Book of Common Prayer
5 Til söngstjórans. Með hljóðpípu. Davíðssálmur.
2 Heyr orð mín, Drottinn, gef gaum að andvörpum mínum.
3 Hlýð þú á kveinstafi mína, konungur minn og Guð minn, því að til þín bið ég.
4 Drottinn, á morgnana heyrir þú rödd mína, á morgnana legg ég bæn mína fram fyrir þig, og ég bíð þín.
5 Þú ert eigi sá Guð, er óguðlegt athæfi líki, hinir vondu fá eigi að dveljast hjá þér.
6 Hinir hrokafullu fá eigi staðist fyrir þér, þú hatar alla er illt gjöra.
7 Þú tortímir þeim, sem lygar mæla, á blóðvörgum og svikurum hefir Drottinn andstyggð.
8 En ég fæ að ganga í hús þitt fyrir mikla miskunn þína, fæ að falla fram fyrir þínu heilaga musteri í ótta frammi fyrir þér.
9 Drottinn, leið mig eftir réttlæti þínu sakir óvina minna, gjör sléttan veg þinn fyrir mér.
10 Einlægni er ekki til í munni þeirra, hjarta þeirra er glötunardjúp. Kok þeirra er opin gröf, með tungu sinni hræsna þeir.
11 Dæm þá seka, Guð, falli þeir sakir ráðagjörða sinna, hrind þeim burt sakir hinna mörgu afbrota þeirra, því að þeir storka þér.
12 Allir kætast, er treysta þér, þeir fagna að eilífu, því að þú verndar þá. Þeir sem elska nafn þitt gleðjast yfir þér.
13 Því að þú, Drottinn, blessar hinn réttláta, hlífir honum með náð þinni eins og með skildi.
6 Til söngstjórans. Með strengjaleik á áttstrengjað hljóðfæri. Davíðssálmur.
2 Drottinn, refsa mér ekki í reiði þinni og tyfta mig ekki í gremi þinni.
3 Líkna mér, Drottinn, því að ég örmagnast, lækna mig, Drottinn, því að bein mín tærast.
4 Sál mín er óttaslegin, en þú, ó Drottinn _ hversu lengi?
5 Snú þú aftur, Drottinn, frelsa sálu mína, hjálpa mér sakir elsku þinnar.
6 Því að enginn minnist þín í dánarheimum, hver skyldi lofa þig hjá Helju?
7 Ég er þreyttur af andvörpum mínum, ég lauga rekkju mína í tárum, læt hvílu mína flóa hverja nótt.
8 Augu mín eru döpruð af harmi, orðin sljó sakir allra óvina minna.
9 Farið frá mér, allir illgjörðamenn, því að Drottinn hefir heyrt grátraust mína.
10 Drottinn hefir heyrt grátbeiðni mína, Drottinn tekur á móti bæn minni.
11 Allir óvinir mínir skulu verða til skammar og skelfast mjög, hraða sér sneyptir burt.
10 Hví stendur þú fjarri, Drottinn, hví byrgir þú augu þín á neyðartímum?
2 Hinn óguðlegi ofsækir hina hrjáðu í hroka sínum, þeir flækjast í vélum þeim, er þeir hafa upp hugsað.
3 Hinn óguðlegi lofar Guð fyrir það, er sála hans girnist, og hinn ásælni prísar Drottin, sem hann fyrirlítur.
4 Hinn óguðlegi segir í drambsemi sinni: "Hann hegnir eigi!" "Guð er ekki til" _ svo hugsar hann í öllu.
5 Fyrirtæki hans heppnast ætíð, dómar þínir fara hátt yfir höfði hans, alla fjandmenn sína kúgar hann.
6 Hann segir í hjarta sínu: "Ég verð eigi valtur á fótum, frá kyni til kyns mun ég eigi í ógæfu rata."
7 Munnur hans er fullur af formælingum, svikum og ofbeldi, undir tungu hans býr illska og ranglæti.
8 Hann situr í launsátri í þorpunum, í skúmaskotinu drepur hann hinn saklausa, augu hans skima eftir hinum bágstöddu.
9 Hann gjörir fyrirsát í fylgsninu eins og ljón í skógarrunni; hann gjörir fyrirsát til þess að ná hinum volaða, hann nær honum í snöru sína, í net sitt.
10 Kraminn hnígur hann niður, hinn bágstaddi fellur fyrir klóm hans.
11 Hann segir í hjarta sínu: "Guð gleymir því, hann hefir hulið auglit sitt, sér það aldrei."
12 Rís þú upp, Drottinn! Lyft þú upp hendi þinni, Guð! Gleym eigi hinum voluðu.
13 Hvers vegna á hinn óguðlegi að sýna Guði fyrirlitningu, segja í hjarta sínu: "Þú hegnir eigi"?
14 Þú gefur gaum að mæðu og böli til þess að taka það í hönd þína. Hinn bágstaddi felur þér það; þú ert hjálpari föðurlausra.
15 Brjót þú armlegg hins óguðlega, og er þú leitar að guðleysi hins vonda, finnur þú það eigi framar.
16 Drottinn er konungur um aldur og ævi, heiðingjum er útrýmt úr landi hans.
17 Þú hefir heyrt óskir hinna voluðu, Drottinn, þú eykur þeim hugrekki, hneigir eyra þitt.
18 Þú lætur hina föðurlausu og kúguðu ná rétti sínum. Eigi skulu menn af moldu framar beita kúgun.
11 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Hjá Drottni leita ég hælis. Hvernig getið þér sagt við mig: "Fljúg sem fugl til fjallanna!"
2 Því að nú benda hinir óguðlegu bogann, leggja örvar sínar á streng til þess að skjóta í myrkrinu á hina hjartahreinu.
3 Þegar stoðirnar eru rifnar niður, hvað megna þá hinir réttlátu?
4 Drottinn er í sínu heilaga musteri, hásæti Drottins er á himnum, augu hans sjá, sjónir hans rannsaka mennina.
5 Drottinn rannsakar hinn réttláta og hinn óguðlega, og þann er elskar ofríki, hatar hann.
6 Á óguðlega lætur hann rigna glóandi kolum, eldur og brennisteinn og brennheitur vindur er þeirra mældi bikar.
7 Því að Drottinn er réttlátur og hefir mætur á réttlætisverkum. Hinir hreinskilnu fá að líta auglit hans.
2 Á öðru ríkisári Nebúkadnesars dreymdi Nebúkadnesar draum, og varð honum órótt í skapi og mátti eigi sofa.
2 Þá bauð konungur að kalla til sín spásagnamenn og særingamenn og galdramenn og Kaldea, að þeir segðu konungi, hvað hann hefði dreymt, og þeir komu og gengu fyrir konung.
3 Þá sagði konungur við þá: "Mig hefir dreymt draum og mér er órótt í skapi, uns ég fæ að vita drauminn."
4 Þá sögðu Kaldearnir við konunginn á arameísku: "Konungurinn lifi eilíflega! Seg þjónum þínum drauminn, og munum vér þá segja þýðing hans."
5 Konungur svaraði og sagði við Kaldea: "Ásetningur minn er óhagganlegur: Ef þér segið mér ekki drauminn og þýðing hans, skuluð þér verða höggnir sundur og hús yðar gjörð að sorphaug.
6 En ef þér segið mér drauminn og þýðing hans, munuð þér af mér þiggja margs konar gjafir og mikla sæmd. Segið mér því drauminn og þýðing hans!"
7 Þá svöruðu þeir aftur og sögðu: "Konungurinn segi þjónum sínum drauminn, og þá skulum vér segja, hvað hann þýðir."
8 Konungur svaraði og sagði: "Ég veit með vissu, að þér ætlið að leita yður frests, þar eð þér sjáið að ásetningur minn er óhagganlegur.
9 En ef þér segið mér ekki drauminn, þá bíður yðar dómur, sem ekki verður nema á einn veg. Þér hafið komið yður saman um að fara með lygatal og skaðsemdar frammi fyrir mér, þar til er tímarnir breytast. Segið mér því drauminn, svo að ég fái skilið, að þér megið einnig segja mér þýðing hans."
10 Kaldearnir svöruðu konungi og sögðu: "Enginn er sá maður í heimi, er sagt geti það, er konungurinn mælist til, né heldur hefir nokkur mikill og voldugur konungur krafist slíks af nokkrum spásagnamanni, særingamanni eða Kaldea.
11 Því að það er torvelt, sem konungurinn heimtar, og enginn getur kunngjört konunginum það nema guðirnir einir, en bústaður þeirra er ekki hjá dauðlegum mönnum."
12 Af þessu varð konungur gramur og mjög reiður og bauð að taka af lífi alla vitringa í Babýlon.
13 Gekk þá sú skipun út, að lífláta skyldi vitringana, og var leitað að þeim Daníel og félögum hans til að lífláta þá.
14 Þá sneri Daníel sér með viturleik og skynsemd til Arjóks, lífvarðarforingja konungs, sem út var genginn til þess að lífláta vitringana í Babýlon.
15 Hann tók til máls og sagði við Arjók valdsmann konungs: "Hví er skipun konungs svo hörð?" Arjók skýrði þá Daníel frá málavöxtum.
16 Og Daníel gekk upp til konungs og bað hann gefa sér frest, að hann mætti kunngjöra konungi þýðinguna.
2 Börnin mín! Þetta skrifa ég yður til þess að þér skuluð ekki syndga. En ef einhver syndgar, þá höfum vér árnaðarmann hjá föðurnum, Jesú Krist, hinn réttláta.
2 Hann er friðþæging fyrir syndir vorar og ekki einungis fyrir vorar syndir, heldur líka fyrir syndir alls heimsins.
3 Og á því vitum vér, að vér þekkjum hann, ef vér höldum boðorð hans.
4 Sá sem segir: "Ég þekki hann," og heldur ekki boðorð hans, er lygari og sannleikurinn er ekki í honum.
5 En hver sem varðveitir orð hans, í honum er sannarlega kærleikur til Guðs orðinn fullkominn. Af því þekkjum vér, að vér erum í honum.
6 Þeim sem segist vera stöðugur í honum, honum ber sjálfum að breyta eins og hann breytti.
7 Þér elskaðir, það er ekki nýtt boðorð, sem ég rita yður, heldur gamalt boðorð, sem þér hafið haft frá upphafi. Hið gamla boðorð er orðið, sem þér heyrðuð.
8 Engu að síður er það nýtt boðorð, er ég rita yður, sem er augljóst í honum og í yður, því að myrkrið er að hverfa og hið sanna ljós er þegar farið að skína.
9 Sá sem segist vera í ljósinu og hatar bróður sinn, hann er enn þá í myrkrinu.
10 Sá sem elskar bróður sinn, hann er stöðugur í ljósinu og í honum er ekkert, er leitt geti hann til falls.
11 En sá sem hatar bróður sinn, hann er í myrkrinu og lifir í myrkrinu og veit ekki hvert hann fer, því að myrkrið hefur blindað augu hans.
12 Enn hef ég margt að segja yður, en þér getið ekki borið það nú.
13 En þegar hann kemur, andi sannleikans, mun hann leiða yður í allan sannleikann. Hann mun ekki mæla af sjálfum sér, heldur mun hann tala það, sem hann heyrir, og kunngjöra yður það, sem koma á.
14 Hann mun gjöra mig dýrlegan, því af mínu mun hann taka og kunngjöra yður.
15 Allt sem faðirinn á, er mitt. Því sagði ég, að hann tæki af mínu og kunngjörði yður.
16 Innan skamms sjáið þér mig ekki lengur, og aftur innan skamms munuð þér sjá mig."
17 Þá sögðu nokkrir lærisveina hans sín á milli: "Hvað er hann að segja við oss: ,Innan skamms sjáið þér mig ekki, og aftur innan skamms munuð þér sjá mig,` og: ,Ég fer til föðurins`?"
18 Þeir spurðu: "Hvað merkir þetta: ,Innan skamms`? Vér vitum ekki, hvað hann er að fara."
19 Jesús vissi, að þeir vildu spyrja hann, og sagði við þá: "Eruð þér að spyrjast á um það, að ég sagði: ,Innan skamms sjáið þér mig ekki, og aftur innan skamms munuð þér sjá mig`?
by Icelandic Bible Society