart, eins og andlit þeirra, og enni þitt hart, eins og enni þeirra,
9 ég gjöri enni þitt sem demant, harðara en klett. Þú skalt eigi óttast þá, né skelfast fyrir augliti þeirra, því að þeir eru þverúðug kynslóð."
10 Og hann sagði við mig: "Þú mannsson, hugfest þér öll orð mín, þau er ég til þín tala, og lát þau þér í eyrum loða.
11 Far síðan til hinna herleiddu, til samlanda þinna, og tala til þeirra og seg við þá: ,Svo segir Drottinn Guð!` hvort sem þeir svo hlýða á það eða gefa því engan gaum."
12 Þá hóf andinn mig upp, en að baki mér heyrði ég dunur af miklum landskjálfta, er dýrð Drottins hófst upp af stað sínum,
13 svo og þyt af vængjum veranna, er snertu hver aðra, og hark frá hjólunum samtímis og dunur af miklum landskjálfta.
14 Og andinn hóf mig upp og hreif mig burt, og ég hélt af stað hryggur og í mikilli geðshræring, og hönd Drottins lá þungt á mér.
15 Og ég kom til hinna herleiddu í Tel Abíb við Kebarfljótið, þar er þeir bjuggu, og ég sat þar sjö daga utan við mig meðal þeirra.
16 Að liðnum sjö dögum kom orð Drottins til mín, svohljóðandi:
17 "Mannsson, ég hefi skipað þig varðmann yfir Ísrael. Þegar þú heyrir orð af mínum munni, skalt þú vara þá við í mínu nafni.
7 Á jarðvistardögum sínum bar hann fram með sárum kveinstöfum og táraföllum bænir og auðmjúk andvörp fyrir þann, sem megnaði að frelsa hann frá dauða, og fékk bænheyrslu vegna guðhræðslu sinnar.
8 Og þótt hann sonur væri, lærði hann hlýðni af því, sem hann leið.
9 Þegar hann var orðinn fullkominn, gjörðist hann öllum þeim, er honum hlýða, höfundur eilífs hjálpræðis,
10 af Guði nefndur æðsti prestur að hætti Melkísedeks.
11 Um þetta höfum vér langt mál að segja og torskilið, af því að þér hafið gjörst heyrnarsljóir.
12 Þó að þér tímans vegna ættuð að vera kennarar, þá hafið þér þess enn á ný þörf, að einhver kenni yður undirstöðuatriði Guðs orða. Svo er komið fyrir yður, að þér hafið þörf á mjólk, en ekki fastri fæðu.
13 En hver sem á mjólk nærist er barn og skilur ekki boðskap réttlætisins.
14 Fasta fæðan er fyrir fullorðna, fyrir þá, sem jafnt og þétt hafa tamið skilningarvitin til að greina gott frá illu.
37 Daginn eftir, er þeir fóru ofan af fjallinu, kom mikill mannfjöldi á móti honum.
38 Og maður nokkur úr mannfjöldanum hrópar: "Meistari, ég bið þig að líta á son minn, því að hann er einkabarnið mitt.
39 Það er andi, sem grípur hann, og þá æpir hann skyndilega. Hann teygir hann svo að hann froðufellir, og víkur varla frá honum og er að gjöra út af við hann.
40 Ég bað lærisveina þína að reka hann út, en þeir gátu það ekki."
41 Jesús svaraði: "Ó, þú vantrúa og rangsnúna kynslóð, hversu lengi á ég að vera hjá yður og umbera yður? Fær þú hingað son þinn."
42 Þegar hann var að koma, slengdi illi andinn honum flötum og teygði hann ákaflega. En Jesús hastaði á óhreina andann, læknaði sveininn og gaf hann aftur föður hans.
43 Og allir undruðust stórum veldi Guðs. Þá er allir dáðu allt það, er hann gjörði, sagði hann við lærisveina sína:
44 "Festið þessi orð í huga: ,Mannssonurinn verður framseldur í manna hendur."`
45 En þeir skildu ekki þessi orð, og þetta var þeim hulið, svo að þeir skynjuðu það ekki. Og þeir þorðu ekki að spyrja hann um þetta.
46 Sú spurning kom fram meðal þeirra, hver þeirra væri mestur.
47 Jesús vissi, hvað þeir hugsuðu í hjörtum sínum, og tók lítið barn, setti það hjá sér
48 og sagði við þá: "Hver sem tekur við þessu barni í mínu nafni, tekur við mér, og hver sem tekur við mér, tekur við þeim, er sendi mig. Því að sá sem minnstur er meðal yðar allra, hann er mestur."
49 Jóhannes tók til máls: "Meistari, vér sáum mann reka út illa anda í þínu nafni, og vildum vér varna honum þess, af því að hann fylgir oss ekki."
50 En Jesús sagði við hann: "Varnið þess ekki. Sá sem er ekki á móti yður, er með yður."
by Icelandic Bible Society