Book of Common Prayer
18 Til söngstjórans. Eftir Davíð, þjón Drottins, er flutti Drottni orð þessara ljóða, þá er Drottinn frelsaði hann af hendi allra óvina hans og af hendi Sáls.
2 Hann mælti: Ég elska þig, Drottinn, þú styrkur minn.
3 Drottinn, bjarg mitt og vígi og frelsari minn, Guð minn, hellubjarg mitt, þar sem ég leita hælis, skjöldur minn og horn hjálpræðis míns, háborg mín!
4 Lofaður sé Drottinn, hrópa ég, og ég frelsast frá óvinum mínum.
5 Brimöldur dauðans umkringdu mig, elfur glötunarinnar skelfdu mig,
6 snörur Heljar luktu um mig, möskvar dauðans féllu yfir mig.
7 Í angist minni kallaði ég á Drottin, og til Guðs míns hrópaði ég. Hann heyrði raust mína í helgidómi sínum, og óp mitt barst til eyrna honum.
8 Jörðin bifaðist og nötraði, undirstöður fjallanna skulfu, þær bifuðust, því að hann var reiður,
9 reykur gekk fram úr nösum hans og eyðandi eldur af munni hans, glóðir brunnu út frá honum.
10 Hann sveigði himininn og steig niður, og skýsorti var undir fótum hans.
11 Hann steig á bak kerúb og flaug af stað og sveif á vængjum vindarins.
12 Hann gjörði myrkur að skýli sínu, regnsorta og skýþykkni að fylgsni sínu allt um kring.
13 Frá ljómanum fyrir honum brutust hagl og eldglæringar gegnum ský hans.
14 Þá þrumaði Drottinn á himnum, og Hinn hæsti lét raust sína gjalla.
15 Hann skaut örvum sínum og tvístraði óvinum sínum, lét eldingar leiftra og hræddi þá.
16 Þá sá í mararbotn, og undirstöður jarðarinnar urðu berar fyrir ógnun þinni, Drottinn, fyrir andgustinum úr nösum þínum.
17 Hann seildist niður af hæðum og greip mig, dró mig upp úr hinum miklu vötnum.
18 Hann frelsaði mig frá hinum sterku óvinum mínum, frá fjandmönnum mínum, er voru mér yfirsterkari.
19 Þeir réðust á mig á mínum óheilladegi, en Drottinn var mín stoð.
20 Hann leiddi mig út á víðlendi, frelsaði mig, af því að hann hafði þóknun á mér.
21 Drottinn fer með mig eftir réttlæti mínu, eftir hreinleik handa minna geldur hann mér,
22 því að ég hefi varðveitt vegu Drottins og hefi ekki reynst ótrúr Guði mínum.
23 Allar skipanir hans hefi ég fyrir augum, og boðorðum hans þokaði ég eigi burt frá mér.
24 Ég var lýtalaus fyrir honum og gætti mín við misgjörðum.
25 Fyrir því galt Drottinn mér eftir réttlæti mínu, eftir hreinleik handa minna fyrir augliti hans.
26 Gagnvart ástríkum ert þú ástríkur, gagnvart ráðvöndum ráðvandur,
27 gagnvart hreinum hreinn, en gagnvart rangsnúnum ert þú afundinn.
28 Þú hjálpar þjáðum lýð, en gjörir hrokafulla niðurlúta.
29 Já, þú lætur lampa minn skína, Drottinn, Guð minn, þú lýsir mér í myrkrinu.
30 Því að fyrir þína hjálp brýt ég múra, fyrir hjálp Guðs míns stekk ég yfir borgarveggi.
31 Vegur Guðs er lýtalaus, orð Drottins er hreint, skjöldur er hann öllum þeim sem leita hælis hjá honum.
32 Hver er Guð nema Drottinn, og hver er hellubjarg utan vor Guð?
33 Sá Guð sem gyrðir mig styrkleika og gjörir veg minn sléttan,
34 sem gjörir fætur mína sem hindanna og veitir mér fótfestu á hæðunum,
35 sem æfir hendur mínar til hernaðar, svo að armar mínir benda eirbogann.
36 Og þú gafst mér skjöld hjálpræðis þíns, og hægri hönd þín studdi mig, og lítillæti þitt gjörði mig mikinn.
37 Þú rýmdir til fyrir skrefum mínum, og ökklar mínir riðuðu ekki.
38 Ég elti óvini mína og náði þeim og sneri ekki aftur, fyrr en ég hafði gjöreytt þeim.
39 Ég molaði þá sundur, þeir máttu eigi upp rísa, þeir hnigu undir fætur mér.
40 Þú gyrtir mig styrkleika til ófriðarins, beygðir fjendur mína undir mig.
41 Þú lést mig sjá bak óvina minna, og fjendum mínum eyddi ég.
42 Þeir hrópuðu, en enginn kom til hjálpar, þeir hrópuðu til Drottins, en hann svaraði þeim ekki.
43 Og ég muldi þá sem mold á jörð, tróð þá fótum sem saur á strætum.
44 Þú frelsaðir mig úr fólkorustum, gjörðir mig að höfðingja þjóðanna, lýður sem ég þekkti ekki þjónar mér.
45 Óðara en þeir heyra mín getið, hlýða þeir mér, útlendingar smjaðra fyrir mér.
46 Útlendingar dragast upp og koma skjálfandi fram úr fylgsnum sínum.
47 Lifi Drottinn, lofað sé mitt bjarg, og hátt upp hafinn sé Guð hjálpræðis míns,
48 sá Guð sem veitti mér hefndir og braut þjóðir undir mig,
49 sem hreif mig úr höndum óvina minna. Og yfir mótstöðumenn mína hófst þú mig, frá ójafnaðarmönnum frelsaðir þú mig.
50 Fyrir því vil ég vegsama þig, Drottinn, meðal þjóðanna og lofsyngja þínu nafni.
51 Hann veitir konungi sínum mikla hjálp og auðsýnir miskunn sínum smurða, Davíð og niðjum hans að eilífu.
31 Þú horfðir fram fyrir þig, konungur, og stóð þar líkneski mikið. Líkneski þetta var stórt og yfirtaks-ljómandi. Það stóð frammi fyrir þér og var ógurlegt ásýndum.
32 Höfuð líkneskis þessa var af skíru gulli, brjóstið og armleggirnir af silfri, kviðurinn og lendarnar af eiri,
33 leggirnir af járni, fæturnir sums kostar af járni, sums kostar af leir.
34 Þú horfðir á það, þar til er steinn nokkur losnaði, án þess að nokkur mannshönd kæmi við hann. Hann lenti á fótum líkneskisins, sem voru af járni og leir, og molaði þá.
35 Þá muldist sundur í sama bili járnið, leirinn, eirinn, silfrið og gullið, og varð eins og sáðir á sumarláfa, vindurinn feykti því burt, svo að þess sá engan stað. En steinninn, sem lenti á líkneskinu, varð að stóru fjalli og tók yfir alla jörðina.
36 Þetta er draumurinn, og nú viljum vér segja konunginum þýðing hans.
37 Þú, konungur, yfirkonungur konunganna, sem Guð himnanna hefir gefið ríkið, valdið, máttinn og tignina,
38 þú, sem hann hefir mennina á vald selt, hvar svo sem þeir búa, dýr merkurinnar og fugla himinsins, og sett þig drottnara yfir því öllu, _ þú ert gullhöfuðið.
39 En eftir þig mun hefjast annað konungsríki, minni háttar en þitt er, og því næst hið þriðja ríki af eiri, sem drottna mun yfir allri veröldu.
40 Þá mun hefjast fjórða ríkið, sterkt sem járn, _ því að járnið sundurbrýtur og mölvar allt _, og eins og járnið molar sundur, eins mun það sundurbrjóta og mola öll hin ríkin.
41 En þar er þú sást fæturna og tærnar, að sumt var af pottaraleir, sumt af járni, það merkir að ríkið mun verða skipt. Þó mun það nokkru í sér halda af hörku járnsins, þar sem þú sást járnið blandað saman við deigulmóinn.
42 En þar er tærnar á fótunum voru sums kostar af járni og sums kostar af leir, þá mun það ríki að nokkru leyti verða öflugt og að nokkru leyti veikt.
43 Og þar er þú sást járnið blandað saman við deigulmóinn, þá munu þeir með kvonföngum saman blandast, og þó ekki samþýðast hvorir öðrum, eins og járnið samlagar sig ekki við leirinn.
44 En á dögum þessara konunga mun Guð himnanna hefja ríki, sem aldrei skal á grunn ganga, og það ríki skal engri annarri þjóð í hendur fengið verða. Það mun knosa og að engu gjöra öll þessi ríki, en sjálft mun það standa að eilífu,
45 þar sem þú sást að steinn nokkur losnaði úr fjallinu, án þess að nokkur mannshönd kæmi við hann, og mölvaði járnið, eirinn, leirinn, silfrið og gullið. Mikill Guð hefir kunngjört konunginum hvað hér eftir muni verða. Draumurinn er sannur og þýðing hans áreiðanleg."
46 Þá féll Nebúkadnesar konungur fram á ásjónu sína og laut Daníel og bauð að fórna honum matfórn og reykelsi.
47 Konungur mælti til Daníels og sagði: "Í sannleika er yðar Guð yfirguð guðanna og herra konunganna og opinberari leyndra hluta, með því að þú máttir þennan leyndardóm auglýsa."
48 Eftir það hóf konungur Daníel til mikilla mannvirðinga og gaf honum miklar og margar gjafir, setti hann höfðingja yfir allt Babel-hérað og gjörði hann að æðsta forstjóra yfir öllum vitringum í Babýlon.
49 Og fyrir tilmæli Daníels gjörði konungur þá Sadrak, Mesak og Abed-Negó að sýslumönnum yfir Babel-héraði, en sjálfur var Daníel við hirð konungs.
18 Börn mín, það er hin síðasta stund. Þér hafið heyrt að andkristur kemur, og nú eru líka margir andkristar komnir fram. Af því vitum vér, að það er hin síðasta stund.
19 Þeir komu úr vorum hópi, en heyrðu oss ekki til. Ef þeir hefðu heyrt oss til, þá hefðu þeir áfram verið með oss. En þetta varð til þess að augljóst yrði, að enginn þeirra heyrði oss til.
20 En þér hafið smurning frá hinum heilaga og vitið þetta allir.
21 Ég hef ekki skrifað yður vegna þess, að þér þekkið ekki sannleikann, heldur af því að þér þekkið hann og af því að engin lygi getur komið frá sannleikanum.
22 Hver er lygari, ef ekki sá sem neitar, að Jesús sé Kristur? Sá er andkristurinn, sem afneitar föðurnum og syninum.
23 Hver sem afneitar syninum hefur ekki heldur fundið föðurinn. Sá sem játar soninn hefur og fundið föðurinn.
24 En þér, látið það vera stöðugt í yður, sem þér hafið heyrt frá upphafi. Ef það er stöðugt í yður, sem þér frá upphafi hafið heyrt, þá munuð þér einnig vera stöðugir í syninum og í föðurnum.
25 Og þetta er fyrirheitið, sem hann gaf oss: Hið eilífa líf.
26 Þetta hef ég skrifað yður um þá, sem eru að leiða yður afvega.
27 Og sú smurning, sem þér fenguð af honum, hún er stöðug í yður, og þér þurfið þess ekki, að neinn kenni yður, því smurning hans fræðir yður um allt, hún er sannleiki, en engin lygi. Verið stöðugir í honum, eins og hún kenndi yður.
28 Og nú, börnin mín, verið stöðug í honum, til þess að vér getum, þegar hann birtist, átt djörfung og blygðumst vor ekki fyrir honum, þegar hann kemur.
29 Þér vitið, að hann er réttlátur. Þá skiljið þér einnig, að hver sem iðkar réttlætið, er fæddur af honum.
3 Á fimmtánda stjórnarári Tíberíusar keisara, þegar Pontíus Pílatus var landstjóri í Júdeu, en Heródes fjórðungsstjóri í Galíleu, Filippus bróðir hans í Ítúreu og Trakónítishéraði og Lýsanías í Abílene,
2 í æðstapreststíð Annasar og Kaífasar, kom orð Guðs til Jóhannesar Sakaríasonar í óbyggðinni.
3 Og hann fór um alla Jórdanbyggð og prédikaði iðrunarskírn til fyrirgefningar synda,
4 eins og ritað er í bók Jesaja spámanns: Rödd hrópanda í eyðimörk: Greiðið veg Drottins, gjörið beinar brautir hans.
5 Öll gil skulu fyllast, öll fell og hálsar lægjast. Krókar skulu verða beinir og óvegir sléttar götur.
6 Og allir menn munu sjá hjálpræði Guðs.
7 Við mannfjöldann, sem fór út til að skírast af honum, sagði hann: "Þér nöðru kyn, hver kenndi yður að flýja komandi reiði?
8 Berið þá ávexti samboðna iðruninni, og farið ekki að segja með sjálfum yður: ,Vér eigum Abraham að föður.` Ég segi yður, að Guð getur vakið Abraham börn af steinum þessum.
9 Öxin er þegar lögð að rótum trjánna og hvert það tré, sem ber ekki góðan ávöxt, verður upp höggvið og í eld kastað."
10 Mannfjöldinn spurði hann: "Hvað eigum vér þá að gjöra?"
11 En hann svaraði þeim: "Sá sem á tvo kyrtla, gefi þeim, er engan á, og eins gjöri sá er matföng hefur."
12 Þá komu og tollheimtumenn til að skírast. Þeir sögðu við hann: "Meistari, hvað eigum vér að gjöra?"
13 En hann sagði við þá: "Heimtið ekki meira en fyrir yður er lagt."
14 Hermenn spurðu hann einnig: "En hvað eigum vér að gjöra?" Hann sagði við þá: "Hafið ekki fé af neinum, hvorki með ofríki né svikum. Látið yður nægja mála yðar."
by Icelandic Bible Society