Book of Common Prayer
137 Réttlátur ert þú, Drottinn, og réttvísir dómar þínir.
138 Þú hefir skipað fyrir reglur þínar með réttlæti og mikilli trúfesti.
139 Ákefð mín eyðir mér, því að fjendur mínir hafa gleymt orðum þínum.
140 Orð þitt er mjög hreint, og þjónn þinn elskar það.
141 Ég er lítilmótlegur og fyrirlitinn, en fyrirmælum þínum hefi ég eigi gleymt.
142 Réttlæti þitt er eilíft réttlæti og lögmál þitt trúfesti.
143 Neyð og hörmung hafa mér að höndum borið, en boð þín eru unun mín.
144 Reglur þínar eru réttlæti um eilífð, veit mér skyn, að ég megi lifa.
145 Ég kalla af öllu hjarta, bænheyr mig, Drottinn, ég vil halda lög þín.
146 Ég ákalla þig, hjálpa þú mér, að ég megi varðveita reglur þínar.
147 Ég er á ferli fyrir dögun og hrópa og bíð orða þinna.
148 Fyrr en vakan hefst eru augu mín vökul til þess að íhuga orð þitt.
149 Hlýð á raust mína eftir miskunn þinni, lát mig lífi halda, Drottinn, eftir ákvæðum þínum.
150 Þeir eru nærri, er ofsækja mig af fláræði, þeir eru langt burtu frá lögmáli þínu.
151 Þú ert nálægur, Drottinn, og öll boð þín eru trúfesti.
152 Fyrir löngu hefi ég vitað um reglur þínar, að þú hefir grundvallað þær um eilífð.
153 Sjá þú eymd mína og frelsa mig, því að ég hefi eigi gleymt lögmáli þínu.
154 Flyt þú mál mitt og leys mig, lát mig lífi halda samkvæmt fyrirheiti þínu.
155 Hjálpræðið er fjarri óguðlegum, því að þeir leita eigi fyrirmæla þinna.
156 Mikil er miskunn þín, Drottinn, lát mig lífi halda eftir ákvæðum þínum.
157 Margir eru ofsækjendur mínir og fjendur, en frá reglum þínum hefi ég eigi vikið.
158 Ég sé trúrofana og kenni viðbjóðs, þeir varðveita eigi orð þitt.
159 Sjá, hversu ég elska fyrirmæli þín, lát mig lífi halda, Drottinn, eftir miskunn þinni.
160 Allt orð þitt samanlagt er trúfesti, og hvert réttlætisákvæði þitt varir að eilífu.
23 Þá svaraði Job og sagði:
2 Enn sem fyrr munu kveinstafir mínir verða taldir uppreisn, hönd Guðs hvílir þungt á andvörpum mínum.
3 Ég vildi að ég vissi, hvernig ég ætti að finna hann, hvernig ég gæti komist fram fyrir dómstól hans!
4 Þá mundi ég útskýra málið fyrir honum og fylla munn minn sönnunum.
5 Ég mundi fá að vita, hverju hann svaraði mér, og heyra hvað hann segði við mig.
6 Mundi hann deila við mig í mikilleik máttar síns? Nei, hann mundi veita mér óskipta athygli.
7 Þá mundi hreinskilinn maður þreyta málsókn við hann, og ég mundi að eilífu losna við dómara minn.
8 En fari ég í austur, þá er hann þar ekki, og í vestur, þar verð ég hans eigi var.
9 Þótt hann hafist að í norðri, þá sé ég hann ekki, og sveigi hann á leið til suðurs, fæ ég ekki litið hann.
10 En hann veit, hvernig breytni mín hefir verið, ef hann prófaði mig, mundi ég reynast sem gull.
11 Fótur minn hefir þrætt spor hans, ég hefi haldið veg hans og eigi hneigt af leið.
12 Frá skipun vara hans hefi ég ekki vikið, hefi varðveitt í brjósti mér orð munns hans.
43 Næsta dag hugðist Jesús fara til Galíleu. Hann hitti þá Filippus og sagði við hann: "Fylg þú mér!"
44 Filippus var frá Betsaídu, sömu borg og Andrés og Pétur.
45 Filippus fann Natanael og sagði við hann: "Vér höfum fundið þann, sem Móse skrifar um í lögmálinu og spámennirnir, Jesú frá Nasaret, son Jósefs."
46 Natanael sagði: "Getur nokkuð gott komið frá Nasaret?" Filippus svaraði: "Kom þú og sjá."
47 Jesús sá Natanael koma til sín og sagði við hann: "Hér er sannur Ísraelíti, sem engin svik eru í."
48 Natanael spyr: "Hvaðan þekkir þú mig?" Jesús svarar: "Ég sá þig undir fíkjutrénu, áður en Filippus kallaði á þig."
49 Þá segir Natanael: "Rabbí, þú ert sonur Guðs, þú ert konungur Ísraels."
50 Jesús spyr hann: "Trúir þú, af því að ég sagði við þig: ,Ég sá þig undir fíkjutrénu`? Þú munt sjá það, sem þessu er meira."
51 Og hann segir við hann: "Sannlega, sannlega segi ég yður: Þér munuð sjá himininn opinn og engla Guðs stíga upp og stíga niður yfir Mannssoninn."
139 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Drottinn, þú rannsakar og þekkir mig.
2 Hvort sem ég sit eða stend, þá veist þú það, þú skynjar hugrenningar mínar álengdar.
3 Hvort sem ég geng eða ligg, þá athugar þú það, og alla vegu mína gjörþekkir þú.
4 Því að eigi er það orð á tungu minni, að þú, Drottinn, þekkir það eigi til fulls.
5 Þú umlykur mig á bak og brjóst, og hönd þína hefir þú lagt á mig.
6 Þekking þín er undursamlegri en svo, að ég fái skilið, of háleit, ég er henni eigi vaxinn.
7 Hvert get ég farið frá anda þínum og hvert flúið frá augliti þínu?
8 Þótt ég stigi upp í himininn, þá ertu þar, þótt ég gjörði undirheima að hvílu minni, sjá, þú ert þar.
9 Þótt ég lyfti mér á vængi morgunroðans og settist við hið ysta haf,
10 einnig þar mundi hönd þín leiða mig og hægri hönd þín halda mér.
11 Og þótt ég segði: "Myrkrið hylji mig og ljósið í kringum mig verði nótt,"
12 þá myndi þó myrkrið eigi verða þér of myrkt og nóttin lýsa eins og dagur, myrkur og ljós eru jöfn fyrir þér.
13 Því að þú hefir myndað nýru mín, ofið mig í móðurlífi.
14 Ég lofa þig fyrir það, að ég er undursamlega skapaður, undursamleg eru verk þín, það veit ég næsta vel.
15 Beinin í mér voru þér eigi hulin, þegar ég var gjörður í leyni, myndaður í djúpum jarðar.
16 Augu þín sáu mig, er ég enn var ómyndað efni, ævidagar voru ákveðnir og allir skráðir í bók þína, áður en nokkur þeirra var til orðinn.
17 En hversu torskildar eru mér hugsanir þínar, ó Guð, hversu stórkostlegar eru þær allar samanlagðar.
18 Ef ég vildi telja þær, væru þær fleiri en sandkornin, ég mundi vakna og vera enn með hugann hjá þér.
19 Ó að þú, Guð, vildir fella níðingana. Morðingjar! Víkið frá mér.
20 Þeir þrjóskast gegn þér með svikum og leggja nafn þitt við hégóma.
21 Ætti ég eigi, Drottinn, að hata þá, er hata þig, og hafa viðbjóð á þeim, er rísa gegn þér?
22 Ég hata þá fullu hatri, þeir eru orðnir óvinir mínir.
23 Prófa mig, Guð, og þekktu hjarta mitt, rannsaka mig og þekktu hugsanir mínar,
24 og sjá þú, hvort ég geng á glötunarvegi, og leið mig hinn eilífa veg.
20 Grikkir nokkrir voru meðal þeirra, sem fóru upp eftir til að biðjast fyrir á hátíðinni.
21 Þeir komu til Filippusar frá Betsaídu í Galíleu, báðu hann og sögðu: "Herra, oss langar að sjá Jesú."
22 Filippus kemur og segir það Andrési. Andrés og Filippus fara og segja Jesú.
23 Jesús svaraði þeim: "Stundin er komin, að Mannssonurinn verði gjörður dýrlegur.
24 Sannlega, sannlega segi ég yður: Ef hveitikornið fellur ekki í jörðina og deyr, verður það áfram eitt. En ef það deyr, ber það mikinn ávöxt.
25 Sá sem elskar líf sitt, glatar því, en sá sem hatar líf sitt í þessum heimi, mun varðveita það til eilífs lífs.
26 Sá sem þjónar mér, fylgi mér eftir, og hvar sem ég er, þar mun og þjónn minn vera. Þann sem þjónar mér, mun faðirinn heiðra.
by Icelandic Bible Society