Book of Common Prayer
68 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Ljóð.
2 Guð rís upp, óvinir hans tvístrast, þeir sem hata hann flýja fyrir augliti hans.
3 Eins og reykur eyðist, eyðast þeir, eins og vax bráðnar í eldi, tortímast óguðlegir fyrir augliti Guðs.
4 En réttlátir gleðjast, fagna fyrir augliti Guðs og kætast stórum.
5 Syngið fyrir Guði, vegsamið nafn hans, leggið braut fyrir hann er ekur gegnum öræfin. Drottinn heitir hann, fagnið fyrir augliti hans.
6 Hann er faðir föðurlausra, vörður ekknanna, Guð í sínum heilaga bústað.
7 Guð lætur hina einmana hverfa heim aftur, hann leiðir hina fjötruðu út til hamingju, en uppreisnarseggir skulu búa í hrjóstrugu landi.
8 Ó Guð, þegar þú fórst út á undan lýð þínum, þegar þú brunaðir fram um öræfin, [Sela]
9 þá nötraði jörðin, og himnarnir drupu fyrir Guði, Drottni frá Sínaí, fyrir Guði, Ísraels Guði.
10 Ríkulegu regni dreyptir þú, ó Guð, á arfleifð þína, það sem vanmegnaðist, styrktir þú.
11 Staðinn þar sem söfnuður þinn dvelur, bjóst þú hinum hrjáðu, ó Guð, sakir gæsku þinnar.
12 Drottinn lætur orð sín rætast, konurnar sem sigur boða eru mikill her:
13 "Konungar hersveitanna flýja, þeir flýja, en hún sem heima situr skiptir herfangi.
14 Hvort viljið þér liggja milli fjárgirðinganna? Vængir dúfunnar eru lagðir silfri og fjaðrir hennar íbleiku gulli."
15 Þegar Hinn almáttki tvístraði konungunum, þá snjóaði á Salmon.
16 Guðs fjall er Basansfjall, tindafjall er Basansfjall.
17 Hví lítið þér, tindafjöll, öfundarauga það fjall er Guð hefir kjörið sér til bústaðar, þar sem Drottinn samt mun búa um eilífð?
18 Hervagnar Guðs eru tíþúsundir, þúsundir á þúsundir ofan. Hinn alvaldi kom frá Sínaí til helgidómsins.
19 Þú steigst upp til hæða, hafðir á burt bandingja, tókst við gjöfum frá mönnum, jafnvel uppreisnarmönnum, að þú, Drottinn, Guð, mættir búa þar.
20 Lofaður sé Drottinn, er ber oss dag eftir dag, Guð er hjálpráð vort. [Sela]
2 Þegar Drottinn ætlaði að láta Elía fara til himins í stormviðri, voru þeir Elía og Elísa á leið frá Gilgal.
2 Þá sagði Elía við Elísa: "Vertu hér kyrr, því að Drottinn hefir sent mig til Betel." En Elísa svaraði: "Svo sannarlega sem Drottinn lifir og svo sannarlega sem þú lifir, mun ég eigi við þig skilja." Fóru þeir þá ofan til Betel.
3 Spámannasveinar þeir, er voru í Betel, gengu út á móti Elísa og sögðu við hann: "Veist þú að Drottinn ætlar í dag að nema herra þinn burt yfir höfði þér?" Elísa svaraði: "Veit ég það líka. Verið hljóðir!"
4 Þá sagði Elía við hann: "Elísa, vertu hér kyrr, því að Drottinn hefir sent mig til Jeríkó." Hann svaraði: "Svo sannarlega sem Drottinn lifir og svo sannarlega sem þú lifir, mun ég eigi við þig skilja." Fóru þeir þá til Jeríkó.
5 Þá gengu spámannasveinar þeir, er voru í Jeríkó, til Elísa og sögðu við hann: "Veist þú að Drottinn ætlar í dag að nema herra þinn burt yfir höfði þér?" Elísa svaraði: "Veit ég það líka. Verið hljóðir!"
6 Þá sagði Elía við hann: "Vertu hér kyrr, því að Drottinn hefir sent mig til Jórdanar." Hann svaraði: "Svo sannarlega sem Drottinn lifir og svo sannarlega sem þú lifir, mun ég eigi við þig skilja." Fóru þeir þá báðir saman.
7 En fimmtíu manns af spámannasveinunum fóru og námu staðar til hliðar í nokkurri fjarlægð, en hinir báðir gengu að Jórdan.
8 Þá tók Elía skikkju sína, braut hana saman og sló á vatnið. Skipti það sér þá til beggja hliða, en þeir gengu báðir yfir um á þurru.
9 En er þeir voru komnir yfir um, sagði Elía við Elísa: "Bið þú mig einhvers, er ég megi veita þér, áður en ég verð numinn burt frá þér." Elísa svaraði: "Mættu mér þá hlotnast tveir hlutar af andagift þinni."
10 Þá mælti Elía: "Til mikils hefir þú mælst. En ef þú sér mig, er ég verð numinn burt frá þér, þá mun þér veitast það, ella eigi."
11 En er þeir héldu áfram og voru að tala saman, þá kom allt í einu eldlegur vagn og eldlegir hestar og skildu þá að, og Elía fór til himins í stormviðri.
12 Og er Elísa sá það, kallaði hann: "Faðir minn, faðir minn, þú Ísraels vagn og riddarar!" Og hann sá hann ekki framar. Þá þreif hann í klæði sín og reif þau sundur í tvo hluti.
13 Síðan tók hann upp skikkju Elía, er fallið hafði af honum, sneri við og gekk niður á Jórdanbakka,
14 tók skikkju Elía, er fallið hafði af honum, sló á vatnið og sagði: "Hvar er nú Drottinn, Guð Elía?" En er hann sló á vatnið, skipti það sér til beggja hliða, en Elísa gekk yfir um.
15 Þegar spámannasveinarnir í Jeríkó sáu það hinumegin, sögðu þeir: "Andi Elía hvílir yfir Elísa." Gengu þeir í móti honum, lutu til jarðar fyrir honum
5 Í hægri hendi hans, er í hásætinu sat, sá ég bók, skrifaða innan og utan, innsiglaða sjö innsiglum.
2 Og ég sá sterkan engil, sem kallaði hárri röddu: "Hver er maklegur að ljúka upp bókinni og leysa innsigli hennar?"
3 En enginn var sá á himni eða jörðu eða undir jörðunni, sem lokið gæti upp bókinni og litið í hana.
4 Og ég grét stórum af því að enginn reyndist maklegur að ljúka upp bókinni og líta í hana.
5 En einn af öldungunum segir við mig: "Grát þú eigi! Sjá, sigrað hefur ljónið af Júda ættkvísl, rótarkvistur Davíðs, hann getur lokið upp bókinni og innsiglum hennar sjö."
6 Þá sá ég fyrir miðju hásætinu og fyrir verunum fjórum og öldungunum lamb standa, sem slátrað væri. Það hafði sjö horn og sjö augu, og eru það sjö andar Guðs, sendir út um alla jörðina.
7 Og það kom og tók við bókinni úr hægri hendi hans, er í hásætinu sat.
8 Þegar það hafði tekið við henni, féllu verurnar fjórar og öldungarnir tuttugu og fjórir niður frammi fyrir lambinu. Þeir höfðu hver um sig hörpu og gullskálar, fullar af reykelsi, það eru bænir hinna heilögu.
9 Og þeir syngja nýjan söng: Verður ert þú að taka við bókinni og ljúka upp innsiglum hennar, því að þér var slátrað og þú keyptir menn Guði til handa með blóði þínu af sérhverri kynkvísl og tungu, lýð og þjóð.
10 Og þú gjörðir þá, Guði vorum til handa, að konungsríki og prestum. Og þeir munu ríkja á jörðunni.
11 Þá sá ég og heyrði raust margra engla, sem stóðu hringinn í kringum hásætið og verurnar og öldungana, og tala þeirra var tíu þúsundir tíu þúsunda og þúsundir þúsunda.
12 Þeir sögðu með hárri röddu: Maklegt er lambið hið slátraða að fá máttinn og ríkdóminn, visku og kraft, heiður og dýrð og lofgjörð.
13 Og allt skapað, sem er á himni og jörðu og undir jörðunni og á hafinu, allt sem í þeim er, heyrði ég segja: Honum, sem í hásætinu situr, og lambinu, sé lofgjörðin og heiðurinn, dýrðin og krafturinn um aldir alda.
14 Og verurnar fjórar sögðu: "Amen." Og öldungarnir féllu fram og veittu lotningu.
by Icelandic Bible Society