Book of Common Prayer
25 Davíðssálmur.
2 Til þín, Drottinn, hef ég sál mína, Guð minn, þér treysti ég. Lát mig eigi verða til skammar, lát eigi óvini mína hlakka yfir mér.
3 Hver sá er á þig vonar, mun eigi heldur verða til skammar, þeir verða til skammar, er ótrúir eru að raunalausu.
4 Vísa mér vegu þína, Drottinn, kenn mér stigu þína.
5 Lát mig ganga í sannleika þínum og kenn mér, því að þú ert Guð hjálpræðis míns, allan daginn vona ég á þig.
6 Minnst þú miskunnar þinnar, Drottinn, og kærleiksverka, því að þau eru frá eilífð.
7 Minnst eigi æskusynda minna og afbrota, minnst mín eftir elsku þinni sakir gæsku þinnar, Drottinn.
8 Góður og réttlátur er Drottinn, þess vegna vísar hann syndurum veginn.
9 Hann lætur hina hrjáðu ganga eftir réttlætinu og kennir hinum þjökuðu veg sinn.
10 Allir vegir Drottins eru elska og trúfesti fyrir þá er gæta sáttmála hans og vitnisburða.
11 Sakir nafns þíns, Drottinn, fyrirgef mér sekt mína, því að hún er mikil.
12 Ef einhver óttast Drottin, mun hann kenna honum veg þann er hann á að velja.
13 Sjálfur mun hann búa við hamingju, og niðjar hans eignast landið.
14 Drottinn sýnir trúnað þeim er óttast hann, og sáttmála sinn gjörir hann þeim kunnan.
15 Augu mín mæna ætíð til Drottins, því að hann greiðir fót minn úr snörunni.
16 Snú þér til mín og líkna mér, því að ég er einmana og hrjáður.
17 Angist sturlar hjarta mitt, leið mig úr nauðum mínum.
18 Lít á eymd mína og armæðu og fyrirgef allar syndir mínar.
19 Lít á, hversu margir óvinir mínir eru, með rangsleitnishatri hata þeir mig.
20 Varðveit líf mitt og frelsa mig, lát mig eigi verða til skammar, því að hjá þér leita ég hælis.
21 Lát ráðvendni og hreinskilni gæta mín, því að á þig vona ég.
22 Frelsa Ísrael, ó Guð, úr öllum nauðum hans.
9 Til söngstjórans. Almút labben. Davíðssálmur.
2 Ég vil lofa þig, Drottinn, af öllu hjarta, segja frá öllum þínum dásemdarverkum.
3 Ég vil gleðjast og kætast yfir þér, lofsyngja nafni þínu, þú Hinn hæsti.
4 Óvinir mínir hörfuðu undan, hrösuðu og fórust fyrir augliti þínu.
5 Já, þú hefir látið mig ná rétti mínum og flutt mál mitt, setst í hásætið sem réttlátur dómari.
6 Þú hefir hastað á þjóðirnar, tortímt hinum óguðlegu, afmáð nafn þeirra um aldur og ævi.
7 Óvinirnir eru liðnir undir lok _ rústir að eilífu _ og borgirnar hefir þú brotið, minning þeirra er horfin.
8 En Drottinn ríkir að eilífu, hann hefir reist hásæti sitt til dóms.
9 Hann dæmir heiminn með réttvísi, heldur réttlátan dóm yfir þjóðunum.
10 Og Drottinn er vígi orðinn hinum kúguðu, vígi á neyðartímum.
11 Þeir er þekkja nafn þitt, treysta þér, því að þú, Drottinn, yfirgefur eigi þá, er þín leita.
12 Lofsyngið Drottni, þeim er býr á Síon, gjörið stórvirki hans kunn meðal þjóðanna.
13 Því að hann sem blóðs hefnir hefir minnst þeirra, hann hefir eigi gleymt hrópi hinna hrjáðu:
14 "Líkna mér, Drottinn, sjá þú eymd mína, er hatursmenn mínir baka mér, þú sem lyftir mér upp frá hliðum dauðans,
15 að ég megi segja frá öllum lofstír þínum, fagna yfir hjálp þinni í hliðum Síonardóttur."
16 Lýðirnir eru fallnir í gryfju þá, er þeir gjörðu, fætur þeirra festust í neti því, er þeir lögðu leynt.
17 Drottinn er kunnur orðinn: Hann hefir háð dóm, hinn óguðlegi festist í því, er hendur hans höfðu gjört. [Strengjaleikur. Sela]
18 Hinir óguðlegu hrapa til Heljar, allar þjóðir er gleyma Guði.
19 Hinum snauða verður eigi ávallt gleymt, von hinna hrjáðu bregst eigi sífellt.
20 Rís þú upp, Drottinn! Lát eigi dauðlega menn verða yfirsterkari, lát þjóðirnar hljóta dóm fyrir augliti þínu.
21 Skjót lýðunum skelk í bringu, Drottinn! Lát þá komast að raun um, að þeir eru dauðlegir menn. [Sela]
15 Davíðssálmur Drottinn, hver fær að gista í tjaldi þínu, hver fær að búa á fjallinu þínu helga?
2 Sá er fram gengur í flekkleysi og iðkar réttlæti og talar sannleik af hjarta,
3 sá er eigi talar róg með tungu sinni, eigi gjörir öðrum mein og eigi leggur náunga sínum svívirðing til;
4 sem fyrirlítur þá er illa breyta, en heiðrar þá er óttast Drottin, sá er sver sér í mein og bregður eigi af,
5 sá er eigi lánar fé sitt með okri og eigi þiggur mútur gegn saklausum _ sá er þetta gjörir, mun eigi haggast um aldur.
19 Þá stóð Daníel, sem kallaður var Beltsasar, agndofa um stund, og hugsanir hans skelfdu hann. En konungur tók til máls og sagði: "Beltsasar! Lát eigi drauminn né þýðing hans skelfa þig." Beltsasar svaraði og sagði: "Ég vildi óska, herra, að draumurinn rættist á óvinum þínum og þýðing hans á mótstöðumönnum þínum.
20 Tréð, sem þú sást og bæði var mikið og sterkt og svo hátt að upp tók til himins og séð varð um alla jörðina,
21 limar þess fagrar og ávöxturinn mikill og fæðsla á því handa öllum, skógardýrin bjuggu undir því og fuglar himinsins hreiðruðu sig í greinum þess,
22 það ert þú, konungur, sem ert orðinn mikill og voldugur og mikilleiki þinn vaxinn svo mjög, að hann nær til himins og veldi þitt til endimarka jarðar.
23 En þar er konungurinn sá heilagan vörð stíga niður af himni og segja: ,Höggvið upp tréð og eyðileggið það, en látið samt stofninn með rótum sínum vera kyrran eftir í jörðinni, bundinn járn- og eirfjötrum, í grænu graslendi, hann skal vökna af dögg himinsins og taka hlut með dýrum merkurinnar, uns sjö tíðir eru yfir hann liðnar,` _
24 þá er þýðingin þessi, konungur, og ráðstöfun Hins hæsta er það, sem komið er fram við minn herra, konunginn:
25 Þú munt út rekinn verða úr mannafélagi og eiga byggð með dýrum merkurinnar. Þér mun gefið verða gras að eta eins og uxum, og þú munt vökna af dögg himinsins, og sjö tíðir munu yfir þig líða, uns þú viðurkennir, að Hinn hæsti ræður yfir konungdómi mannanna og getur gefið hann hverjum sem hann vill.
26 En þar er sagt var, að stofn trésins með rótum sínum skyldi eftir verða, það merkir, að þú skalt halda ríki þínu, er þú kannast við, að allt valdið er á himnum.
27 Lát þér því, konungur, geðjast ráð mitt: Losa þig af syndum þínum með réttlætisverkum og af misgjörðum þínum með líknsemi við aumingja, ef vera mætti, að hamingja þín yrði við það langærri."
19 Af þessu munum vér þekkja, að vér erum sannleikans megin og munum geta friðað hjörtu vor frammi fyrir honum,
20 hvað sem hjarta vort kann að dæma oss fyrir. Því að Guð er meiri en hjarta vort og þekkir alla hluti.
21 Þér elskaðir, ef hjartað dæmir oss ekki, þá höfum vér djörfung til Guðs.
22 Og hvað sem vér biðjum um fáum vér hjá honum, af því að vér höldum boðorð hans og gjörum það, sem honum er þóknanlegt.
23 Og þetta er hans boðorð, að vér skulum trúa á nafn sonar hans Jesú Krists og elska hver annan, samkvæmt því sem hann hefur gefið oss boðorð um.
24 Sá sem heldur boðorð Guðs er stöðugur í Guði og Guð í honum. Að hann er stöðugur í oss þekkjum vér af andanum, sem hann hefur gefið oss.
4 Þér elskaðir, trúið ekki sérhverjum anda, heldur reynið andana, hvort þeir séu frá Guði. Því margir falsspámenn eru farnir út í heiminn.
2 Af þessu getið þér þekkt anda Guðs: Sérhver andi, sem játar, að Jesús sé Kristur kominn í holdi, er frá Guði.
3 En sérhver andi, sem ekki játar Jesú, er ekki frá Guði. Hann er andkristsins andi, sem þér hafið heyrt um að komi, og nú þegar er hann í heiminum.
4 Þér börnin mín, heyrið Guði til og hafið sigrað falsspámennina, því að sá er meiri, sem í yður er, en sá, sem er í heiminum.
5 Falsspámennirnir heyra heiminum til. Þess vegna tala þeir eins og heimurinn talar, og heimurinn hlýðir á þá.
6 Vér heyrum Guði til. Hver sem þekkir Guð hlýðir á oss. Sá sem ekki heyrir Guði til hlýðir ekki á oss. Af þessu þekkjum vér sundur anda sannleikans og anda villunnar.
14 En Jesús sneri aftur til Galíleu í krafti andans, og fóru fregnir af honum um allt nágrennið.
15 Hann kenndi í samkundum þeirra, og lofuðu hann allir.
16 Hann kom til Nasaret, þar sem hann var alinn upp, og fór að vanda sínum á hvíldardegi í samkunduna og stóð upp til að lesa.
17 Var honum fengin bók Jesaja spámanns. Hann lauk upp bókinni og fann staðinn, þar sem ritað er:
18 Andi Drottins er yfir mér, af því að hann hefur smurt mig. Hann hefur sent mig til að flytja fátækum gleðilegan boðskap, boða bandingjum lausn og blindum sýn, láta þjáða lausa
19 og kunngjöra náðarár Drottins.
20 Síðan lukti hann aftur bókinni, fékk hana þjóninum og settist niður, en augu allra í samkundunni hvíldu á honum.
21 Hann tók þá að tala til þeirra: "Í dag hefur rætst þessi ritning í áheyrn yðar."
22 Og allir lofuðu hann og undruðust þau hugnæmu orð, sem fram gengu af munni hans, og sögðu: "Er hann ekki sonur Jósefs?"
23 En hann sagði við þá: "Eflaust munuð þér minna mig á orðtakið: ,Læknir, lækna sjálfan þig!` Vér höfum heyrt um allt, sem gjörst hefur í Kapernaum. Gjör nú hið sama hér í ættborg þinni."
24 Enn sagði hann: "Sannlega segi ég yður, engum spámanni er vel tekið í landi sínu.
25 En satt segi ég yður, að margar voru ekkjur í Ísrael á dögum Elía, þegar himinninn var luktur í þrjú ár og sex mánuði, og mikið hungur í öllu landinu,
26 og þó var Elía til engrar þeirra sendur, heldur aðeins til ekkju í Sarepta í Sídonlandi.
27 Og margir voru líkþráir í Ísrael á dögum Elísa spámanns, og enginn þeirra var hreinsaður, heldur aðeins Naaman Sýrlendingur."
28 Allir í samkunduhúsinu fylltust reiði, er þeir heyrðu þetta,
29 spruttu upp, hröktu hann út úr borginni og fóru með hann fram á brún fjalls þess, sem borg þeirra var reist á, til þess að hrinda honum þar ofan.
30 En hann gekk gegnum miðja mannþröngina og fór leiðar sinnar.
by Icelandic Bible Society