Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 20-21

20 Til söngstjórans. Davíðssálmur.

Drottinn bænheyri þig á degi neyðarinnar, nafn Jakobs Guðs bjargi þér.

Hann sendi þér hjálp frá helgidóminum, styðji þig frá Síon.

Hann minnist allra fórnargjafa þinna og taki brennifórn þína gilda. [Sela]

Hann veiti þér það er hjarta þitt þráir, og veiti framgang öllum áformum þínum.

Ó að vér mættum fagna yfir sigri þínum og veifa fánanum í nafni Guðs vors. Drottinn uppfylli allar óskir þínar.

Nú veit ég, að Drottinn veitir hjálp sínum smurða, svarar honum frá sínum helga himni, í máttarverkum kemur fulltingi hægri handar hans fram.

Hinir stæra sig af vögnum sínum og stríðshestum, en vér af nafni Drottins, Guðs vors.

Þeir fá knésig og falla, en vér rísum og stöndum uppréttir.

10 Drottinn! Hjálpa konunginum og bænheyr oss, er vér hrópum.

21 Til söngstjórans. Davíðssálmur.

Drottinn, yfir veldi þínu fagnar konungurinn, hve mjög kætist hann yfir hjálp þinni!

Þú hefir gefið honum það er hjarta hans þráði, um það sem varir hans báðu, neitaðir þú honum eigi. [Sela]

Því að þú kemur í móti honum með hamingjublessunum, setur gullna kórónu á höfuð honum.

Um líf bað hann þig, það veittir þú honum, fjöld lífdaga um aldur og ævi.

Mikil er sæmd hans fyrir þína hjálp, vegsemd og heiður veittir þú honum.

Já, þú hefir veitt honum blessun að eilífu, þú gleður hann með fögnuði fyrir augliti þínu.

Því að konungurinn treystir Drottni, og vegna elsku Hins hæsta bifast hann eigi.

Hönd þín nær til allra óvina þinna, hægri hönd þín nær til allra hatursmanna þinna.

10 Þú gjörir þá sem glóandi ofn, er þú lítur á þá. Drottinn tortímir þeim í reiði sinni, og eldurinn eyðir þeim.

11 Ávöxtu þeirra afmáir þú af jörðunni og afkvæmi þeirra úr mannheimi,

12 því að þeir hafa stofnað ill ráð í gegn þér, búið fánýtar vélar.

13 Því að þú rekur þá á flótta, miðar á andlit þeirra með boga þínum.

14 Hef þig, Drottinn, í veldi þínu! Vér viljum syngja og kveða um máttarverk þín!

Sálmarnir 110

110 Davíðssálmur. Svo segir Drottinn við herra minn: "Sest þú mér til hægri handar, þá mun ég leggja óvini þína sem fótskör að fótum þér."

Drottinn réttir út þinn volduga sprota frá Síon, drottna þú mitt á meðal óvina þinna!

Þjóð þín kemur sjálfboða á valdadegi þínum. Í helgu skrauti frá skauti morgunroðans kemur dögg æskuliðs þíns til þín.

Drottinn hefir svarið, og hann iðrar þess eigi: "Þú ert prestur að eilífu, að hætti Melkísedeks."

Drottinn er þér til hægri handar, hann knosar konunga á degi reiði sinnar.

Hann heldur dóm meðal þjóðanna, fyllir allt líkum, hann knosar höfuð um víðan vang.

Á leiðinni drekkur hann úr læknum, þess vegna ber hann höfuðið hátt.

Sálmarnir 116-117

116 Ég elska Drottin, af því að hann heyrir grátbeiðni mína.

Hann hefir hneigt eyra sitt að mér, og alla ævi vil ég ákalla hann.

Snörur dauðans umkringdu mig, angist Heljar mætti mér, ég mætti nauðum og harmi.

Þá ákallaði ég nafn Drottins: "Ó, Drottinn, bjarga sál minni!"

Náðugur er Drottinn og réttlátur, og vor Guð er miskunnsamur.

Drottinn varðveitir varnarlausa, þegar ég var máttvana hjálpaði hann mér.

Verð þú aftur róleg, sála mín, því að Drottinn gjörir vel til þín.

Já, þú hreifst sál mína frá dauða, auga mitt frá gráti, fót minn frá hrösun.

Ég geng frammi fyrir Drottni á landi lifenda.

10 Ég trúði, þó ég segði: "Ég er mjög beygður."

11 Ég sagði í angist minni: "Allir menn ljúga."

12 Hvað á ég að gjalda Drottni fyrir allar velgjörðir hans við mig?

13 Ég lyfti upp bikar hjálpræðisins og ákalla nafn Drottins.

14 Ég greiði Drottni heit mín, og það í augsýn alls lýðs hans.

15 Dýr er í augum Drottins dauði dýrkenda hans.

16 Æ, Drottinn, víst er ég þjónn þinn, ég er þjónn þinn, sonur ambáttar þinnar, þú leystir fjötra mína.

17 Þér færi ég þakkarfórn og ákalla nafn Drottins.

18 Ég greiði Drottni heit mín, og það í augsýn alls lýðs hans,

19 í forgörðum húss Drottins, í þér, Jerúsalem. Halelúja.

117 Lofið Drottin, allar þjóðir, vegsamið hann, allir lýðir,

því að miskunn hans er voldug yfir oss, og trúfesti Drottins varir að eilífu. Halelúja.

Daníel 3:19-30

19 Þá fylltist Nebúkadnesar heiftarreiði við þá Sadrak, Mesak og Abed-Negó, svo að ásjóna hans afmyndaðist, og hann skipaði að kynda ofninn sjöfalt heitara en vanalegt var að kynda hann.

20 Og hann bauð rammefldum mönnum, sem voru í her hans, að binda þá Sadrak, Mesak og Abed-Negó og kasta þeim inn í brennandi eldsofninn.

21 Síðan voru þessir menn bundnir í nærfötum sínum, kyrtlum, skikkjum og öðrum klæðnaði sínum og þeim kastað inn í hinn brennandi eldsofn.

22 Og sökum þess að skipun konungs var svo strengileg, en ofninn kyntur ákaflega, þá varð eldsloginn að bana mönnunum, sem báru þá Sadrak, Mesak og Abed-Negó.

23 En þeir þrír menn, Sadrak, Mesak og Abed-Negó, féllu bundnir niður í hinn brennandi eldsofn.

24 Þá varð Nebúkadnesar konungur forviða og spratt upp skyndilega. Hann tók til máls og sagði við ráðgjafa sína: "Höfum vér ekki kastað þremur mönnum fjötruðum inn í eldinn?" Þeir svöruðu konunginum og sögðu: "Jú, vissulega, konungur!"

25 Hann svaraði og sagði: "Ég sé þó fjóra menn ganga lausa inni í eldinum, án þess að nokkuð hafi orðið þeim að grandi, og er ásýnd hins fjórða því líkust sem hann sé sonur guðanna."

26 Þá gekk Nebúkadnesar að dyrum hins brennandi eldsofns, tók til máls og sagði: "Sadrak, Mesak og Abed-Negó, þjónar hins hæsta Guðs, gangið út og komið hingað!" Þá gengu þeir Sadrak, Mesak og Abed-Negó út úr eldinum.

27 Og jarlarnir, landstjórarnir, landshöfðingjarnir og ráðgjafar konungs söfnuðust saman og sáu, að eldurinn hafði ekki unnið á líkama þessara manna og að hárið á höfði þeirra var ekki sviðnað, að ekkert sá á nærfötum þeirra og enginn eldseimur fannst af þeim.

28 Þá tók Nebúkadnesar til máls og sagði: "Lofaður sé Guð þeirra Sadraks, Mesaks og Abed-Negós, sem sendi engil sinn og frelsaði þjóna sína, er treystu honum og óhlýðnuðust boði konungsins, en lögðu líkami sína í sölurnar, til þess að þeir þyrftu ekki að dýrka né tilbiðja neinn annan guð en sinn Guð.

29 Nú gef ég út þá skipun, að hver sá, hverrar þjóðar, hvers lands og hverrar tungu sem er, er mælir lastmæli gegn Guði þeirra Sadraks, Mesaks og Abed-Negós, sá skal höggvinn verða sundur og hús hans gjört að sorphaug, því að enginn annar guð er til, sem eins getur frelsað og hann."

30 Síðan hóf konungur þá Sadrak, Mesak og Abed-Negó til stórra mannvirðinga í Babel-héraði.

Fyrsta bréf Jóhannesar 3:11-18

11 Því að þetta er sá boðskapur, sem þér hafið heyrt frá upphafi: Vér eigum að elska hver annan.

12 Ekki vera eins og Kain, sem heyrði hinum vonda til og myrti bróður sinn. Og af hverju myrti hann hann? Af því að verk hans voru vond, en verk bróður hans réttlát.

13 Undrist ekki, bræður, þótt heimurinn hati yður.

14 Vér vitum, að vér erum komnir yfir frá dauðanum til lífsins, af því að vér elskum bræður vora. Sá sem ekki elskar er áfram í dauðanum.

15 Hver sem hatar bróður sinn er manndrápari og þér vitið, að enginn manndrápari hefur eilíft líf í sér.

16 Af því þekkjum vér kærleikann, að Jesús lét lífið fyrir oss. Svo eigum vér og að láta lífið fyrir bræðurna.

17 Ef sá, sem hefur heimsins gæði, horfir á bróður sinn vera þurfandi og lýkur aftur hjarta sínu fyrir honum, hvernig getur kærleikur til Guðs verið stöðugur í honum?

18 Börnin mín, elskum ekki með tómum orðum, heldur í verki og sannleika.

Lúkasarguðspjall 4:1-13

En Jesús sneri aftur frá Jórdan, fullur af heilögum anda. Leiddi andinn hann um óbyggðina

fjörutíu daga, en djöfullinn freistaði hans. Ekki neytti hann neins þá daga, og er þeir voru liðnir, var hann hungraður.

En djöfullinn sagði við hann: "Ef þú ert sonur Guðs, þá bjóð þú steini þessum, að hann verði að brauði."

Og Jesús svaraði honum: "Ritað er: ,Eigi lifir maðurinn á einu saman brauði."`

Þá fór hann með hann upp og sýndi honum á augabragði öll ríki veraldar.

Og djöfullinn sagði við hann: "Þér mun ég gefa allt þetta veldi og dýrð þess, því að mér er það í hendur fengið, og ég get gefið það hverjum sem ég vil.

Ef þú fellur fram og tilbiður mig, skal það allt verða þitt."

Jesús svaraði honum: "Ritað er: Drottin, Guð þinn, skalt þú tilbiðja og þjóna honum einum."

Þá fór hann með hann til Jerúsalem, setti hann á brún musterisins og sagði við hann: "Ef þú ert sonur Guðs, þá kasta þér hér ofan,

10 því að ritað er: Hann mun fela englum sínum að gæta þín

11 og: þeir munu bera þig á höndum sér, að þú steytir ekki fót þinn við steini."

12 Jesús svaraði honum: "Sagt hefur verið: ,Ekki skalt þú freista Drottins, Guðs þíns."`

13 Og er djöfullinn hafði lokið allri freistni, vék hann frá honum að sinni.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society