Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 38

38 Davíðssálmur. Minningarljóð.

Drottinn, refsa mér ekki í reiði þinni og tyfta mig ekki í gremi þinni.

Örvar þínar standa fastar í mér, og hönd þín liggur þungt á mér.

Enginn heilbrigður blettur er á líkama mínum sakir reiði þinnar, ekkert heilt í beinum mínum sakir syndar minnar.

Misgjörðir mínar ganga mér yfir höfuð, sem þung byrði eru þær mér of þungar orðnar.

Ódaun leggur af sárum mínum, rotnun er í þeim sakir heimsku minnar.

Ég er beygður og mjög bugaður, ráfa um harmandi daginn langan.

Lendar mínar eru fullar bruna, og enginn heilbrigður blettur er á líkama mínum.

Ég er lémagna og kraminn mjög, kveina af angist hjartans.

10 Drottinn, öll mín þrá er þér kunn og andvörp mín eru eigi hulin þér.

11 Hjarta mitt berst ákaft, kraftur minn er þrotinn, jafnvel ljós augna minna er horfið mér.

12 Ástvinir mínir og kunningjar hörfa burt fyrir kröm minni, og frændur mínir standa fjarri.

13 Þeir er sitja um líf mitt, leggja snörur fyrir mig, þeir er leita mér meins, mæla skaðræði og hyggja á svik allan liðlangan daginn.

14 En ég er sem daufur, ég heyri það ekki, og sem dumbur, er eigi opnar munninn,

15 ég er sem maður er eigi heyrir og engin andmæli eru í munni hans.

16 Því að á þig, Drottinn, vona ég, þú munt svara mér, Drottinn minn og Guð minn,

17 því að ég segi: "Lát þá eigi hlakka yfir mér, eigi hælast um af því, að mér skriðni fótur."

18 Því að ég er að falli kominn, og þjáningar mínar eru mér æ fyrir augum.

19 Ég játa misgjörð mína, harma synd mína,

20 og þeir sem án saka eru óvinir mínir, eru margir, fjölmargir þeir er hata mig að ástæðulausu.

21 Þeir gjalda mér gott með illu, sýna mér fjandskap, af því ég legg stund á það sem gott er.

22 Yfirgef mig ekki, Drottinn, Guð minn, ver ekki fjarri mér,

23 skunda til liðs við mig, Drottinn, þú hjálp mín.

Sálmarnir 119:25-48

25 Sál mín loðir við duftið, lát mig lífi halda eftir orði þínu.

26 Ég hefi talið upp málefni mín, og þú bænheyrðir mig, kenn mér lög þín.

27 Lát mig skilja veg fyrirmæla þinna, að ég megi íhuga dásemdir þínar.

28 Sál mín tárast af trega, reis mig upp eftir orði þínu.

29 Lát veg lyginnar vera fjarri mér og veit mér náðarsamlega lögmál þitt.

30 Ég hefi útvalið veg sannleikans, sett mér ákvæði þín fyrir sjónir.

31 Ég held fast við reglur þínar, Drottinn, lát mig eigi verða til skammar.

32 Ég vil skunda veg boða þinna, því að þú hefir gjört mér létt um hjartað.

33 Kenn mér, Drottinn, veg laga þinna, að ég megi halda þau allt til enda.

34 Veit mér skyn, að ég megi halda lögmál þitt og varðveita það af öllu hjarta.

35 Leið mig götu boða þinna, því að af henni hefi ég yndi.

36 Beyg hjarta mitt að reglum þínum, en eigi að ranglátum ávinningi.

37 Snú augum mínum frá því að horfa á hégóma, lífga mig á vegum þínum.

38 Staðfest fyrirheit þitt fyrir þjóni þínum, sem gefið er þeim er þig óttast.

39 Nem burt háðungina, sem ég er hræddur við, því að ákvæði þín eru góð.

40 Sjá, ég þrái fyrirmæli þín, lífga mig með réttlæti þínu.

41 Lát náð þína koma yfir mig, Drottinn, hjálpræði þitt, samkvæmt fyrirheiti þínu,

42 að ég fái andsvör veitt þeim er smána mig, því að þínu orði treysti ég.

43 Og tak aldrei sannleikans orð burt úr munni mínum, því að ég bíð dóma þinna.

44 Ég vil stöðugt varðveita lögmál þitt, um aldur og ævi,

45 þá mun ég ganga um víðlendi, því að ég leita fyrirmæla þinna,

46 þá mun ég tala um reglur þínar frammi fyrir konungum, og eigi skammast mín,

47 og leita unaðar í boðum þínum, þeim er ég elska,

48 og rétta út hendurnar eftir boðum þínum, þeim er ég elska, og íhuga lög þín.

Daníel 5:1-12

Belsasar konungur hélt veislu mikla þúsund stórmennum sínum og drakk vín í augsýn þeirra þúsund.

En er menn tóku að gjörast vínhreifir, bauð Belsasar að sækja þau gullker og silfurker, sem Nebúkadnesar faðir hans hafði haft á burt úr musterinu í Jerúsalem, til þess að konungurinn, stórmenni hans, konur hans og hjákonur mættu drekka af þeim.

Þá voru fram borin gullker þau, sem tekin höfðu verið úr musterinu, húsi Guðs í Jerúsalem, og konungurinn, stórmenni hans, konur hans og hjákonur drukku af þeim.

Þeir drukku vín og vegsömuðu guði sína úr gulli, silfri, eiri, járni, tré og steini.

Á sömu stundu komu fram fingur af mannshendi og rituðu á kalkið á veggnum í konungshöllinni, gegnt ljósastikunni, og konungurinn sá fingur handarinnar, sem ritaði.

Þá gjörðist konungur litverpur, og hugsanir hans skelfdu hann, og var sem mjaðmarliðir hans gengju sundur, og kné hans skulfu.

Konungur kallaði hástöfum, að sækja skyldi særingamennina, Kaldeana og stjörnuspekingana. Konungur tók til máls og sagði við vitringana í Babýlon: "Hver sem les þetta letur og segir mér þýðing þess, skal klæddur verða purpura og bera gullfesti á hálsi sér og vera þriðji yfirhöfðingi í ríkinu!"

Þá komu allir vitringar konungs þangað, en þeir gátu ekki lesið letrið og sagt konungi þýðing þess.

Þá varð Belsasar konungur mjög felmtsfullur og gjörðist litverpur, en fát mikið kom á stórmenni hans.

10 Út af orðræðu konungs og stórmenna hans gekk drottning inn í veislusalinn. Drottning tók til máls og sagði: "Konungurinn lifi eilíflega! Lát eigi hugsanir þínar skelfa þig og gjörst eigi svo litverpur.

11 Sá maður er í ríki þínu, er andi hinna heilögu guða býr í, og á dögum föður þíns fannst með honum skýrleikur, þekking og speki, lík speki guðanna, og Nebúkadnesar konungur, faðir þinn, gjörði hann að yfirhöfðingja spásagnamannanna, særingamannanna, Kaldeanna og stjörnuspekinganna. Þetta gjörði faðir þinn, konungur,

12 af því að með Daníel, er konungurinn kallaði Beltsasar, fannst frábær andi og kunnátta og þekking til að þýða drauma, ráða gátur og greiða úr vandamálum. Lát nú kalla Daníel, og mun hann segja, hvað þetta merkir."

Fyrsta bréf Jóhannesar 5:1-12

Hver sem trúir, að Jesús sé Kristur, er af Guði fæddur, og hver sem elskar föðurinn elskar einnig barn hans.

Að vér elskum Guðs börn þekkjum vér af því, að vér elskum Guð og breytum eftir boðorðum hans.

Því að í þessu birtist elskan til Guðs, að vér höldum hans boðorð. Og boðorð hans eru ekki þung,

því að allt, sem af Guði er fætt, sigrar heiminn, og trú vor, hún er sigurinn, hún hefur sigrað heiminn.

Hver er sá, sem sigrar heiminn, nema sá sem trúir, að Jesús sé sonur Guðs?

Hann er sá sem kom með vatni og blóði, Jesús Kristur. Ekki með vatninu einungis, heldur með vatninu og með blóðinu. Og andinn er sá sem vitnar, því að andinn er sannleikurinn.

Því að þrír eru þeir sem vitna [í himninum: Faðirinn, orðið og heilagur andi, og þessir þrír eru eitt. Og þeir eru þrír sem vitna á jörðunni:]

Andinn og vatnið og blóðið, og þeim þremur ber saman.

Vér tökum manna vitnisburð gildan, en vitnisburður Guðs er meiri. Þetta er vitnisburður Guðs, hann hefur vitnað um son sinn.

10 Sá sem trúir á Guðs son hefur vitnisburðinn í sjálfum sér. Sá sem ekki trúir Guði hefur gjört hann að lygara, af því að hann hefur ekki trúað á þann vitnisburð, sem Guð hefur vitnað um son sinn.

11 Og þetta er vitnisburðurinn, að Guð hefur gefið oss eilíft líf og þetta líf er í syni hans.

12 Sá sem hefur soninn á lífið, sá sem ekki hefur Guðs son á ekki lífið.

Lúkasarguðspjall 4:38-44

38 Úr samkundunni fór hann í hús Símonar. En tengdamóðir Símonar var altekin sótthita, og báðu þeir hann að hjálpa henni.

39 Hann gekk að, laut yfir hana og hastaði á sótthitann, og fór hann úr henni. En hún reis jafnskjótt á fætur og gekk þeim fyrir beina.

40 Um sólsetur komu allir þeir, er höfðu á sínum vegum sjúklinga haldna ýmsum sjúkdómum, og færðu þá til hans. En hann lagði hendur yfir hvern þeirra og læknaði þá.

41 Þá fóru og illir andar út af mörgum og æptu: "Þú ert sonur Guðs." En hann hastaði á þá og bannaði þeim að tala, því að þeir vissu, að hann var Kristur.

42 Þegar dagur rann, gekk hann burt á óbyggðan stað, en mannfjöldinn leitaði hans. Þeir fundu hann og vildu aftra því, að hann færi frá þeim.

43 En hann sagði við þá: "Mér ber og að flytja hinum borgunum fagnaðarerindið um Guðs ríki, því að til þess var ég sendur."

44 Og hann prédikaði í samkundunum í Júdeu.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society