Book of Common Prayer
16 Davíðs-miktam. Varðveit mig, Guð, því að hjá þér leita ég hælis.
2 Ég segi við Drottin: "Þú ert Drottinn minn, ég á engin gæði nema þig."
3 Á hinum heilögu sem í landinu eru og hinum dýrlegu _ á þeim hefi ég alla mína velþóknun.
4 Miklar eru þjáningar þeirra, er kjörið hafa sér annan guð. Ég vil eigi dreypa þeirra blóðugu dreypifórnum og eigi taka nöfn þeirra mér á varir.
5 Drottinn er hlutskipti mitt og minn afmældi bikar; þú heldur uppi hlut mínum.
6 Mér féllu að erfðahlut indælir staðir, og arfleifð mín líkar mér vel.
7 Ég lofa Drottin, er mér hefir ráð gefið, jafnvel um nætur er ég áminntur hið innra.
8 Ég hefi Drottin ætíð fyrir augum, þegar hann er mér til hægri handar, skriðnar mér ekki fótur.
9 Fyrir því fagnar hjarta mitt, sál mín gleðst, og líkami minn hvílist í friði,
10 því að þú ofurselur Helju eigi líf mitt, leyfir eigi að þinn trúaði sjái gröfina.
11 Kunnan gjörir þú mér veg lífsins, gleðignótt er fyrir augliti þínu, yndi í hægri hendi þinni að eilífu.
17 Bæn Davíðs. Heyr, Drottinn, á réttvíst málefni, hlýð á hróp mitt, ljá eyra bæn minni, er ég flyt með tállausum vörum.
2 Lát rétt minn út ganga frá augliti þínu, augu þín sjá hvað rétt er.
3 Þá er þú rannsakar hjarta mitt, prófar það um nætur, reynir mig í eldi, þá finnur þú engar illar hugsanir hjá mér, munnur minn heldur sér í skefjum.
4 Hvað sem aðrir gjöra, þá hefi ég eftir orði vara þinna forðast vegu ofbeldismannsins.
5 Skref mín fylgdu sporum þínum, mér skriðnaði ekki fótur.
6 Ég kalla á þig, því að þú svarar mér, ó Guð, hneig eyru þín til mín, hlýð á orð mín.
7 Veit mér þína dásamlegu náð, þú sem hjálpar þeim er leita hælis við þína hægri hönd fyrir ofsækjendum.
8 Varðveit mig sem sjáaldur augans, fel mig í skugga vængja þinna
9 fyrir hinum guðlausu, er sýna mér ofbeldi, fyrir gráðugum óvinum, er kringja um mig.
10 Mörhjörtum sínum hafa þeir lokað, með munni sínum mæla þeir drambsamleg orð.
11 Hvar sem ég geng, umkringja þeir mig, þeir beina augum sínum að því að varpa mér til jarðar.
12 Þeir líkjast ljóni er langar í bráð, ungu ljóni, er liggur í felum.
13 Rís upp, Drottinn! Far í móti óvininum og varpa honum niður, frelsa mig undan hinum óguðlega með sverði þínu.
14 Frelsa mig undan mönnunum með hendi þinni, Drottinn, undan mönnum heimsins, sem hafa hlutskipti sitt í lífinu og þú kviðfyllir gæðum þínum. Þeir eru ríkir að sonum og skilja börnum sínum eftir nægtir sínar.
15 En ég mun sakir réttlætisins skoða auglit þitt, þá er ég vakna, mun ég mettast af mynd þinni.
134 Já, lofið Drottin, allir þjónar Drottins, þér er standið í húsi Drottins um nætur.
2 Fórnið höndum til helgidómsins og lofið Drottin.
3 Drottinn blessi þig frá Síon, hann sem er skapari himins og jarðar.
135 Halelúja. Lofið nafn Drottins, lofið hann, þér þjónar Drottins,
2 er standið í húsi Drottins, í forgörðum húss Guðs vors.
3 Lofið Drottin, því að Drottinn er góður, leikið fyrir nafni hans, því að það er yndislegt.
4 Því að Drottinn hefir útvalið sér Jakob, gert Ísrael að eign sinni.
5 Já, ég veit, að Drottinn er mikill og að Drottinn vor er öllum guðum æðri.
6 Allt, sem Drottni þóknast, það gjörir hann, á himni og jörðu, í hafinu og öllum djúpunum.
7 Hann lætur skýin uppstíga frá endimörkum jarðar, gjörir eldingarnar til að búa rás regninu, hleypir vindinum út úr forðabúrum hans.
8 Hann laust frumburði Egyptalands, bæði menn og skepnur,
9 sendi tákn og undur yfir Egyptaland, gegn Faraó og öllum þjónum hans.
10 Hann laust margar þjóðir og deyddi volduga konunga:
11 Síhon, Amorítakonung, og Óg, konung í Basan, og öll konungsríki í Kanaan,
12 og gaf lönd þeirra að erfð, að erfð Ísrael, lýð sínum.
13 Drottinn, nafn þitt varir að eilífu, minning þín, Drottinn, frá kyni til kyns,
14 því að Drottinn réttir hlut þjóðar sinnar og aumkast yfir þjóna sína.
15 Skurðgoð þjóðanna eru silfur og gull, handaverk manna.
16 Þau hafa munn, en tala ekki, augu, en sjá ekki,
17 þau hafa eyru, en heyra ekki, og eigi er heldur neinn andardráttur í munni þeirra.
18 Eins og þau eru, verða smiðir þeirra, allir þeir, er á þau treysta.
19 Ísraels ætt, lofið Drottin, Arons ætt, lofið Drottin!
20 Leví ætt, lofið Drottin, þér sem óttist Drottin, lofið hann!
21 Lofaður sé Drottinn frá Síon, hann sem býr í Jerúsalem! Halelúja.
3 Nebúkadnesar konungur lét gjöra líkneski af gulli, sextíu álna á hæð og sex álna á breidd. Hann lét reisa það í Dúradal í Babel-héraði.
2 Og Nebúkadnesar konungur sendi út menn til þess að stefna saman jörlunum, landstjórunum, landshöfðingjunum, ráðherrunum, féhirðunum, dómurunum, lögmönnunum og öllum embættismönnum í skattlöndunum, að þeir skyldu koma til vígslu líkneskisins, sem Nebúkadnesar konungur hafði reisa látið.
3 Þá söfnuðust saman jarlarnir, landstjórarnir, landshöfðingjarnir, ráðherrarnir, féhirðarnir, dómararnir, lögmennirnir og allir embættismenn í skattlöndunum til vígslu líkneskisins, sem Nebúkadnesar konungur hafði reisa látið, og námu staðar frammi fyrir líkneskinu, er Nebúkadnesar hafði látið reisa.
4 Þá kallaði kallarinn hárri röddu: "Svo er yður öllum boðið, hverrar þjóðar og hvaða landsmenn sem þér eruð og á hverja tungu sem þér mælið:
5 Þegar er þér heyrið hljóð hornanna, pípnanna, gígjanna, harpnanna, saltaranna, symfónanna og alls konar hljóðfæra, þá skuluð þér falla fram og tilbiðja gull-líkneskið, sem Nebúkadnesar konungur hefir reisa látið.
6 En hver sá, er eigi fellur fram og tilbiður, honum skal á samri stundu kastað verða inn í brennandi eldsofn."
7 Þess vegna, undireins og allt fólkið heyrði hljóð hornanna, pípnanna, gígjanna, harpnanna, saltaranna og alls konar hljóðfæra, þá féllu allir fram, hverrar þjóðar, hvers lands og hverrar tungu sem voru, og tilbáðu gull-líkneskið, sem Nebúkadnesar konungur hafði reisa látið.
8 Fyrir því gengu og fram á sömu stundu kaldverskir menn og ákærðu Gyðingana.
9 Þeir tóku svo til máls og sögðu við Nebúkadnesar konung: "Konungurinn lifi eilíflega!
10 Þú hefir, konungur, skipað svo fyrir, að hver maður skuli, þá er hann heyrir hljóð hornanna, pípnanna, gígjanna, harpnanna, saltaranna, symfónanna og alls konar hljóðfæra, falla fram og tilbiðja gull-líkneskið,
11 og að hver sá, er eigi fellur fram og tilbiður, honum skuli kastað inn í brennandi eldsofn.
12 Nú eru hér nokkrir Gyðingar, er þú hefir gjört að sýslumönnum yfir Babel-héraði, þeir Sadrak, Mesak og Abed-Negó. Þessir menn virða þig að engu, konungur. Þeir dýrka ekki þína guði og tilbiðja ekki gull-líkneskið, sem þú hefir reisa látið."
13 Þá fylltist Nebúkadnesar reiði og heift og bauð að leiða fram þá Sadrak, Mesak og Abed-Negó, og voru þessir menn leiddir fyrir konunginn.
14 Nebúkadnesar tók til máls og sagði við þá: "Er það af ásettu ráði, Sadrak, Mesak og Abed-Negó, að þér dýrkið ekki minn guð og tilbiðjið ekki gull-líkneskið, sem ég hefi reisa látið?
15 Ef þér nú eruð viðbúnir, jafnskjótt og þér heyrið hljóð hornanna, pípnanna, gígjanna, harpnanna, saltaranna, symfónanna og alls konar hljóðfæra, að falla fram og tilbiðja líkneski það, er ég hefi gjöra látið, þá nær það ekki lengra. En ef þér tilbiðjið það ekki, þá skal yður samstundis verða kastað inn í eldsofn brennandi, og hver er sá guð, er yður megi frelsa úr mínum höndum?"
16 Þá svöruðu þeir Sadrak, Mesak og Abed-Negó og sögðu við Nebúkadnesar konung: "Vér þurfum ekki að svara þér einu orði upp á þetta.
17 Ef Guð vor, sem vér dýrkum, vill frelsa oss, þá mun hann frelsa oss úr eldsofninum brennandi og af þinni hendi, konungur.
18 En þótt hann gjöri það ekki, þá skalt þú samt vita, konungur, að vér munum ekki dýrka þína guði né tilbiðja gull-líkneskið, sem þú hefir reisa látið."
3 Sjáið hvílíkan kærleika faðirinn hefur auðsýnt oss, að vér skulum kallast Guðs börn. Og það erum vér. Heimurinn þekkir oss ekki, vegna þess að hann þekkti hann ekki.
2 Þér elskaðir, nú þegar erum vér Guðs börn, og það er enn þá ekki orðið bert, hvað vér munum verða. Vér vitum, að þegar hann birtist, þá munum vér verða honum líkir, því að vér munum sjá hann eins og hann er.
3 Hver sem hefur þessa von til hans hreinsar sjálfan sig, eins og Kristur er hreinn.
4 Hver sem synd drýgir fremur og lögmálsbrot. Syndin er lögmálsbrot.
5 Þér vitið, að Kristur birtist til þess að taka burt syndir. Í honum er engin synd.
6 Hver sem er stöðugur í honum syndgar ekki, hver sem syndgar hefur ekki séð hann og þekkir hann ekki heldur.
7 Börnin mín, látið engan villa yður. Sá sem iðkar réttlætið er réttlátur, eins og Kristur er réttlátur.
8 Hver sem synd drýgir heyrir djöflinum til, því að djöfullinn syndgar frá upphafi. Til þess birtist Guðs sonur, að hann skyldi brjóta niður verk djöfulsins.
9 Hver sem af Guði er fæddur drýgir ekki synd, því að það, sem Guð hefur í hann sáð, varir í honum. Hann getur ekki syndgað, af því að hann er fæddur af Guði.
10 Af þessu eru augljós börn Guðs og börn djöfulsins. Sá sem iðkar ekki réttlætið og elskar ekki bróður sinn heyrir ekki Guði til.
15 Nú var eftirvænting vakin hjá lýðnum, og allir voru að hugsa með sjálfum sér, hvort Jóhannes kynni að vera Kristur.
16 En Jóhannes svaraði öllum og sagði: "Ég skíri yður með vatni, en sá kemur, sem mér er máttugri, og er ég ekki verður að leysa skóþveng hans. Hann mun skíra yður með heilögum anda og eldi.
17 Hann er með varpskófluna í hendi sér til þess að gjörhreinsa láfa sinn og safna hveitinu í hlöðu sína, en hismið mun hann brenna í óslökkvanda eldi."
18 Með mörgu öðru áminnti hann og flutti lýðnum fagnaðarboðin.
19 Hann vítti Heródes fjórðungsstjóra vegna Heródíasar, konu bróður hans, og fyrir allt hið illa, sem hann hafði gjört.
20 Þá bætti Heródes einnig því ofan á allt annað, að hann varpaði Jóhannesi í fangelsi.
21 Er allur lýðurinn lét skírast, var Jesús einnig skírður. Þá bar svo við, er hann gjörði bæn sína, að himinninn opnaðist,
22 og heilagur andi steig niður yfir hann í líkamlegri mynd, eins og dúfa, og rödd kom af himni: "Þú ert minn elskaði sonur, á þér hef ég velþóknun."
by Icelandic Bible Society