Book of Common Prayer
106 Halelúja! Þakkið Drottni, því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu.
2 Hver getur sagt frá máttarverkum Drottins, kunngjört allan lofstír hans?
3 Sælir eru þeir, sem gæta réttarins, sem iðka réttlæti alla tíma.
4 Minnst þú mín, Drottinn, með velþóknun þeirri, er þú hefir á lýð þínum, vitja mín með hjálpræði þínu,
5 að ég megi horfa með unun á hamingju þinna útvöldu, gleðjast yfir gleði þjóðar þinnar, fagna með eignarlýð þínum.
6 Vér höfum syndgað ásamt feðrum vorum, höfum breytt illa og óguðlega.
7 Feður vorir í Egyptalandi gáfu eigi gætur að dásemdarverkum þínum, minntust eigi þinnar miklu miskunnar og sýndu Hinum hæsta þrjósku hjá Hafinu rauða.
8 Þó hjálpaði hann þeim sakir nafns síns til þess að kunngjöra mátt sinn.
9 Hann hastaði á Hafið rauða, svo að það þornaði upp, og lét þá ganga um djúpin eins og um eyðimörk.
10 Hann frelsaði þá af hendi hatursmanna þeirra og leysti þá af hendi óvinanna.
11 Vötnin huldu fjendur þeirra, ekki einn af þeim komst undan.
12 Þá trúðu þeir orðum hans, sungu honum lof.
13 En þeir gleymdu fljótt verkum hans, treystu eigi á ráð hans.
14 Þeir fylltust lysting í eyðimörkinni og freistuðu Guðs í öræfunum.
15 Þá veitti hann þeim bæn þeirra og sendi þeim megurð.
16 Þá öfunduðust þeir við Móse í herbúðunum, við Aron, hinn heilaga Drottins.
17 Jörðin opnaðist og svalg Datan og huldi flokk Abírams,
18 eldur kviknaði í flokki þeirra, loginn brenndi hina óguðlegu.
19 Þeir bjuggu til kálf hjá Hóreb og lutu steyptu líkneski,
20 og létu vegsemd sína í skiptum fyrir mynd af uxa, er gras etur.
21 Þeir gleymdu Guði, frelsara sínum, þeim er stórvirki gjörði í Egyptalandi,
22 dásemdarverk í landi Kams, óttaleg verk við Hafið rauða.
23 Þá hugði hann á að tortíma þeim, ef Móse, hans útvaldi, hefði eigi gengið fram fyrir hann og borið af blakið, til þess að afstýra reiði hans, svo að hann skyldi eigi tortíma.
24 Þeir fyrirlitu hið unaðslega land og trúðu eigi orðum hans.
25 Þeir mögluðu í tjöldum sínum og hlýddu eigi á raust Drottins.
26 Þá lyfti hann hendi sinni gegn þeim og sór að láta þá falla í eyðimörkinni,
27 tvístra niðjum þeirra meðal þjóðanna og dreifa þeim um löndin.
28 Þeir dýrkuðu Baal Peór og átu fórnir dauðra skurðgoða.
29 Þeir egndu hann til reiði með athæfi sínu, og braust því út plága meðal þeirra.
30 En Pínehas gekk fram og skar úr, og þá staðnaði plágan.
31 Og honum var reiknað það til réttlætis, frá kyni til kyns, að eilífu.
32 Þeir reittu hann til reiði hjá Meríba-vötnum, þá fór illa fyrir Móse þeirra vegna,
33 því að þeir sýndu þrjósku anda hans, og honum hrutu ógætnisorð af vörum.
34 Þeir eyddu eigi þjóðunum, er Drottinn hafði boðið þeim,
35 heldur lögðu þeir lag sitt við heiðingjana og lærðu athæfi þeirra.
36 Þeir dýrkuðu skurðgoð þeirra, og þau urðu þeim að snöru,
37 þeir færðu að fórnum sonu sína og dætur sínar illum vættum
38 og úthelltu saklausu blóði, blóði sona sinna og dætra, er þeir fórnfærðu skurðgoðum Kanaans, svo að landið vanhelgaðist af blóðskuldinni.
39 Þeir saurguðust af verkum sínum og frömdu tryggðrof með athæfi sínu.
40 Þá upptendraðist reiði Drottins gegn lýð hans, og hann fékk viðbjóð á arfleifð sinni.
41 Hann gaf þá á vald heiðingjum, og hatursmenn þeirra drottnuðu yfir þeim.
42 Óvinir þeirra þjökuðu þá, og þeir urðu að beygja sig undir vald þeirra.
43 Mörgum sinnum bjargaði hann þeim, en þeir sýndu þrjósku í ráði sínu og urðu að lúta sakir misgjörðar sinnar.
44 Samt leit hann á neyð þeirra, er hann heyrði kvein þeirra.
45 Hann minntist sáttmála síns við þá og aumkaðist yfir þá sakir sinnar miklu miskunnar
46 og lét þá finna miskunn hjá öllum þeim er höfðu haft þá burt hernumda.
47 Hjálpa þú oss, Drottinn, Guð vor, og safna oss saman frá þjóðunum, að vér megum lofa þitt heilaga nafn, víðfrægja lofstír þinn.
48 Lofaður sé Drottinn, Ísraels Guð, frá eilífð til eilífðar. Og allur lýðurinn segi: Amen! Halelúja.
13 Dæmum því ekki framar hver annan. Ásetjið yður öllu heldur að verða bróður yðar ekki til ásteytingar eða falls.
14 Ég veit það og er þess fullviss, af því að ég lifi í samfélagi við Drottin Jesú, að ekkert er vanheilagt í sjálfu sér, nema þá þeim, sem heldur eitthvað vanheilagt, honum er það vanheilagt.
15 Ef bróðir þinn hryggist sökum þess, sem þú etur, þá ertu kominn af kærleikans braut. Hrind ekki með mat þínum í glötun þeim manni, sem Kristur dó fyrir.
16 Látið því ekki hið góða, sem þér eigið, verða fyrir lasti.
17 Því að ekki er Guðs ríki matur og drykkur, heldur réttlæti, friður og fögnuður í heilögum anda.
18 Hver sem þjónar Kristi á þann hátt, hann er Guði velþóknanlegur og vel metinn manna á meðal.
19 Keppum þess vegna eftir því, sem til friðarins heyrir og til hinnar sameiginlegu uppbyggingar.
20 Brjóttu ekki niður verk Guðs vegna matar! Allt er að sönnu hreint, en það er þó illt þeim manni, sem etur öðrum til ásteytingar.
21 Það er rétt að eta hvorki kjöt né drekka vín né gjöra neitt, sem bróðir þinn steytir sig á.
22 Halt þú þeirri trú, sem þú hefur með sjálfum þér fyrir Guði. Sæll er sá, sem þarf ekki að áfella sig fyrir það, sem hann velur.
23 En sá sem er efablandinn og etur þó, hann er dæmdur af því að hann etur ekki af trú. Allt sem ekki er af trú er synd.
40 En er Jesús kom aftur, fagnaði mannfjöldinn honum, því að allir væntu hans.
41 Þá kom þar maður, Jaírus að nafni, forstöðumaður samkundunnar. Hann féll til fóta Jesú og bað hann koma heim til sín.
42 Því hann átti einkadóttur, um tólf ára að aldri, og hún lá fyrir dauðanum. Þegar Jesús var á leiðinni, þrengdi mannfjöldinn að honum.
43 Þar var kona, sem hafði haft blóðlát í tólf ár. Hún hafði leitað lækna og varið til aleigu sinni, en enginn getað læknað hana.
44 Hún kom að baki honum og snart fald klæða hans, og jafnskjótt stöðvaðist blóðlát hennar.
45 Jesús sagði: "Hver var það, sem snart mig?" En er allir synjuðu fyrir það, sagði Pétur: "Meistari, mannfjöldinn treðst að þér og þrýstir á."
46 En Jesús sagði: "Einhver snart mig, því að ég fann, að kraftur fór út frá mér."
47 En er konan sá, að hún fékk eigi dulist, kom hún skjálfandi, féll til fóta honum og skýrði frá því í áheyrn alls lýðsins, hvers vegna hún snart hann, og hvernig hún hafði jafnskjótt læknast.
48 Hann sagði þá við hana: "Dóttir, trú þín hefur bjargað þér. Far þú í friði."
49 Meðan hann var að segja þetta, kemur maður heiman frá samkundustjóranum og segir: "Dóttir þín er látin, ómaka þú ekki meistarann lengur."
50 En er Jesús heyrði þetta, sagði hann við hann: "Óttast ekki, trú þú aðeins, og mun hún heil verða."
51 Þegar hann kom að húsinu, leyfði hann engum að fara inn með sér nema Pétri, Jóhannesi og Jakobi og föður stúlkunnar og móður.
52 Og allir grétu og syrgðu hana. Hann sagði: "Grátið ekki, hún er ekki dáin, hún sefur."
53 En þeir hlógu að honum, þar eð þeir vissu að hún var dáin.
54 Hann tók þá hönd hennar og kallaði: "Stúlka, rís upp!"
55 Og andi hennar kom aftur, og hún reis þegar upp, en hann bauð að gefa henni að eta.
56 Foreldrar hennar urðu frá sér numdir, en hann bauð þeim að segja engum frá þessum atburði.
by Icelandic Bible Society