Book of Common Prayer
93 Drottinn er konungur orðinn! Hann hefir íklæðst hátign, Drottinn hefir skrýðst, hann hefir spennt sig belti styrkleika síns og fest jörðina, svo að hún haggast eigi.
2 Hásæti þitt stendur stöðugt frá öndverðu, frá eilífð ert þú.
3 Straumarnir hófu upp, Drottinn, straumarnir hófu upp raust sína, straumarnir hófu upp dunur sínar.
4 Drottinn á hæðum er tignarlegri en gnýr mikilla, tignarlegra vatna, tignarlegri en boðar hafsins.
5 Vitnisburðir þínir eru harla áreiðanlegir, húsi þínu hæfir heilagleiki, ó Drottinn, um allar aldir.
96 Syngið Drottni nýjan söng, syngið Drottni öll lönd!
2 Syngið Drottni, lofið nafn hans, kunngjörið hjálpráð hans dag eftir dag.
3 Segið frá dýrð hans meðal þjóðanna, frá dásemdarverkum hans meðal allra lýða.
4 Því að mikill er Drottinn og mjög vegsamlegur, óttalegur er hann öllum guðum framar.
5 Því að allir guðir þjóðanna eru falsguðir, en Drottinn hefir gjört himininn.
6 Heiður og vegsemd eru fyrir augliti hans, máttur og prýði í helgidómi hans.
7 Tjáið Drottni lof, þér kynkvíslir þjóða, tjáið Drottni vegsemd og vald.
8 Tjáið Drottni dýrð þá, er nafni hans hæfir, færið gjafir og komið til forgarða hans,
9 fallið fram fyrir Drottni í helgum skrúða, titrið fyrir honum, öll lönd!
10 Segið meðal þjóðanna: Drottinn er konungur orðinn! Hann hefir fest jörðina, svo að hún bifast ekki, hann dæmir þjóðirnar með réttvísi.
11 Himinninn gleðjist og jörðin fagni, hafið drynji og allt sem í því er,
12 foldin fagni og allt sem á henni er, öll tré skógarins kveði fagnaðaróp,
13 fyrir Drottni, því að hann kemur, hann kemur til þess að dæma jörðina. Hann mun dæma heiminn með réttlæti og þjóðirnar eftir trúfesti sinni.
34 Sálmur Davíðs, þá er hann gjörði sér upp vitfirringu frammi fyrir Abímelek, svo að Abímelek rak hann í burt, og hann fór burt.
2 Ég vil vegsama Drottin alla tíma, ætíð sé lof hans mér í munni.
3 Sál mín hrósar sér af Drottni, hinir hógværu skulu heyra það og fagna.
4 Miklið Drottin ásamt mér, tignum í sameiningu nafn hans.
5 Ég leitaði Drottins, og hann svaraði mér, frelsaði mig frá öllu því er ég hræddist.
6 Lítið til hans og gleðjist, og andlit yðar skulu eigi blygðast.
7 Hér er volaður maður sem hrópaði, og Drottinn heyrði hann og hjálpaði honum úr öllum nauðum hans.
8 Engill Drottins setur vörð kringum þá er óttast hann, og frelsar þá.
9 Finnið og sjáið, að Drottinn er góður, sæll er sá maður er leitar hælis hjá honum.
10 Óttist Drottin, þér hans heilögu, því að þeir er óttast hann líða engan skort.
11 Ung ljón eiga við skort að búa og svelta, en þeir er leita Drottins fara einskis góðs á mis.
12 Komið, börn, hlýðið á mig, ég vil kenna yður ótta Drottins.
13 Ef einhver óskar lífs, þráir lífdaga til þess að njóta hamingjunnar,
14 þá varðveit tungu þína frá illu og varir þínar frá svikatali,
15 forðast illt og gjörðu gott, leita friðar og legg stund á hann.
16 Augu Drottins hvíla á réttlátum, og eyru hans gefa gaum að hrópi þeirra.
17 Auglit Drottins horfir á þá er illa breyta, til þess að afmá minningu þeirra af jörðunni.
18 Ef réttlátir hrópa, þá heyrir Drottinn, úr öllum nauðum þeirra frelsar hann þá.
19 Drottinn er nálægur þeim er hafa sundurmarið hjarta, þeim er hafa sundurkraminn anda, hjálpar hann.
20 Margar eru raunir réttláts manns, en Drottinn frelsar hann úr þeim öllum.
21 Hann gætir allra beina hans, ekki eitt af þeim skal brotið.
22 Ógæfa drepur óguðlegan mann, þeir er hata hinn réttláta, skulu sekir dæmdir.
23 Drottinn frelsar líf þjóna sinna, enginn sá er leitar hælis hjá honum, mun sekur dæmdur.
14 Þetta rita ég þér, þó að ég voni að koma bráðum til þín,
15 til þess að þú skulir vita, ef mér seinkar, hvernig á að haga sér í Guðs húsi, sem er söfnuður lifanda Guðs, stólpi og grundvöllur sannleikans.
16 Og víst er leyndardómur guðhræðslunnar mikill: Hann opinberaðist í holdi, var réttlættur í anda, birtist englum, var boðaður með þjóðum, var trúað í heimi, var hafinn upp í dýrð.
4 Andinn segir berlega, að á síðari tímum muni sumir ganga af trúnni og gefa sig að villuöndum og lærdómum illra anda.
2 Þessu valda hræsnisfullir lygarar, sem eru brennimerktir á samvisku sinni.
3 Það eru þeir, sem meina hjúskap og bjóða mönnum að halda sér frá þeirri fæðu, er Guð hefur skapað til þess að við henni sé tekið með þakkargjörð af trúuðum mönnum, er þekkja sannleikann.
4 Allt sem Guð hefur skapað er gott, og engu ber frá sér að kasta, sé það þegið með þakkargjörð.
5 Það helgast af orði Guðs og bæn.
24 Aðra dæmisögu sagði hann þeim: "Líkt er um himnaríki og mann, er sáði góðu sæði í akur sinn.
25 En er menn voru í svefni, kom óvinur hans, sáði illgresi meðal hveitisins og fór síðan.
26 Þegar sæðið spratt upp og tók að bera ávöxt, kom illgresið og í ljós.
27 Þá komu þjónar húsbóndans til hans og sögðu við hann: ,Herra, sáðir þú ekki góðu sæði í akur þinn? Hvaðan kemur illgresið?`
28 Hann svaraði þeim: ,Þetta hefur einhver óvinur gjört.` Þjónarnir sögðu við hann: ,Viltu, að vér förum og tínum það?`
29 Hann sagði: ,Nei, með því að tína illgresið, gætuð þér slitið upp hveitið um leið.
30 Látið hvort tveggja vaxa saman fram að kornskurði. Þegar komin er kornskurðartíð, mun ég segja við kornskurðarmenn: Safnið fyrst illgresinu og bindið í bundin til að brenna því, en hirðið hveitið í hlöðu mína."`
31 Aðra dæmisögu sagði hann þeim: "Líkt er himnaríki mustarðskorni, sem maður tók og sáði í akur sinn.
32 Smæst er það allra sáðkorna, en nær það vex, er það öllum jurtum meira, það verður tré, og fuglar himins koma og hreiðra sig í greinum þess."
33 Aðra dæmisögu sagði hann þeim: "Líkt er himnaríki súrdeigi, er kona tók og fól í þrem mælum mjöls, uns það sýrðist allt."
34 Þetta allt talaði Jesús í dæmisögum til fólksins, og án dæmisagna talaði hann ekki til þeirra.
by Icelandic Bible Society