Book of Common Prayer
105 Þakkið Drottni, ákallið nafn hans, gjörið máttarverk hans kunn meðal þjóðanna!
2 Syngið fyrir honum, leikið fyrir honum, talið um öll hans dásemdarverk.
3 Hrósið yður af hans helga nafni, hjarta þeirra er leita Drottins gleðjist.
4 Leitið Drottins og máttar hans, stundið sífellt eftir augliti hans.
5 Minnist dásemdarverka hans, þeirra er hann gjörði, tákna hans og refsidóma munns hans,
6 þér niðjar Abrahams, þjónar hans, þér synir Jakobs, hans útvöldu.
7 Hann er Drottinn, vor Guð, um víða veröld ganga dómar hans.
8 Hann minnist að eilífu sáttmála síns, orðs þess, er hann hefir gefið þúsundum kynslóða,
9 sáttmálans, er hann gjörði við Abraham, og eiðs síns við Ísak,
10 þess er hann setti sem lög fyrir Jakob, eilífan sáttmála fyrir Ísrael,
11 þá er hann mælti: Þér mun ég gefa Kanaanland sem erfðahlut yðar.
12 Þegar þeir voru fámennur hópur, örfáir og bjuggu þar útlendingar,
13 þá fóru þeir frá einni þjóð til annarrar og frá einu konungsríki til annars lýðs.
14 Hann leið engum að kúga þá og hegndi konungum þeirra vegna.
15 "Snertið eigi við mínum smurðu og gjörið eigi spámönnum mínum mein."
16 Þá er hann kallaði hallæri yfir landið, braut í sundur hverja stoð brauðsins,
17 þá sendi hann mann á undan þeim, Jósef var seldur sem þræll.
18 Þeir þjáðu fætur hans með fjötrum, hann var lagður í járn,
19 allt þar til er orð hans rættust, og orð Drottins létu hann standast raunina.
20 Konungur sendi boð og lét hann lausan, drottnari þjóðanna leysti fjötra hans.
21 Hann gjörði hann að herra yfir húsi sínu og að drottnara yfir öllum eigum sínum,
22 að hann gæti fjötrað höfðingja eftir vild og kennt öldungum hans speki.
23 Síðan kom Ísrael til Egyptalands, Jakob var gestur í landi Kams.
24 Og Guð gjörði lýð sinn mjög mannmargan og lét þá verða fleiri en fjendur þeirra.
25 Hann sneri hjörtum Egypta til haturs við lýð sinn, til lævísi við þjóna sína.
26 Hann sendi Móse, þjón sinn, og Aron, er hann hafði útvalið,
27 hann gjörði tákn sín á þeim og undur í landi Kams.
28 Hann sendi sorta og myrkvaði landið, en þeir gáfu orðum hans engan gaum,
29 hann breytti vötnum þeirra í blóð og lét fiska þeirra deyja,
30 land þeirra varð kvikt af froskum, alla leið inn í svefnherbergi konungs,
31 hann bauð, þá komu flugur, mývargur um öll héruð þeirra,
32 hann gaf þeim hagl fyrir regn, bálandi eld í land þeirra,
33 hann laust vínvið þeirra og fíkjutré og braut sundur trén í héruðum þeirra,
34 hann bauð, þá kom jarðvargur og óteljandi engisprettur,
35 sem átu upp allar jurtir í landi þeirra og átu upp ávöxtinn af jörð þeirra,
36 hann laust alla frumburði í landi þeirra, frumgróða alls styrkleiks þeirra.
37 Síðan leiddi hann þá út með silfri og gulli, enginn hrasaði af kynkvíslum hans.
38 Egyptaland gladdist yfir burtför þeirra, því að ótti við þá var fallinn yfir þá.
39 Hann breiddi út ský sem hlíf og eld til þess að lýsa um nætur.
40 Þeir báðu, þá lét hann lynghæns koma og mettaði þá með himnabrauði.
41 Hann opnaði klett, svo að vatn vall upp, rann sem fljót um eyðimörkina.
42 Hann minntist síns heilaga heits við Abraham þjón sinn
43 og leiddi lýð sinn út með gleði, sína útvöldu með fögnuði.
44 Og hann gaf þeim lönd þjóðanna, það sem þjóðirnar höfðu aflað með striti, fengu þeir til eignar,
45 til þess að þeir skyldu halda lög hans og varðveita lögmál hans. Halelúja.
6 Daríus frá Medalandi tók við ríkinu og hafði þá tvo vetur um sextugt.
2 Daríusi þóknaðist að setja yfir ríkið hundrað og tuttugu jarla, er skipað skyldi niður um allt ríkið,
3 og yfir þá þrjá yfirhöfðingja, og var Daníel einn af þeim. Skyldu jarlarnir gjöra þeim skilagrein, svo að konungur biði engan skaða.
4 Þá bar Daníel þessi af yfirhöfðingjunum og jörlunum, sökum þess að hann hafði frábæran anda, og hugði konungur að setja hann yfir allt ríkið.
5 Þá leituðu yfirhöfðingjarnir og jarlarnir að finna Daníel eitthvað til saka viðvíkjandi ríkisstjórninni, en gátu enga sök eða ávirðing fundið, því að hann var trúr, svo að ekkert tómlæti né ávirðing fannst hjá honum.
6 Þá sögðu þessir menn: "Vér munum ekkert fundið geta Daníel þessum til saka, nema ef vér finnum honum eitthvað að sök í átrúnaði hans."
7 Þá þustu þessir yfirhöfðingjar og jarlar til konungs og sögðu svo við hann: "Daríus konungur lifi eilíflega!
8 Öllum yfirhöfðingjum ríkisins, landstjórum, jörlum, ráðgjöfum og landshöfðingjum hefir komið ásamt um að gefa út þá konungsskipun og staðfesta það forboð, að hver sem í þrjátíu daga gjörir bæn sína til nokkurs guðs eða manns, nema til þín, konungur, honum skuli varpa í ljónagryfju.
9 Nú skalt þú, konungur, gefa út forboð þetta og láta það skriflegt út ganga, svo að því verði ekki breytt, eftir órjúfanlegu lögmáli Meda og Persa."
10 Samkvæmt þessu lét konungur gefa skriflega út skipunina og bannið.
11 En er Daníel varð þess vísari, að þessi skipun var út gefin, gekk hann inn í hús sitt. Þar hafði hann uppi í loftstofu sinni opna glugga, er sneru móti Jerúsalem, og þrem sinnum á dag kraup hann á kné, bað til Guðs síns og vegsamaði hann, eins og hann hafði áður verið vanur að gjöra.
12 Þá þustu þessir menn að og fundu Daníel, þar sem hann var að biðja og ákalla Guð sinn.
13 Síðan gengu þeir inn fyrir konung og spurðu hann viðvíkjandi konungsforboðinu: "Hefir þú eigi gefið út það forboð, að hver sá maður, sem í þrjátíu daga gjörir bæn sína til nokkurs guðs eða manns, nema til þín, konungur, honum skuli varpa í ljónagryfju?" Konungur svaraði og sagði: "Það stendur fast, eftir órjúfanlegu lögmáli Meda og Persa."
14 Þá svöruðu þeir og sögðu við konung: "Daníel, einn af hinum herleiddu Gyðingum, skeytir hvorki um þig, konungur, né um það forboð, sem þú hefir út gefið, heldur gjörir bæn sína þrem sinnum á dag."
15 Þegar konungur heyrði þetta, féll honum það næsta þungt, og lagði hann allan hug á að frelsa Daníel, og allt til sólarlags leitaði hann alls við, að hann fengi borgið honum.
1 Öldungurinn heilsar hinni útvöldu frú og börnum hennar, sem ég elska í sannleika. Og ekki ég einn, heldur einnig allir, sem þekkja sannleikann.
2 Vér gjörum það sakir sannleikans, sem er stöðugur í oss og mun vera hjá oss til eilífðar.
3 Náð, miskunn og friður frá Guði föður og frá Jesú Kristi, syni föðurins, mun vera með oss í sannleika og kærleika.
4 Það hefur glatt mig mjög, að ég hef fundið nokkur af börnum þínum, er ganga fram í sannleika, samkvæmt því boðorði, sem vér tókum við af föðurnum.
5 Og nú bið ég þig, frú mín góð, og er þá ekki að skrifa þér nýtt boðorð, heldur það, er vér höfðum frá upphafi: Vér skulum elska hver annan.
6 Og í þessu birtist elskan, að vér lifum eftir boðorðum hans. Þetta er boðorðið, eins og þér heyrðuð það frá upphafi, til þess að þér skylduð lifa í því.
7 Því að margir afvegaleiðendur eru farnir út í heiminn, sem ekki játa, að Jesús sé Kristur, kominn í holdi. Þetta er afvegaleiðandinn og andkristurinn.
8 Hafið gætur á sjálfum yður að þér missið ekki það, sem vér höfum áunnið, heldur megið fá full laun.
9 Sérhver sem fer of langt og er ekki stöðugur í kenningu Krists, hefur ekki Guð. Sá sem er stöðugur í kenningunni, hann hefur bæði föðurinn og soninn.
10 Ef einhver kemur til yðar og er ekki með þessa kenningu, þá takið hann ekki á heimili yðar og biðjið hann ekki vera velkominn.
11 Því að sá, sem biður hann vera velkominn, verður hluttakandi í hans vondu verkum.
12 Þótt ég hafi margt að rita yður, vildi ég ekki gjöra það með pappír og bleki, en ég vona að koma til yðar og tala munnlega við yður, til þess að gleði vor verði fullkomin.
12 Svo bar við, er hann var í einni borginni, að þar var maður altekinn líkþrá. Hann sá Jesú, féll fram á ásjónu sína og bað hann: "Herra, ef þú vilt, getur þú hreinsað mig."
13 Jesús rétti út höndina, snart hann og mælti: "Ég vil, verð þú hreinn!" Jafnskjótt hvarf af honum líkþráin.
14 Og hann bauð honum að segja þetta engum. "En far þú," sagði hann, "sýn þig prestinum, og fórna fyrir hreinsun þína, eins og Móse bauð, þeim til vitnisburðar."
15 En fregnin um hann breiddist út því meir, og menn komu hópum saman til að hlýða á hann og læknast af meinum sínum.
16 En hann dró sig einatt í hlé til óbyggðra staða og var þar á bæn.
17 Dag nokkurn var hann að kenna. Þar sátu farísear og lögmálskennendur, komnir úr hverju þorpi í Galíleu og Júdeu og frá Jerúsalem, og kraftur Drottins var með honum til þess að lækna.
18 Komu þá menn með lama mann í rekkju og reyndu að bera hann inn og leggja hann fyrir framan Jesú.
19 En vegna mannfjöldans sáu þeir engin ráð til að komast inn með hann og fóru því upp á þak og létu hann síga í rekkjunni niður um helluþekjuna beint fram fyrir Jesú.
20 Og er hann sá trú þeirra, sagði hann: "Maður, syndir þínar eru þér fyrirgefnar."
21 Þá tóku fræðimennirnir og farísearnir að hugsa með sér: "Hver er sá, er fer með slíka guðlöstun? Hver getur fyrirgefið syndir nema Guð einn?"
22 En Jesús skynjaði gjörla hugsanir þeirra og sagði við þá: "Hvað hugsið þér í hjörtum yðar?
23 Hvort er auðveldara að segja: ,Syndir þínar eru þér fyrirgefnar,` eða segja: ,Statt upp og gakk`?
24 En til þess að þér vitið, að Mannssonurinn hefur vald á jörðu til að fyrirgefa syndir, þá segi ég þér:" _ og nú talar hann við lama manninn _ "Statt upp, tak rekkju þína, og far heim til þín."
25 Jafnskjótt stóð hann upp frammi fyrir þeim, tók það, sem hann hafði legið á, fór heim til sín og lofaði Guð.
26 En allir voru furðu lostnir og lofuðu Guð. Og þeir urðu ótta slegnir og sögðu: "Óskiljanlegt er það, sem vér höfum séð í dag."
by Icelandic Bible Society