Book of Common Prayer
80 Til söngstjórans. Liljulag. Asafs-vitnisburður. Sálmur.
2 Hirðir Ísraels, hlýð á, þú sem leiddir Jósef eins og hjörð, þú sem ríkir uppi yfir kerúbunum, birst þú í geisladýrð.
3 Tak á mætti þínum frammi fyrir Efraím, Benjamín og Manasse og kom oss til hjálpar!
4 Guð, snú oss til þín aftur og lát ásjónu þína lýsa, að vér megum frelsast.
5 Drottinn, Guð hersveitanna, hversu lengi ætlar þú að vera reiður þrátt fyrir bænir lýðs þíns?
6 Þú hefir gefið þeim tárabrauð að eta og fært þeim gnægð tára að drekka.
7 Þú hefir gjört oss að þrætuefni nágranna vorra, og óvinir vorir gjöra gys að oss.
8 Guð hersveitanna leið oss aftur til þín og lát ásjónu þína lýsa, að vér megum frelsast.
9 Þú kipptir upp vínvið úr Egyptalandi, stökktir burt þjóðum, en gróðursettir hann,
10 þú rýmdir til fyrir honum, hann festi rætur og fyllti landið.
11 Fjöllin huldust í skugga hans og sedrustré Guðs af greinum hans.
12 Hann breiddi út álmur sínar til hafsins og teinunga sína til Fljótsins.
13 Hví hefir þú brotið niður múrveggina um hann, svo að allir vegfarendur tína berin?
14 Skógargeltirnir naga hann, og öll dýr merkurinnar bíta hann.
15 Guð hersveitanna, æ, snú þú aftur, lít niður af himni og sjá og vitja vínviðar þessa
16 og varðveit það sem hægri hönd þín hefir plantað, og son þann, er þú hefir styrkvan gjört þér til handa.
17 Hann er brenndur í eldi og upphöggvinn, fyrir ógnun auglitis þíns farast þeir.
18 Lát hönd þína hvíla yfir manninum við þína hægri hönd, yfir mannsins barni, er þú hefir styrkvan gjört þér til handa,
19 þá skulum vér eigi víkja frá þér. Viðhald lífi voru, þá skulum vér ákalla nafn þitt.
20 Drottinn, Guð hersveitanna, snú oss til þín aftur, lát ásjónu þína lýsa, að vér megum frelsast.
77 Til söngstjórans. Fyrir Jedútún. Asafs-sálmur.
2 Ég kalla til Guðs og hrópa, kalla til Guðs, að hann megi heyra til mín.
3 Þegar ég er í nauðum, leita ég Drottins, rétti út hendur mínar um nætur og þreytist ekki, sál mín er óhuggandi.
4 Ég minnist Guðs og kveina, ég styn, og andi minn örmagnast. [Sela]
5 Þú heldur uppi augnalokum mínum, mér er órótt og ég má eigi mæla.
6 Ég íhuga fyrri daga, ár þau sem löngu eru liðin,
7 ég minnist strengjaleiks míns um nætur, ég hugleiði í hjarta mínu, og andi minn rannsakar.
8 Mun Drottinn þá útskúfa um eilífð og aldrei framar vera náðugur?
9 Er miskunn hans lokið um eilífð, fyrirheit hans þrotin um aldir alda?
10 Hefir Guð gleymt að sýna líkn, byrgt miskunn sína með reiði? [Sela]
11 Þá sagði ég: "Þetta er kvöl mín, að hægri hönd Hins hæsta hefir brugðist."
12 Ég víðfrægi stórvirki Drottins, ég vil minnast furðuverka þinna frá fyrri tíðum,
13 ég íhuga allar athafnir þínar, athuga stórvirki þín.
14 Guð, helgur er vegur þinn, hver er svo mikill Guð sem Drottinn?
15 Þú ert Guð, sá er furðuverk gjörir, þú hefir kunngjört mátt þinn meðal þjóðanna.
16 Með máttugum armlegg frelsaðir þú lýð þinn, sonu Jakobs og Jósefs. [Sela]
17 Vötnin sáu þig, ó Guð, vötnin sáu þig og skelfdust, og undirdjúpin skulfu.
18 Vatnið streymdi úr skýjunum, þrumuraust drundi úr skýþykkninu, og örvar þínar flugu.
19 Reiðarþrumur þínar kváðu við, leiftur lýstu um jarðríki, jörðin skalf og nötraði.
20 Leið þín lá gegnum hafið, stígar þínir gegnum mikil vötn, og spor þín urðu eigi rakin.
21 Þú leiddir lýð þinn eins og hjörð fyrir Móse og Aron.
79 Asafs-sálmur. Guð, heiðingjar hafa brotist inn í óðal þitt, þeir hafa saurgað þitt heilaga musteri og lagt Jerúsalem í rústir.
2 Þeir hafa gefið lík þjóna þinna fuglum himins að fæðu og villidýrunum hold dýrkenda þinna.
3 Þeir hafa úthellt blóði þeirra sem vatni umhverfis Jerúsalem, og enginn jarðaði þá.
4 Vér erum til háðungar nábúum vorum, til spotts og athlægis þeim er búa umhverfis oss.
5 Hversu lengi, Drottinn, ætlar þú að vera reiður, á vandlæti þitt að brenna sem eldur án afláts?
6 Hell þú reiði þinni yfir heiðingjana, sem eigi þekkja þig, og yfir konungsríki, er eigi ákalla nafn þitt.
7 Því að þeir hafa uppetið Jakob og lagt bústað hans í eyði.
8 Lát oss eigi gjalda misgjörða forfeðra vorra, lát miskunn þína fljótt koma í móti oss, því að vér erum mjög þjakaðir.
9 Hjálpa þú oss, Guð hjálpræðis vors, sakir dýrðar nafns þíns, frelsa oss og fyrirgef syndir vorar sakir nafns þíns.
10 Hví eiga heiðingjarnir að segja: "Hvar er Guð þeirra?" Lát fyrir augum vorum kunna verða á heiðingjunum hefndina fyrir úthellt blóð þjóna þinna.
11 Lát andvörp bandingjanna koma fram fyrir þig, leys þá sem komnir eru í dauðann, með þínum sterka armlegg,
12 og gjald nágrönnum vorum sjöfalt háðungina er þeir hafa sýnt þér, Drottinn.
13 En vér, lýður þinn og gæsluhjörð þín, munum lofa þig um eilífð, kunngjöra lofstír þinn frá kyni til kyns.
8 Öll þau boðorð, sem ég legg fyrir yður í dag, skuluð þér varðveita til eftirbreytni, svo að þér megið lifa og margfaldast og komast inn í landið, sem Drottinn sór feðrum yðar, og fá það til eignar.
2 Þú skalt minnast þess, hversu Drottinn Guð þinn hefir leitt þig alla leiðina þessi fjörutíu ár í eyðimörkinni til þess að auðmýkja þig og reyna þig, svo að hann kæmist að raun um, hvað þér býr í hjarta, hvort þú mundir halda boðorð hans eða ekki.
3 Hann auðmýkti þig og lét þig þola hungur og gaf þér síðan manna að eta, sem þú eigi þekktir áður né heldur feður þínir þekktu, svo að þú skyldir sjá, að maðurinn lifir eigi á einu saman brauði, heldur að maðurinn lifir á sérhverju því, er fram gengur af munni Drottins.
4 Klæði þín hafa ekki slitnað á þér og fætur þínir hafa ekki þrútnað í þessi fjörutíu ár.
5 Ver því sannfærður um það, að eins og maður agar son sinn, svo agar Drottinn Guð þinn þig.
6 Varðveittu boðorð Drottins Guðs þíns, svo að þú gangir á hans vegum og óttist hann.
7 Drottinn Guð þinn leiðir þig inn í gott land, inn í land, þar sem nóg er af vatnslækjum, lindum og djúpum vötnum, sem spretta upp í dölum og á fjöllum,
8 inn í land, þar sem nóg er af hveiti og byggi, vínviði, fíkjutrjám og granateplatrjám, inn í land, þar sem nóg er af olíutrjám og hunangi,
9 inn í land, þar sem þú munt ekki eiga við fátækt að búa og þar sem þig mun ekkert bresta, inn í land, þar sem steinarnir eru járn og þar sem þú getur grafið kopar úr fjöllunum.
10 Og þegar þú hefir etið og ert orðinn mettur, þá skalt þú vegsama Drottin Guð þinn fyrir landið góða, sem hann gaf þér.
1 Jakob, þjónn Guðs og Drottins Jesú Krists, heilsar þeim tólf kynkvíslum í dreifingunni.
2 Álítið það, bræður mínir, eintómt gleðiefni, er þér ratið í ýmiss konar raunir.
3 Þér vitið, að trúarstaðfesta yðar vekur þolgæði,
4 en þolgæðið á að birtast í fullkomnu verki, til þess að þér séuð fullkomnir og algjörir og yður sé í engu ábótavant.
5 Ef einhvern yðar brestur visku, þá biðji hann Guð, sem gefur öllum örlátlega og átölulaust, og honum mun gefast.
6 En hann biðji í trú, án þess að efast. Sá sem efast er líkur sjávaröldu, er rís og hrekst fyrir vindi.
7 Sá maður, tvílyndur og reikull á öllum vegum sínum, má eigi ætla,
8 að hann fái nokkuð hjá Drottni.
9 Lágt settur bróðir hrósi sér af upphefð sinni,
10 en auðugur af lægingu sinni, því hann mun líða undir lok eins og blóm á engi.
11 Sólin kemur upp með steikjandi hita og brennir grasið, og blóm þess dettur af og fegurð þess verður að engu. Þannig mun og hinn auðugi maður visna upp á vegum sínum.
12 Sæll er sá maður, sem stenst freistingu, því að þegar hann hefur reynst hæfur mun hann öðlast kórónu lífsins, sem Guð hefur heitið þeim er elska hann.
13 Enginn má segja, er hann verður fyrir freistingu: "Guð freistar mín." Guð getur eigi orðið fyrir freistingu af hinu illa, enda freistar hann sjálfur einskis manns.
14 Það er eigin girnd, sem freistar sérhvers manns og dregur hann og tælir.
15 Þegar girndin síðan er orðin þunguð, elur hún synd, og þegar syndin er orðin fullþroskuð, fæðir hún dauða.
18 Svo bar við, að hann var einn á bæn og lærisveinarnir hjá honum. Þá spurði hann þá: "Hvern segir fólkið mig vera?"
19 Þeir svöruðu: "Jóhannes skírara, aðrir Elía og aðrir, að einn hinna fornu spámanna sé risinn upp."
20 Og hann sagði við þá: "En þér, hvern segið þér mig vera?" Pétur svaraði: "Krist Guðs."
21 Hann lagði ríkt á við þá að segja þetta engum
22 og mælti: "Mannssonurinn á margt að líða, honum mun útskúfað verða af öldungum, æðstu prestum og fræðimönnum, hann mun líflátinn, en upp rísa á þriðja degi."
23 Og hann sagði við alla: "Hver sem vill fylgja mér, afneiti sjálfum sér, taki kross sinn daglega og fylgi mér.
24 Því að hver sem vill bjarga lífi sínu, mun týna því, og hver sem týnir lífi sínu mín vegna, hann mun bjarga því.
25 Hvað stoðar það manninn að eignast allan heiminn, en týna eða fyrirgjöra sjálfum sér?
26 En þann sem blygðast sín fyrir mig og mín orð, mun Mannssonurinn blygðast sín fyrir, er hann kemur í dýrð sinni og föðurins og heilagra engla.
27 En ég segi yður með sanni: Nokkrir þeirra, sem hér standa, munu eigi dauða bíða, fyrr en þeir sjá Guðs ríki."
by Icelandic Bible Society