Book of Common Prayer
30 Musterisvígsluljóð. Davíðssálmur.
2 Ég tigna þig, Drottinn, því að þú hefir bjargað mér og eigi látið óvini mína hlakka yfir mér.
3 Drottinn, Guð minn, ég hrópaði til þín og þú læknaðir mig.
4 Drottinn, þú heimtir sál mína úr Helju, lést mig halda lífi, er aðrir gengu til grafar.
5 Syngið Drottni lof, þér hans trúuðu, vegsamið hans heilaga nafn.
6 Andartak stendur reiði hans, en alla ævi náð hans. Að kveldi gistir oss grátur, en gleðisöngur að morgni.
7 En ég uggði eigi að mér og hugsaði: "Aldrei skriðnar mér fótur."
8 Drottinn, af náð þinni hafðir þú gjört bjarg mitt stöðugt, en nú huldir þú auglit þitt og ég skelfdist.
9 Til þín, Drottinn, kallaði ég, og Drottin grátbændi ég:
10 "Hver ávinningur er í dauða mínum, í því að ég gangi til grafar? Getur duftið lofað þig, kunngjört trúfesti þína?
11 Heyr, Drottinn, og líkna mér, ó Drottinn, ver þú hjálpari minn!"
12 Þú breyttir grát mínum í gleðidans, leystir af mér hærusekkinn og gyrtir mig fögnuði,
13 að sál mín megi lofsyngja þér og eigi þagna. Drottinn, Guð minn, ég vil þakka þér að eilífu.
32 Davíðsmaskíl. Sæll er sá er afbrotin eru fyrirgefin, synd hans hulin.
2 Sæll er sá maður er Drottinn tilreiknar eigi misgjörð, sá er eigi geymir svik í anda.
3 Meðan ég þagði, tærðust bein mín, allan daginn kveinaði ég,
4 því að dag og nótt lá hönd þín þungt á mér, lífsvökvi minn þvarr sem í sumarbreiskju. [Sela]
5 Þá játaði ég synd mína fyrir þér og fól eigi misgjörð mína. Ég mælti: "Ég vil játa afbrot mín fyrir Drottni," og þú fyrirgafst syndasekt mína. [Sela]
6 Þess vegna biðji þig sérhver trúaður, meðan þig er að finna. Þótt vatnsflóðið komi, nær það honum eigi.
7 Þú ert skjól mitt, þú leysir mig úr nauðum, með frelsisfögnuði umkringir þú mig. [Sela]
8 Ég vil fræða þig og vísa þér veginn, er þú átt að ganga, ég vil kenna þér og hafa augun á þér:
9 Verið eigi sem hestar eða skynlausir múlar; með taum og beisli verður að temja þrjósku þeirra, annars nálgast þeir þig ekki.
10 Miklar eru þjáningar óguðlegs manns, en þann er treystir Drottni umlykur hann elsku.
11 Gleðjist yfir Drottni og fagnið, þér réttlátir, kveðið fagnaðarópi, allir hjartahreinir!
42 Til söngstjórans. Kóraítamaskíl.
2 Eins og hindin, sem þráir vatnslindir, þráir sál mín þig, ó Guð.
3 Sál mína þyrstir eftir Guði, hinum lifanda Guði. Hvenær mun ég fá að koma og birtast fyrir augliti Guðs?
4 Tár mín urðu fæða mín dag og nótt, af því menn segja við mig allan daginn: "Hvar er Guð þinn?"
5 Um það vil ég hugsa og úthella sál minni, sem í mér er, hversu ég gekk fram í mannþrönginni, leiddi þá til Guðs húss með fagnaðarópi og lofsöng, með hátíðaglaumi.
6 Hví ert þú beygð, sál mín, og ólgar í mér? Vona á Guð, því að enn mun ég fá að lofa hann, hjálpræði auglitis míns og Guð minn.
7 Guð minn, sál mín er beygð í mér, fyrir því vil ég minnast þín frá Jórdan- og Hermonlandi, frá litla fjallinu.
8 Eitt flóðið kallar á annað, þegar fossar þínir duna, allir boðar þínir og bylgjur ganga yfir mig.
9 Um daga býður Drottinn út náð sinni, og um nætur syng ég honum ljóð, bæn til Guðs lífs míns.
10 Ég mæli til Guðs: "Þú bjarg mitt, hví hefir þú gleymt mér? hví verð ég að ganga harmandi, kúgaður af óvinum?"
11 Háð fjandmanna minna er sem rotnun í beinum mínum, er þeir segja við mig allan daginn: "Hvar er Guð þinn?"
12 Hví ert þú beygð, sál mín, og ólgar í mér? Vona á Guð, því að enn mun ég fá að lofa hann, hjálpræði auglitis míns og Guð minn.
43 Lát mig ná rétti mínum, Guð, berst fyrir málefni mínu gegn miskunnarlausri þjóð, bjarga mér frá svikulum og ranglátum mönnum.
2 Því að þú ert sá Guð, sem er mér vígi, hví hefir þú útskúfað mér? hví verð ég að ganga um harmandi, kúgaður af óvinum?
3 Send ljós þitt og trúfesti þína, þau skulu leiða mig, þau skulu fara með mig til fjallsins þíns helga, til bústaðar þíns,
4 svo að ég megi inn ganga að altari Guðs, til Guðs minnar fagnandi gleði, og lofa þig með gígjuhljómi, ó Guð, þú Guð minn.
5 Hví ert þú beygð, sál mín, og ólgar í mér? Vona á Guð, því að enn mun ég fá að lofa hann, hjálpræði auglitis míns og Guð minn.
16 Þá þustu þessir sömu menn til konungs og sögðu við hann: "Þú veist, konungur, að það eru lög hjá Medum og Persum, að ekki má raska því banni eða boði, sem konungur hefir út gefið."
17 Þá bauð konungur að leiða Daníel fram og kasta honum í ljónagryfjuna. Og konungur tók til máls og sagði við Daníel: "Guð þinn, sem þú dýrkar án afláts, frelsi þig!"
18 Síðan var sóttur steinn og lagður yfir gryfjumunnann, og innsiglaði konungur hann með innsiglishring sínum og með innsiglishringum stórhöfðingja sinna, til þess að sú ráðstöfun, sem gjörð hafði verið við Daníel, skyldi eigi raskast.
19 Eftir það gekk konungur heim til hallar sinnar og var þar um nóttina fastandi. Frillur lét hann eigi leiða inn til sín, og eigi kom honum dúr á auga.
20 Síðan reis konungur á fætur í dögun, þá er lýsa tók, og skundaði til ljónagryfjunnar.
21 Og er hann kom að gryfjunni, kallaði hann á Daníel með sorgfullri raust. Konungur tók til máls og sagði við Daníel: "Daníel, þú þjónn hins lifanda Guðs, hefir Guð þinn, sá er þú dýrkar án afláts, megnað að frelsa þig frá ljónunum?"
22 Þá sagði Daníel við konung: "Konungurinn lifi eilíflega!
23 Guð minn sendi engil sinn og hann lokaði munni ljónanna, svo að þau gjörðu mér ekkert mein, af því að ég er saklaus fundinn frammi fyrir honum, og hefi ekki heldur framið neitt brot gagnvart þér, konungur!"
24 Þá varð konungur næsta glaður og bauð að draga Daníel upp úr gryfjunni. Var Daníel þá dreginn upp úr gryfjunni, og fannst ekki að honum hefði neitt að skaða orðið, því að hann hafði treyst Guði sínum.
25 En konungur bauð að leiða fram menn þá, er rægt höfðu Daníel, og kasta þeim, börnum þeirra og konum í ljónagryfjuna. Og áður en þeir komust til botns í gryfjunni, hremmdu ljónin þá og muldu sundur öll bein þeirra.
26 Síðan ritaði Daríus konungur öllum lýðum, þjóðum og tungum, sem búa á allri jörðinni: "Gangi yður allt til gæfu!
27 Ég læt þá skipun út ganga, að í öllu veldi ríkis míns skulu menn hræðast og óttast Guð Daníels, því að hann er hinn lifandi Guð og varir að eilífu. Ríki hans gengur ekki á grunn og veldi hans varir allt til enda.
28 Hann frelsar og bjargar, hann gjörir tákn og furðuverk á himni og jörðu, hann sem frelsaði Daníel undan ljónunum."
1 Öldungurinn heilsar elskuðum Gajusi, sem ég ann í sannleika.
2 Ég bið þess, minn elskaði, að þér vegni vel í öllum hlutum og að þú sért heill heilsu, eins og sálu þinni vegnar vel.
3 Ég varð mjög glaður, þegar bræður komu og báru vitni um tryggð þína við sannleikann, hversu þú lifir í sannleika.
4 Ég hef enga meiri gleði en þá að heyra, að börnin mín lifi í sannleikanum.
5 Þú breytir dyggilega, minn elskaði, í öllu sem þú vinnur fyrir bræðurna og jafnvel ókunna menn.
6 Þeir hafa vitnað fyrir söfnuðinum um kærleika þinn. Þú gjörir vel, er þú greiðir för þeirra eins og verðugt er fyrir Guði.
7 Því að sakir nafnsins lögðu þeir af stað og þiggja ekki neitt af heiðnum mönnum.
8 Þess vegna ber oss að taka þvílíka menn að oss, til þess að vér verðum samverkamenn sannleikans.
9 Ég hef ritað nokkuð til safnaðarins, en Díótrefes, sem vill vera fremstur meðal þeirra, tekur eigi við oss.
10 Þess vegna ætla ég, ef ég kem, að minna á verk þau er hann vinnur. Hann lætur sér ekki nægja að ófrægja oss með vondum orðum, heldur tekur hann ekki sjálfur á móti bræðrunum og hindrar þá, er það vilja gjöra, og rekur þá úr söfnuðinum.
11 Breyttu ekki eftir því, sem illt er, minn elskaði, heldur eftir því, sem gott er. Sá sem gott gjörir heyrir Guði til, en sá sem illt gjörir hefur ekki séð Guð.
12 Demetríusi er borið gott vitni af öllum og af sannleikanum sjálfum. Það gjörum vér líka, og þú veist að vitnisburður vor er sannur.
13 Ég hef margt að rita þér, en vil ekki rita þér með bleki og penna.
14 En ég vona að sjá þig bráðum og munum við þá talast við munnlega.
27 Eftir þetta fór hann út. Þá sá hann tollheimtumann, Leví að nafni, sitja hjá tollbúðinni og sagði við hann: "Fylg þú mér!"
28 Og hann stóð upp, yfirgaf allt og fylgdi honum.
29 Leví bjó honum veislu mikla í húsi sínu, og þar sat að borði með þeim mikill fjöldi tollheimtumanna og annarra.
30 En farísearnir og fræðimenn þeirra vönduðu um við lærisveina hans og sögðu: "Hvers vegna etið þér og drekkið með tollheimtumönnum og bersyndugum?"
31 Og Jesús svaraði þeim: "Ekki þurfa heilbrigðir læknis við, heldur þeir sem sjúkir eru.
32 Ég er ekki kominn til að kalla réttláta, heldur syndara til iðrunar."
33 En þeir sögðu við hann: "Lærisveinar Jóhannesar fasta oft og fara með bænir og eins lærisveinar farísea, en þínir eta og drekka."
34 Jesús sagði við þá: "Hvort getið þér ætlað brúðkaupsgestum að fasta, meðan brúðguminn er hjá þeim?
35 En koma munu þeir dagar, er brúðguminn verður frá þeim tekinn, þá munu þeir fasta á þeim dögum."
36 Hann sagði þeim einnig líkingu: "Enginn rífur bót af nýju fati og lætur á gamalt fat, því að bæði rífur hann þá nýja fatið og bótin af því hæfir ekki hinu gamla.
37 Og enginn lætur nýtt vín á gamla belgi, því þá sprengir nýja vínið belgina og fer niður, en belgirnir ónýtast.
38 Nýtt vín ber að láta á nýja belgi.
39 Og enginn, sem drukkið hefur gamalt vín, vill nýtt, því að hann segir: ,Hið gamla er gott."`
by Icelandic Bible Society